Lesbók Morgunblaðsins - 15.02.2003, Page 9
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. FEBRÚAR 2003 9
samfélagi við hina, upplifun nýrrar samkennd-
ar og skilnings. Augljósasta dæmið um þetta er
upplifun gjörninga á borð við poppkonserta
sem greinilega vekja oft og tíðum sterka sam-
kennd meðal unga fólksins.
Um leið og upplifun listar er ekki bundin við
hinn afmarkaða og einstaka listmun með sama
hætti og áður, þá er hún ekki lengur háð eða
bundin hinu skýrt afmarkaða rými safnsins eða
hinum gyllta ramma málverksins. Hún á sér
stað á götunni, í bílunum, úti í náttúrunni og
ekki síst í fjölmiðlunum, þar sem ekki bara
tískuvarningurinn er klæddur sínum fagur-
fræðilega búningi, heldur líka stjórnmálin og
stríðið svo dæmi séu tekin.
Það var ekki að ástæðulausu að Colin
Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna,
skyldi fyrirskipa að breytt yrði yfir málverk
Picassos af Guernicu í húsakynnum Sameinuðu
þjóðanna á meðan hann flutti heiminum „sann-
anir sínar fyrir nauðsyn og óhjákvæmileik
stríðsins“. Málverkið hæfði engan veginn hin-
um fagurfræðilega búningi þess stríðs sem ráð-
herrann var að boða umheiminum. Yfirbreiðsla
Guernicu var fagurfræðilegur gjörningur sem
staðfestir áhrifamátt myndlistarinnar um leið
og hann bendir okkur á að hin hefðbundna
hugmynd um að binda listina og listupplifunina
við safnið leiðir ekki til annars en einangrunar
listarinnar og útilokunar frá samfélagslegri
þátttöku.
Allt þetta skiptir máli þegar við hugleiðum
hlutverk og sýningarstefnu Listasafns Reykja-
víkur. Þetta eru spurningar sem skipta meira
máli en sú sem höfð var uppi á umræddum
fundi, að einræðisvald forstöðumannsins gæti
hugsanlega brotið í bága við samkeppnislög.
Það sem skiptir máli er inntak þess starfs sem
skipulagt er innan veggja safnsins, ekki hver
stjórnar því eða hversu margir.
Þegar búið er að klæða allt daglegt umhverfi
okkar fagurfræðilegum búningi og hin fag-
urfræðilega reynsla er orðin okkar daglega
reynsla hvar sem við förum, þá verður það
hlutverk safnsins að kallast á við þennan heim,
verða að einhverju leiti vettvangur hans og
þeirrar samfélagslegu reynslu og skoðana-
skipta sem í honum má finna, kalla fram and-
stæða póla og reyna að skerpa sýn okkar og
skilning á þessum veruleika sem verður æ
flóknari um leið og hann verður óraunveru-
legri. Það er jafnframt aðalsmerki þeirrar
myndlistar sem á erindi við safnrýmið að hún
takist á við þennan samfélagslega veruleika ut-
an safnveggjanna og veki safngestinn til um-
hugsunar og skoðanaskipta um þau fagur-
fræðilegu átakasvæði sem þar er að finna.
Stjórnun safnsins og mörkun sýningarstefnu
þess er ekki síst fólgin í greiningu þeirra fag-
urfræðilegu strauma sem takast á í samtím-
anum.
Í fyrrnefndri ritgerð Walters Benjamins
sagði hann að allar tilraunir til að klæða
stjórnmálin í fagurfræðilegan búning hefðu að-
eins eitt markmið: stríðið. Þetta var árið 1936
og Benjamin var með fagurfræði fasismans í
huga. Hann reyndist sannspár í þeim efnum
sem öðrum. Á þeim tíma var átakapunktur
hinna fagurfræðilegu gilda utan safnmúranna.
Hann fluttist smám saman yfir á vígvelli síðari
heimsstyrjaldarinnar. Margt bendir til að sam-
bærilegar aðstæður séu nú fyrir hendi í heim-
inum. Það er hlutverk safna um samtímalist
sem telja sig eiga erindi við samtímann að hafa
augun opin á kviku samfélagsins. Innkaupa-
stefna safnsins hlýtur líka að taka að einhverju
leyti mið af þessu. Áherslan flyst meðal annars
frá fagurfræðilegri formgerð listmunarins sem
slíks yfir í heimildasöfnun um þá fagurfræði-
legu reynslu, sem er til þess fallin að skerpa
sýn okkar og skilning á samfélagsveruleika
samtímans.
Tilvitnanir
[1] Sbr. Gianni Vattimo: Listasafnið og upplifun listar á
tímum póstmódernismans, birt í sýningarskránni „Speglar
samtímans“ sem Listasafn Íslands gaf út 1998. Grein
þessi, sem undirritaður þýddi á sínum tíma á íslensku, hef-
ur að geyma frekari útleggingu á mörgum þeim hug-
myndum sem hér eru viðraðar.
