Lesbók Morgunblaðsins - 23.11.2002, Side 9

Lesbók Morgunblaðsins - 23.11.2002, Side 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. NÓVEMBER 2002 9 ið séðar sem kvenlegt svæði, enda sú neysla sem þar fer fram, matarinnkaup, búsáhöld og fata- verslun og þjónusta eins og apótek, skósmiðir og hreinsanir yfirleitt talin vera á sviði kvenna. Ef marka má kenningu Rybczynski var það einmitt í krafti breyttra aðstæðna húsmæðra – ísskápar og frystikistur – sem verslunarmiðstöðvar kringum stórmarkaði urðu til. En eins og allar góðar mótsagnir felur þessi í sér sína eigin lausn, því auðvitað er þetta þá eitt dæmið um hvernig hið kapítalíska verslunarmiðstöðvar- veldi hefur konuna á sínu valdi. Hinsvegar hefur einnig verið bent á að konur hafa notfært sér verslunarmiðstöðina og gnægtabrunn hennar til að ná ákveðnu valdi á eigin lífi, þarna flakka konur um í flokkum, án eftirlits frá eiginmönn- um sem nenna ekki með þeim, stunda sín inn- kaup, máta forboðin föt, slúðra hver við aðra og hlæja hátt, horfa á sæta stráka, daðra við af- greiðslumenn og þjóna… Þessi kvenlega hlið kringlunnar er undirstrik- uð í unglingamyndum eins og Clueless, þarsem verslunarmiðstöðin er staður endurnæringar og upplyftingar, fyrir sál og líkama; þegar vanda- mál tilverunnar – faðirinn, bróðirinn og öku- kennarinn – verða henni um megn, fer hún í kringluna, sem er hennar eigin staður, þar hefur hún markað sér rými til tjáningar og tjáskipta. Enda er það eftir slíka ferð sem hugur hennar opnast og lausnin á vandanum kemur í augsýn. Borg Eitt af því einkennt hefur borgarþróun síð- ustu þriggja áratuga eða svo er að borgin er að skiptast upp í smærri einingar, bita eða kubba: í stað þess að borgin hringi sig kringum einn miðbæ – þarsem er líf og þarsem er fjör – meðan úthverfin eru svefnbæir, hvíldarstaðir og kjarnafjölskylduútópíur, er borgin að skiptast upp í marga smærri „miðbæi“. Þannig er mið- borgin sett til hliðar af verslunarmiðstöðvum, sem nú vaxa í hverju úthverfi. En eins og kom fram í fyrirlestri Saskiu Sassen á vegum Borg- arfræðaseturs 14. ágúst síðastliðinn, hefur þessi þróun verið að breytast á allra síðustu árum, og áherslan á miðbæinn hefur aftur aukist. Dyfl- inarborg er mjög gott dæmi um þetta, en á átt- unda og níunda áratugnum hnignaði miðbænum mjög og unga fólkið flutti annaðhvort í úthverfi eða hreinlega úr landi. Á tíunda áratugnum snerist þessi þróun hægt og hægt við og nú býð- ur miðborg Dyflinar, sem var orðin að hálfgerðu slömmi, uppá sérstaka miðbæjarstemningu sem einkennist af menningu og lífi. Svipaða sögu er að segja af gamla miðbæ Kaupmannahafnar, en gamla gleðikonu- og eiturlyfjasjúklingagatan Istedgade er orðin að miðstöð framsækinna verslana og þjónustu. En þrátt fyrir þessi dæmi er ljóst að á undanförnum áratugum hafa versl- unarmiðstöðvar tekið að stórum hluta við mið- stöðvarhlutverki miðbæja. Ef höfuðborgir eru menningar- og félagsmiðstöðvar landa sinna þá eru verslunarmiðstöðvarnar kjarni hverrar borgar. Þangað sækir almenningur orðið ekki aðeins vöru og verslun, heldur skemmtun og fé- lagsskap, fólk fær að sýna sig og sjá aðra, án þess að eiga á hættu að bindið fjúki og hár- greiðsluna rigni niður; unglingarnir hanga á handriðunum og börnin klemma sig í rúllustig- unum. Eftir að hafa farið í apótekið, erindað í bönkum og pósthúsum, gengið frá viðskiptum á netkaffinu, keypt nærföt og nýja skó, sett kjól- föt í hreinsun og skoðað nýjasta myndlistaúr- valið í galleríinu er hægt að gera árangursrík matarinnkaup og fá sér síðan kvöldverð við kertaljós á einu kaffihúsanna, skella sér í bíó og þaðan á barinn, allt í einni ferð. Þú þarft aldrei að fara út úr verslunarmiðstöðinni