Lesbók Morgunblaðsins - 22.11.2003, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. NÓVEMBER 2003 7
S
infóníur Sibeliusar eru um
margt einstakar í tónlistarsög-
unni. Þær sameina klassíska
framsetningu og ólgandi róm-
antíska tjáningu. Þær búa yfir
mögnuðum andstæðum, en þó
innan ramma þess dökka og al-
vörugefna tónheims sem Sibel-
ius skapaði í verkum sínum. Frumleiki þeirra
liggur ekki síst í framsetningu Sibeliusar á
stefjum og hljómum sem í sjálfu sér eru ekki
ýkja framandi. Sibelius notar kunnuglega þrí-
hljóma á óhefðbundinn hátt og í hljómsveit-
arútsetningum sínum leitar hann stöðugt að
óvenjulegum samsetningum hljóðfæra til að
gefa tónlistinni nýstárlegan blæ. Þá eru áhrif
finnskra þjóðlaga hvarvetna merkjanleg í sin-
fóníum Sibeliusar, hvort sem er í notkun gam-
alla kirkjutóntegunda eða ósamhverfum hryn-
mynstrum finnskra þjóðlagasöngvara.
Það var ljóst um leið og Sibelius kvaddi sér
hljóðs sem tónskáld að hann hygðist verða
„þjóðartónskáld“ Finnlands. Sibelius lærði á
fiðlu sem barn og þegar hann hafði útskrifast
úr Tónlistarskólanum í Helsinki hélt hann til
Vínarborgar til frekara náms, tuttugu og
þriggja ára gamall. En fiðlunámið gekk ekki
sem skyldi og í kjölfarið tók áhugi hans á tón-
smíðum að glæðast. Þegar Sibelius sneri aftur
til Finnlands 1891 hafði hann einsett sér að
skapa finnska tónlist á heimsmælikvarða. Þá
var hann þegar tekinn að semja risavaxið tóna-
ljóð í fimm þáttum fyrir einsöngvara, kór og
hljómsveit: Kullervo, sem byggist á Kalevala-
kvæðabálkinum. Verkið var frumflutt ári síðar
við mikinn fögnuð og tónskáldið eyddi næstu
árum í að kynna sér betur tónlist heimalands
síns með rannsóknaleiðöngrum á slóðir frægra
söngvara og fyrirlestrum um finnsk þjóðlög.
Fyrsta sinfónía hans var frumflutt í apríl 1899
og eftir því sem fleiri fylgdu í kjölfarið skipaði
hann sér í röð merkustu sinfónískra tónsmiða
sinnar kynslóðar. Er þá mikið sagt, því þar
teljast með tónskáld á borð við Gustav Mahler,
Edward Elgar og Carl Nielsen, sem allir voru
fæddir á árabilinu 1857–65.
Fimmta sinfónían
Sibelius hóf að semja fimmtu og sjöttu sin-
fóníur sínar um svipað leyti, að lokinni tón-
leikaferð um Bandaríkin í júní 1914. Ferðin
heppnaðist með eindæmum vel. Tónlist hans
var hvarvetna vel tekið og honum var sýndur
margvíslegur sómi (hann var m.a. sæmdur
heiðursdoktorsgráðu við Yale-háskóla). En
mánuði síðar skall ógæfan yfir, þegar styrjöld
hófst á meginlandi Evrópu. Stríðið hafði bein
fjárhagsleg áhrif á tónskáldið: þar sem þýskt
nótnaforlag átti útgáfurétt að verkum Sibel-
iusar hlaut hann engin höfundarlaun meðan
fyrri heimsstyrjöldin stóð yfir. Um þetta leyti
tók Sibelius einnig að skoða stöðu sína sem
tónskáld í nýju ljósi. Hann hafði um árabil ver-
ið í hópi evrópsku „nútíma“-tónskáldanna, en
þegar hann dvaldist í Berlín í janúar 1914
heyrði hann nýjustu verk Arnolds Schönbergs
og sannfærðist um að hann ætti ekki lengur
samleið með framúrstefnunni.
