Lesbók Morgunblaðsins - 08.03.2003, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 08.03.2003, Blaðsíða 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. MARS 2003 C HARLES Ross, tónskáld og tónlistarkennari, leggur nú lokahönd á mastersritgerð sína við tónsmíðadeild Dartington College of Art í Englandi. Ritgerðin fjallar um tónlistarhefð þess fólks sem mjög er náið landi sínu og náttúru og speglar hljóð hennar inn í ætt- bálka- og helgisiðatónlist. Morgunblaðið hitti Charles eftir litríka þjóðlagatónleika á Egilsstöðum, þar sem nemendur hans við Tónlistarskóla Aust- ur-Héraðs fluttu ásamt fleirum austur-evrópsk þjóðlög fyrir á annað hundruð gesta. Charles kennir á fiðlu og rafmagnsgítar við tónlistarskólann, auk tónmenntar og tónsmíða og er búsettur á Eiðum. Hann er enskur að uppruna en ólst upp í Skotlandi og nam tónlist og tónsmíðar við Royal Scottish Academy of Music í Glasgow og Dartington College of Art í Suðvestur-Englandi. Charles hefur vakið athygli fyrir nýstárleg tónverk sem hann samdi fyrir austfirska tónlistarhópinn Stelkinn. Hafa þau m.a. verið flutt á Myrkum músíkdögum í Reykjavík. Charles segir tónlist sína samda út frá „kaosi“ náttúrunnar. „Það er hræðilegt að spyrja tónskáld að því hvernig tónlist hann skrifi,“ segir Charles kíminn, „en til að reyna að útskýra má segja að tónlistin mín sé þverstæð og óstöðug í eðli sínu. Ég tek mjög einföld form, margfalda þau og læt skarast, uns úr verður óreiða með lagskiptri innri reglu. Tónlistin rekst á við sjálfa sig og gerir innbyrðis tilraunir, þenst út og dregur sig saman á tilviljanakenndan hátt. Takturinn er í óreiðu og marg- faldur innan um sig og tónarnir renna og drjúpa.“ Charles segist forðast að skrifa menningarbundna tónlist. „Mín tónlist er ómenningarleg, þ.e.a.s. hún ber ekki sérstakri þjóð eða landi merki. Hvernig er sú tónlist sem ekki er tengd menningu? Það er persónuleg tónlist sem er algerlega þín. Ef þú kafar nógu og djúpt í sjálfan þig finnurðu ef til vill eitthvað sammannlegt, sem aðrir skilja af eðlishvöt.“ Hefðbundin hljóðfæranotkun tekin úr samhengi Charles notar að mestu leyti hefðbundin hljóðfæri sem tengj- ast ákveðnum tónlistarhefðum, en leitar aðferða til að nota hljóðfærin á óvenjulegan hátt til að brjóta þessi tengsl. „Þegar ég skrifa tónlist velti ég fyrir mér innbyrðis stöðu hljóðfæranna og staldra við skrítnar staðsetningar. Í þverstæðunni milli ómenningarlegrar tónlistar og hljóðfæranotkunar annars veg- ar og 500 ára menningarlegs og fastskipaðs hlutverks hljóð- færa og tónlistarhefðar verður til vandamál sem gaman er að leika sér að,“ segir Charles. „Ég var að flytja verk í London ný- lega og þá kom til mín maður sem var mjög hrifinn og sagði að það væri gaman að heyra verk eftir það sem hann kallaði „New Complexity“ tónskáld. Svo kemur annar á hæla hans og segir að það sé sérlega eftirtektarverk að heyra svona „síðmínimal- ískt“ tónverk. Líklega má finna þetta hvort tveggja í tónlistinni minni, en bara í óvenjulegu samhengi.“ Charles lýkur rannsóknum sínum og skilar mastersritgerð- inni í lok apríl. Um sama leyti mun hollenska hljómsveitin The Barton Workshop flytja tónverk eftir hann við Dartingtonskól- ann í Englandi og segir Charles áhuga á að hljómsveitin flytji verkið einnig hér heima en fjármagn skorti enn sem komið er. TÓNLISTARLEG ÓREIÐA MEÐ INNRI REGLU Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir Charles Ross, tónskáld og tónlistarkennari á Egilsstöðum, sem- ur tónlist sem hann líkir við reglubundna óreiðu náttúrunnar. J ÓHANNES Geir listmálari opnar sýningu í Húsi málaranna á Eið- istorgi í dag kl. 14. Rúm tuttugu ár eru síðan Jóhannes hélt síðast eig- inlega einkasýningu á nýjum verk- um en á sýningu í Ásmundarsal fyrir sex árum var á ferðinni mynd- röð byggð á sögu Skagafjarðar á sturlungaöld unnin að undirlagi