Lesbók Morgunblaðsins - 23.11.2002, Side 14

Lesbók Morgunblaðsins - 23.11.2002, Side 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 23. NÓVEMBER 2002 L JÓSMYNDIR frá Palestínu eru meginefniviður sýningar Þorkels Þorkelssonar, ljósmyndara á Morgunblaðinu, í Listasafni ASÍ, en sýningin verður opnuð í dag kl. 15.00. Sýning Þorkels er hluti stærra verkefnis, sem hann kallar Með opnum augum. „Upphaf verkefnisins má rekja til ársins 1992, þegar ég var sendur í samvinnu Rauða krossins og Morgunblaðsins til Sómalíu, ásamt Huga Ólafssyni blaðamanni og Stefáni Jóni Hafstein, sem var þá útvarpsmaður. Þá var borgarastyrjöld í landinu, mikil hung- ursneyð og algjört anarkí, og ég gerði myndfrásögn af þessum atburðum fyrir Morgunblaðið. Verkefnið hafði afskaplega djúp áhrif mig, og sérstaklega lítið barn sem var stöðugt að reyna að grípa í mig í neyð sinni og angist. Síðan þá hefur áhugi minn á málefnum þriðja heimsins og mörgu öðru í heiminum sem kemst ekki alltaf í fréttir ver- ið geysilega mikill.“ Það gleymist oft að það standa manneskjur á bak við fréttirnar Það leið þó allnokkur tími þar til Þorkell fór að vinna í því skipulega að gera alvöru úr verkefni sínu, og eins og hann segir sjálfur æxlaðist það þannig að verkefnið valdi hann. „Fyrir þremur til fjórum árum fór ég að gera mér grein fyrir því að allt sem ég var að gera miðaði í sömu átt. Síðan þá hef ég orðið enn fókusaðri á það að sýna fólki mannlega hlið heimsmálanna. Viðskiptabann, svo dæmi sé tekið, er í huga margra bara tölur á blaði og umræður um afleiðingar. En það þýðir líka það að einstaklingar í sínu hversdagslega lífi verða fyrir áföllum, komast kannski ekki á sjúkrahús, – geta ekki menntað sig og þar frameftir götunum. Þetta getur verið mikið drama fyrir hvern þann sem upplifir það. Mér finnst það svo oft gleymast, að það standa manneskjur á bak við fréttirnar. Ef ég er að vinna verkefni sem mikill fókus er á í alþjóðapressunni reyni ég alltaf að finna annað sjónarhorn á það; ég þarf að ná fram mannlega sjónarhorninu. Grundvallarhug- mynd mín er að gera okkur, sem höfum það svo gott, grein fyrir því að það eru alls konar hlutir að gerast í heiminum, þótt þeir séu ekki allir jafn dramatískir og ljótir. Ég er líka oft að mynda daglegt líf fólks við ólíkar kringumstæður. Fólk lifir hversdagslegu lífi í Norður-Síberíu, þótt það sé 45 stiga frost og rok, og sama á við fólk í Suður-Súdan, þótt það sé allslaust. Fólk finnur sér alltaf leið til að lifa í sínum kringumstæðum, þrátt fyrir að þær geti verið mjög erfiðar, og í hnot- skurn er ég er að reyna að sýna það, í þeirri von að það hafi örlítil áhrif á hugsunarhátt einhverra. En auðvitað er ég líka að þessu vegna þess að ég er ljósmyndari og hef knýj- andi þörf fyrir að gera þetta, – ekki bara sem spekúlant í heimsmálum, sem ég veit af- skaplega lítið um þótt ég hafi mikinn áhuga á þeim. Þetta er líka leið fyrir mig að fá skap- andi útrás í minni ljósmyndun og þroska sjálfan mig.“ Þorkell hefur mikinn áhuga á þeirri grein ljósmyndunar sem kölluð er frásagnarljós- myndun, eða documentary photography á ensku. Þessi tegund ljósmyndunar krefst þess að ákveðnum aðferðum sé beitt og setur ljósmyndaranum ákveðnar skorður. „Það þarf að nálgast viðfangsefnið af miklum aga: það má aldrei stilla neinu upp; maður þarf að nota eins mikið af náttúrulegu ljósi og hægt er – ef maður notar flass þarf að gera það mjög pent. Myndin þarf á sama tíma að vera listrænt uppbyggð, og í heildina þurfa mynd- irnar að segja sögu og þær þurfa að vera sterkar innbyrðis.