Lesbók Morgunblaðsins - 07.06.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 07.06.2003, Blaðsíða 11
hefði líklega þvælst nokkuð fyrir samtíma- mönnum hans og e.t.v. valdið því að mat þeirra á verkum hans væri ekki fordómalaust. Þá beindi Pétur athyglinni að bókinni Bréf til Sólu og þeirri mynd af Þórbergi sem þar birtist alls óvænt og í andstöðu við fyrri hugmyndir manna um Þórberg Þórðarson. Þarna birtist Þórberg- ur aumur og auðmjúkur, jafnvel trúaður – svo sannarlega mynd af Þórbergi sem fellur ekki að gervi háðfuglsins og æringjans sem margir töldu sig þekkja. Þannig geta nokkur bréf um- bylt skilningi manna og mynd af skáldi og verk- um þess – og vafalaust ekki enn öll kurl komin til grafar í tilviki Þórbergs. Þegar málþingsgestir höfðu gætt sér á lumm- um og kleinum með kaffinu var þinginu fram haldið og tók þá til máls Helga Jóna Ásbjarn- ardóttir, sem lesendur Þórbergs þekkja betur undir nafninu Lilla Hegga. Erindi hennar nefndist að sjálfsögðu „Sobbeggi afi og Mamm- agagga“ og sagði Helga Jóna þar frá kynnum sínum af þeim þeim hjónum Þórbergi og Mar- gréti. Það var bæði fróðlegt og skemmtilegt að heyra aðalpersónu Sálmsins um blómið segja frá í eigin persónu og kom frásögn hennar þing- gestum oft til að hlæja. Helga Jóna sagði m.a. frá því að frá 8 ára aldri hefði hún fylgt Sobb- eggi afa á afmæli rússnesku byltingarinnar sem haldið var hátíðlegt á Hótel Borg og einnig hefði hún í mörg ár farið með þeim Mömmugöggu í veislu til Kristins E. Andréssonar á Þorláks- messu. Þar hefði Þóra, kona Kristins, leyst sig út með þjóðbúningadúkku að gjöf á hverju ári. Þá var líka skemmtileg frásögn Helgu Jónu af því þegar hún fylgdi Þórbergi og Margréti í Suðursveitina árið 1969. Þórbergur hafði með- ferðis „Þorláksdropa“, en svo kölluðu þau Mar- grét vínið sem þau brugguðu til margra ára í kjallaranum á Hringbraut 145, og á leiðinni austur stoppaði Þórbergur við hvern læk og kvaddi hann með tveimur sopum af Þorláks- dropum. Mömmugöggu leiddist mjög þófið og bað hann að hætta: „Þú verður blindfullur þeg- ar þú kemur að Hala!“ En Þórbergi varð ekki haggað, „Það gerir ekkert til. Nú ræð ég,“ ku hann hafa svarað. Helga Jóna sagði að þarna hefði Þórbergur talið sig vera í sinni hinstu för til æskustöðvanna og viljað kveðja almennilega! Eins og lesendur Þórbergs vita var hann mikill áhugamaður um orðasöfnun og örnefni og þessum þætti starfs hans voru einnig gerð skil á málþinginu. Frá Orðabók Háskólans kom Guðrún Kvaran og fjallaði um orðasafn Þór- bergs sem varðveitt er á Orðabókinni í sex köss- um en til stendur að fara að koma því í rafrænt form og verða þá hægari heimatökin við rann- sókn á því. Frá Örnefnastofnun kom Svavar Sigmundsson og gat hann þess að flest vandmál örnefnafræðinnar kæmu við sögu í skrifum Þór- bergs um efnið og margar skemmtilegar skýr- ingar væri að finna hjá honum á örnefnum. Svavar tiltók nokkur dæmi þar um og höfðu gestir gaman af. Vésteinn Ólason, forstöðumað- ur Stofnunar Árna Magnússonar, hafði með sér nokkrar upptökur úr fórum safnsins þar sem heyra mátti í þeim bræðrum Þórbergi og Stein- þóri fara með kvæði og segja frá. Þórbergur hermdi þar eftir nokkrum kunnum persónum, meðal annars Oddnýju Sveinsdóttur í