Lesbók Morgunblaðsins - 01.03.2003, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 1. MARS 2003
SANNKALLAÐIR stórtónleikar verða
haldnir í Langholtskirkju á morgun kl. 16,
þegar þar stíga á stokk tveir kórar, Há-
skólakórinn og Vox Academica. Hátt í
hundrað kórmeðlimir flytja hið þekkta og
fallega verk, Gloria, eftir Antoni Vivaldi,
ásamt kammersveitinni Jón Leifs Camme-
rata. Konsertmeistari er Sigrún Eðvalds-
dótir og einsöngvarar þær Sigrún Hjálmtýs-
dóttir og Sesselja Kristjánsdóttir. Að auki
flytja kórarnir Little Requiem eftir Tavener
og Miserere eftir Allegri, Sigrún Hjálmtýs-
dóttir syngur Ave Maria eftir Acini og Vo-
calisu eftir Rachmaninov. Í lokin frumflytur
svo kvennadeild kórsins Um nóttina ég svíf
eftir Szymon Kuran sem leikur einleik á
fiðlu í verkinu.
Þetta mun vera í þriðja sinn sem kórarnir
halda stórtónleika af þessu tagi en í fyrra
fluttu þeir Carmina Burana og hlutu mikið
lof gagnrýnenda fyrir. Stjórnandi kóranna
er Hákon Leifsson og spurður um tilefni tón-
leikanna segir hann þá tækifæri til þess að
gefa kórunum tveimur verðugt verkefni til
þess að takast á við. „Kórarnir hafa sína
sjálfstæðu efnisskrá og tónleikahald allt árið
en það er gaman fyrir þá að takast á við
ögrandi verkefni sem eru ólík því sem þeir
eru annars að fást við,“ segir hann. „Það
fylgir því svo mikil hvatning fyrir kórmeð-
limina.“
Opinn félagsskapur
Nú voruð þið með Carmina Burana í fyrra
en Gloriu Vivaldis í ár. Hvað er það sem
ræður förinni þegar þú velur verk fyrir
svona stóra tónleika?
„Ég reyni að velja verkin þannig að þau
séu bæði gefandi og vænleg til árangurs og
auðvitað verða þau að henta kórunum vel.
Þetta eru kórar sem hafa starfað mikið und-
irleikslaust og því ögrandi fyrir þá að takast
á við verk þar sem heil kammersveit leikur
undir. Þetta er hluti af þeirri ákvörðun
minni að hafa starfsár þeirra tvískipt, ann-
ars vegar að takast á við verk sem eru flutt
undirleikslaust – og hins vegar verk þar sem
unnið er með hljóðfæraleikurum. Þannig tel
ég mig ná meiri fjölbreytni í starfsemina –
og það er bæði skemmtilegra fyrir mig og
kórmeðlimina.“
Nú á Háskólakórinn sér langa sögu en
Vox Academica er kannski minna þekktur
kór. Hvaðan kemur hann?
„Um helmingur þeirra sem syngja í Vox
Academica hefur sungið í Háskólakórnum,
aðrir hafa komið héðan og þaðan. Þetta er
opinn félagsskapur en ekki nein frímúr-
araregla. Háskólakórinn er hins vegar að
mestu skipaður nemendum úr Háskóla Ís-
lands þótt vissulega séu undantekningar frá
því.“
Hvað geturðu sagt mér um verkin sem
flutt verða á tónleikunum?
„Fyrsta verkið, Gloría eftir Vivaldi, er
ítalskt barrokverk, dýrðarsöngur – og klass-
ísk perla. Vivaldi var tónlistarstjóri í
kvennaklaustri sem skýrir það kannski
hvers vegna einsöngsraddirnar eru skrif-
aðar fyrir konur. Ég var sannfærður um að
þetta væri verðugt verkefni fyrir kórana,
vegna þess að fyrir utan það að vera góð
tónlist hentar það mjög vel ungum röddum –
eins og eru í Háskólakórnum.