“ Frá Sómalíu til Síberíu Fyrsti leiðangur Þorkels var sem fyrr seg- ir til Sómalíu árið 1992. Hann fór til Mósam- bík árið 1996 til að mynda aðferðir innfæddra við vatnsöflun. „Þar eru aðstæður þær að það þarf að grafa mjög djúpt eftir vatni, allt frá 30 metrum og upp í 70 metra, og þetta er gert með handafli. Fólk er að grafa hæð Hallgrímskirkju til að verða sér úti um neysluvatn.“ Í Rúanda árið 1996 var þema Þorkels þjóðarmorð og þjóðarmorðingjar, og þar myndaði hann meðal annars börn sem voru lokkuð með áróðri til þess að taka þátt í vopnuðum átökum. Kúba var næsti viðkomu- staður, árið 1998, og viðfangsefnið var við- skiptabann Bandaríkjanna á landið. „Ég kalla þetta vægari gerðina af viðskiptabanni. Efnahagskerfið er í rúst, en það sveltur eng- inn.“ Viðskiptabann var einnig viðfangsefni Þorkels í ferð til Íraks sama ár. „Það var geysilega erfitt, því ég mátti ekki taka mynd- ir, og varð stöðugt að vera í felum eða segj- ast vera einhver annar en ég var. Hvað sem manni finnst um stjórnarhætti í landinu, þá var þetta í mínum augum mjög grimmt við- skiptabann og áhrif þess á almenna borgara geigvænleg.“ Fátækt í Moskvu og Péturs- borg var mynduð í leiðangri Þorkels þangað árið 1999 og seinna sama ár fór hann til Tomsk í Suður-Síberíu til að greina frá dag- legu lífi fólks á þeim slóðum. „Ég hitti á að vera þar 1. maí og sá gömlu konurnar með Stalínmyndirnar sínar. Það var mjög eðlilegt því þetta fólk var alið upp við það að Stalín væri ígildi Guðs, og þótt Sovétríkin hryndu hætti fólk ekkert að trúa á þennan leiðtoga sinn.“ Síðla sama ár lá leiðin til Eþíópíu, þar sem mikil hungursneyð ríkti. Þaðan fór Þor- kell beint til Suður-Súdan með viðkomu í Kenýa. Í Súdan var hann á svæði uppreisn- armanna sem berjast fyrir sjálfstæði þess landshluta. „Stjórnin í Khartoum vill að allir íbúar landsins aðhyllist íslam, en þarna suð- urfrá vill fólk ekki beygja sig undir það og hefur þess vegna þurft að þola mikið harð- ræði og býr við hungurmörk og jafnvel hung- ur, ljótt stríð og viðbjóð.“ Árið 2000 fór Þor- kell til Norður-Írlands til að mynda skálmöldina sem ríkti þar. Næsta ár var far- ið til Norður-Síberíu til að mynda líf fólks þar um hávetur. „Ég fór í lok febrúar norður að sjötugustu breiddargráðu og skoðaði hversdagslíf fólks í miklum vetrarhörkum.“ Næst var stoppað í Rússlandi, þar sem berklar í rússneskum fangelsum voru við- fangsefni frásagnarljósmyndarans. „Eftir hrun Sovétkerfisins lömuðust hlutar heil- brigðiskerfisins og sjúkdómar eins og berkl- ar fóru að gera verulega vart við sig. Þessi aukning á berklum í Rússlandi getur orðið að ógn fyrir fólk á Norðurlöndum og í Norður- Evrópu, sértaklega þessi tegund fjölónæmra berkla sem erfitt er að ráða við með lyfjum.“ Í lok þessa vetrar fór Þorkell til Mongólíu. „Ég fór til Ulan Bator, en þegar þangað kom var þar fyrir heilmikið af fjölmiðlafólki. Ég ákvað að fara í allt aðra átt, flaug lengst upp í fjöll í fjögurra tíma flugi, tók bíl þaðan áfram og gekk svo heillanga leið. Ég var þarna svolítinn tíma með hirðingjum sem áttu ekki nokkurn skapaðan hlut, hvorki hey, mat né annað. Búsmali þeirra var að falla, og ég vildi ná lífsbaráttu þessa fólks á filmu.