Lesbók Morgunblaðsins - 05.10.2002, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 05.10.2002, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 5. OKTÓBER 2002 H INN 10. maí 1940 gekk á land í Reykjavík breskur her. Frá þeirri stundu var Ísland hernumið land og hlutleysisyfirlýsingin frá 1918 var nú bersýnilega einskisvert plagg. Gamla sambandsþjóðin hafði reynst ófær um að verja sitt eigið hlutleysi en gafst upp fyrir Þjóðverjum og var því einnig ófær um að verja hlutleysi Íslands. Hérlend stjórnvöld mótmæltu innrás hins breska liðs og stóðu vel að hinni diplómatísku hlið máls- ins; hitt er svo rétt að þorri Íslendinga sætti sig við þessa aðgerð bresku herstjórnarinnar eins og á stóð. Margir höfðu borið í brjósti ugg um að þýska stjórnin undirbyggi að hertaka Ísland til að standa betur að vígi við kafbáta- hernað sinn á Atlantshafinu en niðurstaðan í þeim átökum gat ráðið úrslitum í hinni hrika- legu styrjöld milli Bandamanna og Öxulveld- anna. Bretar voru í byrjun aðþrengdir vegna baráttu í Frakklandi og í Norður-Afríku auk hins skelfilega kafbátahernaðar á Atlantshaf- inu; þeir áttu líf sitt undir því að hin mikla hjálp sem þeim var send frá Bandaríkjunum kæmist til þeirra sjóleiðina framhjá kafbátum Þjóðverja sem skutu flutningaskipin í kaf af skefjalausu miskunnarleysi hvar sem færi gafst. Íslendingar urðu eins og fleiri fyrir þessum lymskufulla og skæða hernaði Þjóð- verja; einnig íslenskir sjómenn urðu fyrir barðinu á þýskum neðansjávarhernaði og voru meir en 300 þeirra myrtir er þeir sigldu vopnlausir um höfin. Bretum og bandamönn- um þeirra var auðvitað kappsmál að koma í veg fyrir þýsk yfirráð á Íslandi. Aðstaða í landi okkar var á hinn bóginn knýjandi nauð- syn fyrir breska flugherinn sem gat frá stöðv- um hér á landi grandað fleiri kafbátum en ella og betur varið skipalestirnar sem færðu íbú- um Bretlandseyja bæði lífsnauðsynjar og her- gögn. Sjá má af þessu, að Ísland var á stund heimsstyrjaldarinnar síðari einn þýðingar- mesti staður veraldar í ljósi herfræðinnar sem þá var ríkjandi. Stjórnir Bretlands og Bandaríkjanna sáu í stöðunni þann möguleika að Bandaríkin tækju að sér að verja Ísland og gerðu Bretum þar með kleift að hverfa úr hlutverki hernáms- aðila enda höfðu þeir hnöppum að hneppa á mörgum vígstöðvum. Bandaríkin voru ennþá hlutlaus að því leyti að þau voru ekki formlega í stríði við neina þjóð en ljóst var að samúð þeirra var nær óskipt með bresku þjóðinni. Bandaríkin lýstu sig reiðubúin að taka að sér varnir Íslands ef ósk þess efnis bærist frá ís- lensku ríkisstjórninni. Þetta þótti hið mesta happ eins og málum var háttað og samningar millum stjórna Íslands og Bandaríkjanna gengu fljótt og vel. Íslendingar settu fram skilyrði í nokkrum liðum gagnvart bæði Bandaríkjamönnum og Bretum; lutu þau einkum að tafarlausri viðurkenningu á full- veldi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar og því að tryggja Íslendingum nauðsynleg viðskipti; var gengið að þessum skilyrðum án nokkurrar tregðu. Hér var því um þríhliða samkomulag að ræða. Frá þessari stundu voru Íslendingar að fullu