þinni, því miðað við fjölda íbúa bæjarins sem hún hangir utaná er líklegt að þú vinnir þar líka. Með tilliti til þessara athugana verð ég, með ugg í brjósti, að tilkynna hér að Reykjavík er alls ekki Reykjavík lengur, heldur er hún Kópa- vogur. Meðan Reykjavík verður æ dreifbýlli með tilkomu fjalla og firninda þeirra sem til- heyrðu eitt sinn Kjalarnesi en teljast nú höf- uðborg, þéttist Kópavogurinn stöðugt í blóm- lega borg. Það er auðvitað nýja verslunarmiðstöðin sem skilur milli feigs og ófeigs; Smáralindin teygir úr sér og þjónar ekki aðeins selafólkinu heldur líka öllum hinum, til- reyktum sem tiltækum. Sólin skín við kópum og í stað þess að segja úr sveit í borg segja menn nú úr vík í vog. Eða syndum nú fiskarnir segja hornsílin. Sögur herma að skrímsli eitt sem býr í Hval- fjarðargöngunum sé ábyrgt fyrir dreifingu og hnignun höfuðborgarinnar. Hveli þetta eða hvalskrímsli ku hafa rankað við sér við hávaða- samar framkvæmdir þær sem fóru fram í Hval- firðinum og stefnir nú á að soga að sér Reykja- vík, því það eigi óuppgerðar sakir við kvikindi nokkurt sem býr í Hallgrímskirkjuturni. Reykjavík stefnir því hraðbyri inn í eilíft myrk- ur forsögulegra jarðganga meðan Kópavogur lýsist allur upp og forframast með hjálp sinnar nútímalegu og glæstu Smáralindar. Enn stærri og mikilfenglegri en gamla kringlan sér þessi flunkunýja verslunarmiðstöð Kópavogsbúum fjær og nær fyrir öllum þeirra nauðþurftum og hinu og öðru líka. Fólk sogast að þessari fínu Kringlu alveg af sjálfsdáðum, bílarnir beygja af leið til útlanda eða Reykjavíkur og eru gleyptir af umfangsmiklum bílageymslum Smáralind- arinnar og gulir strætisvagnar sveima í kring eins og flugur. Ef geimvera eða guð væri að fylgjast með okkur að ofan myndu þau umsvifa- laust halda að Smáralindin væri einskonar hof eða grafreitur eða jafnvel manntalsskrifstofa, allavega einhver miðstöð mikilvægra athafna. Sæborg En ef verslunarmiðstöðin er orðin að borg, og kemur jafnvel í stað borgar, hvað verður þá um sjálfa borgina? Í greinasafninu Variations on a Theme Park: The New American City and the End of Public Space (1992) veltir ritstjórinn Michael Sorkin því fyrir sér hvort „borgin“ sjálf sé að hverfa, leysast upp í lauslega tengd úthverfi hverra kjarni er einmitt verslunarmiðstöð. Þessar ugg- vænlegu vangaveltur tengir Sorkin svo beint við tækniþróunina, með tilkomu gerbreyttra sam- skipta og samskiptatækni á borgin sér ekki lengur stað, heldur í mesta lagi stund, og sú stund er stutt. Þegar samskipti fara að miklu leyti fram í gegnum tölvur og síma verður sjálft rýmið – eða jafnvel sjálf hugmyndin um rýmið – afstæð, rúmgott og víðfeðmt þá rúmast það í litlum kössum, rásum og ósýnilegum rafsegul- bylgjum, jafnframt því að ferðast með ógnar- hraða um ógnarfjarlægðir. Vangaveltur Sorkins eru kunnuglegar okkur Reykvíkingum, því allt frá opnun Kringlunnar fyrir 15 árum hefur verið mikil umræða um verndun miðbæjarins og mikilvægi þess að hann sé áfram ákjósanlegur vettvangur fyrir verslun og menningarlíf. Sorkin er einmitt umhugaðast um miðbæinn og hvarf hans í þróun þessara „cyburbia“ eins og hann kallar þessa sæbervæddu borgarbúta, sem útleggja má á íslensku sem sæhverfi. Í skrifum hans birtist borgin, sem hópar sér kringum miðbæinn, skyndilega í rómantísku ljósi: mið- borgin gefur borginni merkingu og fókus, form og samræmi. Þessi rómantíska sýn er sérlega skemmtileg fyrir það að upphaflega kom róm- antíkin, sem hugmyndastefna í listum og skáld- skap, til sem andstæða við borgarmenninguna, hina menguðu, hávaðasömu og ógnvekjandi borg iðnbyltingarinnar. Þar var sveitinni stillt upp sem fyrirmynd hins upprunalega og hreina, þarsem tilfinningar