“ Síðasta vetur fór Þorkell svo til Nígeríu með þá spurningu í farangrinum hvernig það væri að alast upp og búa í landi þar sem spilling hefur nánast náð hámarki, en þar sem nátt- úruauðlegð er samt mikil og nóg til af pen- ingum. Síðasta ferðin var svo farin til Palest- ínu í maí í vor, og þar vildi Þorkell kynna sér hvaða fólk það er sem er að missa heimili sín vegna hernaðaraðgerða, og við hvaða að- stæður almenningur lifir þar. „Mér er nokk sama um pólitíska leiðtoga, en það sem ég vildi kynna mér var hverjir það væru sem blæða fyrir átökin. Eins og alltaf eru það þeir sem mega sín minnst. Palestína er engin undantekning á því.“ Þorkell segir að það sem komið er sé ekki meira en um þriðjungur alls verkefnisins, en hann vonast til að geta lokið því á árunum 2006–7. Framgangur verkefnisins ræðst líka af því hvort hann nær að afla styrkja til þess. „Mig dreymir um að geta gefið út ljós- myndabók af stærstu gerð, sem hægt væri að koma á framfæri víða. Ég vildi líka geta komið á farandsýningum út um heim til að lýsa þessum aðstæðum. Ég lít á það al- gjörlega til jafns; annars vegar skyldu mína sem ljósmyndara til að segja frá þessum mál- um og hins vegar að með þessu er ég að vinna að skapandi verkefni sem ljósmyndari. Þessi reynsla þroskar mig líka sem ein- stakling.“ Beitti Ísraelsher brögðum til að komast til Jenín Á sýningu Þorkels í Listasafni ASÍ verða valdar myndir frá ferðum hans sýndar í gryfjunni, á neðri hæð safnsins. Í salnum á efri hæðinni verða eingöngu myndir frá Pal- estínu. „Þarna hafa verið flóknar og heift- úðugar deilur, sem eiga sér stað á mjög litlu svæði. Maður getur þó farið til Ísraels, hald- ið sig í fínum hverfum í Tel Aviv, eða á sögu- slóðum í Jerúsalem og ekki orðið var við neitt. En á átakasvæðunum geisa ofboðslega miklar hörmungar. Ég heimsótti Jenín, þar sem heilu borgarhverfin voru lögð í rúst á svo afgerandi hátt, að manni datt helst í hug að þar hefði verið sprend kjarnorkusprengja. Á svona stað hrynur allt. Fólk deyr, missir húsin sín, missir aleiguna. Ég held að Jenín sé einn af alljótustu stöðum sem ég hef séð. Hluti af því er sú gjöreyðing sem þar átti sér stað og brjálæðið allt í kringum hana, sem allir utanaðkomandi hljóta að sjá. Ísraelski herinn var með umsátur um borgina og ég þurfti að beita brögðum til að komast inn í hana, því Ísraelsmenn voru ekki par hrifnir af erlendum ljósmyndurum. Ég fór með tveimur mönnum í bíl, annar þeirra var Pal- estínumaður, og við sögðum varðmönnum hersins að við værum að fara á grænmet- ismarkað. Við keyrðum svo út af veginum og yfir akra til að komast inn í borgina. Á leið- inni til baka komum við svo auðvitað við á grænmetismarkaðnum til að geta boðið varð- mönnunum upp á bita, sakleysið uppmálað. En andstæðurnar eru miklar. Í Jenín var eyðingin víða algjör. Þegar maður var kom- inn út úr borginni vorum við allt í einu komn- ir á svæði Ísraelsmanna og þar gat maður keypt sér pylsu og kók eins og ekkert væri. Á svæðum Palestínumanna átti fólk ekki mat; – það átti kannski teppi, sem það hafði bjargað úr rústunum. Þetta er svo skrýtið og brjálað að það fá engin orð lýst því. Ég er að minnsta kosti ekki góður í að lýsa þessu með orðum, en vona að fólk komi á sýninguna og sjái þetta með eigin augum.“ Sýning Þorkels Þorkelssonar í Listasafni ASÍ verður opin frá kl. 14.00 til 18.00 alla daga nema mánudaga, til 8. desember. VERÐ AÐ NÁ FRAM MANNLEGA SJÓNARHORNINU Í tíu ár hefur Þorkell Þor- kelsson ferðast um heim- inn og tekið ljósmyndir af venjulegu fólki við óvenjulegar aðstæður. BERGÞÓRA JÓNSDÓTT- IR ræddi við hann um verkefnið sem hann kallar Með opnum augum, og ljósmyndir hans frá Pal- estínu sem sýndar eru í sal ASÍ á Freyjugötunni. Morgunblaðið/Kristinn Þorkell Þorkelsson við eina mynda sinna frá Palestínu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.