Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2002, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 02.02.2002, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 2. FEBRÚAR 2002 N Ú við upphaf ársins 2002, þegar ætla má að náðst hafi endanleg sátt meðal áhangenda og almennra notenda hins gregor- íanska tímatals varðandi þá skoðun að komin sé ný öld – og raunar nýtt ár- þúsund, hvorki meira né minna – er rík ástæða til þess að leiða hugann enn og aftur að fortíð- inni, líta um öxl og rifja upp stór og smá atriði veraldarsögunnar, þessarar margþættu sögu af atburðum, ákvörðunum og hugmyndum sem við erum látin tileinka okkur í niðursoðinni mynd í grunnskóla og burðumst síðan með í gegnum lífið. Frásögnin af þeirri merkilegu iðju mann- skepnunnar sem á íslensku heitir „heimspeki“ er einn þáttur í hinni miklu fléttu sögunnar – þó að áhöld kunni að vera um það hversu gildur þessi þáttur sé. Sú skoðun hefur reynst býsna lífseig að heimspekin sé ekkert annað en skýja- skraf sem standi í litlum sem engum tengslum við raunveruleikann, hið daglega líf mannanna, og sé fyrir vikið fullkomlega áhrifalaus eða, svo valið sé eilítið skarpara orð, meinlaus. Þessi skoðun er að sjálfsögðu góðra gjalda verð – að minnsta kosti ef rétt er á málum haldið – og þegar tekist er á við hana er til dæmis viðeig- andi að velta því fyrir sér hvort hún lýsi því hvernig málum er sannarlega fyrir komið eða vísi á það hvernig málum ætti að vera háttað. Er heimspekin sannarlega meinlaus? Og ef hún er það ekki, ætti hún þá að vera það? Báðar þessar spurningar sækja á okkur hér og nú; sú fyrri skírskotar til fortíðarinnar og viðtekinnar vitn- eskju okkar um hana en sú síðari höfðar til framtíðarinnar og þeirra möguleika sem í henni búa, til góðs eða ills. Þegar betur er að gáð renna spurningarnar tvær saman og úr verður ný spurning sem ef til vill er þeirra stærst: Hvaða afstöðu til heimspekinnar eigum við að tileinka okkur hér og nú – eigum við að leitast við að halda henni niðri eða leyfa henni að blómstra? Heimspeki – hvað er nú það? En bíðum nú aðeins við. Hvaða máli skiptir það svo sem hvort þessi „iðja“, heimspekin (hvað sem hún nú annars er!), stendur í sam- bandi við hversdagsleikann eða ekki? Kemur hún okkur nokkuð við? Yrði veruleikinn nokkuð fátækari þó að hún hyrfi af sjónarsviðinu í eitt skipti fyrir öll? Og, ég endurtek, hvað er hún eiginlega fyrir nokkuð, þessi svokallaða „heim- speki“? Skemmst er frá því að segja að frammi fyrir spurningum af þessu tagi vefst málsvara heimspekinnar, heimspekingnum sjálfum, eng- an veginn tunga um tönn. Í fyrsta lagi gæti hann átt það til að benda á að sá sem spyrji slíkra spurninga um eðli, tilgang og tilverurétt heimspekinnar sé þar með sjálfur farinn að stunda heimspeki. Heimspekin sé í stöðugri leit að eðli fyrirbæranna, þar á meðal (og ekki síst) sjálfrar sín, og eiginlega sé hún einmitt þessi leit að eðli, tilgangi og tilverurétti sínum. Sam- kvæmt þessu er svarið við spurningunni „hvað er heimspeki?