Stúlkurnar í Avignon eftir Pablo Picasso, 1907.
Höfundur er listfræðingur.
I
Miðvikudaginn 16. janúar 1991 liggur það í
loftinu. Einu sinni enn liggur það í loftinu þenn-
an kyrrláta vetrardag. Það logar á stefnuvit-
anum á Öskjuhlíð og við blasa ljósin í turni
Borgarspítalans þegar ég lít út um gluggann. Í
kristalsheimi norðursins loðir mjöllin við svart-
ar greinar, hylur stéttina og litar allt hvítt.
„Hvað boðar nýárs blessuð sól?“ var sungið
fyrir nokkrum dögum, en nú dynja á hlustum
okkar heitingar úr öllum áttum og sómakærir
og dagfarsprúðir borgarar vilja engu eira. Eld-
flaugarnar snúast í skotstöðu á pöllunum og
boðin þjóta eftir fjarskiptarásunum; á skjánum
sjáum við Bush undir þyrluspöðunum, Gorb-
atsjov við hljóðnemann, Saddam Hussein á
fundum herráðsins. Enn streymir olían úr lind-
unum og skriðdrekarnir skáskera ósýnilegar
götur fornra úlfaldalesta. Ég horfi á dagatalið;
nú er mörsugur samkvæmt Almanaki Þjóð-
vinafélagsins. Það heldur áfram að snjóa í
Kópavogi. Fimm mínútum eftir að sjöfréttir
hefjast nær síðdegisflóðið hámarki í Reykjavík.
Enn ala dúfurnar von í brjósti, en haukarnir
hafa betur. Kvöldið líður milli vonar og ótta.
Klukkan gengur uns komin er nótt. Skyndilega
eru tímabeltin gleymd og fjarlægðirnar þurrk-
aðar út. Hvítar örvar þjóta um skjáinn og hæfa
skotmarkið í rammanum. Örvadrífan þéttist:
tölvuleikurinn er hafinn með hjálp gervihnatt-
anna. „Djöfull var þetta flott, maður! Vá, sáuð
þið þetta?“ En á markaðstorginu liggja þau í
blóði sínu, hrokkinhærði snáðinn sem var að
bursta skóna, konan sem seldi ávextina og vafði
utan um þá stjórnarmálgagninu með mynd
landsföðurins, veitingamaðurinn Al Salím sem í
gær varð faðir í fyrsta sinn og kryddsalinn sem
var að teygja sig eftir voginni þegar allt varð
svart. Það hugsar enginn um þau; það hugsar
enginn um þig og mig. Allir eru að horfa á Bush
undir þyrluspöðunum á flötinni framan við
Hvíta húsið, Gorbatsjov með hattinn og val-
brána og Saddam Hussein sem situr í náðum í
upplýstu og loftkældu byrgi sínu og drekkur te
með herráðinu milli þess sem hann leikur frels-
arann framan við sjónvarpsmyndavélarnar:
„Leyfið börnunum að koma til mín …“ Um
sandana þýtur dauðinn. Særðir skríða drek-
arnir í skjól eða skella skoltum. Glyrnur þeirra
glóa. Mér koma í hug hálfgleymd nöfn: Efrat
og Tígris. Var ekki landið milli fljótanna á þess-
um slóðum … og hengigarðarnir og aldingarð-
urinn sjálfur, Eden? Paradís? Tölvuleikurinn
heldur áfram; í augum þeirra sem sitja óhultir
fyrir framan sjónvarpið heima í stofu víðsfjarri
vettvangi er eyðileggingin í hæsta lagi skjálist.
Olíulindirnar loga eins og kyndlar í eyðimerk-
urnóttinni. Það er fimmtudagurinn 17. janúar,
Antóníusmessa, þorratungl í suðri klukkan
14.53. Senn tekur að rökkva. Mjöllinni kyngir
niður í Kópavogi. Hér er allt kyrrt og Esjan
enn á sínum stað þegar ég geng út í logndríf-
una. Fyrir flestum okkar er fólk og fjarlægar
borgir Austurlanda ekki annað en nöfn úr guln-
aðri landafræði eða lasinni mannkynssögu sem
spjöldin eru dottin af: keisarinn í Kína, kalífinn
í Bagdað sem ég sé nú í hillingum ímyndunar-
innar eins og hjarðmaður úr fjöllunum sem
hvítt ljóshaf borgarinnar á sléttunni blindar svo
að hann sér ekki hvolfþökin og spírurnar og
gullinn hálfmánann. Í miðri muggunni og ljósa-
skiptunum fýkur eyðimerkursandurinn á haf
út. Þá birtist mér allt í einu höll þar sem ein-
hver stendur í bogagöngunum og hylur andlit
sitt í skugga súlnanna. Hvað ert þú að gera hér,
Sjerasade? Hvers vegna heldurðu ekki áfram
að segja sögurnar þínar úr Þúsund og einni
nótt eða dansa slæðudans á hallargólfinu við
hljóðfæraslátt geldinganna? Hún svarar engu
og er horfin jafnskjótt og hún birtist í flöktandi
bjarma eldanna frá logandi olíulindum eyði-
merkurinnar. Mjöllin magnar kyrrðina og hyl-
ur spor mín jafnóðum. Það heldur áfram að
snjóa í Kópavogi.