og menning réðu ríkjum í andstöðu við ómenningu borgarsamfélagsins. Fyrir Sorkin og aðra greinahöfunda í safninu er það nú miðborgin sem er uppspretta menning- arlífs, einskonar rómantískrar sveitasælu sjálfs- prottinnar menningar. Reyndar má benda á að útópísk hugmynd Rybczynski ber einnig ákveð- in rómantísk einkenni, ekki síst með tilliti til þess hvað hann leggur mikla áherslu á hvað verslunarmiðstöðin sé hrein og hvað þar sé vítt til glerveggja. Sem slík er hún andstæða skítugs miðbæjar með sínum þröngu götum og þétt- setnu húsum sem byrgja allt útsýni. Myndin sem Sorkin dregur upp er vissulega mögnuð og áhugaverð, líkt og útópía Rybc- zynski, og getur ekki annað en vakið konu til umhugsunar. Sem gamall úthverfabúi hlýt ég þó að lyfta brúnum yfir fordómum út í úthverfin og sem miðbæjarrotta get ég ekki annað en glott yfir óskinni um sterílt umhverfi. Grein Marg- aret Crawford um verslunarmiðstöðina sem rúmar allan heiminn er þó sú sem sýnu mest hlýtur að koma við kvikuna á öllum þeim sem er umhugað um borgir og borgarmenningu, en samkvæmt Crawford er tilkoma kringlunnar einskonar dögun dauðans. Crawford bendir á hvernig kringlur eins og West Edmonton sem birta allan heiminn í handhægum túristaumbúð- um felli hann allan í sama farið, fletji út ólíka menningarheima og skapi orgíu einsleitninnar. Í úttekt hennar á gnægtum West Edmonton- kringlunnar kemur í ljós að þrátt fyrir alla fjöl- breytnina þá er allt í grundvallaratriðum eins, sömu búðirnar eru með mörg útibú í sömu kringlunni og þær eru allar af sama toga, sam- hæfðar keðjur en ekki stakar sérvörubúðir. Framkvæmdastjórar kringlunnar hafi nákvæmt eftirlit með því hvaða búðir séu hvar, og við minnstu sveiflur í tíðaranda og tísku er búðum sagt upp og aðrar teknar í staðinn. Verslunar- miðstöðvum er oft líkt við markaði, en það er ljóst af lýsingu Crawford að hin frjálsa verslun markaðanna og markaðstorganna á ekki við hér. Þó bendir hún á að allar kringlur séu ekki eins og að stöku sinnum takist borgum að aðlaga kringlukerfið sínum eigin hefðum. Þannig eru kringlurnar í Hong Kong til dæmis skilgetið af- sprengi þeirra fjölmörgu markaða sem ein- kenna menningu svæðisins; í stað einokunar samhæfðra keðja eru verslunarmiðstöðvar í Hong Kong risastór samsöfn ólíka sérverslana. „Höfuðborg vindanna“ En hvað með okkur Íslendinga og óveðrið? Fyrst Reykjavík er „höfuðborg vindanna“ sam- kvæmt Steinunni Sigurðardóttur, er engin furða að verslunarmiðstöðvar séu vinsælar meðal Ís- lendinga og eins og Sigurbjörn arkitekt sá fyrir er yfirbygging hreinasti lúxus fyrir þessa veð- urbörðu þjóð og því eðlilegt að fólk flykkist und- ir hvaða glerþak sem í boði er. Þetta endur- speglast svo í arkitektúrnum, Smáralindin er hönnuð eins og verslunargata, sem endar á torgi, meðan Kringlan minnir meira á fjölda samtengdra torga. Í annarri óveðursborg, Montréal í Kanada, var tekin upp sú stefna að byggja hreinlega aðra miðborg neðanjarðar til að verja almenning gegn frosthörkum. Undir öllum miðbæ Montréal er því röð kringla sem eru samtengdar neðanjarðarlestakerfinu og þaðan er uppgengt í helstu íbúðarhús, stofnanir, listasöfn og kvikmyndahús. Þarna eru götur og torg, fínir veitingastaðir og kaffihús í röðum, allt samfléttað daglegu miðbæjarlífi og órjúfanlegur hluti þess. „Ég er að skoða þær, ég er að skoða þær og ég er búinn að finna út úr þessu, það eru góðar hlið- ar og slæmar hliðar, finna borg, finna mér borg að búa í.“ OG GALA GAUKAR Höfundur er bókmenntafræðingur. Morgunblaðið/Einar Falur lk fær að sýna sig og sjá aðra, án þess að eiga á hættu að bindið fjúki og hárgreiðsluna rigni niður.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.