Lesbók Morgunblaðsins - 01.03.2003, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. MARS 2003
U
NDIR lok tíundu aldar námu
norrænir menn frá Íslandi
land á vesturströnd Græn-
lands, reistu sér bú og
bjuggu þar, að því er virðist
af fornminjum, í ágætu yf-
irlæti í tæpar fimm aldir. Af
einhverjum ástæðum lagð-
ist þessi byggð norrænna manna af um miðja
fimmtándu öld, og allar götur síðan hafa menn
reynt að ráða í hvernig það gat gerst að sam-
félag sem taldi að líkindum um 1.500 til 2.000
manns að meðaltali hvarf sporlaust af yfirborði
jarðar. Í gegnum tíðina hafa ýmsar tilgátur ver-
ið settar fram af sagnfræðingum, fornleifafræð-
ingum og fleiri vísindamönnum. Ein er sú, með
tilvísun í þjóðlegar sagnir Grænlendinga, að
byggð norrænna manna hafi lagst af eftir átök
við inúíta. Flestir síðari tíma fræðimenn eru
sammála um að sú skýring geti engan veginn
talist fullnægjandi og fleiri ástæður hafi komið
til, svo sem kólnandi veðurfar, erfiðari lífsskil-
yrði og hugsanlega farsóttir (Lynnerup, 2000:
289–294; Thisted, 2001: 253).
Í þessari grein verður rakinn þráður þriggja
helstu þjóðsagna Grænlendinga um samskipti
og átök inúíta við norræna menn á miðöldum,
og að því búnu dregnar saman túlkanir tveggja
fræðimanna sem hafa nýlega fjallað um þessar
sagnir í ritgerðum. Það eru danska fræðikonan
Kirsten Thisted og íslenski þjóðfræðingurinn
Valdimar Tr. Hafstein, en niðurstaða beggja er
í meginatriðum sú að sagnirnar, sem voru
skráðar á 18. og 19. öld, veiti ekki innsýn í sam-
skipti inúíta og norrænna manna á miðöldum,
en séu hins vegar góð heimild um viðhorf sam-
tíma síns til fortíðarinnar og varpi ljósi á sam-
skipti inúíta á 18. og 19. öld við Evrópumenn
(Valdimar Tr. Hafstein, 2002: 474; Thisted,
2001: 253).
Þá verður í lokin rædd stuttlega sögn sem
sker sig mjög úr öðrum af sama tagi og þeirri
spurningu velt upp hvort hugsanlegt sé að af
henni megi fremur en öðrum draga ályktanir
um sannsögulegan kjarna.
Skráningarsagan og sagnirnar
Árið 1721, þegar meira en þrjár aldir voru
liðnar frá því að síðustu rituðu heimildir um líf
norrænna manna á Grænlandi voru skráðar,
sigldi þangað danski trúboðinn Hans Egede í
leit að afkomendum hinna norrænu í þeim til-
gangi að kristna þá. Þegar engir slíkir fundust
sneri hann sér að innfæddum og þar með upp-
hófst nýlendusaga Grænlands hin síðari. Egede
spurðist mjög fyrir um sagnir um afdrif þeirra
norrænu meðal inúíta og skráði nokkrar slíkar,
og lét getið í reisubókum sínum. Fyrsta skipu-
lega söfnun þjóðsagna á Grænlandi hófst þó
ekki fyrr en upp úr miðri 19. öld, þegar Henrik
Rink, inspektor og æðsti embættismaður kon-
ungs á Grænlandi, sendi um Vestur-Grænland
hvatningu til fólks um að skrá niður þjóðsagna-
arf sinn og skreyta með myndum ef mögulegt
væri (Petersen, 2000: 342-343).
Afraksturinn af þeirri söfnun var þjóðsagna-
safnið Eskimoiske Eventyr og Sagn sem náði
mikilli útbreiðslu og var upphaflega gefið út í
fjórum heftum sem urðu mjög vinsæl, og áttu
mikilvægan þátt í að móta sjálfsmynd Græn-
lendinga sem þjóðar (Thisted, 2001: 255).
Þær þrjár sagnir sem hér verða raktar eru
hvað þekktastar meðal Grænlendinga samtím-
ans og hafa orðið grunnur að samsettri sögn
sem öll grænlensk börn læra í skóla. Þær er að
finna í breytilegum tilbrigðum og gerðum í
þjóðsagnasafni Rinks, en hér verður aðeins
stiklað á stóru yfir söguþræði þeirra, sem á síð-
ari tímum hafa verið fléttaðir saman í eina
heild, og fylgt útdrætti í ritgerð H.C. Petersen í
bókinni Vikings: The North Atlantic Saga (Pet-
ersen, 2000: 343–345).