fallnir frá fyrri hlutleysisviðhorfum og yfirlýsingum. Hinn 7da júlí 1941 sigldi svo bandarískur floti inn á Faxaflóa og við tók dvöl varnarliðs samkvæmt milliríkjasamningi í stað hernáms af hálfu innrásarliðs. Urðu nú mikil umskipti. Hið breska hernámslið var frá fyrsta degi heldur vanbúið að flestu leyti, skorti flest sem þurfti til að gera sig gildan í hernaði og aðbúnaður hermanna fremur naumlegur; áberandi var að Bretar byggðu skála sína og skemmur innan um og uppað húsum Íslendinga, hafa líklega viljað komast í vatnsleiðslur og skolplagnir sem fyrir voru og ef til vill talið sig hafa skjól af innlendum mannvirkjum ef til loftárása kæmi af hálfu Þjóðverja. Bandaríkjamenn höfðu annan hátt á og reistu herskála sína fremur í skipulegum hverfum nokkuð frá íslensku þéttbýli. Útbún- aður bandaríska hersins var allur mun betri og ríkulegri en það sem Bretar gátu teflt fram, viðurgerningur þeirra betri lið fyrir lið. Dvöl hinna erlendu herja hafði vitaskuld gífurleg áhrif í hinu innlenda mannlífi. Full- djúpt er í árinni drepið þegar menn segja mið- aldaástand hafa ríkt á Íslandi fram að heims- styrjöldinni síðari; breytingar voru þegar hafnar í átt að nútímaskipan hlutanna og framfarahugur gagntók þjóðina. En hreyfing- in var hægfara; innlendur peningamarkaður lítill og bankastarfsemi vanþróuð. Breska her- stjórnin sóttist eftir Íslendingum til ýmissa starfa; peningar tóku nú að ganga á milli manna meir en áður hafði þekkst og hreyfing komst á í gangverki þjóðlífsins. Samskipti Ís- lendinga og hermanna urðu sem við mátti bú- ast mikil og margvísleg. Þótt herirnir byggju að sínu og lifðu að mestu aðskildir frá heima- mönnum voru erlendir hermenn í nokkur ár samsíða við og að ýmsu leyti samflæktir ís- lensku þjóðlífi. Kynni tókust í talsverðum mæli milli íslenskra stúlkna og hermanna bæði breskra og bandarískra; leiddu þau kynni til margra hjónabanda og fjölda barn- eigna. Margir voru óánægðir með þessa þróun mála og mun hafa valdið einhverjum núningi milli íslenskra karlmanna og hinna erlendu; annars voru samskiptin yfirleitt vinsamleg og áköst ekki algeng milli Íslendinga og liðs- manna hinna útlendu herja. Bandaríkjamenn höfðu hér mun lengri viðdvöl en Bretar og voru miklu liðfleiri, urðu af þeim sökum fleiri upphlaup milli þeirra og Íslendinga en milli bresku dátanna og heimamanna. Flestir voru þessir erlendu menn hinir elskulegustu og mátti lesa innræti þeirra meðal annars úr fal- legri framkomu þeirra við börn og unglinga; einkum var þetta áberandi í fari Bandaríkja- manna sem sýndu ungmennum viðlíka kurt- eisi og fullorðnum; ég hafði sjálfur af þessu nokkra reynslu meðan ég bjó um skeið í því góða byggðarlagi Mosfellssveit árin upp úr 1941. Bandaríkjamenn urðu smám saman fjöl- mennir á þeim slóðum og skiptu þúsundum. Fékk ég nokkrum sinnum í fylgd röskra drengja frá Brúarlandi að gerast blaðasali í braggahverfum hersins; komu hermennirnir ávallt fram af vinsemd og kurteisi, þetta hafði einnig mátt segja um bresku hermennina sem voru hér flestir á fyrstu mánuðum styrjald- artímans; Bretarnir voru hæglátari, var