Tíminn Sunnudagsblað - 31.10.1971, Blaðsíða 15

Tíminn Sunnudagsblað - 31.10.1971, Blaðsíða 15
húsið var fest niður með vírstöng- um. Þegar svo hryðjan skall á, fylgdu henni dunur og dynkir, og eldingum laust niður í stöngina. Bláir logarnir léku um vírana og lýstu upp snjóinn í kring. Við höfðum aldrei séð þetta fyrirbæri fyrr, en höfðum heyrt þess getið, svo og hvaða lögmálum það lyti. Okkur varð því strax léttara um andardráttinn og lögðumst örugg til hvíldar um kvöldið. — Rak þarna aldrei tundurdufl? — Jú, eitt að minnsta kosti. Og sjálfsagt hefur þau rekið fleiri, þótt maður yrði þeirra ekki var, því þarna koma mikil brim og stórviðri og alls konar hljóð fylgja slíkum hamförum, eins og þú veizt. Ég var einhverju sinni að koma vestan úr Súgandafirði í góðu veðri. Heyrði ég þá allt í einu þungan dynk, eins og af dýnamítsprengingu. Þegar ég kom heim, sagði konan mín mér, að annaðhvort hefði fallið stór skriða ur Öskubaknum — það er fjall austan við vitann — eða eitthvað hefði sprungið undir fjallinu. Sagði hún, að útihurðin á vitahús- inu hefði hrokkið upp á gátt og rúðurnar nötrað í gluggafölsun- um. Ennfremur hefðu kindurnar komið í loftköstum framan af dal og niður á tún. Okkur kom strax í hug, að þarna hefði tundurdufl verið á ferðinni, og litlu síðar fór ég inn undir Öskubak að svipast um. En ég varð einskis var. Seinna þetta sama vor var ég svo einu sinni inni í svokölluðum Þræðingum, sem eru þarna í fjall- inu um það bil tvö hundruð metra yfir sjó. Fann ég þar þá alls kon- ar járnadrasl, bæði smábrot og stór, og leyndi sér ekki, að þetta voru leifar af tundurdufli. — Þú nefndir þarna áðan kú og kindur. Varstu með búskap í vit- anum? — Já, lítils háttar. Það var ein kýr og þetta tíu til tuttugu kind- ur — svona rétt til matar. Ég var frumbýlingur og efnin vægast sagt af skornum skammti. Það var álit- ið, að jörðin bæri eina til tvæ'r kýr og fimmtíu til sextíu kindur, en ég var þar ekki svo lengi, að ég næði að koma upp slíkum þú- stofni. — Hvað tók svo við, þegar vita- varðarstarfinu lauk? — Vorið 1943 sagði ég lausu starfi mínu við vitann og fluttist til Suðureyrar við Súgandafjörð. Þar dvaldist ég svo til ársins 1945 og stundaði þá vinnu, sem til féll. Ég var landmaður við bátana á vetrarvertíð, en reri á færabátum á sumrin. í Súgandafirði var gott fólk, greint og hispurslaust. Þar var mikið félagslíf og sjaldan efnt til samkomu án þess að upplestur, gamanvísur eða leikrit væru með í spilinu. Var þá ekki alltaf skor- inn við neglur sér tíminn, sem í þann undirbúning fór, þótt í lang- flestum tilfellum væri aðeins um eina sýningu að ræða. Ég held, að í þessum efnum hafi Súgfirðingar verið samstilltari en flestir hinna þorpsbúanna á Vest- fjörðum, enda áttu þeir á að skipa mörgum góðum starfskröftum á þessu sviði. Minnist ég margra ánægjustunda, sem ég átti með þessu fólki, og vona, að það haldi uppteknum hætti, þótt tímarnir hafi breytzt og fjölmiðlar fylli nú sum þau rúm, sem fólkið sjálft skipaði áður fyrr. — Tókst þú ekki sjálfur þátt í þessu menningarlífi? — Víst komst ég ekki hjá því. — Manstu eftir einhverju sér- staklega umtalsverðu í sambandi við þessa starfsemi? — Ekki