Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2001, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 06.10.2001, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 6. OKTÓBER 2001 NÝTT sýningargallerí, GalleríSkuggi, Hverfisgötu 39, hefurformlega starfsemi með opnunmyndlistarsýningar þeirra Birgis Andréssonar, Guðmundar Odds Magnússonar, Lilju Bjarkar Egilsdóttur og AKUSA (Ás- mundur Ásmundsson og Justin Blaustein) í dag kl. 16. Sýningin ber yfirskriftina Hver með sínu nefi, og stendur hún yfir frammi í aðalsal, í Klefa og Loftvarnarbyrgi gallerísins. Verkið spyr: Veistu hver ég er? Birgir Andrésson sýnir tíu ljóðateikningar sem hann kallar húsaljóð, en þar vinnur hann með hlutföll og grunnteikningar íslenska torf- bæjarins. „Ég raða þessum húsateikningum upp eins og ljóðum,“ segir Birgir, „munurinn á húsunum getur verið eins og munur á milli stafa eða tákna, en svo er þetta líka sá veru- leiki sem þau lýsa. Fyrir 8–10 árum sýndi ég stór verk í Nýlistasafninu, þar sem grunn- myndir af bæjum voru skornar út í svartan pappa, og það stærsta þeirra kallaði ég fer- skeytlu. Þar var ég með endarím og höfuðstafi og endurtók form á réttum stöðum, án þess að formin þýddu endilega ákveðna stafi. Ég kall- aði þetta verk Lestur, og þannig eru þessi verk hér líka. Myndlist er meira og minna lestur; – verkið spyr: Veistu hver ég er? Geturðu lesið mig? Skilurðu mig? jafnvel þótt sumum finnist það of langt gengið að það eigi endilega að skilja myndlist. Ég held að myndlist sé þannig að þú lest hana; – annaðhvort skilurðu hvað er að gerast eða ekki. Þetta hefur líka með það að gera að lesa húsið. Þú manst eftir Þórbergi, – hann sagði að það væru ekki margir sem kynnu að lesa hús. Þú getur lesið hús bæði sagnfræðilega og tilfinningalega. Þú getur les- ið hvað húsin segja þér. Við erum alltaf að skapa myndir í huganum og tengja við þann veruleika sem við þekkjum.“ Dúllandi hrafn Birgir sýnir líka verk sem hann tileinkar Guðmundi Árnasyni dúllara, en þar bregður hrafn sér í líki Guðmundar með eftirhermur og dúll. Dúllið var kúnst sem Guðmundur sér- hæfði sig í. Hann sat við borð; stakk vísifingri vinstri handar í vinstra eyrað; olnbogann hvíldi hann á klút á borðinu, en hægri vísifingri stakk hann í munninn, og söng og skemmti með þeim hljóðum sem þannig urðu til. „Það er eins með húsalesturinn og hrafninn með sínar eftirhermur, þegar hann hann byrjar að dúlla þá opnast fólki mismunandi myndir; – kannski af manneskjunni sem er að dúlla og því sem er að gerast.“ Þessum augum segist Birgir líta myndlistina. Hún hafi með þekkingu og lestur að gera, og að „lesandinn“ þurfi að þekkja inn á „stafrófið“. Birgir segir ljóðformið sér hug- leikið vegna þess hve það er skýrt og klárt. „Það þarf ekkert að fara í grafgötur með það, og það er ljóst hvernig það er sett upp. Þetta verður einhvers konar konkret póesía.“ Húsa- ljóð Birgis eru byggð á raunverulegum húsum. „Já, þetta er allt unnið eftir teikningum sem ég hef safnað að mér í gegnum tíðina. Ég hef líka verið að skoða blöð eins og árbækur fornleifa- fræðifélagsins og þvíumlíkt. Ég leiddist snemma út í það að „grafa“. Ég sýndi á Fen- eyjatvíæringnum 1995 tekiningar af húsaupp- greftri, sem ég fann í þessum sömu bókum, og ég kallaði þetta manngerða náttúru. Þegar þú sérð svona jarðrask úr grjóti, torfi og mold getur utanaðkomandi manneskja varla ímynd- að sér að þar sé verið að leita að því sem mestu máli skiptir; – leita að okkur sjálfum, menn- ingu okkar og tilurð. Það sem mig langaði líka að gera þá var að sýna hvað við, þessi litla þjóð norður í ballarauga, höfum til jafns við bygg- ingarnar stóru og miklu á Markúsartorginu til dæmis. Þetta er allt byggt á sama tíma, og mig langaði að sýna hvernig menningin er mismun- andi. Á Ítalíu þverfótar maður ekki fyrir menningu fortíðarinnar, en hér er hún svo fjarlæg og langt í burtu. Ólafur Elíasson sagði í Morgunblaðinu um daginn að við lifðum ekki með okkar fortíðarmenningu, heldur tækjum við hana sem eitthvað sem er innpakkað og við þurfum að taka utan af eins og jólagjafir.