Lesbók Morgunblaðsins - 07.06.2003, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 07.06.2003, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. JÚNÍ 2003 B LAÐAMAÐUR fer til fundar við Dick Ringler á kaffihúsi í hjarta háskólasvæðisins í Madisonborg í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum. Ringler hef- ur kennt við Wisconsin-há- skóla þar í borg um fjörutíu ára skeið, en er nú hættur kennslu og helgar sig fræðistörfum. Óhætt er að lýsa Ringler sem manni sem gustar af og er áhugi hans á íslenskri sögu og menningu bæði víðtækur og djúplægur. Eftir nokkrar um- ræður um málefni samtímans, þar sem fram kemur að Ringler fylgist vel með stjórnmála- umræðunni á Íslandi, snúum við okkur að meginumræðuefni dagsins, tæplega 500 síðna bók, sem liggur innan um kaffibollana á borð- inu fyrir framan okkur og nefnist Bard of Ice- land: Jónas Hallgrímsson, Poet and Scientist. Í bókinni, sem Ringler hefur unnið að um langt skeið, er að finna þýðingar á 68 ljóðum, prósverkum og ritgerðum eftir Jónas Hall- grímsson, ásamt ítarlegum skýringum og frekara efni. Ringler segir bókina hugsaða sem nokkurs konar kynningu á lífi og skáldskap Jónasar Hallgrímssonar, þar sem leitast er við að flétta inn nægilegum upplýsingum um menn- ingarlegan og bókmenntanlegan bakgrunn Jónasar á Íslandi til þess að gera verkin að- gengileg almennum lesendum sem e.t.v. þekkja lítið til Íslands. „Auk þýðinganna er í bókinni um hundrað blaðsíðna ævisögulegur kafli þar sem ég leitast við að gefa nokkra mynd af æviferli Jónasar Hallgrímssonar og menningarlegum áhrifavöldum á líf hans og störf bæði á Íslandi og í Kaupmannahöfn. Aft- ast í bókinni er jafnframt kafli um bragfræði sem ég taldi nauðsynlegt að láta fylgja með ljóðaþýðingunum þar sem margir þeirra ís- lensku bragarhátta og afbrigða af þeim sem Jónas notar eru ekki þekktir utan íslenskrar ljóðahefðar. Að lokum er að finna ítarlega ritaskrá yfir þær fræðibækur sem stuðst er við og ritaðar hafa verið um efnið, auk atrið- isorðaskrár. Þannig getur bókin gagnast er- lendum fræðimönnum sem áhuga hafa á að fjalla um Jónas.“ Við val á verkum í safnið segist Ringler hafa leitað í ólík tímabil og ólíkar hliðar á skrifum Jónasar. „Ég vildi gefa mynd af því hversu fjölhæfur Jónas var og valdi til þýðingar ólík- ar birtingarmyndir ljóðagerðar hans, dæmi um prósaskrif hans og nokkrar af hans eigin þýðingum á þýskum og dönskum skáldskap. Þar sem náttúruvísindin voru stór þáttur í ævistarfi Jónasar, læt ég fylgja þýðingar á rit- gerðum er hann vann á sviði jarð- og land- fræði og fjalla nokkuð um þann þátt í ævi hans í inngangskaflanum.“ Þegar Ringler er spurður hvað hafi beint áhuga hans að Jónasi Hallgrímssyni, segist hann hafa heillast af skáldskap Jónasar þegar hann var við íslenskunám í Háskóla Íslands á sjöunda áratugnum. „Þegar ég las Ferðalok í fyrsta sinn, man ég eftir að hafa hugsað með mér að hér væri á ferðinni ljóð sem jafnaðist fyllilega á við hvaða skáldskap sem ég þekkti úr enskum bókmenntum. Það eru líklega liðin 12 ár frá því að ég byrjaði að vinna að þýðing- arverkefninu og er Bard of Iceland stytt út- gáfa af nokkuð stærra handriti sem inniheldur fleiri þýðingar, m.a. talsvert af ljóðum sem Jónas samdi snemma á ferlinum,“ segir Ringl- er. Glíman við formið – Nú er Jónas Hallgrímsson þekktur fyrir meistaraleg tök sín á formi og velur þú þá krefjandi leið að þýða ljóðin í bundið form og líkja eftir íslenskum bragarháttum með stuðl- um og öllu tilheyrandi. Hverjar voru þínar megináherslur í þýðingarvinnunni? „Ég reyndi að viðhalda ákveðnu jafnvægi milli þriggja