er það nú margt, enda varla við að búast. Þó minnist ég þess, að eitt árið var Ævintýri á gönguför sett á svið. Það var sýnt fjórum sinnum fyrir fullu húsi. Hugsaðu þér bara! Og þetta var í þorpi, sem taldi innan við fjögur hundruð íbúa. Það má vissulega segja, að þar skærist ekki nokkur maður úr leik, hvorki flytjendur né áhorfendur. — Hvert lá leiðin, þegar þú fórst frá Súgandafirði? — Haustið 1945 fluttist ég með fjölskyldu mína til ísafjarðar. Þar byggði ég okkur lítið hús rétt við urðarfótinn, og þar áttum við heima í tólf ár. Þegar þeim var lok- ið, fluttumst við til Réykjavíkur, og hér hef ég átt heima síðan. Fyrstu árin á ísafirði vann ég á vegum Ragnars Bárðarsonar við að steypa bryggjuker til hafnargerðar í Bolungarvík og víðar. En þetta var mestan part sumarvinna. Á vetrum stundaði ég hverja þá vinnu, sem til féll. Árið 1950 fór ég aftur að kenna og stundaði það starf næstu fjóra vetur. — Hvar var það? — Ég kenndi einn vetur norður í Steingrímsfirði og þrjá í Arnar- firði. Á báðum stöðunum var þetta farskóli. Annars var það nú ein- göngu fyrir beiðni vinar míns, Þór- leifs Bjarnasonar námsstjóra, að ég tókst þetta á hendur. Mér fann- t ég ekki vera nógu lærður til þers og ætlaði aldrei að fást til að tak i þetta að mér. Þó held ég nú, að allt hafi gengið stórslysalaust. En þegar þessi fjögur ár voru liðin, var atvinnuástandið á ísa- firði mjög tekið að batna. Settist ég þá aftur um kyrrt og fór að vinna við skipaviðgerðir hjá Mar- selíusi Bernharðssyni. Við þær vann ég, þangað til ég fluttist hingað suður. — Tókst þú ekki neinn þátt í félagsmálum á meðan þú bjóst á ísafirði? — Ég hef alltaf verið hlédræg- ur og ógjarn að ganga í félög. Þó komst ég ekki hjá að leggja ýms- um félagsskap lið. Var það eink- um í sambandi við samkomur. En eins og menn vita, hafa flest ís- lenzk góðgerða- og menningarfé- lög orðið að grípa til þess ráðs að halda ball eða tombólu, þegar þurft hefur að skrapa saman aura. Mín liðveizla var einkum í því fólgin að „troða upp“ á samkom- unum og dvelja fyrir fólki stund- arkorn. — Var það ekki gaman? — Jú — ojú, jú. Víst var það ekki svo leiðinlegt. Ég fékk alltaf gott hljóð — og það er fyrir miklu. — Hvað hefur þér annars þótt skemmtilegast um dagana? — Þessu er nú vandsvarað. Þó held ég, að það hafi verið þetta, sem við vorum að tala um: Að flytja eitthvert það efni, sem mér er sjálfum hugleikið. Það er, satt að segja, ákaflega heillandi, eftir að maður er einu sinni kominn á bragðið. — En segðu mér nú eitt, Harald- ur: Var ekki nein draugatrú eða önnur forneskja á Ströndum í upp- véxti þínum? — Ekki þar, sem ég þekkti til. Ef til vill hefur þó sumt gamalt fólk trúað á tilvist yfirnáttúrlegra afla, en unga fólkið lagði sig ekki eftir slíku — gerði jafnvel held- ur gys að því. Þó losnaði ég aldrei alveg við myrkfælnina. En ef mað- ur þóttist verða einhvers var, sem ekki varð skilið, vaknaði strax sú hugsun að kanna, hvað um væri T í M I N N SUNNUDAGSBLAÐ 807

x

Tíminn Sunnudagsblað

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn Sunnudagsblað
https://timarit.is/publication/301

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.