“ hliðstætt við lausn gátunnar „Hvað hét hundur karls“ – heimspekin býr í spurnarorðinu „hvað“, í spurningunni um eðlið. Í öðru lagi gæti heimspekingurinn brugðist við með því að halda því fram að svarið við spurningunni „hvað er heimspeki?“ sé ekkert annað en gjörvöll saga heimspekinnar eins og hún er jafnan sögð: heimspeki er það sem mennirnir hafa komið sér saman um að kalla heimspeki í gegnum aldirnar, og annað ekki; eða, með öðrum orðum: heimspekin er sagan af sjálfri sér. Komi efasemdir upp um notkun nafnbótarinnar í einstökum tilvikum stendur það upp á efasemdamanninn að leggja fram mótrök sem síðan þarf að vega og meta; en al- menna reglan er sú að þar til annað sannist verði að líta svo á að það sem sé heimspeki sam- kvæmt hefðinni sé heimspeki í raun. Í þriðja lagi gæti heimspekingurinn tekið upp á því að halda því fram að um heimspekina megi segja eins og svo margt annað: spyr sá sem ekki veit og veit sá sem ekki spyr, eða með öðrum orðum: sá sem þarf að spyrja að eðli heimspek- innar opinberar þar með að hann veit ekki hvað hún er, ólíkt þeim sem finnur enga þörf fyrir að spyrja slíkra spurninga og lætur sér nægja að stunda heimspeki þegjandi og hljóðalaust – og hlýtur þar með að vita hvað hún er. Heimspek- ingur af þessu sauðahúsi lítur gjarnan svo á að spurningar um eðli heimspekinnar séu skýrt dæmi um viðfangsefni sem heimspekin eigi ekki að eyða kröftum sínum í, og eftir að hann hefur komist að þessari niðurstöðu tekur hann að verja ákveðnum hluta krafta sinna í að gera spurningar af þessum toga brottrækar úr heim- spekinni. Markmið hans verður þannig að um- breyta heimspekinni í samræmi við eigin skoð- un á því, hvernig hún eigi að vera. Í framhaldi af þessu þríþætta svari við spurn- ingunni um eðli heimspekinnar (rétt er að taka fram að þessari spurningu má án efa svara á fleiri vegu) má hugsa sér að láta heimspeking- inn takast á við ákæruna um meint áhrifaleysi eða „meinleysi“ heimspekinnar. Eflaust brygði hann þá á það ráð að tína til ýmis söguleg dæmi um áhrif afurða heimspekinnar á veruleikann. Með hliðsjón af þessum dæmum mætti síðan bollaleggja um það hvort sýnt þyki að heim- spekin sé sannarlega alltaf áhrifalaus, hvort af- skipti hennar af veruleikanum skipti nokkru máli, og hvort ástæða yrði til að sakna hennar ef hún hyrfi af sjónarsviðinu eða tæki í það minnsta svo róttækum breytingum að hún yrði „óþekkjanleg“. Heimspekisaga fyrir byrjendur Nánar tiltekið kynni svar heimspekingsins við aðfinnslum hins ímyndaða andmælanda að vera á þessa leið (að hætti góðra fræðimanna byrjar hann á því að slá góðkunnan varnagla): „Ef vel ætti að vera þyrfti að svara spurningum þínum í afar löngu máli, en því miður hef ég að- eins takmarkað svigrúm til umráða hér. Þetta ber að hafa í huga þegar svar mitt er lesið. En, hvað um það, byrjum á byrjuninni: Samkvæmt almennu samkomulagi hófst saga heimspekinn- ar fyrir 2.500 árum í borginni Míletos á strönd Litlu-Asíu, sem þá tilheyrði grískum menning- arheimi. Fyrsti heimspekingurinn hét Þales og um hann er fátt eitt vitað annað en það að hann taldi að allt væri vatn; þar fyrir utan eru til um hann nokkrar gamansögur sem ýmist lýsa því hversu utangátta hann var eða sýna fram á hversu slunginn og séður