Gerði, sem var hans sagnabrunnur í æsku. Aftur fengu þinggestir kaffihressingu og síð- an bauð Hjörleifur Guttormsson þeim í ferðalag um Suðursveit í máli og myndum. Hjörleifur varpaði á skjá ljósmyndum sem hann hefur tek- ið á ferðum sínum um Suðursveit og fjallaði um hina stórkostlegu náttúrufegurð sveitarinnar. Þá las hann textabrot upp úr Suðursveitarbók- um Þórbergs þar sem við átti, en Þórbergur gerir staðháttum og náttúru Suðursveitar ein- staklega góð skil í þeim bókum. Svipaðan hátt- inn á höfðu þau Þorbjörg Arnórsdóttir og Fjölnir Torfason daginn eftir þegar gestum var boðið í gönguferð um slóðir Þórbergs og var leiðin vörðuð textabrotum úr Suðursveitarbók- unum. Að lokinni myndasýningu Hjörleifs var bor- inn fram þjóðlegur kvöldverður, heimareykt hangikjöt með öllu tilheyrandi og ávaxtagraut- ur í eftirmat. Það var þó síður en svo að dagskrá málþingsins væri lokið því strax eftir að gestir höfðu sporðrennt síðasta bitanum var komið að því að heimamenn blönduðu sér í umræðuna og frá sjónarhóli undirritaðrar var þáttur þeirra bræðra Fjölnis og Zophaníasar Torfasona rús- ínan í pylsuendanum. Fjölnir flutti erindi um „Gamla Stein“, föðurafa Þórbergs, sem hann taldi að hefði haft meiri áhrif á Þórberg en nokkur annar. Fjölnir rakti ættir Steins aftur í fortíð og brá upp ógleymanlegri mynd af hörð- um lífskjörum fólksins sem bjó í fátækt og ein- angrun í afskekkum sveitum Íslands fyrr á öld- um. Þá er ekki síður ógleymanleg mynd hans af Gamla Steini og sambandi þeirra Þórbergs. Fjölnir endaði erindi sitt á að segja sögu að því þegar hann sá framliðinn mann fyrir utan skemmuna á Hala þegar hann var drengur og auðvitað vel við hæfi að hafa eina sanna drauga- sögu með á þingi um Þórberg Þórðarson. Zophanías Torfason las upp lungann úr frá- sögn Þórbergs af því þegar hann var óléttur, úr Bréfi til Láru, við mikinn fögnuð þinggesta. En saman við upplesturinn fléttaði Zophanías eigin hugleiðingar um þá erfiðleika sem geta steðjað að mönnum, ekki síst ungmennum, þegar þeir efast um eigin getu og sjálfsmyndin er ekki eins og best væri á kosið. Þessa hugvekju sína tengdi Zophanías hugvitssamlega við frásögn Þórbergs, sem út frá ákveðnu sjónarhorni má vel túlka sem fyrst og fremst tjáningu á vanlíð- an og öryggisleysi ungmennis gagnvart líkama sínum sem tekur örum breytingum. Með erindi sínu sýndi Zophanías svo ekki verður um villst að verk Þórbergs eiga fullt erindi inn í skólana, út af þeim má leggja á þann hátt sem ætti að vekja áhuga unglinga. Það var tekið að líða á kvöldið þegar Jón Hjartarson leikari steig á sviðið í gervi Þór- bergs Þórðarsonar og flutti gestum nokkur at- riði úr Sálminum um blómið og Íslenskum aðli, en Jón hefur gert leikgerðir upp úr báðum verkum sem flutt verða í Ríkisútvarpinu í vetur. Jón naut sín vel í gervi Þórbergs enda orðinn hagvanur því að leika meistarann og muna ef- laust margir eftir rómaðri túlkun hans á Ofvit- anum hjá Leikfélagi Reykjavíkur fyrir rúmum tveimur áratugum. Þær Helga Jóna Ásbjörns- dóttir og Hugrún Þórbergsdóttir (sonardóttir Helgu Jónu) komu Jóni til aðstoðar í nokkrum atriðum og skemmtu gestir sér konunglega undir lestri þeirra. Ekki er hægt að ljúka þessu yfirliti yfir vel heppnað