Sauðárkróks- bæjar, fæðingarbæjar Jóhannesar. Litprent- uð bók um þá sýningu er væntanleg og verður til sölu í Húsi málaranna á sýningartímanum. Jóhannes segir að í mikilli vinnutörn fyrir sturlungaseríuna hafi hann eyðilagt í sér nýr- un með þeim afleiðingum að hann er nú tengdur við nýrnavél þrisvar í viku í fjórar klukkustundir hvern dag. „Ég lenti í Örlygs- staðabardaga 800 árum of seint og tapaði þar báðum nýrunum,“ segir Jóhannes. Hann segir þó að sér hafi hlaupið kapp í kinn í veikind- unum og tvíeflst í málverkinu. Það hafi verið eins konar hefndarráðstöfun sín gagnvart sjálfum sér. „Það erfiðasta við að eldast er að maður fer að vinna í kapphlaupi við tímann. Það er kom- in að manni sú hugsun að maður er ekki ódauðlegur. Það er kannski líka skýringin á því að ég málaði aldrei meira en fyrst eftir að ég veiktist; tvöfalt eða jafnvel þrefalt á við það sem ég hafði nokkurn tíma gert.“ Því til vitnis eru 15 myndir sem urðu út- undan við upphengingu sýningarinnar en að- eins 68 verk komust fyrir í þremur sölum gallerísins. Kann birtuna utan að Á sýningunni eru bæði olíumálverk og olíu- krítarmyndir en Jóhannes segir menn hafa haft á orði að hann væri bestur í olíukrítinni. Myndefnið er að mestu sótt út fyrir borg- armörkin. Margar myndir af fólki og dýrum úti í náttúrunni prýða sýningarsali en stund- um bregður Jóhannes upp svipmyndum úr bæ eða borg, meðal annars af skipum við bryggju, en hann hefur málað ótal slíkar myndir í gegnum tíðina. Það sem maður tekur strax eftir í verkum Jóhannesar er birtan í myndunum, en lista- maðurinn virðist kunna að galdra fram tilfinn- ingaríkt birtustig í málverkum sínum. Að- spurður um birtuna segist hann kunna hana utan að enda hafa menntun og áralöng reynsla gert hann að fagmanni í málverkinu. „Ég er óskaplega viðkvæmur fyrir birtu. Ég kann utan að alla hluti; alla liti og birtu og mismunandi stemningar, en þó aðallega í Skagafirði, sem ég kann algjörlega utan að. Þetta hafði ég ekki þegar ég var yngri. Fjallið er kolblátt eftir rigningu og litir í hrauni og grasi skýrast allir upp. Þetta er eins hvar sem er á landinu.“ Eltu mig í gegnum 16 íbúðir Þó að myndirnar á sýningunni séu allt að fjörutíu ára gamlar, merktar ’64 t.d., er ekki þar með sagt að þær séu ekki nýjar. Jóhannes segist hafa gripið myndir úr geymslu til að klára fyrir sýninguna og unnið í þeim. „Ég rifjaði upp gamlar myndir sem voru ókláraðar og búnar að elta mig í fjölda ára, í gegnum 16 mismunandi leiguíbúðir í Reykjavík,“ segir Jóhannes og bendir á Reykjavíkurmynd úr Skuggahverfinu. „Þessi þarna með gula hús- inu er búin að elta mig í 30 ár, eða frá því að ég bjó á Bergþórugötunni. Ég stakk hausnum út um þakgluggann og málaði. Þegar ég lá eitt sinn sem oftar í vélinni niðri á spítala átt- aði ég mig á að líklega væri stílruglingur í myndinni sem truflaði mig. Húsin voru öll unnin í pasteltækni en himinninn var massífur eins og einkennir olíuliti, þannig að ég tók mig til og málaði húsin í sama stíl og him- ininn.“ Myndin sem Jóhannes ræðir hér um hefur nokkra sérstöðu á sýningunni þar sem hún er mun dramatískari en hinar og meiri drungi hvílir yfir. „Það er illviðri í nánd,“ segir Jó- hannes, en bætir síðan við eftir stutta þögn; „Ragnar í Smára sagði eitt sinn að ég væri líklega dramatískasti málari sem uppi hefur verið á Íslandi.“ Á sýningunni eru eingöngu fígúratíf verk enda hefur Jóhannes Geir lítið málað af af- strakt málverkum. Hann segist aldrei geta sleppt mótífinu. „Frásagnarþörfin er svo mik- il. Eins og hjá rithöfundum.“ LENTI Í ÖRLYGSSTAÐABAR- DAGA 800 ÁRUM OF SEINT Morgunblaðið/Halldór Kolbeins Jóhannes Geir listmálari. „Ég kann Skagafjörðinn algjörlega utanað.“ Morgunblaðið/Halldór Kolbeins Jóhannes Geir listmálari sýnir 68 málverk og krítarmyndir á sýningunni í Húsi málaranna.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.