hann var þegar hann vildi það við hafa. En það er nú önnur saga. Arf- takar Þalesar hétu Anaxímandros (sem sagði „allt er ótakmarkað“) og Anaxímenes („allt er loft“); og helstu sporgöngumenn þeirra voru spekingar á borð við Heraklítos („allt fram streymir“), Pýþagóras („allt er tölur“), Parm- enídes („allt er eitt“), Empedókles, Demókrítos, Anaxagóras, Prótagóras, Sókrates, Platon og Aristóteles. Þar með erum við komin á bólakaf í yfirgripsmestu, margræðustu og áhrifamestu kenningar heimspekisögunnar. Heimspekin hefur fest rætur á afmörkuðu svæði við aust- anvert Miðjarðarhaf, það er að segja í Grikk- landi hinu forna; þar hefur hún blómstrað um nokkurra alda skeið, en nú er þetta fyrsta blómaskeið hennar að baki. Eigum við samt ekki að halda áfram? Meðal þeirra minni spámanna sem tóku við kyndli heimspekinnar af hinum forngrísku meistara- hugsuðum má nefna efahyggjumanninn Pyrrh- on, nautnastefnumanninn Epíkúros, stóuspek- ingana Epiktet, Seneca og Markús Árelíus, nýplatónistann Plótínus og einn áhrifamesta hugsuð kristninnar, Ágústínus. Hér erum við komin fjórar aldir fram yfir Krists burð; sögu- sviðið hefur stækkað og nær nú yfir mestallt Miðjarðarhaf; og sá viðburður hefur orðið að hin nýju trúarbrögð, kristnin, hafa slitið barns- skónum og eru óðum að breiða úr sér norður yf- ir Evrópu. Fyrir vikið hverfur heimspekin enn frekar í skuggann; greinarmunurinn á heim- speki og trúarbrögðum skýrist og á yfirborðinu að minnsta kosti verður heimspekin að eins kon- ar þernu kristinnar guðfræði – en raunin varð þó sú að í aldanna rás voru áhrifin ekki öll í aðra áttina, heldur þáði guðfræðin einnig ýmislegt af þessari ambátt sinni. Þannig rann kenninga- kerfi kristninnar saman við arfleifðina frá Forn- Grikklandi í hinum viðamiklu skrifum helsta heimspekings kristninnar, heilags Tómasar frá Akvínó. Þar með erum við langt komin á þessu hunda- vaði, að minnsta kosti ef mælt er í árum. Straumhvörf verða í mannkynssögunni: landa- fundir, endurreisn, kirkjan klofnar og svokölluð „nýöld“ gengur í garð. Þar með losnar um bönd- in á lundabagga heimspeki og kristinnar trúar, náttúruvísindin stíga fram á sjónarsviðið með Kópernikusi, Kepler, Galíleó og Newton og nafnaþula heimspekinganna sprettir úr spori að nýju (hér gefst því miður ekki tóm til að fara í saumana á kenningum þessara ágætismanna, en um þá má lesa í alfræðiritum og handbókum um sögu heimspekinnar!): Machiavelli, Bacon, Hobbes, Descartes („ég hugsa, þess vegna er ég“), Pascal, Spinoza, Leibniz, Vico, Locke, Berkeley, Hume, Bentham, Voltaire, Rousseau, Kant, Fichte, Schopenhauer, Hegel, Schelling, Kierkegaard, Marx, Nietzsche, Freud, Mill, Peirce, James, Dewey. Þar með er tuttugusta öldin runnin upp; og hvort sem það er nálægð- arinnar vegna, sökum þess að margfalt fleiri einstaklingar af tegundinni „maður“ voru uppi á tuttugustu öld heldur en á öllum fyrri öldum til samans, eða einfaldlega vegna þess að manns- andinn er í stöðugri útþenslu og sókn, þá lítur út fyrir að tuttugasta öldin hafi framleitt óvenju- marga heimspekinga. Hverja eigum við að nefna? Það er ómögulegt að segja. Til dæmis Adorno, Althusser, Arendt, Austin, Ayer, Benjamin, Bergson, Camus, Carnap, de Beauvoir, Deleuze, Derrida, Foucault, Frege, Gadamer, Habermas, Heidegger, Husserl, Jaspers, Kuhn, Lacan, Levinas, Marcuse, Merleau-Ponty, Moore, Popper, Rawls, Ric- œur, Rorty, Russell, Ryle, Sartre og Wittgen- stein. Svo fáein dæmi séu tekin.