Það má vel vera að þessi endurskoðun Sib-
eliusar á eigin tónsmíðastefnu og hlutverki
sínu sem tónskáld hafi átt sinn þátt í því að
smíði fimmtu sinfóníunnar tók svo langan
tíma. Sibelius ákvað að helga hinu nýja verki
alla krafta sína og hafnaði m.a. tilboðum um að
semja óperu og ballett. En tónsmíðarnar
gengu hægt í fyrstu. Hinn 22. september 1914
skrifaði hann trúnaðarvini sínum Axel Carpel-
an: „Ég er enn staddur í djúpum dal. En jafn-
vel í myrkrinu sé ég glitta í fjallið sem ég mun
vissulega klífa. Guð lykur upp dyrum sínum
um stundarsakir og ég heyri hljómsveit hans
leika fimmtu sinfóníuna.“ Sibelius var þess
fullviss að guðlegur innblástur hefði fært hon-
um réttu stefin í hið nýja verk sitt. En það var
ekki nóg. Þegar þau voru komin á blað þurfti
að raða þeim saman á skynsamlegan hátt og
vinna úr þeim sannfærandi tónsmíð. Hann
skrifaði í dagbók sína 10. apríl 1915: „Ég eyddi
öllu kvöldinu í fimmtu sinfóníuna. Hvernig ég
raða saman stefjunum – þetta skiptir mestu
máli, og það heillar mig á dularfullan hátt. Það
er sem Guð almáttugur hafi fleygt niður mósa-
íkflísum úr gólfi himnaríkis og beðið mig um að
raða þeim eins og þær voru áður. Kannski er
þetta góð skilgreining á tónsmíðum. Kannski
ekki. Hvað veit ég?“
Guðlegur innblástur tók á sig ýmsar myndir
meðan á smíði sinfóníunnar stóð. Í lok apríl
1915 ritaði Sibelius í dagbók sína: „Skömmu
fyrir tíu mínútur í 11 sá ég sextán svani á flugi.
Ein stórfenglegasta upplifun ævi minnar.
Drottinn minn, hvílík fegurð: þeir hringsóluðu
yfir mér um langa hríð. Hurfu síðan burt í sól-
skininu eins og glitrandi silfurborði. Hljóð
þeirra voru í ætt við hljóm tréblásturshljóð-
færa, líkt og trönukvak en án tremólós. Leynd-
ardómur náttúrunnar og depurð lífsins! Loka-
stef fimmtu sinfóníunnar!“ Frá og með þessum
degi hefur eitt eftirminnilegasta stef sinfóní-
unnar – hornstefið mikilfenglega sem tekur
smám saman völdin í lokaþættinum – ævinlega
verið tengt svanafluginu sem Sibelius sá þenn-
an dag.
En sinfónían átti enn langt í land. Í júní 1915
var hún enn ekki nema röð af stefjum sem átti
eftir að velja úr og raða saman. Það sem hvatti
Sibelius til að ljúka verkinu var hátíð sem
skipulögð hafði verið í tilefni af fimmtugsaf-
mæli hans 8. desember 1915. Þar átti að leika
nýjustu verk hans á hátíðartónleikum og Sibel-
ius setti sér það markmið að nýja sinfónían
yrði tilbúin í tæka tíð. Um skeið leit þó út fyrir
að svo yrði ekki. Í lok september skrifaði hann:
„Get ég lokið við sinfóníuna fyrir 8. desember?
Það lítur ekki vel út. En ég verð!“ Eftir þriggja
mánaða þrotlausa vinnu var sinfónían tilbúin í
nóvember og eftir að æft hafði verið í viku var
hún frumflutt í sal Háskólans í Helsinki undir
stjórn tónskáldsins. Sinfóníunni var feiknavel
tekið en Sibelius var ekki fyllilega ánægður. Í
janúar 1916 var hann enn að og skrifaði í dag-
bók sína: „Ég verð að viðurkenna að ég er enn
að vinna að fimmtu sinfóníunni. Ég á í átökum
við Guð. Ég vil að sinfónían fái á sig aðra,
manneskjulegri mynd. Jarðbundnari, meira
sindrandi.“ Þessi endurgerð var frumflutt í
desember 1916 en nóturnar hafa ekki varð-
veist. Þó er ljóst að Sibelius hafði tengt saman
fyrsta og annan þátt verksins, þannig að nú var
verkið í þremur þáttum í stað fjögurra áður.
Nýja gerðin hlaut misjafna dóma og tónskáldið
dró hana til baka enn á ný. Í júní 1918 sneri
hann sér aftur að fimmtu sinfóníunni og var
endanleg gerð hennar frumflutt í nóvember
1919.
