Pressan - 30.03.1989, Blaðsíða 14

Pressan - 30.03.1989, Blaðsíða 14
14 Fimmtudagur 30. mars 1989 AN VERÐUR EKKERT AÐ VERULEIKA Þrátt fyrir tiltölulega lítinn undirbúning í tónlist drifu Steinarr Magnússon og Anna Sólveig Arnadóttir sig út í hinn stóra heim til að nema söng. Þau völdu sér virtan tónlist- arháskóla, án þess að gera sér grein fyrir því að við Indiana-háskóla í smábænum Bloomington í Bandaríkjunum er lögð mikil áhersla á bóklegt nám en minni tíma varið í að hvetja skapandi listamenn til dáða. Þau eru hér af köllun, Steinarr syngur af þörf enda vill hann verða söngvari. Anna syngur ánægjunnar vegna en hún vill helst verða bóndi. EFTIR G. PÉTUR MATTHÍASSON — MYND VILBORG BJÖRNSDÓTTIR Þótt bæði séu lent hér í sama námi hjá sama söngkennara er ekki þar með sagt að leiðin hingað hafi verið sú sama. Steinarr er með grunnskólapróf úr Vogaskóla, frá þeim tíma þegar Vogaskóli var mesti villingaskóli landsins. Anna hins vegar er bæði með kennara- próf úr Kennaraháskólanum og bú- fræðipróf frá Hólum í Hjaltadal. Hún vill helst verða bóndi og taka við af foreldrum sínum á Uppsöl- um í Skagafirði. Steinarr vill verða söngvari. Hann stefnir þó hærra en á tómstundasöng uppi á íslandi. Anna hefur líka gaman af söng, enda úr Skagafirði. Hún er sam- þykk því að láta reyna á sönghæfi- leikana, vitandi það að hún getur alltaf snúið við og orðið bóndi uppi á íslandi. Ég varð háður söng „Fljótlegaeftir að ég fór að læra að syngja varð ég háður söng. Það er það eina sem ég get hugsað mér aðgera,“ segir Steinarr. Á milli þess sem hann var í Vogaskóla og söng- námi gerði hann ýmislegt; hann reyndi tvisvar við framhaldsnám, þvoði glugga hjá fólki, var statisti í mörgum leikritum Þjóðleikhússins og margt fleira. Hann lenti þó aldrei í ævintýrum eins og segir frá í kvik- myndum um gluggaþvottamenn. „Að syngja er kvöð, svona svipuð köllun og sú sem veldur því að menn verða bændur," segir Steinarr. „Við höfum greinilega hvort sína köllunina," segir Anna. „Það er ef til vill kaldranalegt að segja það,“ segir Steinarr, „en þú verður aldrei söngvari ef þú ætlar að hanga heima. Hér eru hlutirnir að gerast; tónleikar á hverjum degi, mikið sett upp af óperum og hér ætla langflestir að verða söngvarar, það er að segja fólk er hundrað prósent í þessu.“ „Ef maður hefði haldið áfram heima hefði maður verið að vinna með þetta hálfan eða heilan dag- inn,“ segir Anna, sem kenndi eitt ár í Ártúnsskóla áður en hún og Stein- arr drifu sig til Bandaríkjanna. „Þessi utanferð gefur okkur tæki- færi til að profa að vera eingöngu í söngnum — og þess er enginn kost- ur án þess að fara út.“ Söng eina lagið sem ég kunni „Ég hef alltaf verið að vinna með náminu,“ segir Steinarr. „Heima verður þetta aldrei gert af neinni al- vöru. Hugsunin hjá flestum er að það sé tómstundagaman að syr^ja. Fólk spyr mann að því hvað rrraður sé að læra og maður svarar því til að maður sé að læra söng og þá er spurt: „Ertu ekki að gera eitthvað annað?“ Kynni mín af söngnum hófust þegar ég álpaðist í Armúlaskóla, fjölbrautaskólann. Þávarég 19ára. í Ármúlaskóla var kór sem Sigvaldi Snær Kaldalóns stjórnaði, en hann átti einmitt upptökin að því að ég hóf söngnám. Ég fór að syngja í kórnum og Sigvalda fannst tilefni til að ég kíkti í Söngskólann. Það var þó fyrir slysni að ég byrj- aði í Söpgskólanum. Ég átti leið um Hverfisgötuna vorið 1983, sá Söng- skólann, leit inn og lét skrá mig,“ segir Steinarr. „Stuttu seinna fór ég i inntökupróf og söng eina lagið sem ég kunni, Kirkjuhvol, en Sig- valdi hafði kennt mér þetta lag eftir Árna Thorsteinsson. Og ég komst inn!