“ Og þar með býst heimspekingurinn til að ljúka máli sínu: „Þessi ágripskennda upptalning er auðvitað ekkert annað en ákaflega einfaldað yfirlit yfir sögu heimspekinnar. En þarna hef- urðu þó, viðmælandi góður, fengið eins konar ávísun á þær hugmyndir og kenningar sem eru, þegar öllu er á botninn hvolft, hið eina sanna svar við spurningunni „hvað er heimspeki?“. Þessa ávísun verður þú sjálfur að innleysa. Njóttu vel og góða skemmtun.“ Bræðralag heimspekinganna Þar fór það. En skemmst er frá því að segja að ég og þú, lesandi góður, við skulum ekki láta heimspekinginn segja okkur fyrir verkum með þessum hætti – að minnsta kosti ekki mótþróa- laust. Ráðleggingar hans eru góðra gjalda verð- ar, en þær nægja okkur ekki hér og nú; þær vísa aðeins til fortíðarinnar, til þess sem þegar ligg- ur fyrir á bókasöfnum, en ætlun okkar tak- markast ekki við að leita fróðleiks um það sem verið hefur heldur hyggjumst við einnig horfa fram á við, inn í hyldýpismyrkur þeirrar aldar og þess árþúsunds sem er að hefjast. Hvað eig- um við að álykta um framtíð heimspekinnar? Á hvaða forsendum gæti slík ályktun byggst? Þegar við stöndum frammi fyrir slíkum spurn- ingum verðum við raunar að viðurkenna að við höfum ekkert í höndunum annað en söguna sem við vorum að enda við að busla í gegnum (þann- ig kemur ræða heimspekingsins okkur að not- um þrátt fyrir allt), að viðbættum þeim „glæ- nýju“ hugmyndum sem eru á ferli í samtímanum – það sem við höfum úr að moða er með öðrum orðum annars vegar sýn samtímans á söguna og hins vegar það sem er „nýjasta nýtt“ úr smiðju mannsandans. Lítum því aftur á vasaútgáfu okkar af sögunni og rýnum í hana – til dæmis með hliðsjón af landafræði, kynþátt- um, trúarbrögðum og kynjaskiptingu. Þegar heimspekingunum er raðað niður á hnattlíkanið kemur upp úr dúrnum að saga heimspekinnar fer að langmestu leyti fram á til- teknu skýrt afmörkuðu svæði, það er að segja við strendur Miðjarðarhafs og sér í lagi á þeim kræklótta skaga út úr meginlandi Asíu sem nefnist Evrópa. Heimspekingarnir eru fyrst í stað íbúar við austan- og sunnanvert Miðjarð- arhaf, en með kristninni taka þeir að skjóta upp kollinum við hafið norðan- og vestanvert og síð- an inn til landsins þar norður af, í Frakklandi, á Bretlandseyjum og að lokum við Eystrasalt (sá merki spekingur Kant sat alla sína tíð í borginni Königsberg í Austur-Prússlandi, þar sem nú er rússneska borgin Kalíníngrad). Þannig hefur sögusvið heimspekinnar fram til þessa nær al- gjörlega einskorðast við Evrópu eða öllu heldur við þann heimshluta sem við nefnum nú Vest- urlönd (því ekki má gleyma því að undir lok nítjándu aldar nam heimspekin land í Norður- Ameríku). Þessum nána skyldleika heimspekinnar og Evrópu fylgja tvö viðbótaratriði sem full ástæða er til að benda á. Í fyrsta lagi eru