Fjall bogaskyttunnar
Í gamla daga, segir sagan, þegar Grænland
var enn mjög dreifbýlt, sigldi umíak (kvenna-
bátur) úr suðri og kom þar að sem í dag er Nu-
uk, höfuðstaður Grænlands en á miðöldum var
Vestribyggð norrænu landnemanna. Þegar
innst var komið í nyrðri fjörðinn sá fólkið í bátn-
um sér til undrunar stór steinhús á mörgum
stöðum, og hitti þar fyrir ókunnugt fólk sem tal-
aði framandi mál og hafði aðra siði. Báturinn
sigldi burt og fólkið bar þessa fregn til annarra,
sem komu einnig að sjá þá ókunnugu, en allt var
það með friðsamlegum hætti. Smám saman
lærðu hóparnir tveir hvor annars mál og vin-
átta varð þeirra í milli.
Í byggðinni Kapisillit urðu tveir ungir menn,
Grænlendingur og norrænn maður, nánir vinir
og þreyttu oft með sér keppni í bogfimi. Dag
einn stakk sá norræni upp á að þeir myndu
breiða úr hreindýrsskinni á lítilli eyju og fara
síðan upp á hátt fjall og reyna að skjóta þaðan
örvum sínum á skinnið. Þeim sem ekki tækist
að hitta markið yrði hrint fram af fjallsbrún-
inni. Grænlendingnum leist ekkert á skilmál-
anna en sá norræni hélt fast við hugmynd sína
og á endanum samþykkti Grænlendingurinn
hana, fyrir hvatningarorð fleiri norrænna
manna.
Margir, bæði Grænlendingar og norrænir
menn, fylgdu vinunum upp á fjallið. Sá norræni
skaut fyrst af boga sínum og hitti ekki skinnið á
eynni, en það gerði hins vegar sá grænlenski.
Sá norræni gekk þá fram á klettasnösina og
samlandar hans hrintu honum fram af fjallinu.
Allt frá þeim degi hefur fjallið verið kallað Pis-
issarfik, sem þýðir fjallið þar sem skotið er af
boga (Petersen, 2000: 343–344).
Navaranaaq, stúlkan
sem olli illdeilum
Síðar var ung grænlensk stúlka að nafni
Navaranaaq ráðin til starfa sem vinnustúlka
hjá norrænni fjölskyldu. Þegar nokkur tími
hafði liðið byrjaði þessi stúlka að bera róg á
milli eigin fólks og hinna. ,,Norrænu mennirnir
ætla að slátra ykkur,“ sagði hún við ættfólk sitt.
Og við þá norrænu sagði hún: ,,Grænlending-
arnir eru mög reiðir við ykkur.“ Í fyrstu tók
enginn mark á henni en þar sem hún hélt upp-
teknum hætti þá fóru þeir norrænu að leggja
trúnað á orð hennar og ákváðu að vera fyrri til
að gera árás. Sumardag nokkurn, þegar Græn-
lendingarnir voru á hreindýraveiðum, réðust
þeir norrænu á byggð þeirra og myrtu alla sem
þar voru, konur og börn, en einni konu tókst að
sleppa lífs og segja karlmönnunum hvað gerst
hafði þegar þeir komu heim af veiðunum (Pet-
ersen, 2000: 344).
Norræni höfðinginn Uunngortoq
Grænlendingarnir urðu að vonum mjög reið-
ir, sérstaklega maður sem hét Qasape, en kona
hans og börn höfðu öll verið drepin. Qasape
ferðaðist um og leitaði að öflugum angakoq
(galdramanni). Hann fann einn slíkan að lokum
og undirbjó hefndarárás. Í því skyni gerði hann
sérstakan umíak, sem hægt var að skipta í tvo
hluta á siglingu og klæddi bátinn ljósum og
dökkum skinnum þannig að hann virtist frá
landi vera óhreinn ísjaki. Hann fór ásamt fé-
lögum sínum í þessum báti að leita hinna nor-
rænu og fann þá í syðri Nuuk-firðinum þar sem
þeir höfðu safnast saman heima hjá höfðingja
sínum að nafni Uunngortoq. Þeir norrænu
höfðu menn á verði og þegar þeir sáu ísjaka-
bátinn nálgast komu margir út til að fylgjast
með honum. Mennirnir um borð leyndust undir
skinnunum og Qasape bað nú angakoqinn að
magna galdur sinn til að halda þeim norrænu
innandyra. Hann gaf síðan skipun um að bátn-
um skyldi skipt. Þegar hlutarnir tveir skildust
að og rak undan vindi hvorn frá öðrum töldu
norrænu mennirnir sig vera að horfa á ísjaka og
fóru allir inn aftur, einnig þeir sem höfðu verið
á verði.
