Lesbók Morgunblaðsins - 15.09.2001, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 15.09.2001, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. SEPTEMBER 2001 H VER er þessi Carreras? Þegar óperutónleikar aldarinnar í Caracalla í Róm árið 1990 innsigluðu frægð tenóranna þriggja, var nafn Josés Carreras minnst þekkt. Pavarotti hafði þegar skapað sér nafn sem einstakur úrvalssöngvari á 7. áratugnum, og hafði þegar hlotnast talsverð frægð í byrjun áttunda áratugarins. Þá voru Domingo og Carreras enn grænjaxlarnir í tenóradeildinni, þar sem ríkjandi nöfn voru Franco Corelli, Carlo Bergonzi, Nikolai Gedda og Alfredo Kraus. Domingo sló í gegn í Covent Garden 1970 og leið hans á stjörnuhimininn var greið eftir það. Með sígildum óperumyndum Zeff- irellis: La Traviata, I Pagliacci og Otello snemma á níunda áratugnum var heimsfrægð Domingos innsigluð. Talið var að um ein millj- ón manna í 117 löndum hafi horft á Domingo í víðfrægri sjónvarpsuppfærslu á Toscu á sögu- stað óperunnar í Róm. Carreras þurfti að bíða lengur. Þótt hann væri sannarlega að gera góða hluti, og næði langt, var hann ekki stjarna á borð við hina tvo. Hann var á hápunkti ferils síns á miðjum ní- unda áratugnum þegar veikindi settu strik í reikninginn, og svo virtist sem ferill hans væri þá á enda. Það var því með ólíkindum að hon- um skyldi takast, eftir að vera vart hugað líf, að snúa aftur og verða meir en bara frægur óp- erusöngvari, og hlotnast sú stjörnufrægð sem hann öðlaðist með tónleikunum í Caracalla í Róm 1990. Nafn hans varð samstundis jafn tamt í munni óperuaðdáenda og nöfn hinna tveggja – hann varð einn þeirra þriggja bestu og nafntoguðustu sem um getur í söngsögunni, ef frá er skilinn Caruso, sem var ef til vill fyrsti söngvarinn til að öðlast slíka ofurfrægð. José Carreras hóf feril sinn í heimaborg sinni Barselóna, þar sem hann söng hlutverk Ismaele í Nabucco eftir Verdi. En söngurinn var þó ekki nýr fyrir Carreras. Sjálfur hefur hann sagt að barnæska sín hafi einkennst af söng og enn meiri söng. Og þegar fjölskylda hans var búin að fá nóg, lokaði hann sig inni á baði og söng enn meira. Söngelskur drengur Josep Carreras fæddist 5. desember 1946 í Barselóna, höfuðborg Katalóníu. Fjölskylda hans flutti til Argentínu í leit að betra lífi þegar hann var enn barn, en vistin þar stóð ekki und- ir væntingum, og fjölskyldan sneri til baka til Spánar innan árs. Faðir hans var kennari og móðir hans hárgreiðslukona og hann átti tvö eldri systkini. Faðir hans barðist með lýðveld- issinnum í borgarastyrjöldinni á Spáni, og eftir það átti hann erfitt uppdráttar; fékk ekki leng- ur starf sem kennari, og gerðist því umferð- arlögreglumaður. Sagan segir að á skipinu sem flutti fjölskylduna heim frá Argentínu hafi Carreras, fimm ára, skemmt ferðafélögunum með söng. Hann söng fyrir kúnnana á hár- greiðslustofu móður sinnar, og þegar hann hafði fengið að sjá Mario Lanza í kvikmyndinni um Caruso var hann óstöðvandi og söng arí- urnar úr myndinni í tíma og ótíma. Aría her- togans af Mantúu, La Donna e Mobile úr Rigo- letto varð honum sérstaklega kær og hún var sungin oftar en annað. Söngurinn var honum árátta, sem ekki lét undan þótt hann hæfi pí- anónám, átta ára gamall. Hann vildi syngja, og hann söng vel. Það var eftir honum tekið, og músíkhæfileikar hans voru ótvíræðir. Móðir hans fékk því framgengt að hann komst í tíma í Konservatoríinu í