Hvað Sibelius sjálfan varðaði var fimmta
sinfónían dýru verði keypt. Um það leyti sem
hann vann hvað ákafast að smíði hennar haust-
ið 1915 tók hann að drekka ótæpilega eftir sjö
ára bindindi. Áfengissýkin fylgdi honum það
sem eftir lifði ævinnar og olli oft á tíðum al-
mennri hneykslan – til dæmis þegar hann
stjórnaði sjöttu sinfóníu sinni ofurölvi í Gauta-
borg í apríl 1924. Árið sem hann lauk end-
anlega við fimmtu sinfóníuna lét hann krúnu-
raka sig; gljáandi skallinn varð hluti af ímynd
hans sem ósveigjanlegs sérvitrings sem ein-
angraði sig frá umheiminum í æ ríkari mæli.
Átta árum síðar samdi hann síðasta sinfóníska
verk sitt (Tapiola, 1927) og árið 1931 lét hann
frá sér nýja tónsmíð í síðasta sinn. Hann átti 26
þögul ár eftir ólifuð. Raunar virðist hann hafa
unnið að áttundu sinfóníunni um nokkurt skeið
en brenndi að lokum handritið, sannfærður um
að tími sinn væri löngu liðinn.
Nýja sinfóníustefnan
Með fjórðu sinfóníu sinni (1910–1911) hafði
Sibelius skipað sér í framvarðasveit evrópskra
módernista svo ekki varð um villst. Sú fjórða
er ómstríð, róttæk og torskilin, og fyrir þær
sakir hafa margir „framúrstefnusinnaðir“
gagnrýnendur litið á hana sem hápunkt sinfón-
íusköpunar Sibeliusar. En Sibelius treysti sér
ekki til að ganga lengra á þessari braut. Hann
var heldur ekki eina tónskáld sinnar kynslóðar
til að taka aftur upp auðskiljanlegra tónmál.
Frægasta dæmið er vafalaust Richard
Strauss, sem sagði skilið við hinn róttæka nýja
stíl eftir óperuna Elektru (1908) og hvarf aftur
til gullaldar Vínarvalsanna í næstu óperu sinni,
Der Rosenkavalier (1911).
Kúvendingin eftir fjórðu sinfóníuna varð til
þess að Sibelius hugsaði tónmál sitt upp á nýtt.
Þar ber ekki síst að nefna tengslin milli forms
og innihalds. Frá og með fimmtu sinfóníunni
ræðst heildaruppbygging verkanna ekki af
fyrirfram ákveðnum formum, heldur ræðst
formið af tónefninu sjálfu í hvert sinn. Verkin
eru því afar ólík hvað varðar innra skipulag,
með þeirri afleiðingu að formið verður mun
þéttara en áður (t.d. í einþáttungssinfóníunni
nr. 7 frá 1924). Sibelius lætur stefin oft læðast
inn í tónvefinn þannig að maður tekur varla
eftir þeim þegar þau hljóma fyrst, en þau
verða smám saman meira áberandi og taka
loks völdin á áhrifamikinn hátt. Stundum kem-
ur sama stefjaefni fyrir í ólíkum þáttum verks-
ins og þannig nær tónskáldið fram sterkari
heildarsvip. Þá er athyglin sem Sibelius veitir
hljómblænum sem slíkum eitt af aðaleinkenn-
um tónlistarinnar; t.d. staðnæmist hann stund-
um við einn stakan hljóm og leyfir hlustand-
anum að hrífast af einstakri fegurð hans áður
en lengra er haldið í verkinu.
Í lokaútgáfunni er fimmta sinfónían í þrem-
ur köflum (Tempo molto moderato; Andante
mosso; Allegro molto). Sá fyrsti hefst á veikum
hornablæstri sem rís upp á við, undir stöð-
ugum nið pákunnar. Brátt bætast við flautur
og óbó með stefjabút sem smám saman verður
að blíðum og fljótandi línum, enn við undirleik
hornanna. Seinna aðalstef fyrsta þáttar er
einnig leikið af tréblásurum, en ólíkt hinu
fyrsta stefnir það niður á við en ekki upp. Nú
upphefst ævintýraleg úrvinnsla tónskáldsins á
stefjunum tveimur sem taka stöðugum breyt-
ingum. Áður en hlustandinn veit af er Sibelius
búinn að breyta hinu ljúfa upphafsstefi í léttan
og fjaðrandi dans, og með því að tengja saman
tvo fyrstu kafla verksins (úr útgáfunni 1915)
leiðir Sibelius hlustandanum enn betur fyrir
sjónir að þótt yfirbragð þeirra sé ólíkt er efni-
viðurinn hinn sami. Dansinn verður smám
saman hraðari og gáskafyllri, og honum lýkur
á glæsilegum lokahvelli.