“ Anna byrjaði ári seinna í Söng- skólanum, eða haustið 1984. Sant- tímis hóf hún nám í Kennarahá- skólanum, en hafði lokið prófi frá Bændaskólanum á Hólum þá um vorið. Anna lítur á söngnám í er- lendum háskóla sem ævintýraþrá, enda vill hún helst verða bóndi — þrátt fyrir kennarapróf og söng- hæfileika, sem kontu henni í mast- ersnám í virtum bandarískum há- skóla. „Maður hafði nú gaulað allt sitt líf. Það má kenna karlakórnum Heimi — sem pabbi syngur í — og kirkjukór Silfrastaðasóknar — sem báðir foreldrar mínir syngja í — um að ég fór í söng. Söngáhugi foreldra minna hefur augljóslega stuðlað að því að koma mér hingað út,“ segir Anna, en hún sat og hlustaði á pabba sinn á æfingum karlakórsins þegar hún var yngri. Það jók líka söngáhugann, bætir hún við, að á ballárum hcnnar í Skagafirði tíðk- uðu menn það að syngja alla nótt- ina eftir böll. Vissi ekki hver Pavarotti var Steinarr söng aldrei á böllunt. Það var nefnilega aldrei mikið um söng í Sigtúni sáluga við Suður- landsbraut — ekki einu sinni þegar staðurinn var upp á sitt besta og Steinarr stundaði hann. Hann hóf söngnámið hjá Magnúsi Jónssyni, söngkennara í Söngskólanum. „Ég held að Magnús, sem er tvímælalaust besti tenór sem íslendingar hafa átt, hafi verið frekar móðgaður að fá þenn- an nemanda sem kunni ekki neitt og vissi ekki neitt," segir Steinarr og nefnir sem dæmi um vankunn- áttu sína að hann hafi ekki einu sinni vitað hver Pavarotti var þegar hann byrjaði í Söngskólanum. „Mig grunar að Magnúsi hafi hálfpartinn fundist þetta allt út í hött, því ég stóð bara og öskraði. Honum leist eflaust hreint ekkert á mig. Mér fór hins vegar það mikið fram hjá Magnúsi þau tvö ár sem ég var hjá honum, að eftir það var ég alltaf látinn syngja á lokatónleik- um,“ segir hann án þess að vera viss um að það sé nothæfur mæli- kvarði. Anna var fjögur ár í Söngskólan- um, allan tímann hjá Katrínu Sig- urðardóttur söngkonu, en Steinarr var einnig hjá henni í tvö ár eftir að hafa verið eitt ár í Nýja tónlistar- skólanum. „Það er oft þannig að manni finnst grasið grænna hinum megin,“ segir hann um ástæðu þess að hann fór í Nýja tónlistarskól- ann. „Það felst margt annað í söng- námi en það að syngja," segir Anna, en hún og Steinarr hafa feng- ið að finna fyrir því að vera ekki betur undirbúin tónlistarlega en raun ber vitni, þrátt fyrir þó nokk- urt nám heima. Hraðinn i Indiana- háskóla er meiri en þau hafði órað fyrir og bóklegu kröfurnar gífur- legar. Svakalegt áfall „Það var svakalegt áfall að koma út,“ segir Steinarr. „Yfirferðin er slík, t.d. í tónfræðinni, að við fór- um í fyrstu tveim tímunum yfir svipað námsefni og á heilum vetri i Söngskólanum." „Það fylgir söngnáminu mikil ögun og sjálfsstjórn,“ bætir Anna við. „Maður lærir margt annað en að góla, til dæmis tónlistarsögu, tónfræði, tónheyrn, píanóleik, ítölsku og ýmislegt fleira, og ef fólk heldur sig ekki að náminu þá missir það af lestinni og frá skólans hendi getur það bara átt sig. Þegar við vorum heima hugsuð- um við mest um að stunda söng- tímana, en hérna verður þú að vera í öllu. — Þú verður líka að sinna öll- um aukafögunum, sem getur verið svo mikið mál að þú átt á hættu að gleyma því til hvers þú komst hing- að í upphafi! Maður er að drukkna í bóklegum fögum.“ „Mér finnst það nú svolítið baga- legt að söngurinn skuli sitja á hak- anum, vegna þess hve mikið er að gera í öðrum fögum, “ segir Steinarr og Anna bætir við að þótt aukafög- in séu nauðsynleg sé það yfirgengi- legt að þau séu oft of þreytt til að æfa sig. Þeim fannst erfitt að afla sér upplýsinga um erlenda skóla heima á íslandi. „Það er frekar auðvelt að komast að því hvort skóli er góður eða slæmur, en erfitt að finna upp- lýsingar um námstilhögun i hverj- um skóla fyrir sig. Við urðum til dæmis að gefa Fulbright-stofnun- inni sumt af bæklingunum sem við áttum um Juilliard-skólann í Nevv York, af því að þeir vissu ekki neitt um hann.