Síðan frumflytjum við verk eftir Szymon
Kuran sem hann samdi við texta sem dóttir
hans skrifaði. Þetta er ákaflega fallegt verk,
samið fyrir kvennakór og eiginlega ein-
kennilegt að það skuli ekki hafa verið flutt
fyrr. Að vísu hefur Szymon leikið það á fiðl-
una, með píanói og segulbandi.
Requiem eftir Tavener er 20. aldar verk
og er það sem menn eru farnir að kalla
„mystiska“ tónlist 20. aldarinnar. Þau tón-
skáld sem fylla þann hóp eru mjög trúuð og
taka mið, í sínum tónsmíðum, af kaþólskum
kirkjusöng og þessum mystisku aldagömlu
hefðum. Og fyrst að Sigrún Hjálmtýsdóttir
er að syngja með okkur var ekki annað
hægt en að gefa okkur smáþrill með tveimur
aríum sem hún syngur.“
Að ná saman hreinum tóni
Hákon hefur stjórnað Háskólakórnum síð-
astliðin tíu ár, að frátöldum tveimur árum
sem hann tók sér frí til að stunda framhalds-
nám. En hann hefur verið óslitið með kórinn
síðastliðin þrjú ár. Vox Academica er hins
vegar aðeins átta ára og byrjaði smátt. „Við
vorum aðeins fimm sem byrjuðum með hann
fyrir átta árum, segir Hákon og bætir því
við að kórinn hafi dafnað vel á þeim árum.
Hvað er það sem laðar fólk í kórstarf í
eins stórum stíl og gerist hér á landi?
„Við erum svo viðkvæm hvert fyrir öðru
hér og sífellt að metast og ég held að fólk
þurfi hvíld frá því. Í kórstarfi ertu bara að
syngja; þar leggjast allir á eitt að ná saman
hreinum tóni. Svo er bara svo yndislegt að
syngja, einkum fallega tónlist. Sem dæmi
um hvað söngurinn gefur mikið þá fór ég
fyrir nokkrum árum með kór í æfingabúðir
úti á landi. Við æfðum allan daginn, fram að
kvöldmat. Svo var tekinn góður tími í að
borða – og eftir matinn hélt fólk áfram að
syngja.“
DÝRÐAR-
SÖNGUR
TVEGGJA
KÓRA
Morgunblaðið/Jim Smart
Háskólakórinn á æfingu. „Í kórstarfi ertu bara að syngja; þar leggjast allir á eitt að ná saman hreinum tóni,“ segir Hákon Leifsson stjórnandi.
Háskólakórinn og Vox Academica verða með stórtónleika í Langholtskirkju á sunnudaginn,
ásamt einsöngvurunum Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Sesselju Kristjánsdóttur. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR
ræddi við Hákon Leifsson, stjórnanda kóranna, um starfsemi þeirra og efnisskrá.
ÓLAFUR K. Magnússon – Fyrstu 20 árin á
Morgunblaðinu, nefnist sýning sem verður
opnuð á neðri hæð Gerðarsafns í Kópavogi í
dag kl. 15. Á sama tíma verður opnuð árleg
sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands á
bestu myndum liðins árs í sölunum á efri
hæðinni.
Á sýningunni með verkum Ólafs gefur að
líta tuttugu myndir frá jafnmörgum árum
en Ólafur var ljósmyndari Morgunblaðsins í
hálfa öld, frá 1947 til ársloka 1996 en þá lét
hann af störfum sjötugur að aldri. Ólafur
lést tæpu ári síðar.
Ólafur K. Magnússon var fyrsti Íslending-
urinn sem lærði fréttaljósmyndun og fyrst-
ur til að gera fagið að ævistarfi. Eftir nám í
ljósmyndun og kvikmyndagerð í New York
og Hollywood var Ólafur ráðinn að Morg-
unblaðinu, þar sem hann var um árabil eini
fasti ljósmyndarinn.
