Lesbók Morgunblaðsins - 15.02.2003, Qupperneq 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. FEBRÚAR 2003 11
Er leyfilegt að hljóðrita símtal
án leyfis og útvarpa því svo?
SVAR: Spurningin er tvíþætt. Annars vegar er
spurt hvort leyfilegt sé að hljóðrita símtal án
leyfis. Hins vegar er spurt um hvort heimilt sé
að útvarpa slíku símtali.
Varðandi heimild til hljóðritunar á símtölum
þá segir í 44. gr. laga um fjarskipti: „Sá aðili að
símtali sem vill hljóðrita símtalið skal í upphafi
þess tilkynna viðmælanda sínum um fyrirætlun
sína.“ Með þessu er mælt fyrir um meginreglu
varðandi hljóðritun símtala. Alla jafna þarf því
að tilkynna viðmælanda um hljóðritun símtals,
hins vegar er ekki þörf á samþykki viðmælanda.
Markmiðið er því að hljóðritun fari ekki fram án
vitneskju hlutaðeigandi aðila og þannig sé frið-
helgi einkalífs manna tryggð.
Hins vegar koma fram undantekningar frá
meginreglunni í þessari sömu 44. gr. laga um
fjarskipti, 4. og 5. mgr. Þar kemur fram að ekki
þarf að tilkynna sérstaklega um upptöku sam-
tals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé
kunnugt um hljóðritunina. Þá kemur fram að
opinberum stofnunum sé heimilt að hljóðrita
samtöl sem þeim berast þegar slík hljóðritun er
eðlilegur þáttur í starfsemi stjórnvalds og nauð-
synleg vegna þjóðar- og almannaöryggis.
Undantekningarnar frá meginreglunni voru
lögfestar með lögum nr. 29/2001 sem sett voru
síðar en meginreglan sjálf. Ástæða þess að und-
antekningarnar voru lagðar fram á þingi var sú
að meginreglan var talin geta verið of víðtæk, til
dæmis með tilliti til hljóðritana lögreglu, blaða-
manna, fórnarlamba persónuofsókna og fjár-
málastofnana.
Að því er varðar fyrri undantekninguna þá
þjónar hún þeim tilgangi að koma til móts við
fyrirtæki sem hljóðrita samtöl, þegar það er
eðlilegur þáttur í rekstri þeirra. Þetta getur átt
við um fjármálafyrirtæki þar sem samtöl geta
verið grundvöllur samninga. Þá kemur und-
antekning þessi til móts við fréttamenn og þol-
endur ofsókna.
Álit samgönguráðherra, flutningsmanns
lagafrumvarpsins, og meirihluta samgöngu-
nefndar á ákvæðinu er það að einföld tilkynning
nægi svo telja megi að viðmælanda sé kunnugt
um hljóðritun, til dæmis almenn tilkynning fjöl-
miðils og tilkynning fórnarlambs ofsókna í eitt
skipti fyrir öll að hljóðritun eigi sér stað.
Að því er varðar seinni undantekninguna þá
þjónar hún þeim tilgangi að koma til móts við
stofnanir eins og lögregluna og Neyðarlínuna.
Hins vegar eru sett þau skilyrði að bæði sé um
að ræða eðilegan þátt í starfsemi stjórnvalds
sem og nauðsynlegan vegna þjóðar og almanna-
öryggis. Því verða að teljast líkur á því að heim-
ildin nái allajafna aðeins til stofnana sem gæta
öryggis almennings og þjóðar en ekki annarra
stofnana.
Þó að heimilt geti verið að hljóðrita samtöl,
þá ber þeim sem slíkt gera að hafa í huga
ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs,
sem og almenna löggjöf um persónuvernd og
meðferð persónuupplýsinga.
Svarið við fyrri hluta spurningarinnar ræðst
því af aðstæðum. Ef viðmælanda er tilkynnt að
hljóðritun eigi sér stað þá er almennt ekki þörf
á beinu samþykki hans á því að hljóðritun fari
fram, enda má segja að áframhaldandi þátttaka
hans í samtalinu jafngildi samþykki í verki.