Þórbergsþing í Suðursveit án þess að minnast á hljómsveit heimamanna sem heillaði gesti með innlifaðri sveiflu sinni – og að sjálf- sögðu voru aðeins leikin lög við texta eftir Þór- berg Þórðarson. Hljómsveitina skipuðu þeir séra Einar Jónsson, sóknarprestur á Kálfafells- stað, séra Sigurður Kr. Sigurðsson, sóknar- prestur á Höfn, og Þórir Ólafsson sjómaður, auk söngkonunnar Vilborgar Þórhallsdóttur, tónmenntakennara í Nesjaskóla. Þetta fyrsta málþing Þórbergsseturs í Suð- ursveit mun lengi lifa í minningu þeirra hátt í hundrað manna sem það sóttu og vonandi verð- ur hér um árvissan atburð að ræða í framtíðinni. Höfundur er bókmenntafræðingur. Ljósmynd/Fjölnir Torfason Frá setningu Þórbergsþings við minnisvarða um Þórberg Þórðarson á Hala í Suðursveit. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Þórbergur Þórðarson LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. JÚNÍ 2003 11 Er afsökun möguleg? SVAR: Vissulega hljómar íslenska orðið afsök- un undarlega þegar við rýnum í það. Ef ein- hver er sekur um eitthvað, getur hann þá hætt að vera sekur ef hann ef af-sakaður? Er sök viðkomandi eitthvað minni en þess sem hefur brotið af sér á sama hátt en hefur ekki hlotið afsökun? Varla getur það verið að hægt sé að breyta staðreyndum aftur í tímann? Þetta er kannski dæmi um það sem kalla má orðheng- ilshátt eða útúrsnúning. Auðvitað felur afsök- un það ekki í sér að staðreyndum verði breytt. Væntanlega vitum við öll að manneskja sem biðst afsökunar er að gefa til kynna að hún iðr- ist gjörða sinna og er að óska eftir því að hinn aðilinn áfellist hana ekki og sé henni ekki reiður. Flestum þykir okkur það skipta máli ef einhver gerir eitthvað á hlut okkar að fá að vita að viðkomandi sjái eftir því og í því felst ein- mitt tilgangurinn með afsökunarbeiðni. Sú sem biðst afsökunar lætur í ljós þá ósk sína að hún hefði breytt öðruvísi. Sú sem afsakar eða fyr- irgefur tekur hinn aðilann í sátt þrátt fyrir að hann hafi gert á hluta hennar. Því má kannski segja að afsökun feli í sér að báðir aðilar séu sáttir þrátt fyrir að sökin sé enn til staðar þar sem hún verður ekki aftur tekin. Afsökun af þessu tagi er því, strangt til tekið, ekki af- sökun heldur einhvers konar sáttagjörð. Hér að ofan var orðið afsökun meðhöndlað sem samheiti orðsins fyrirgefningar. Orðið afsökun er svo líka til í annarri merkingu sem felur kannski í sér raunverulega af-sökun. Það er merkingin sem við höfum í huga þegar við spyrjum hvort einhver hafi eitthvað sér til af- sökunar eða segjum „æ, reyndu nú ekki að af- saka þig“. Hér snýst málið um að einhver sem virðist hafa gert eitthvað rangt eigi í rauninni ekki sök á því sem gerðist ef hann hefur ein- hverja afsökun. Svo er nokkuð til sem er kallað afsökunarþverstæðan (e. apology paradox). Tilefni hennar eru afsökunarbeiðnir hinna ýmsu stjórnvalda vegna gjörða þáverandi stjórnvalda mörgum áratugum eða jafnvel öld- um fyrr, til dæmis afsökunarbeiðni Vatíkans- ins vegna þess að það fordæmdi ekki aðgerðir nasista fyrir meira en hálfri öld og afsök- unarbeiðni japanskra stjórnvalda vegna kór- eskra kvenna sem voru neyddar í vændi á tím- um seinni heimsstyrjaldarinnar. Þverstæðan er svona: 1. Við ættum að biðjast afsökunar vegna þess sem forfeður okkar gerðu á hlut annarra þjóða, þjóðflokka, kynþátta eða annarra minni- hlutahópa. 