“ Gestir Birgis Til sýningarinnar valdi Birgir með sér þrjá myndlistarmenn/hópa og lagði þar áherslu á að sýningin í heild einkenndist af margleitni fremur en samræmingu og yrði nokkurs konar „myndlistarbland í poka“, þar sem sýningar- gesturinn upplifði ný ævintýri í hverju horni. Guðmundur Oddur sýnir myndir af mynd- skreyttum húsum á Íslandi, húsum sem notuð eru til að koma myndrænum skilaboðum á framfæri. Myndirnar fimm sem Guðmundur sýnir í aðalsal eru hluti af stærra safni sem hann hefur unnið undanfarin ár, og segist hann þar vera að vinna með íslenskan veru- leika. Lilja Björk Egilsdóttir býr og starfar í Hollandi. Hún sýnir innsetningu í Klefa gall- erísins og vinnur þar með samspil birtu og gegnsæis. Lilja vinnur jafnan verk sín sérstak- lega í samhengi við þau rými sem hún sýnir í, en þó tengist hvert verk öðru, enda á myndlist hennar ekkert upphaf og engan endi, enga vís- un í veruleika. „Verkin segja ekki sögu, og vekja ekki spurningar, en þau kveikja minn- ingar og tilfinningu fyrir einhvers konar innri veruleika,“ segir hún um myndlist sína. AKUSA skipa þeir Ásmundur Ásmundsson og Justin Blaustein. Sýningarhluti þeirra í Loft- varnarbyrginu heitir „Broken Integrities and Other Pieces“ og er þar um að ræða skrásetn- ingu á viðskiptum litla mannsins (AKUSA) við listheiminn. Annars vegar hönnuðu Ásmundur og Justin lógó handa galleríum í New York og reyndu að selja þeim. Geta listunnendur skoð- að lógóin og lesið bréfin sem send voru. Not- uðu þeir Ásmundur og Justin ýmsar aðferðir við að reyna að selja hugmyndir sínar, allt frá auðmýkt yfir í yfirgang og jafnvel hótanir, í þeirri von að eitthvert galleríanna tæki þá upp á sína arma. Hins vegar sýnir AKUSA tölvuút- prent af nöfnum vel valinna listamanna og upptökur af símtölum við nokkra þeirra. Verk- ið var gert árið 2000 og sýnt það sama ár í 207 Gallery, Los Angeles. „Símtölin voru gerð í þeim tilgangi að fá vandaða en jafnframt fræga listamenn til að koma á sýninguna í 207 Gallery og gefa okkur þannig tækifæri til að þróa vináttusamband við þá. Eitthvað sem síð- ar gæti gagnast AKUSA og framtíðarsýning- arferli þeirra. Nú gætu listunnendur hugsað sem svo að verkin væru aumkunarvert frama- pot, en vert er að hafa í huga að í listum, eins og í öðrum starfsgreinum, er eðlilegur díalóg- ur mikilvægur svo að starfsgreinin, sem í þessu tilviki er listin sjálf, geti þrifist,“ segir Ásmundur um verkið. Nýtt gallerí Markmið Gallerí Skugga er að skapa lifandi og metnaðarfullan vettvang til sýningarhalds innlendra og erlendra myndlistarmanna. Gall- eríið er á Hverfisgötu 39 í miðborg Reykjavík- ur. Bakatil í húsnæði gallerísins er aðstaða til setu, lesturs, skeggræðna og kaffidrykkju, og mun galleríið standa fyrir ýmsum uppákomum tengdum listum og umræðu um listir í víðum skiliningi. Í hverjum mánuði munu aðstand- endur Skugga miðla áhugasömum gestum merkri skáldsögu úr bókmenntasögunni eða samtímaumræðunni og áhugaverðri kvikmynd úr hefðarbrunni kvikmyndanna. Sýningin „Hver með sínu nefi“ stendur til 21. október. Galleríið er opið milli klukkan 13 og 17 frá þriðjudegi til sunnudags. Birgir Andrésson og félagar sýna „Hver með sínu nefi“ í nýju galleríi á Hverfisgötunni FORTÍÐIN LIFNAR VIÐ Í SKUGGA Morgunblaðið/Árni Sæberg Lilja Björk Egilsdóttir, Guðmundur Oddur Magnússon og Birgir Andrésson með krumma. ÍBÚAR New York-borgar glíma við gjör-breyttan veruleika. Nokkrum vikum eft-ir að rúmlega 5.000 samborgarar þeirraféllu fyrir hendi hryðjuverkamanna má greina fyrstu merki þess að fólk sé farið að takast á við einhvers konar hversdag á nýj- an leik. Flæði gesta í nútímalistasafnið í