Seinni hluti spurningarinnar lýtur að því
hvort útvarpa megi símtali. Leggja ber áherslu
á að niðurstaðan ræðst af efni símtalsins sem og
því hvort upptaka var heimil.
Við útvarp ber sá sem flytur efni í eigin nafni
ábyrgð á því. Því ber að gæta að reglum um
friðhelgi einkalífsins og persónuvernd. Telja
verður líklegt að óheimilt sé að útvarpa upptöku
sem er gerð í heimildarleysi. Hins vegar er ekki
víst að heimilt sé að útvarpa upptöku þrátt fyrir
að hún sé löglega til komin.
Þá ræður efni upptökunnar því hvort heimilt
sé að útvarpa henni. Í því sambandi er rétt að
vekja athygli á 229. gr. almennra hegningarlaga
nr. 19/1940 sem hljóðar svo: „Hver, sem skýrir
opinberlega frá einkamálefnum annars manns,
án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi, er
réttlæti verknaðinn, skal sæta sektum eða fang-
elsi allt að einu ári.“
Jón Elvar Guðmundsson héraðsdómslögmaður.
Er til álfamál?
SVAR: Í Miðgarði Tolkiens má finna tvö álfa-
mál.
Annars vegar er hið forna álfamál Quenya
(nafnið merkir ’mál’ á álfamálinu) en það tala
meðal annars Galadríel og Trjáskeggur (Fan-
gorn) (sjá til dæmis Hringadróttinssaga III,
249). Stundum er það kallað háálfamál eða Eld-
arin. Það er orðið tiltölulega sjaldgæft þegar at-
burðir Hringadróttinssögu eiga sér stað en þess
sér stað bæði í mannanöfnum (til dæmis nöfn-
um konunga Arnor, Gondor og Númenor) og
örnefnum. Dæmi um tungumálið er í Hringa-
dróttinssögu I, 388:
Ai! laurië lantar lassi súrinen,Yéni únótimë
ve rámar aldaron!Yéni ve lintë yldar avániermi
oromardi lisse-miruvóreva Andúnë pella. Vardo
tellumarnu luini yassen tintilar i eleniómaryo
airetári-lírinen.
Sindarin er yngra en Quenya, notað meira og
tekur hraðari breytingum. Það er stundum kall-
að gráálfamál og er einkum talað af skógarálf-
unum en raunar einnig talsvert af the Rekk-
unum (nafn þeirra, Dúnedain, er dæmi um
Sindarin). Nafn Aragorns er fengið úr Sindarin
en nafn hans á Quenya er Elessar. Langflest
„álfanöfn“ sem notuð eru í sögunni eru úr Sind-
arin (til dæmis öll sem byrja á Sele-). Dæmi um
tungumálið er í Hringadróttinssögu I, 250:
A Elbereth Gilthoniel, silivren penna mírielo
menel aglar elenath! Na-chaered palan-dírielo
galadhremmin ennorath, Fanuilos, le linnathon-
nef aear, sí nef aearon!
Álfarnir í Miðgarði skiptust í tvennt, háálfa
(Eldar) og gráálfa eða skógarálfa. Þeir fyrr-
nefndu tala Quenya en hinir tala Sindarin. Sum-
ir skógarálfanna, til dæmis Galadriel drottning í
Lorienskógi og Thranduil konungur í Myrkviði
(faðir Legolasar), eru þó háálfar, en flestir
þegnar þeirra skógarálfar.
J.R.R. Tolkien var sérstakur unnandi margra
tungumála, þar á meðal finnsku og velsku.
Ljóst er að hljóðfræði Sindarin sækir margt til
velsku en flókin nafnorðabeyging Quenya bygg-
ist á finnsku. Tolkien sjálfur lét einmitt svo um
mælt að Silmerillinn væri sprottinn úr finnsku
en sjálfur var hann meðal annars unnandi
finnska söguljóðsins Kalevala.
Ármann Jakobsson bókmenntafræðingur.
Er klónun manna lögleg á Íslandi, þekkist fíkn hjá
dýrum og hver fann upp handboltann? Þessum
spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á
Vísindavefnum.
VÍSINDI
HLJÓÐRITUN
SÍMTALA?