Barselónu eftir að venjuleg- um skóladegi lauk á daginn, og þar fékk hann fyrst formlegt tónlistarnám. Átta ára gömlum var honum boðið að syngja uppáhalds aríuna sína, La Donna e Mobile, í Spænska ríkisút- varpið, og sú upptaka af sópraninum Carreras er ennþá til og hana má heyra í myndbands- ævisögu söngvarans. Ellefu ára var hann kom- inn á svið óperunnar í Barselónu, Gran Teatro del Liceo, þar sem hann söng hlutverk drengs í El retablo de Maese Pedro eftir Manuel de Falla. Þeir sem sáu La Bohéme í Íslensku óp- erunni í fyrra muna eftir atriði í öðrum þætti þar sem krakkar voru að tuskast í leikfanga- sala og sníkja dót; trompet og leikfangahest. Skömmu eftir frumraunina í verki Falla, fékk Carreras að syngja hlutverk forsprakka þessa krakkahóps í óperunni í Barselónu – lítið hlut- verk en skemmtilegt. Það mátti ekki tæpara standa, því nokkrum mánuðum síðar var Carreras kominn í mútur, og allsendis óvíst hvað yrði úr rödd hans eftir þau umskipti. Áhrif Montserrat Caballé Átján ára var söngglaði sópraninn Carreras orðinn að syngjandi tenór. Hann vildi enn læra að syngja og fór til Francisco Puig og Juan Ruax í Barselónu. Puig hefur hann kallað list- rænan lærimeistara sinn, og það var hann sem hvatti Carreras til að prufusyngja fyrir fyrsta alvöruhlutverk sitt í Liceo óperunni, hlutverk Flavíós í Normu eftir Bellini. Þetta litla hlut- verk átti þó eftir að valda straumhvörfum á ferli hans. Það voru ekki bara óperugestir og gagnrýnendur sem voru frá sér numdir af feg- urð þessarar raddar; prímadonnan, Montserr- at Caballé, sem var í titilhlutverkinu, var heill- uð, og bað um að hann fengi að syngja á móti sér hlutverk Gennaros, aðalkarlhlutverkið í óperu Donizettis, Lucretia Borgia. Carreras lítur á það sem sinn fyrsta sigur á óperusviði, og á sama tíma debút sem alvöru söngvara. Montserrat Caballé átti eftir að reynast Carreras haukur í horni. Hún kom því einnig til leiðar að Carreras, aðeins 25 ára, söng með henni í tónleikauppfærslu á óperunni Maríu Stúart eftir Donizetti, og saman sungu þau meir en 15 óperur inn á hljómplötur. Þekktur enskur óperugagnrýnandi, Alan Blyth, var í Royal Festival Hall þegar María Stúart var sungin. Í dómi sínum sagði hann: „Þetta var eitt af þeim augnablikum þegar maður áttar sig á því samstundis og ósjálfrátt, að maður er að upplifa eitthvað algjörlega nýtt – nýjan og alveg einstakan talent. Tenórröddin bjó yfir djúpstæðri fegurð, með dökkum blæ í anda spænsku tenórhefðarinnar. En það var ekki allt og sumt; eigandi raddarinnar, José Carr- eras, vissi nákvæmlega hvernig átti að beita henni til að ná fram bestu hugsanlegu áhrifum, og það sem var líka mikilvægt var, að hann hafði geislandi fas þess sem fæddur er með hæfileikann til að tjá og túlka.“ „Fullkominn listamaður“ José Carreras var nú kominn á skrið og sporin á óperubrautinni urðu greiðfærari eftir því sem viðkomustaðirnir urðu fleiri. Óperu- stjórar hrifust af honum, hann þótti elskulegt ljúfmenni hvar sem hann kom, en fyrst og fremst voru það listrænir hæfileikar hans sem veittu honum brautargengi. Lofti Mansouri, stjórnandi San Francisco óperunnar, sagði um hann: „Hann er ein fullkomnasta óperustjarna sem ég hef nokkurn tíma unnið með. Músík- hæfileikar hans, gáfur, dramatískt innsæi og ekki síst yndisfögur röddin gera hann að full- komnum listamanni.