auð- séð að þeir skimuðu meir til foringja sinna enda þurfti enginn að velkjast í vafa um stéttabil og tignarmun í breska hernum; Bandaríkjamennirnir voru frjálslegri og sprækari enda bjuggu þeir við minni foringja- þrúgun og betra atlæti. Vitaskuld áttu báðar þjóðirnar sér sama markmið; fyrir þeim vakti að vinna fullnaðarsigur á þýsku árásarherj- unum á meginlandi Evrópu; munu nokkrir þeirra pilta sem hér dvöldu um sinn hafa látið lífið í innrás Bandamanna í Frakkland og í hernaði þeim er fylgdi í kjölfarið. Ýmsir þeir sem hafa fjallað um dvöl hinna erlendu herja á Íslandi árin 1940–1946 gera engan greinarmun á eðli og aðdraganda þeirra atburða er leiddu til hersetu hinna tveggja þjóða, Breta og Bandaríkjamanna, kalla þetta alltsaman hernám. Sumir hrapa svona að þessu vegna ókunnugleika og fyrir áróður þeirra sem andvígir eru allri veru er- lendra hersveita í landinu; aðrir gera þetta af ásetningi og vilja þarmeð draga hulu yfir þá staðreynd, að íslensk stjórnvöld skuli ekki einungis hafa samþykkt erlenda hersetu en beinlínis óskað eftir henni með meirihluta þings og þjóðar að baki. Að fjalla um þessa viðburði með þessum hætti er ekki einasta sögufölsun en einnig köld kveðja til þeirra umboðsmanna Íslendinga sem í byrjun heims- styrjaldarinnar þurftu að tefla um þessi mál í erfiðri stöðu. Margir komu þar við sögu en ljóst má vera að hæst ber þá Hermann Jón- asson forsætisráðherra og síðar Ólaf Thors þegar reyndi á viðnámsþrek og staðfestu stjórnvalda vegna túlkunarágreinings um samninginn frá 1941. Það má lengi velta því fyrir sér hvernig mál hefðu þróast ef íslensk stjórnvöld hefðu hafnað allri samvinnu við Bandamenn og neitað að fara fram á her- vernd; það má hugsa sér að þungi atburða í styrjöldinni á Atlantshafi hefði orðið slíkur að Bandaríkjamenn hefðu talið sig knúna til að koma upp aðstöðu á Íslandi og hernumið land- ið þrátt fyrir eindregin mótmæli. En þannig gerðust hlutirnir ekki, heldur var atvikaröðin eins og lýst er í upphafi þessarar stuttu grein- ar. Í gustinum frá hinum geigvænlegu átökum sem fram fóru allt í kringum okkur sveigðist hugur þjóðarinnar til fylgis við málstað Bandamanna nær undantekningarlaust. Við lok heimsstyrjaldarinnar hvarf hið bandaríska herlið smám saman á brott eins og samið hafði verið um. Ástand heimsmála, einkum útþenslustefna sovéska valdsins, varð til þess að Bandaríkjastjórn óskaði eftir fram- lengingu á samstarfi þjóðanna um varnarmál; framhaldið er öllum kunnugt: Keflavíkur- samningur 1946, aðild að Atlantshafsbanda- laginu 1949, varnarsamningur 1951. Andinn í garð varnarliðsins sem dvaldi hér bróðurpartinn af þeim tíma sem heimsstyrj- öldin geisaði var yfirleitt vinsamlegur; fram- ferði hermannanna var mestan part til fyr- irmyndar og árekstrar eða misferli af hálfu einstakra manna var eins og við mátti búast; menn skildu, að dvöl hinna ungu manna í bárujárnsbröggum mánuðum og árum saman við mikil þrengsli og veðurhörku norðurslóða ýlandi í hverri smugu hlaut að reyna á taug- arnar; geðheilsa sumra mun hafa liðið við þessar aðstæður og sorgleg atvik fylgt í kjöl- farið. Um