(1991)
II
Það er föstudagurinn 7. febrúar 2003 og ég
dreg aftur fram þessa óprentuðu tólf ára gömlu
ljóðmynd. Þrátt fyrir allt virðist hún ekki vera
orðin úrelt enn. Fyrsta mánudag í sumri 1937
létu þýskar flugvélar sprengjunum rigna yfir
bæinn Guernica í baskahéruðum Norður-
Spánar svo að sundraðir limir og stiknuð lík
huldust reyk og eldi meðan logaði í rústunum.
Þetta var sýnikennsla í eyðingartækni þeirrar
tíðar. Og brún augu Picassos loguðu líka af
harmi og heift meðan hann var að mála mynd
sína fyrir heimssýninguna í París. Og árin
liðu … Dresden, Auschwitz, Lidice, Sakhiet
Sidi Youssef, Mi Lai, Srebrenica … í Palestínu
og Ísrael halda hjaðningavígin áfram. Hversu
margir? Hve oft? Enn tekur myrkrið ekki á
móti ljósinu, enn er ofinn vefur darraðar og
margan grunar að nú sé að hefjast fyrsta stór-
styrjöld nýrrar aldar. Ráðvilltur hugur reika
víða … eins og vindurinn. Sumarið 1939 var
einmuna blítt en þessi vetur hefur verið kaldur
og hvimleiður báðum megin Atlantshafs. Hjá
okkur hafa umhleypingarnir tekið völdin eftir
óvenju milt haust. Vindurinn kemur úr ýmsum
áttum og blæs þar sem hann vill, það krapar og
frystir á víxl og birtir upp milli élja. Þessa
stundina er svo kyrrt í Kópavogi að ég heyri
ekki þyt vindsins þar sem ég sit yfir kaffibolla í
eldhúsinu og horfi út um gluggann meðan sagð-
ar eru fimmfréttir. Colin Powell og Negro
Ponte voru að senda út stríðsboðskap sinn úr
aðalstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
Það hefur auðvitað verið tilviljun að þeir stóðu
þar sem þeir stóðu en vegna myndatökunnar
þurfti réttan bakgrunn og því var af skyndingu
brugðið á það ráð að laga dálítið til og breiða yf-
ir frægt málverk. Um leið og ég heyri þetta rifj-
ast upp fyrir mér að Lára er nýbúin að aflýsa
árlegu ljóðakvöldi í Hvíta húsinu. Í Lundúnum
þóttu ekki heldur allar myndir í húsum hæfar
meðan Flóabardagi stóð sem hæst. Þá var hætt
við sýninguna „Dauðinn og listin“ í British
Museum og enn berst hingað ómurinn að vest-
an frá endurvarpsstöð Blairs í númer 10. Og nú
ætlum við meira að segja að vera með í leikn-
um! En þótt Guernica sé hulin „bláu tjaldi“
munu engin Pótemkíntjöld duga til að breiða
yfir sannleika lífs og listar með blekkingum og
áróðri. Nei, það er þarna allt, komið úr myrku
djúpi hugans, og heldur áfram að angra sam-
visku haukanna: skelfing stríðsins, sundrun
þess og afskræming, limlestir menn og dýr,
gapandi skoltar og ógnandi höggtennur, trylltir
hestar, bölvandi naut, krampateygjur og æp-
andi kvöl allrar skepnu sem engist í sprengj-
uregninu … Ég sit hugsi yfir kaffibollanum
mínum. Það er mörgum órótt og sumir með ol-
íublett á tungunni. Fjandvinirnir gömlu í Evr-
ópu þráast enn við að taka þátt í kúrekaleikn-
um, en hversu lengi? Hve lengi standast þeir
freistingu tölvuleikjanna? Hvað megna orð og
mótmæli á götum úti? Hvers mega sín ljóðið og
listin? Það skyldi þó ekki vera að endurlausn
hvors tveggja sé í því fólgin að fela málverk og
fella niður ljóðakvöld? Þannig sækja að mér
spurningar þótt færra verði um svör. Ég horfi
út um gluggann og heyri allt í einu þyt vindsins
þótt ég viti ekki hvaðan hann kemur né hvert
hann fer. Það er byrjað að dimma og slítur
nokkur snjókorn úr lofti í Kópavogi.
(2003)
Guernica eftir Pablo Picasso, 1937.
HEIMSSÝNING
DAUÐANS
E F T I R H J Ö RT PÁ L S S O N
Höfundur er skáld og þýðandi.