Vísir Sunnudagsblað - 10.08.1941, Blaðsíða 4

Vísir Sunnudagsblað - 10.08.1941, Blaðsíða 4
4 VÍSIR SUNNUDAGSBLAÐ Jón stórskáld er fullur, og staulast nú skjögrandi heim. Jón stórskáld er fullur, og konungur veglausra heima, Með vængsúgi arnarins svífur með stjarnþokusveim sál hans frá viðjiun, er upplituð jakkaföt geyma. Jón stórskáld er fullur, og stærstur með söngvurum þeim, er strengina knýja, svo englarnir fluginu gleyma. Jón stórskáld er fullur. — Hann styður sig| girðingar við og strýkur með þróttlausum fingrum að húsveggja nöfum. Flibbinn er glataður, — hatturinn hangir á snið; við hnésbætur kápuskaut vefst, líkt sem tjaldvoð að stöfum. Jón stórskáld er fullur. — Nú stillir hann gígjunnar klið við stormdyn og brimgný frá Ijósvakans ómælishöfum. Jón stórskáld er fullur og fjandanum gefur að leik þau fræði, er til veggengis ódrukkin jámennskan hyllir. Þá f jármuna- og valdleitni, er hylur sig hugsjónareyk og harðstjóm, sem byltingu þýmælskum áróðri gyllir. Jón stórskáld er fullur. — Við flöktandi vitundarkveik í flokkvilltra sæti hann listinni og snilldinni tyllir. Jón stórskáld er fullur, og stefjahreims voldugan óð frá strengjaleik guðanna nemur frá hyldjúpum þagnar. — í þynnkukvöl morgunsins hnoðar ’ann háttvana ljóð, sem hlægja þá skyggnu, — en glymtrúðsins loftunga fagnar. Jón stórskáld er séður, — og veit að með vitsmunaþjóð er væmnisgróf skjallblekking ráðið, sem frægðinni gagnar. Jón stórskáld er fullur sem stormgnýr um táldraumageim. Jón stórskáld er ófullur bragðslunginn hugsjónarefur. ölvaður kannar hann ómælis stjarnþokusveim. — Allsgáður smæð sína gjallandi játningum vefur. Hans líf er sem ómáttkur leiksoppur andstæðum tveim, er ljúga til nafns, þegar staðreyndin gjaldskila krefur. Tréskurðarmynd eftir Nínu Tryggvadóttur. Jón stórskáld er fullur. — Jón stórskáld var fullur í gær. Jón stórskáld er fullur svo vikum og mánuðum skiptir. Hví skyldi hann forðast þá örvun, er ölvíman ljær og andanum hátt yfir jarðneskar stritsálir lyftir ? — Sem stórskáld hann verður að halda sig heimi þeim fjær, er hlekkjandi kröfum og skyldum menn fluginu sviptir. Jón stórskáld er þjóðin í staðfærðri persónumynd er staulast með veggjum, — og guðanna hörpuslátt nemur. — Sem drukkinn af veigum frá oflætis óvizkulind gegn áleitni staðreynda sjálfsflugi blekkinga fremur, en raunsæi morgunsins heilsar svo hugreika og blind og háttlausan glymbrag til fróunar þynnkunni semur. Jón stórskáld er fullur. — Við strætið er húsalaust bil. Hann staðnæmist snöggvast — en oflangt mun veggjanna að bíða. Hví þagnar í skyndingi guðanna gullstrengjaspil, ef gægist fram lögmál, sem jarðbúinn neyðist að hlýða? Jón stóTskáld er fullur, — en staðreynd sú dugir ei til, er stuðninginn brestur. — Hann verður að falla, — eða skríða. Jón stórskáld er fullur, og skríður, sem sköp liggja til, en skynjar það vart, — enn sem fyr er hann ljósvakans gestur. í þögninni nemur hann guðanna gullstrengjaspil þó við götunnar leirpoll sé hljómgrunnur tæpast sem beztur. — Hvað gerir vort þjóðarstolt, gíni því húsalaust bil? Getur það skriðið, ef handfestu veggjanna brestur? — 'f

x

Vísir Sunnudagsblað

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísir Sunnudagsblað
https://timarit.is/publication/299

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.