Með þessu móti komust Grænlendingarnir
óséðir að bænum. Þegar Qasape leit inn sá hann
mennina við spilamennsku, og að þeir spiluðu
um höfuð eiginkonu hans, sem höfðinginn hafði
sett á stöng. Qasape skipaði þá mönnum sínum
að bera eldivið að dyrum bæjarins og kveikja í.
Þeir norrænu menn sem reyndu að flýja út úr
brennandi bænum voru drepnir með örvaskot-
um, allir utan einn: Höfðingjanum Uunngortoq
tókst að hlaupa frá bænum með ungan son sinn
í fanginu. Qasape elti Uunngortoq og þegar fór
að draga saman með þeim kyssti Uunngortoq
son sinn og varpaði honum frá sér í stöðuvatn
sem hann hljóp framhjá. Eftir það gat hann
hert hlaupin og sloppið undan Qasape. Önnur
gerð sömu sögu segir frá því að Qasape hafi síð-
ar meir náð fram hefndum á Uunngortoq, sem
áður hafði drepið bróður hans, og limlest hann á
sama hátt og sá norræni hafði limlest bróðurinn
(Petersen, 2000: 344–5).
Ekki fyrr en eftir þessi víxlmorð átta Græn-
lendingarnir sig á því hvernig illdeilurnar hóf-
ust að undirlagi hinnar illgjörnu Navaranaaq,
og verða henni mjög reiðir. Henni er refsað
með því að bundið er með selsskinnsþvengjum
um hendur hennar og hárhnút, og hún dregin
eftir jörðinni. Aftur og aftur spyrja mennirnir
hana: ,,Navaranaaq, ertu nú ánægð?“ Hún
jánkar því ákveðið, en á endanum hafa þeir
dregið af henni bakið og hún svarar ekki lengur
þegar hún er spurð. Eftir þetta, segir sagan,
voru engir norrænir menn lengur í Nuuk-fjörð-
unum (Petersen, 2000: 345).
Túlkun fræðimanna:
Kirsten Thisted
Í grein sinni On Narrative Expectations:
Greenlandic Oral Tradition about the Cultural
Encounter between Inuit and Norsemen rekur
Kirsten Thisted ítarlega skráningarsögu þjóð-
sagna um samskipti inúíta og norrænna manna
og færir út frá henni ýmis rök fyrir þeirri nið-
urstöðu sinni að enda þótt sögurnar geti engan
veginn talist heimild sem veiti innsýn í sann-
sögulega atburði í samskiptum þjóðanna
tveggja, þá leiði greining þeirra í ljós að þær
hafi frábært heimildagildi um samskipti inúíta
og Evrópumanna á Grænlandi á 18. og 19. öld
(Thisted, 2001: 252).
Hún vísar fyrst og fremst til skrifa fornleifa-
fræðingsins Jette Arneborg varðandi óáreiðan-
leika sagnanna í sögulegu samhengi. Arneborg
hefur mótmælt þeirri aðferð að túlka fornminj-
ar í ljósi ritaðra heimilda og nota þær til þess að
renna stoðum undir kenningar sem hafa að út-
gangspunkti heimildir sem ritaðar voru mörg-
um öldum eftir að atburðir áttu að hafa átt sér
stað. Arneborg vísar þar meðal annars til
Grænlandslýsingar Ívars Bárðarsonar frá
miðri 14. öld, en þar segir að skrælingjar ráði
nú yfir Vesturbyggð en við eftirgrennslan Ívars
hafi þar hvorki fundist kristnir menn né heiðn-
ir, aðeins fénaður og nautgripir á beit. Augljóst
er að klausa í lýsingunni um að Ívar hafi farið til
Vesturbyggðar til að reka skrælingja þaðan á
brott er seinni tíma viðbót, segir Thisted, og
hefur að líkindum verið bætt inn í textann í
byrjun 16. aldar, en elsta handritið sem varð-
veist hefur er skrifað upp á þeim tíma (Thisted,
2001: 272).
Thisted tekur undir þá niðurstöðu Jette
Arneborg að uppruna þeirrar kenningar að
norrænum mönnum hafi verið útrýmt á Græn-
landi í átökum við inúíta sé ekki að leita í sjálf-
stæðri sagnahefð miðalda heldur í ímyndinni af
hinum fjandsamlega inúíta sem til varð í evr-
ópskri sagnahefð 16. aldar. Arneborg vísar þar
fyrst og fremst til áhrifa skjals sem kennt er við
Claudius Clavus frá árinu 1420 og er skrifað í
Róm (Thisted, 2001: 273).
Clavus þessi segir frá því að Grænland sé
skagi úr óþekktu landi í norðri landföstu við As-
íu. Grænland sagði hann að væri undirlagt af
herskáum ,,kareli infideles“ sem streymi þang-
að úr norðri. Hugsanlegt er að það sé tilvísun í
skrælingja Íslendingasagnanna, sem Leifur
heppni og félagar rákust á á Vínlandi hinu góða.