heimspeking- arnir allir af sama kynþætti: þeir eru hvítir, allir sem einn; og í öðru lagi tilheyra þeir allir sömu hefðinni hvað trúarbrögð snertir, það er að segja þeirri gyðinglegu, grísku og kristnu hefð sem öðrum fremur hefur verið ráðandi í Evr- ópusögunni (flestir þeirra eru auðvitað kristnir, en meðal þeirra leynast einnig allmargir gyð- ingar og þar að auki var nokkur hópur þeirra uppi fyrir daga Krists). Meðal heimspeking- anna eru engir múslimar, engir búddistar, engir hindúar og engir iðkendur þess sem heitir í (gömlu) bókunum okkar „frumstæð trúar- brögð“. Þessu til viðbótar kemur í ljós þegar nafna- listar heimspekisögunnar eru skoðaðir að heim- spekingarnir eru nær eingöngu karlkyns (og raunar er óvenjuhátt hlutfall heimspekinga allt fram á tuttugustu öld ógiftir og barnlausir karl- menn). Í gjörvallri nafnasúpunni sem heim- spekingurinn okkar bar á borð eru aðeins tvær konur: Hannah Arendt og Simone de Beauvoir (báðar voru þær uppi á síðustu öld). Rétt er að taka það fram strax, og í miklum flýti, að þessi ójöfnuður í kynjaskiptingunni skýrist ekki ein- vörðungu, eða jafnvel alls ekki, af duttlungum greinarhöfundar, enda eru nafnalistarnir settir saman með hliðsjón af viðurkenndum bókum um sögu heimspekinnar. Staðreyndin er ein- faldlega sú að allt fram á síðustu áratugi hafa söguhetjur heimspekisögunnar verið, allar með tölu eða því sem næst, karlkyns. Útþensla og hörmungar Þannig höfum við öðlast aukna innsýn í með- limaskrá heimspekifélagsins í aldanna rás; enda þótt við höfum skellt skollaeyrum við ráðlegg- ingum hirðheimspekings okkar hefur okkur engu að síður tekist að „fá kjöt á beinin“. Hvað er heimspeki? Hún er tiltekið safn rita eftir hvíta karlmenn af evrópskum uppruna sem alist hafa upp í gyðinglegri, grískri og kristinni trúarhefð. Hvað er ekki heimspeki? Til dæmis hvaðeina sem fólk af öðrum kynstofnum en þeim hvíta hefur hugsað og skrifað í Afríku, As- íu, Ameríku og Ástralíu. Þannig eru mörkin dregin – eða, öllu heldur, þannig hafa mörkin verið dregin lengst af, meðan föðurland heim- spekinnar, Evrópa, efldist og styrktist og tók að lokum að leggja undir sig fjarlæg lönd (eða „finna“ þau eins og það er ennþá orðað), út- breiða siðmenningu sína, kristna heiðingjana og þröngva þeim til að taka upp evrópska siði og stjórnarhætti: til dæmis klæðaburð, bókmenn- ingu og lýðræði. Eins og kunnugt er náði þessi útþenslusaga ákveðnu hámarki á tuttugustu öld: við upphaf aldarinnar teygðu angar Evr- ópuvaldsins sig út um gjörvalla jarðarkringluna HEIMSPEKI , T IL HVERS? HEIMSPEKI VIÐ ALDAHVÖRF Með þessari grein hefst greinaflokkur Lesbókar um heimspeki. Reynt verður að svara því hvert hlutverk heim- spekinnar sé nú í byrjun nýrrar aldar, hvort hennar sé yfirleitt þörf og þá til hvers. Einnig munu höfundarnir tíu velta fyrir sér stöðu heimspekinnar innan hugvísindanna og straumum og stefnum í aðferðum hennar. Í fyrstu greininni er meðal annars spurt hvað heimspeki sé, hverjir hafi iðkað hana og til hvers. E F T I R B J Ö R N Þ O R S T E I N S S O N UM SÖGU, SEKT OG ÝMISLEGT FLEIRA

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.