Ólafur hafði lag á að fanga afgerandi
augnablik fréttnæmra atburða í ljósmynd-
um sem hann undirbyggði með næmri form-
rænni skynjun. Þá hafði Ólafur öll bestu
einkenni góðs fréttamanns og lagði oft og
tíðum á sig ómælt erfiði við að koma sem
vönduðustum ljósmyndum fyrir augu les-
enda Morgunblaðsins. En Ólafur tók ekki
bara fréttamyndir. Hann sinnti öllu því sem
þurfti að mynda fyrir blaðið og í afar um-
fangsmiklu myndasafni hans eru margar
perlur; svo sem myndir af merkum lista-
mönnum, myndir sem tengjast íslenskri
flugsögu og myndir af mannlífinu.
Björn Jóhannsson, fulltrúi ritstjóra Morg-
unblaðsins, skrifaði um Ólaf látinn: „Ólafur
hafði sérlega næmt auga fyrir hlutverki
ljósmyndarinnar, hvort sem um var að ræða
fréttamyndir, náttúrulífsmyndir eða svip-
myndir af fólki. Reykjavíkurmyndir hans
eru merk heimild um þróun borgarinnar á
tímum mikilla umbyltinga og enginn ljós-
myndari annar á jafnmikið safn mynda úr
bæjarlífinu.“ Björn bætir við að Ólafur hafði
verið „einstakur ljósmyndari og á því leikur
ekki nokkur vafi, að með snilld sinni í ljós-
myndun braut hann blað í íslenzkri blaða-
mennsku“.
Í áratugi var Ólafur áhrifamikill kennari
þeirra ljósmyndara sem ráðnir voru að
Morgunblaðinu og störfuðu þar við hlið
hans. Einn lærisveina Ólafs, Ragnar Ax-
elsson, segir: „Óli var sérfræðingur í frétta-
myndum og sífellt reiðubúinn að miðla af
kunnáttu sinni. Hann lagði áherslu á að ljós-
myndarinn sæi fyrir sér, um leið og hann
væri að mynda, hvernig myndirnar kæmu út
á síðum blaðsins. Hvert væri sterkasta
augnablikið í keðju atburðanna. Að lesendur
blaðsins fengju ætíð sem besta yfirsýn yfir
atburðinn í einni eða tveimur hnitmiðuðum
myndum. Þannig vann Óli, reyndi ætíð að
setja sig inn í aðstæðurnar enda var hann
einstaklega næmur fyrir fréttnæmum at-
burðum; einn mesti fréttamaður sem þessi
þjóð hefur átt.“
Myndirnar á sýningunni endurspegla
mörg helstu viðfangsefni Ólafs á þessum
tíma; fréttamyndir, portrett af þekktum
sem óþekktum einstaklingum og svipmyndir
úr þjóðlífinu.
Fjölda ljósmynda eftir Ólaf má í dag
skoða og kaupa á Myndasafni Morgunblaðs-
ins á mbl.is. Á liðnum misserum hefur um-
talsverð vinna verið lögð í að gera mynda-
safn hans aðgengilegt um leið og vel hefur
verið búið um það. Á netinu eru í dag tæp-
lega 5.000 myndir eftir hann, flestar frá átt-
unda áratugnum en á komandi árum stend-
ur til að innskönnuðum myndum fjölgi jafnt
og þétt.
Sýningin sem opnuð verður í Gerðarsafni
í dag er sú fyrsta sem unnin er upp úr safni
Ólafs en ætlunin er að halda fleiri sýningar
á verkum hans á komandi árum.
MANNLÍFIÐ UM MIÐJA ÖLD
Morgunblaðið/Ólafur K.Magnússon
Ólafur Thors, forsætisráðherra, á sjötta áratugnum.
Morgunblaðið/Ólafur K.Magnússon
Aðgerð við Reykjavíkurhöfn um 1950.