Í
BLÖÐUNUM um daginn var mynd af
tólf manna stjórn sem hafði sett á stofn
súkkulaðisjoppu til að bjarga þjóðar-
verðmætum. Stjórnin sat kotroskin við
borð og bak við gluggatjöldin sást að
bakhjarlarnir földu sig, sennilega af
einskærri hógværð. Stjórnin gerði sér
vonin um að þjóðarverðmætin mundu
lafa á horninu einsog venjulega þegar þeim er
bjargað og þannig hægt að búa til lafafrakka.
Það merkilega var að stjórnin hafði öll sömu
andlitin og við nánari skoðun sást að hvert and-
lit hafði tvö andlit. Það andlit er kallað konan í
þessari sögu til einföldunar.
Öðru megin í andliti konunnar var draum-
lynd stúlka, sakleysið uppmálað en hinumegin
eldri kona með sektarsvip sem hún breiddi yfir
með hvössu yfirbragði. Kannski voru þetta
lánsandlit en þau geta skotið svo djúpum rót-
um að fólk nær aldrei að sýna sitt rétta andlit.
Það er helst á hættustundum að það gerist.
En það kviknaði saga um prinessu sem sat
alla daga við tjörn og horfði á svan á tjörninni
og það mátti ekki tala við hana, þá truflaðist
hún. Einn daginn heyrði hún hvin í lofti og sá
að hún hafði höggvið höfuðið af svaninum.
Hvað hef ég gert? orgaði prinsessan en þegar
hún fór að rökræða svona við sjálfa sig heyrði
hún rödd sem sagði að hún væri saklaus og hún
hefði höggvið höfuðið af svaninum af þeirri
ástæðu að hún væri orðin hundleið á þessu
svanskjaftæði. Prinsessunni rann kalt vatn
milli skinns og hörunds og heyrði ekki betur en
hún hefði búið til Norn í sjálfa sig. Nornin skip-
aði henni að hætta öllum heimspekilegum
vangaveltum, hún væri saklaus og gæti haldið
áfram að horfa á svaninn. En það er enginn
svanur, skrækti Prinsessan. Búðu hann þá til,
hvæsti Nornin á móti. Og Prinsessan bjó til
nýjan svan en allt fór á sömu lund, Nornin hjó
hausinn af svo blóðsletturnar gengu í allar áttir
og fiðrið þeyttist langar leiðir. Prinsessan var
ekki beinlínis orðin frýnileg. En Nornin játaði
sök sína og hvað hún væri leið á þessu en Prins-
essan gæti búið til nýjan svan og það gerði hún.
Einn daginn var svanurinn orðinn svo rænu-
laus að hann hengdi haus og Prinsessan að
sama skapi þreytuleg, drafandi á tjarnarbakk-
anum: Hvað á ég að gera? Hífðu upp hausinn
og horfðu á hann, hreytti Nornin út úr sér.
Prinsessan gerði það en ekki leið á löngu uns
Nornin lét höfuðið fjúka. Loks var svanshöf-
uðið farið að hanga ofan í tjörnina og Prins-
essan hálfdottandi á tjarnarbakkanum og
meira að segja Nornin svo leið að hún nennti
ekki lengur að höggva hausinn af. Búðu til
tippi, sagði hún þá. Ég veit ekki einu sinni hvað
það er, sagði Prinsessan en Nornin útskýrði
það. Allt fór á sömu leið og með svaninn og
Prinsessan örmagnaðist á tjarnarbakkanum og
sofnaði svo fast að það var engu líkara en hún
væri dáin og kannski var hún dáin. En Nornin
starði á hana, viðbúin því ef hún vaknaði, það
var djöfulóður glampi í auganu og kannski var
hún djöfullinn. En tippið maraði í hálfu kafi,
tjörnin blóðrauð og fiðruð og yfir öllu vofðu
dauðinn og djöfullinn.