meginþátta í þýðingum á ljóðum Jónasar. Ég leitaðist við að miðla merkingu ljóðanna og innihaldi á sem nákvæmastan og skýrastan hátt, um leið og ég reyndi að láta þá bragarhætti sem Jónas notar halda sér og miðla þannig margræðum formrænum þátt- um ljóðanna. Þriðja atriðið sem ég þurfti að gæta að var að þýðingarnar gætu staðið sem vandaður skáldskapur á ensku. Þannig reyndi ég ekki að endurskapa orðfæri enskra sam- tímaljóðskálda Jónasar, heldur notaði tiltölu- lega almennan ljóðrænan orðaforða og mál- snið sem hljómar eðlilega í eyrum samtímafólks.“ Ringler segist jafnframt hafa gætt þess að láta ekki eigin túlkanir á ljóð- unum lita þýðingarnar. „Ég lagði mikla áherslu á að aðgreina þýðingarferlið sjálft og hina fræðilegu vinnu í kringum þýðingarnar. Sverrir heitinn Hólmarsson og Sveinn Yngvi Egilsson lásu verkið yfir og veittu mér mörg góð ráð. Þeir voru duglegir að benda mér á það ef ég hafði látið mínar eigin túlkanir hafa áhrif á þýðingar einstakra verka.“ – Er skáldskapur Jónasar, sem sagður hef- ur verið „óþýðanlegur“, harður í horn að taka að þínu mati í samanburði við önnur ljóðskáld? „Öll verk er hægt að þýða þó svo að það megi velta því fyrir sér hvað teljist vönduð þýðing og hvaða nálgunarleið sé við hæfi í hverju tilfelli. Góð þýðing felur það í sér að mínu mati að skapað sé verk sem er að ein- hverju leyti jafnoki frumverksins og endur- speglar það í heild. Það erfiðasta í þessu var að viðhalda jafnvægi milli innihalds, forms og hins enska ljóðstíls. Og þó svo að þýðingar í bundnu máli kalli iðulega á miklar málamiðl- anir með slíkt jafnvægi, held ég að Jónas sé sérstaklega erfiður viðfangs hvað þetta varð- ar. Eftir á að hyggja hef ég rekist á dæmi þar sem ég lagði áherslu á formið á kostnað eðli- legrar þýðingar á ensku – og öfugt. Í umsögn sinni um bókina í Morgunblaðinu kom Skapti Þ. Halldórsson til dæmis fram með viðeigandi gagnrýni á þýðingu mína á upphafslínum ljóðsins Stökur sem hefst svo: „Enginn græt- ur Íslending / einan sér og dáinn“. Eðlilegasta þýðingin hefði verið á þessa leið: „No one mourns an Icelander / all alone and dying“. En í tilraun til að viðhalda stuðlasetningu þýddi ég ljóðið svo: „Ah, who mourns an Icelander / all alone and dying?“. Sem ljóð á ensku er þetta hálfgerður leirburður og ekki verðugur fulltrúi þessa úrvalsljóðs Jónasar. Verði þýð- ingin einhvern tíma endurútgefin, mun ég lík- lega fylgja ráðum Skapta um að láta nákvæma stuðlasetningu flakka til að fá fram hljómbetri og eðlilegri þýðingu. Þar gæti ég huggað mig við að Jónas gerði það í að minnsta kosti einu tilfelli, er hann sleppti síðari stuðlinum í þriðju braglínu fjórðu vísu kvæðisins Leiðar- ljóð til herra Jóns Sigurðssonar alþingis- manns,“ segir Ringler og brosir við. Hann bendir þó á að ef eitthvað einkenni Jónas Hall- grímsson sem ljóðskáld, þá sé það hversu óað- finnanlega hann viðhélt ströngustu kröfum um stuðlasetningu og rím í þeim bragarhátt- um sem hann notaðist við. „Þannig verður krafan um jafnmikla nákvæmni í þýðingu vanduppfyllt og finnst mér ég alltaf hafa getað gert betur.