“ Það er sérstakt við feril Carreras, að þegar hann var 28 ára, á þeim aldri sem flestir óperusöngvarar eru rétt að byrja að fá athygli, hafði hann sungið á þriðja tug aðalhlutverka í óperuhúsum bæði austan hafs og vestan, og hafði sungið stór hlutverk í stærstu óperuhúsunum: Hertogann af Mantúu í Rigoletto í Vínaróperunni 1974; Alfredo í La Traviata í Konunglegu óperunni í London 1974, Cavaradossi í Toscu í Metropolitan óp- erunni í New York 1974 og Riccardo í Grímu- dansleik á La Scala í Mílanó 1975. Á hápunkti ferils síns söng Carreras í meir en 70 sýn- ingum á ári og var á stöðugu flakki milli stærstu óperuhúsa heims. Erfiðleikar og veikindi Í viðtölum hefur José Carreras lýst því hve erfitt honum hefur þótt að sameina líf óperu- söngvarans og fjölskyldumannsins. Hann á tvö börn með konu sinni, en þau skildu árið 1992. Hann hefur ýjað að því að streitan vegna starfsins, og það hvað hann fjarlægðist fjöl- skylduna á löngum og tíðum ferðalögum hafi haft þar mikið að segja. Á hátindi ferils síns, 1987, greindist José Carreras með hvítblæði og töldu læknar 10% líkur á að hann myndi lifa sjúkdóminn af. Carreras var mjög veikur, en meðferð við sjúk- dómnum tókst vonum framar og hann lifði. „Heldurðu að Caruso hefði gert þetta betur?“ Einn af þeim fyrstu sem Carreras tók hús á eftir veikindin var austurríski hljómsveitar- stjórinn Herbert von Karajan, en þeir höfðu unnið saman áður. Carreras dáði Karajan mjög og sagði um hann í viðtali að Karajan tækist ævinlega að láta honum líða vel í söngn- um. Honum fyndist sem Karajan væri eins og faðir og að hann væri aðeins að stjórna fyrir sig einan. Þeir Karajan og Carreras áttu sam- an tíu ára, nána og farsæla samvinnu sem skil- aði af sér mörgum bestu listrænu sigrum söngvarans, bæði á óperu- og tónleikasviði og á hljómplötum. Karajan lýsti dálæti sínu á Carreras í viðtali sem tekið var við hljómsveit- arstjórann aldna árið 1989, skömmu áður en hann lést. Þar segir Karajan við blaðamann- inn: „Ég vil gjarnan spila fyrir þig upptökuna af Sálumessu Verdis. Heldurðu að Caruso hefði gert þetta betur? Ég efa það. Carreras hefur átt við þessi átakanlegu veikindi að stríða, en hann er vongóður. Hann hefur lýst því fyrir mér hve skelfileg reynsla þetta hafi verið honum. Og nú er hann á kafi í að koma á fót stofnun til hjálpar öðrum hvítblæðisjúk- lingum. Það er ekki hægt annað en að dást að þessum manni. Þetta hefur hann lifað, og er enn ungur. Ég vona bara að hann eigi eftir að eignast annan söngferil eftir þetta.“ Dagar ofurfrægðar Eftir veikindin fór Carreras aftur af stað með miklum stæl, og vonir Karajans rættust. Á árunum rétt fyrir 1990 komst nafn hans aft- ur á lista yfir eftirsótta söngvara, en í stað þess að syngja í óperum hallaði hann sér í meira mæli að tónleikasviðinu og hljóðritunum. Í dag syngur hann ekki nema í einni til tveimur óp- eruuppfærslum á ári. Tónleikarnir í Caracalla í Róm lyftu honum svo á stall sem hann hafði aldrei áður komist á. Hann varð heimsþekktur og frægð hans náði langt út fyrir raðir venju- legra óperuunnenda; hann naut alþýðuhylli sem einn mesti söngvari okkar sam- tíðar. Þar spilaði sjálfsagt líka inn í aðdáun fólks á því hvernig hann barðist við veikindi sín og reis upp að nýju; en músíklega séð var þessi frægð engu að síður vel verðskulduð. Fjölmarg- ir söngvarar standa á brúnni milli frægðar og þeirrar ofurfrægðar sem féll honum, Domingo og Pavarotti í skaut. Við þekkjum það hér heima hvernig talað