“ Skólakerfið hér er annað en þau eru vön. Hér er oft lögð mikil áhersla á magn, sem felst í miklum lestri og endalausum verkefnum, smáum og stórum. Stundum er hætt við að krafan um vinnu nem- enda komi niður á gæðum kennsl- unnar. En það er litið svo á að magnið tryggi að nemandinn hafi einhverja lágmarksþekkingu. Þetta á við um flestar deildir Indiana-há- skóla, ekki bara tónlistarháskól- ann. „Ég var að tala við einn, sem söng með mér í kórnum í einni óperunni," segir Steinarr. „Hann sagði að maður yrði eiginlega að gera það upp við sig hvort maður vildi fá A í öllum aukafögunum og verða lélegur söngvari eða einbeita sér að því að verða söngvari og fá þá lágar einkunnir í aukafögunum.“ Eins og spurningarmerki í framan „Maður þarf að vera að á hverj- um einasta degi og helst öll kvöld líka, ef vel á að vera,“ bætir Anna við. „Maður þarf að æfa sig dag- lega i söng, á píanó, í nótnalestri og í tónfræðum. Þess utan þarf ég að lesa ítölsku flesta daga, enda er erf- iðara að læra erlent tungumál á öðru tungumáli. Þó við teldum okkur slarkfær i ensku áður en við komum hefur það tekið sinn tíma að komast inn í málið. Við vorum eins og spurn- ingarmerki í framan eftir fyrstu fyr- irlestrana. Hlutirnir hafa svo sem ekki orðið léttari, en við höfum lag- að okkur að þessu, því fyrsta önnin fer í að ná áttum.“ „Þessi skóli er fyrst og fremst góður af því að það er ópera hérna,“ segir Steinarr og bætir því við að svið óperuhússins sé byggt eftir sömu teikningu og sviðið í Metropolitan-óperunni í New York, þótt óperan hér taki reyndar ekki líkt því eins marga í sæti. „Hér eru settar upp sex til átta óperur á ári og ekkert ti! sparað. Söngvarar og hljómsveitarmeðlimir eru allir nemendur í skólanum." Þetta gefur nemendunum ómet- anlegt tækifæri til að koma fram og vinna með reyndum hljómsveitar- stjórum og leikstjórum. En þó óperuhúsið sé svo stórt og glæsilegt að það mætti koma fyrir fjórum Þjóðleikhússviðum á sviði þess og baksviðum þá er ekki þar með sagt að aðbúnaður annar sé í samræmi við það. „Til dæmis fara sumar kennslu- stundirnar fram í búningsherbergj- unum í kjallaranum. Þar eru engin borð, ekki einu sinni þessi litlu borð sem eru áföst stólunum. Samt þarf mikið að skrifa í þessum tímum. Ekki er heldur þægilegt að taka próf undir tímapressu við þessar aðstæður. Þá keppast allir við klukkuna með prófblöðin á hnján- um,“ segir Anna. Áhuginn er mikill hjá Steinari en hann segist ætla að sjá til hvernig gengur næstu þrjú árin, það er að segja ef Guð og lánasjóðurinn lofa! „Ég verð að sjá hvort ég hef eitt- livað í þetta að gera,“ segir hann. „Tíminn veröur að leiða í Ijós hvað gerist," segir Anna líka, en hún bætir viö að það komi að því að það verði að láta reyna á hæfileikana fyrir alvöru. Það sé ekki nóg að vera efnilegur námsmaður allt sitt líf. „Menntun er samt sem áður aldrei sóun. Hvað sem þú verður i Iífinu hlýtur öll menntun að auka víðsýni, svo lengi sem þú lærir með opnu hugarfari." Þau Anna og Steinarr eru sem sagt komin hér út til að sjá hvað í þeim býr. Anna veit að hún getur alltaf snúið við í sveitina í Skaga- firði, hún er raunsæ og segir: „Bóndinn er alltaf á sínum stað.“ Steinarr er einnig raunsær þó hann segi um framtíðina að „án draums verði ekkert að veruleika“.

x

Pressan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Pressan
https://timarit.is/publication/298

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.