tíma munu hafa verið á Íslandi 45 þúsund bandarískir hermenn; framkoma þeirra flestra einkenndist af vinsemd og ör- læti. Til eru þeir sem vilja draga upp aðra mynd af hinum ungu hermönnum þessara ára, m.a. einhverjir starfsmenn ríkisfjölmiðla svo sem sjá mátti í óvönduðum sjónvarpsþætti sem sýndur var fyrir fáeinum árum. Sannleik- urinn er hinsvegar sá að flestir Íslendingar hugsuðu hlýlega til hinna ungu einkennis- klæddu manna sem kynntu sig vel allflestir, bæði foringjar og undirmenn. Það er svo mikil saga ef segja á frá allri þeirri framkvæmda- og verktækni sem þjóðin lærði af bandaríska hernum og hvílíka hrifningu og bjartsýni það vakti með Íslendingum þegar þeir virtu fyrir sér hin stórvirku tæki hans til vegagerðar og annarrar þeirrar mannvirkjasmíði sem þjóð- ina dreymdi látlaust um; upp úr þessu hófst mesta bylting þjóðarsögunnar í samgöngum og á mörgum sviðum öðrum. Ein var sú er gerbreytti lífi og starfi íslenskra húsmæðra þegar inn á heimilin tóku að berast vélar sem gerðu þjakandi stritverk að leik. Öll þessi undur hefðu auðvitað komið upp að ströndum landsins með tíð og tíma en tækja- og tækni- byltingin hófst miklu fyrr hjá okkur en hjá öðrum þjóðum vegna veru Bandaríkjahers og vegna góðra viðskiptatengsla vestur fyrir Ís- land. Íbúar þessa lands myndu ekki gera sig smærri ef þeir viðurkenndu opinberlega hina, að flestu leyti, góðu framkomu bandaríska varnarliðsins á árum síðari heimsstyrjaldar- innar, og reistu hinum ungu dátum minnis- merki. Hermenn höfðu hér viðstöðu um hríð á leið sinni til vígvalla Evrópumanna; sjálfir réðu þeir engu um ferðir sínar eða dvalar- staði, ekki réðu þeir heldur á hvaða grund blóði þeirra var úthellt og lífi þeirra lauk; meðal fjölda atvika og ákvarðana sem vörðuðu leið þessara manna á hættuslóð styrjaldar- átakana mátti rekja eitt og annað til sam- þykkta sem gerðar voru í fundaherbergjum íslenskrar ríkisstjórnar. Það geta margir tek- ið undir með stjórnmálaforingja og flokksfor- manni sem í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum árum sagði eitthvað á þessa leið: Engin þjóð vill erlendan her í landi sínu en séu mál þannig vaxin að Íslendingar telji sig tilneydda að búa við hersetu um einhvern tíma viljum við frek- ar hafa hér Bandaríkjamenn en aðra. Til frekari glöggvunar á atburðum og þróun mála varð- andi stöðu Íslands á tíma heimsstyrjaldarinnar síðari er bent á eftirtalin rit: Þór Whitehead: Ísland í síðari heimsstyrjöld, Vaka- Helgafell. Hannes Jónsson: Íslensk sjálfstæðis- og utanríkismál, Félagsmálastofnunin, Reykjavík. HERNÁMSLIÐ – VARNARLIÐ „Íbúar þessa lands myndu ekki gera sig smærri ef þeir viður- kenndu opinberlega hina, að flestu leyti, góðu framkomu bandaríska varnarliðsins á árum síð- ari heimsstyrjaldarinnar, og reistu hinum ungu dát- um minnismerki.“ E F T I R E M I L A L S Höfundur er læknir. Stjórnvöld mótmæltu innrás breska liðsins og stóðu vel að hinni diplómatísku hlið málsins; hitt er svo rétt að þorri Íslendinga sætti sig við þessa aðgerð bresku herstjórnarinnar eins og á stóð.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.