Ekki var víst að þetta væru andlit konunnar
en svona geta lánsandlitin þróast og orðið
gríma á hinu rétta andliti og lokað fyrir upp-
sprettuna sem hver og einn á fyrir sig. Ef þetta
var konan var deginum ljósara að hún var í
þeirri klemmu að geta hvorki búið neitt til né
eyðilagt það. Það var svo nokkrum dögum eftir
að myndin birtist í blaðinu að kona þessi var í
ræðustól í þúsund ára gömlum sal að flytja
ræðu. Hún horfði dreymandi ofan í blöðin svo
erfitt var að greina orðaskil en þegar líða tók á
mátti greina þessi þrjú orð stærsti dráttur ís-
landssögunnar. Þar sem fáir voru í salnum og
röddin lág og ógreinileg lá beinast við að halda
að þetta væri einhver ómerkilegur dráttur, til-
dæmis dráttur á íslandssögunni þannig að hún
stæði í stað, eða gengi jafnvel afturábak eða að
svo stór blettur hefði komið á hana að strokast
hefði yfir hana að einhverju leyti en svo var þó
ekki því konan var einfaldlega að tala um drátt
á einhverju samningaborði. Það var ekki víst að
þessi þjóð sem hafði haft mök við álfa, seli og
huldufólk, og hvort sem var í brunagaddi eða á
mosaþembu í eldgíg, yrði uppveðruð þótt kon-
an í félagi við derhúfuframleiðendur hefðu
skakað til borði svo blekið skvettist úr penn-
unum og blöðin feyktust í allar áttir.
Það virtist líka fylgja þessum ræðustól að
enginn gat stigið í hann án þess að vera óðara
farinn að veifa íslandssögunni einsog blautri
tusku framan í þúsund ára gamalt fólkið sem bjó
utan við salinn. Talað var um stærsta hitt og
þetta íslandssögunnar einsog hægt væri að lesa
það af bókum og án skilnings á því að íslands-
sagan er í mesta lagi fáein brot einsog kona drap
barn sitt í læk og heyrðust þrjú hljóð í lofti í því
að lækurinn litaðist rauður eða barn fór á milli
bæja og kom ekki fram eða varð úti á víðavangi.
Einnig mátti anda að sér sögunni því golan
geymdi stunur og hóstakjölt sem hún skilaði
stundum mörgum öldum seinna. Eins var um
skellihlátur eða niðurbældan grát. Og þótt þetta
þúsund ára gamla fólk hefði skrifað nokkra róm-
ana og lifað af nokkrar hraunelfur þá var engin
saga í því heldur blákaldar staðreyndir. Sagan
er alltaf á milli manna, í augnaráði, raddblæ,
handabandi, fjarlægð eða nálægð, þar rís hún og
hnígur.
En hafi konan verið lágróma og andlitið
dreymandi fóru að renna á hana tvær grímur og
eitthvað að togast á í andlitinu svipað og hún
væri að rökræða við sjálfa sig og þætti þetta svo
óskaplega leiðinlegt að önnur eins leiðindi hefðu
ekki leitað uppá yfirborðið. Orðin toguðust út úr
henni þegar hún sagði að þetta væri stærsta fró-
un þjóðarinnar. Að því marki sem íslandssagan
er til er hún auðvitað saga þjóðarinnar svo þetta
gátu verið rök í málinu. En einsog fyrri daginn
var útlit fyrir að konan hefði ekki glóru um
hvaða reynslu þjóðin hefði í þessum efnum.
Menn höfðu dottið ofan í gjótu á leið í verið og
áttu engan annan kost meðan dauðinn ákallaði
þá, menn sem biðu þess að gæfi á sjó eða meðan
mál þeirra velktist fyrir dómstólum, meðan þeir
lásu ættartölurnar í njálu, keyrðu hvalfjörðinn
eða lentu í þeirri seigdrepandi pínu að þurfa að
slökkva á farsímanum, konur fastar í hugmynd
um hinn eina rétta, eða áður þegar þær sátu í
festum ef þær gátu komið hendinni við. Þetta
þúsund ára gamla fólk vissi því ósköp vel hvað
það gat.