New York, MoMA, einn morguninn í síðustu viku gaf þetta ótvírætt til kynna. En meðvitundin er önnur og tilveran verður aldrei skynjuð með sama hætti og áður. Verk eftir Ólaf Elíasson var nýverið sett upp í anddyri safnsins. Þar býður listamað- urinn áhorfendum að horfa á sjálfa sig skynja umhverfið í þessu eina þekktasta listasafni heims. Verkið „Horft á sjálfan sig skynja“ samanstendur af 50 rúðum þar sem skiptast á gler og mjóar spegilræmur. Gluggarnir snúa út að skúlptúrgarði safns- ins frá anddyrinu á jarðhæð og um rúllu- stiga upp á fyrstu hæð safnsins. Í garðinum eru hafnar framkvæmdir við nýja viðbyggingu MoMA sem mun þrefalda rými safnsins frá því sem nú er. Við áhorfandanum blasir óljós iða fram- kvæmdanna úti fyrir ásamt uppbrotinni spegilmynd sjálfsins í samspili við innra rými safnsins. Ámóta óljósar eru hreyfingar annarra safngesta og snögg ljósbrot af gler- inu sem birtast og hverfa í rýminu. Málverk breska op-art listamannsins Bridget Riley koma fyrst upp í hugann. Ekki einu sinni með ýtrustu einbeitingu er hægt að kalla fram skýra mynd eins fremur en annars; innviðir safnsins renna saman við eigin líkamsmynd sem rennur saman við krana, uppgröft og spýtur utan dyra. Inn- viðirnir halda áfram út og út kemur inn, í einu samfelldu flæði. Þú gefur þig á vald skynjunarinnar og horfir á sjálfan þig horfa. Eða er þetta kannski safnið sem þú sérð horfa á áhorfendur sína? Sagt er að við hverfum á vit annars veruleika þegar við skoðum listaverk. Þessu er öfugt farið með verk Ólafs Elíassonar þar sem áhorfandinn upplifir sjálfan sig svo staðfastlega í um- hverfi sínu, í núinu. Upplifun svo óvænt að ekki er laust við að manni sortni fyrir augum. Innsetning Ólafs Elíassonar í MoMA til- heyrir röð verka sem sérstaklega eru unnin fyrir safnið undir heitinu Projects eða Verk- efni og fyrst var sett á fót árið 1971. Þar er yngri kynslóð listamanna gefið færi á að koma nýjum verkum sínum á framfæri í safni sem þekkt er fyrir gríðarstórt úrval nútímamyndlistar síðustu aldar. Safnið stendur nú á tímamótum því framundan eru enn frekari framkvæmdir vegna hinnar nýju safnabyggingar sem gerir það m.a. að verk- um að MoMA þarf að flytja alla starfsemi sína til bráðabirgðahúsakynna hinum megin austurárinnar, til Queens, næsta vor. Kostn- aður við þessar húsbyggingar hleypur á milljörðum ísl. króna og verður umfang og starfsemi safnsins gjörbreytt þegar þeim lýkur árið 2004. Hlutverk safnsins aldrei hlutlaust Af skrifum Ólafs með sýningunni má sjá að tilgangur verksins er ekki einungis að vekja áhorfandann til umhugsunar um sam- spil hans við listaverkið sem ljáir því enda- lausa túlkunarmöguleika og margfalt líf heldur vekur þessi fyrirhugaða útþensla safnsins honum spurnir um hlutverk lista- safns í samfélagi sínu og umhverfi. „Ég kýs að líta á þessi meðvituðu inngrip byggingalistarinnar, framkvæmdasvæðið þar með talið, sem hluta verksins, og nýta mér röskunina sem orðið hefur með þessari „risasafnaútþenslustefnu“ til þess að hvetja áhorfendur til að setja sig í spor safnsins og horfa til baka – á sig sjálfa,“ segir m.a. í texta listamannsins. „Að snúa sjónarhorninu við; safnið sem það hlutlæga, áhorfandinn það hlutlausa. Að sjá að, eins og landslagið, þá er safnið samsetning – sem þrátt fyrir skilvirkt og víðtækt hlutverk raunsannar goðsagnar, býr yfir möguleikum til sam- félagslegrar virkni. Horfðu á sjálfan þig skynja.“ VERULEIKINN Í NÝJU LJÓSI Ólafur Elíasson myndlistarmaður sýnir verk í anddyri nútímalistasafnsins MoMA í New York þar sem menn- ingarlífið virðist vera að skríða hægt af stað aftur eftir erfiðar vikur. HULDA STEFÁNSDÓTTIR segir frá gluggainnsetningu Ólafs „Horft á sjálfan sig skynja“. Morgunblaðið/Einar Falur Verk Ólafs Elíassonar í anddyri MoMA í New York, „Horft á sjálfan sig skynja.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.