2. Ef við iðrumst raunverulega gjörða for- feðra okkar þá iðrumst við þess að þeir gerðu það sem þeir gerðu. 3. Ef við iðrumst illgjörða forfeðra okkar þá óskum við þess að þessir hlutir hefðu ekki gerst. 4. Ef forfeður okkar hefðu ekki gert það sem þeir gerðu þá væri heimurinn talsvert öðruvísi en hann er nú og við værum að öllum líkindum ekki til. 5. Flest okkar eru ánægð með að vera til. Okkur finnst gott að við höfum orðið til og viljum frekar að heimurinn sé þannig að við séum til. 6. Samkvæmt þessu getum við ekki séð eftir þeim atburð- um sem leiddu til þess að við urðum til því að ef þeir hefðu ekki átt sér stað hefði heimurinn (líklega) orðið þannig að við værum ekki til. 7. Þar af leiðandi getum við ekki af einlægni beðist afsökunar á röngum gjörðum forfeðra okkar. Eins og sjá má eru 1. og 7. liður ósamrým- anlegir. Ein möguleg lausn er að hafna fyrsta lið og draga þá ályktun að ástæðulaust sé að biðjast afsökunar á gjörðum forfeðra okkar. Gallinn á þessari lausn er sá að hún virðist ganga gegn siðferðiskennd okkar: Mörgum okkar finnst einmitt full ástæða til að iðrast og biðjast afsökunar á illvirkjum forfeðra okkar. Annar möguleiki er að hafna 2. lið og segja sem svo að það að biðjast afsökunar þurfi ekki að fela í sér ósk um að viðkomandi atburður hefði ekki átt sér stað heldur beri að skilja afsök- unarbeiðni sem einhvers konar yfirlýsingu um að sambærilegur atburður verði ekki end- urtekinn eða sem viðurkenningu á að bæta skuli fyrir atburðinn. Gallinn við þessa lausn er sá að eðli afsökunarbeiðna er slíkt að þær eru harla máttlausar ef ekki er hægt að skilja þær þannig að þær feli í sér iðrun eða eftirsjá. Mögulegt svar við þessu er að það sé einfald- lega þannig að stundum getum við borið í brjósti mótsagnakenndar óskir. Við mann- fólkið erum ekki fullkomnar skynsemisverur og kannski getur bara vel verið að stundum óskum við einhvers sem gengur þvert á ein- hverja aðra ósk sem við höfum. Annar mögu- leiki er að þegar við biðjumst afsökunar á gjörðum forfeðra okkar þá feli það í sér þá ósk að aðdragandi tilveru okkar hefði verið með öðrum hætti, það er að hann hefði ekki falið í sér þau illvirki sem hann gerði. Enn annar möguleiki er svo að notast við tímatengd sjón- arhorn. Þegar ég gleðst yfir minni eigin tilvist geri ég það á árinu 2003 og sjónarhorn mitt er þaðan. En þegar ég biðst afsökunar á einhverri athöfn forfeðra minna er ég að meta við- komandi athöfn út frá þeim upplýsingum sem voru fyrir hendi þegar ákvörðun um hana var tekin og þannig að notast við sjón- arhorn liðins tíma. Eins og sjá má eru til ýmsar mögu- legar lausnir á afsökunarþver- stæðunni og ef til vill er hún, þegar öllu er á botninn hvolft, engin raunveruleg þverstæða. Eyja Margrét Brynjarsdóttir, dokt- orsnemi í heimspeki við Cornell- háskóla. ER AFSÖKUN MÖGULEG? Hvað eru innherjaviðskipti, hvaða reglur gilda um innflutning dýra til landsins, hversu langan tíma tekur það nögl að endurnýja sig og hvað er bandormur í fjár- lögum? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum. VÍSINDI

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.