En af þessum leiðindasvip konunnar mátti
ráða að þessi þúsund ára gamli salur væri orðin
sjoppa þar sem hangið væri með veggjum. Og
konan eitthvað að dingla sér meðan hún beið eft-
ir að komast heim, fitla við sælgætið eða kannski
lesa í gömlu sjoppuriti og fletti í því fram og aft-
ur af einskærum leiðindum. Samt hafði ræðan
verið auglýst sem hennar sérstaka númer enda
skellti hún skyndilega aftur bókinni á orðunum
orðstír deyr aldregi og dembdi því yfir landslýð-
inn að auðvitað vissi hún hvernig þjóðin hefði
beðið dauðans og djöfulsins í þúsund ár og ekk-
ert annað við að vera en gera það sjálf. En þeir
væru nú loksins komnir og þau tímamót handan
við hornið að þjóðin þyrfti ekki að gera það sjálf,
það stæði til að fróa henni í hennar nafni. Sjálf
ætlaði hún að ríða á vaðið, opna lúgu á sjoppunni
og stinga sér út til að leyfa fyrst djöflinum að
toga í og síðan dauðanum.
Á þessu andartaki rann það upp fyrir konunni
að hún var tippi. Henni fipaðist svo að hún ham-
aðist um stund á þessu stærsta íslandssögunnar
en gerði sér um leið grein fyrir að sál hennar
hafði flúið í svaninn og síðan í tippið til að losna
undan rökræðum Prinsessunar og Nornarinn-
ar. Sjálf væri hún tjörn eða uppspretta sem
speglaði hennar rétta andlit og hún yrði að
kynnast án þess að líma á sig ævintýrafígúrur
sem í mesta lagi voru til skemmtunar en ekki
persónuleikabreytingar. Það var semsagt runn-
in upp hættustundin og hennar eigin rödd sagði
hættu á stundinni. En þar sem rökræðugöngin
voru hrunin fannst henni hún þyrfti að rífa af
sér andlitið svo blóðið slettist í allar áttir eða rífa
blöðin og láta þau þyrlast í loftinu en fannst hún
þá skolast burt með jökulfljóti og lemjast milli
gljúfraveggja og vissi að hún þyrfti bara að trúa
salnum fyrir því að hana langaði mest af öllu til
að horfa ofan í tjörnina sína, og jafnvel gretta
sig og geifla einsog þjóðin hafði skemmt sér við
frá aldaöðli. En hún var svo hrædd við að gera
sig að fífli að hún gerði sig að fífli sem hún hélt
að dauðinn og djöfullinn mundu slíta upp enda
gerðu þeir það. Hún stirðnaði upp og lamaðist í
senn og þekkti bara eina leið út úr því ástandi
sem var að redda þessu einhvernveginn. Hún
greip í einu orðin sem hún mundi úr ræðunni
sem voru lúga á sjoppunni, einsog þau væru
einu orðin í heiminum og svo upphófst einhver
himnaríkisdella um stærsta bissniss sjoppunn-
ar. Enginn vissi hvaða bissniss þetta var því hún
minntist ekki orði á þrjár merkur silfurs í njálu,
marsjallaðstoðina, genaaðstoðina, afborganir af
sófasettum, hlutabréfakaupin í stók eða von næt
stand in reykjavík. En bunaði óðamála út úr sér
og eftir því móð og másandi að þetta væri
súkkulaðisjoppa og þareð búið væri að selja alla
súkkulaðifiskana og súkkulaðikindurnar væri
ekkert eftir nema selja súkkulaðifossana. Til
þess þyrfti að selja súkkulaði-íslandið. Ef eitt-
hvað færi úrskeiðis væri til mótleikur, það var
að bræða meira súkkulaði og selja súkkulaði-
frontinn þótt það væri viðbúið að hann mundi
bráðna af í þessu helvíti. Hún sagðist hafa mis-
mælt sig, það væri sjoppustjórn. En það skipti
ekki máli, hún vissi að fyrir utan hlykkjuðust
langar raðir sem vildu kaupa súkkulaðifossana.
En konan gerði sér ekki grein fyrir að þjóðin
stóð til hliðar við biðröðina, þangað sem henni
hafði verið ýtt og var ekki sein á sér að grípa
sína fossa. Enda var þessi þjóð of veðurbarin til
að hægt væri að hjúpa hana súkkulaði.
HRINGA-
VITLEYSUSAGA
E F T I R E L Í S A B E T U J Ö K U L S D Ó T T U R
Höfundur er rithöfundur.