er um söngv- arana okkar. Það er eitt að vera frægur og annað að komast á tindinn. En oft er það lítið meir en tilviljun sem ræður hverjir ná þeim árangri, og það eru margir jafn góðir, eða næstum jafn góðir sem sitja eftir. Þar kemur líka fleira til, eins og peningar, auglýsingar og trú umboðsmanna á sínum mönnum. Eitt af markmiðum með tónleikunum í Caracalla var að safna fé til styrktar hvít- blæðistofnun Carreras, og annað að gefa stóru nöfnunum, Pavarotti og Domingo, tækifæri til að bjóða litla bróður í listinni velkominn til heilsu og starfa. Carreras hefur fundið sér nýtt viðfangsefni í aðstoð við hvítblæðisjúklinga og hluti ágóða margra þeirra tónleika sem hann syngur á rennur til stofnunar hans, The José Carerras Internat- ional Leukemia Foundation. Veigrar sér ekki við að læra ný hlutverk Carreras er nú á miðjum sextugsaldri. Rödd hans er eldri og dekkri en hún var, en enn þyk- ir hún búa yfir þeirri hunangskenndu mýkt sem gagnrýnendur og óperugestir heilluðust svo af á árum áður. Fáir söngvarar hafa sungið jafn mörg og fjölbreytt hlutverk og Carreras. Auk þess að syngja öll helstu tenórhlutverk óperubók- menntanna, hefur hann ekki veigrað sér við að læra hlutverk í minni og lítt þekktari verkum, en það er eitthvað sem rennur mótstöðulítið af mörgum söngvurum því meiri sem frægðin og framinn verður. Samvinnan við Domingo og Pavarotti Samvinna Carreras með Domingo og Pav- arotti hefur farið fyrir brjóstið á mörgum þeim er hafa talið sig sanna óperuunnendur. Skrum- ið og sölumennskan sem fylgdi þeim viðburði þóttu ekki par fín og jafnvel niðurlægjandi fyr- ir óperulistina og heiður listamannanna. Tenórarnir þrír hafa hver sinn stíl, og ólíkar raddir, þótt allir séu þeir tenórar. Pavarotti er gamli maðurinn, með óviðjafnanlega raddfeg- urð, og ágætur maður lýsti honum sem komm- óðu – það þarf ekki annað en að draga út skúff- una, og unaðslegir tónarnir streyma út í fullkomnum hendingum, algjörlega áreynslu- laust. Nú er hans tími senn á enda, og lík- amlegt ástand veldur því að hann kemur æ sjaldnar fram. Domingo er töffarinn í hópnum – hefur gert ótrúlega góða hluti í söngnum, með fallega rödd, frábært músíkalitet og mik- inn sviðssjarma. Hann er nú æ meira farinn að snúa sér að hljómsveitarstjórn, sem er hans fyrsta fag í tónlistinni. Carreras aftur á móti er enn ungi drengurinn, og á líklega mest eftir í söngnum af þremenningunum. Rödd hans er enn falleg, og enginn efast um músíkalska hæfileika hans. Mjúkar, tærar raddir eins og hans, eldast líka betur en harðar, og enn hefur hann hæfileikann til að lita hana með þeim blæbrigðum sem hentar hverju sinni. Það hef- ur verið sagt um Carreras að enginn söngvari búi yfir jafn mikilli ástríðu í söngnum, ástríðu sem skapast bæði af fegurð raddar hans og einstökum túlkunarhæfileikum, jafnvel þótt röddin eldist. Ef þetta er raunin á José Carrer- as eftir marga góða daga í óperunni og á svið- inu, aðdáendum sínum til yndis og upplifunar. HUNANGSRÖDD MEÐ LJÓÐRÆNA FEGURÐ Einn frægasti tenórsöngvari samtíðarinnar, José Carreras, syngur á Íslandi á mánudagskvöld. BERGÞÓRA JÓNSDÓTTIR segir frá ferli söngvarans með hunangsröddina sem stóð á hápunkti ferils síns þegar hann veiktist og var vart hugað líf, en náði að rísa í annað sinn til enn meiri frægðar. José Carreras, einn frægasti tenórsöngvari samtímans. begga@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.