“ Ljóðalestur á íslenskum sveitavegum Dick Ringler hefur dvalist á Íslandi um lengri eða skemmri tíma síðastliðin fjörutíu ár, en áhugi á að lesa íslenskar miðaldabók- menntir varð til þess að hann heimsótti Ísland í fyrsta sinn árið 1964. Ringler hóf kennslu við Wisconsin-háskóla árið 1961, eftir að hafa lok- ið doktorsnámi með enskar endurreisnarbók- menntir sem sérgrein. Kennslan beindi hon- um þó á nýjar brautir, hann hóf að kenna Bjólfskviðu og tók að beina sjónum að engil- saxneskum miðaldabókmenntum. „Ég komst að því að ég þyrfti að öðlast lestrarkunnáttu í forníslensku, lesa Eddukvæðin og Íslendinga- sögurnar til þess að öðlast djúpstæðari þekk- ingu á samhengi germanskra miðaldabók- mennta. Ég hóf að sitja tíma í forníslensku og þar komst ég í kynni við Halldór Halldórsson, en hann kom til Madison til að halda fyrirlest- ur. Hann ráðlagði mér í stað þess að stúdera forníslensku að fara til Íslands og læra nú- tímaíslensku. Þannig gæti ég lesið bæði forn- ar og nýjar bókmenntir á íslensku. Hann út- vegaði mér húsnæði að Hólum í Hjaltadal og þangað hélt ég með fjölskyldu minni, eigin- konu og tveimur ungum börnum sumarið 1964.“ – Og hvernig reynsla var það fyrir unga bandaríska fjölskyldu að setjast að á afstekkt- um stað á Íslandi á þessum tíma? „Það kom mér á óvart að Karin eiginkona mín skyldi yfirleitt samþykkja hugmyndina þegar ég bar hana upp. Dóttir okkar var þá aðeins sex mánaða gömul og sonur okkar tveggja og hálfs árs en Karin var tilbúin að leggja í þetta ævintýri. Þetta var ákaflega lærdómsríkt fyrir okkur, þar sem við kynnt- umst menningu mjög frábrugðinni okkar eig- in. En þetta var einnig erfið reynsla að mörgu leyti, staðurinn var mjög einangraður og veðr- ið var skelfilegt þetta sumar, ég held að Karin hafi talið sex sólardaga. Íslendingar voru á þessum tíma ekki eins alþjóðlega sinnaðir og þeir eru í dag og af- skiptari í garð útlendinga. Við hefðum líklega átt mjög erfitt með samskipti við fólkið á staðnum hefðum við ekki haft börnin með okk- ur, en þau urðu hvers manns hugljúfi þar sem lítið var um börn á staðnum. Ég hef staðarfólk reyndar grunað um að hafa staðið í hálfgerðri tilraunastarfsemi varðandi viðbrögð okkar við íslenskri matargerðarlist. Við vorum í fæði þarna í skólanum og birtust oft mjög óvæntir og annarlegir réttir á borðum. Þegar borin voru fyrir okkur svið og síðar hákarl, ríkti stundarþögn í matsalnum meðan fólkið beið eftir viðbrögðum okkar. Við gerðum þó okkar besta til að aðlagast matarmenningunni og tók dóttir okkar t.d. ástfóstri við skyr, vildi ekkert annað borða, matráðskonunni til ómældrar ánægju,“ segir Ringler og hlær dátt. Hann bætir því við að tungumálaörðugleik- ar hafi auðvitað verið nokkrir, því tíma hafi tekið að komast inn í málið. „Ég hlustaði mikið á útvarpið og reyndi að fá einhvern botn í veð- urfréttirnar, og fann mér tvo skjólstæðinga sem voru tilbúnir að veita mér tilsögn í ís- lensku. Annar var smiður sem fenginn var til að gera við gluggana á skólabyggingunni og sat ég með honum á vinnupallinum meðan hann kenndi mér ýmis verkfæraheiti. Hinn var gamall bóndi sem vann við það að gróð- ursetja tré í dalnum þetta sumar. Ég held að honum hafi leiðst gríðarlega og þáði glaður fé- lagsskap minn, líkt og smiðurinn. Þannig elti ég hann upp um brekkur og hóla og kenndi hann mér heitin á íslenskum jurtum. En Ís- landsdvölin var þó ekki erfiðari en svo að ég kom aftur ári síðar og sótti nám í íslensku við Háskóla Íslands veturinn 1965–6. Síðan hef ég komið oft til Íslands í lengri eða skemmri tíma og á marga góða vini þar.“ Ringler bætir því við að þegar hann dvaldi HRÍFST MEST AF HUGLÆG- UM LJÓÐUM JÓNASAR Dick Ringler er mörgum Íslendingum kunnur fyrir fræðistörf sín og áhuga á landi og þjóð. Síðastliðið haust kom út safnrit hans sem inniheldur enskar þýð- ingar á verkum eftir Jónas Hallgrímsson. HEIÐA JÓHANNSDÓTTIR ræðir hér við Ringler um þýðing- arstörf hans, tengslin við Ísland og gildi Jónasar Hall- grímssonar í þjóðlegu samhengi og alþjóðlegu. Dick Ringler við grafreit þjóðskáldsins á Þingvöllum.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.