Enda þótt Clavus væri ekki kortagerðarmaður
voru mörg landakort byggð á lýsingum hans á
norðlægum löndum jarðarinnar og bréfið hafði
því víðtæk áhrif við mótun myndar Evrópu-
manna af Grænlandi miðaldanna (McNaugh-
ton, 2000: 262).
Arneborg bendir einnig á að við fyrstu eft-
irgrennslan Hans Egede, trúboðans sem kom
til Grænlands árið 1721 í leit að afkomendum
norrænna manna, þá gátu innfæddir ekkert
sagt honum með neinni vissu um afdrif þeirra.
Sumir héldu að þeir hefðu dáið úr hungri, aðrir
að þeir hefðu drepið hver annan, og enn aðrir að
forfeður inúítanna hefðu drepið þá. Egede segir
frá þessum mismunandi svörum í lýsingu sinni
á Grænlandi árið 1729, en í bókinni sem hann
gaf út árið 1741 fullyrðir hann hins vegar að
Grænlendingarnir hafi staðfest gamlar sögur
um að þeir norrænu hafi verið drepnir í átökum
við forfeður þeirra. Með því að rýna í dagbækur
Hans Egede og sonar hans Poul fann Arneborg
þess skýr merki að þeir höfðu í samtölum sínum
við Grænlendinga sí og æ vikið talinu að þeirri
hugmynd að forfeður þeirra hefðu drepið nor-
ræna íbúa Grænlands. Hún kemst því að þeirri
niðurstöðu að Egede hafi í raun plantað sög-
unni um samskipti og átök inúíta og norrænna
manna í vitund innfæddra, þannig að sögur
þeirra beri fremur vitni evrópskri sagnahefð
17. aldar en raunverulegri hefð inúíta frá mið-
öldum (Thisted, 2001: 274).
Við þessi rök Jette Arneborg bætir Thisted
nokkrum frá eigin brjósti og rekur dæmi um
þekkt þjóðsagnaminni sem notuð eru aftur og
aftur í mismunandi sögum og aðferðir munn-
legrar sagnahefðar til þess að vekja tilætluð
áhrif meðal hlustenda. Þar má nefna að í einu
afbrigði sögunnar um Uunngortoq segir svo frá
að þegar norrænn höfðingi, kallaður Olav hinn
mikli, kom heim af selveiðum, eftir að Qasape
og félagar höfðu lagt eld að húsi hinna norrænu,
þá hafi hann hlaupið svo hratt að selurinn sem
hann dró á eftir sér hafi kastast til og frá. Þessi
lýsing er stöðluð þegar sterkum mönnum er
lýst í þjóðsögum Grænlendinga, og mörg dæmi
eru um sams konar orðalag í sögnum af tornit
þjóðinni, innlendingunum hættulegu sem voru
aðeins hálfmennskir (Thisted, 2001: 275).
Annað minni, sem er sérstakt fyrir sögur af
þeim norrænu, er ísjakabátur Qasapes, og það
víkur athyglinni að nýlendutímanum að mati
Thisted. Hún telur að lýsing hans eigi sér rætur
að rekja því að inúítar byrjuðu að nota segl á
umíaka sína eftir að þeir sáu segl á skipum Evr-
ópumanna, og þannig teiknaði grænlenski lista-
maðurinn og sagnaritarinn Aron frá Kangeq
einmitt bát Qasapes (Thisted, 2001: 276).
Sagan um stúlkuna Navaranaaq sem kemur
af stað stríðinu á milli inúíta og norrænna
manna er þekkt flökkusögn, sem þekkist einnig
víða meðal eskimóa í Kanada. Þar kemur Nav-
aranaaq ekki af stað átökum inúíta við norræna
menn heldur við indjána og ýmsa aðra ,,útlend-
inga“, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Hen-
rik Rink var meðvitaður um þessa staðreynd
því honum barst ein slík gerð sögunnar frá
norðurhluta Grænlands, þar sem andstæðing-
arnir voru tornit þjóðin og önnur frá Labrador
þar sem andstæðingarnir voru indjánar. Rink
„ERTU NÚ ÁNÆGÐ,
NAVARANAAQ?“
Á miðöldum settust norrænir menn frá Íslandi að á
vesturströnd Grænlands. Um miðja fimmtándu öld
lagðist þessi byggð af en hún taldi hátt á annað þús-
und manna. Ástæðurnar eru ekki ljósar en sumir hafa
haldið því fram að átök við inúíta hafi valdið eyðingu
byggðarinnar. Í þessari grein verður rakinn þráður
þriggja helstu þjóðsagna Grænlendinga um sam-
skipti og átök inúíta við norræna menn á miðöldum.
E F T I R V I L B O R G U D AV Í Ð S D Ó T T U R