Annar þáttur er hægur og virðist við fyrstu
sýn nokkuð einfeldningslegur miðað við þann
fyrsta. En þegar betur er að gáð leynist
spenna og ólga undir kyrrlátu yfirborðinu.
Kaflinn hefst á hægum hljómagangi í blásur-
um en brátt leika strengirnir stef þar sem hver
lítil hending telur fimm jafnlöng slög. Þetta er
aðalstef kaflans, sem mætti kalla „tilbrigði við
tilbrigðaformið“, því að þótt Sibelius taki stefið
og breyti því á ýmsa vegu eins og tíðkast í til-
brigðum er formvitund hans óhefðbundin hér
sem annars staðar. Þegar nokkuð er liðið á
kaflann heyrist lagrænt stef í kontrabössum,
undirleikur við tilbrigðin sem önnur hljóðfæri
hljómsveitarinnar leika. Það lætur lítið yfir sér
í fyrstu, en hér er komið stefið sem síðar verð-
ur aðaluppistaða lokaþáttarins – svanasöngur-
inn tígulegi. Lokaþátturinn hefst á iðandi
strengjalínum sem flögra um víðan völl. Þær
staðnæmast ekki fyrr en hornin taka að leika
svanasönginn, þessa kraftmiklu, stórstígu lag-
línu sem nú er leikin á kröftugri hátt en áður.
En ekki er öllu lokið enn. Hraði kaflinn snýr
aftur og um skeið virðist óvíst hvort svana-
söngurinn eigi afturkvæmt. Að loknum stutt-
um millikafla heyrist hann enn á ný, nú of-
urveikt en stöðugt vaxandi í styrk. Þetta er
hápunkturinn sem verkið allt hefur stefnt að –
kraftmiklir og voldugir tónar blásaranna eru
umvafðir þykkum strengjahljómi, og lokatakt-
arnir – sex högg sem leikin eru af allri hljóm-
sveitinni – eru eins afgerandi og hugsast getur.
Hljómsveit himnaríkis hefur lokið leik sínum,
en endurómur stefjanna býr með hlustandan-
um lengi enn.
Hvað feril Sibeliusar varðar má með nokkr-
um rétti halda því fram að fimmta sinfónían
hafi verið upphafið að endinum. Hann losnaði
aldrei við óöryggið sem fylgdi honum eftir að
hann sagði skilið við módernismann, og hin
langa meðganga sinfóníunnar (undir dapurleg-
um persónulegum kringumstæðum) tók sinn
toll. Um það hvort fórnirnar hafi verið þess
virði verður ekkert fullyrt hér. En fimmta sin-
fónían er vissulega stórmerk tónsmíð – mik-
ilfengleg og dulúðug – og hún á fullt erindi til
okkar enn í dag.
Helstu heimildir:
Andrew Barnett. Sibelius: The Complete Symphonies
(BIS CD 1286–88, 1997).
James Hepokoski. Sibelius: Symphony No. 5 (Cambridge
University Press, 1993).
Michael Steinberg. The Symphony: A Listener’s Guide
(Oxford University Press, 1995).
HIMNARÍKISHLJÓM-
SVEITIN SPILAR SIBELIUS
Höfundur er tónlistarfræðingur og kennari
við Listaháskóla Íslands.
E F T I R Á R N A H E I M I I N G Ó L F S S O N
Fimmta sinfónía Jeans Sibeliusar (1865–1957) olli
tónskáldinu miklum heilabrotum og hann var ekki
ánægður með útkomuna fyrr en hann hafði endur-
skoðað verkið tvisvar sinnum. Lokagerð sinfóníunnar
er einstakt meistaraverk og markaði tímamót á ferli
tónskáldsins. Hér er fjallað um fimmtu sinfóníuna og
tilurð hennar í tilefni þess að Sinfóníuhljómsveit Ís-
lands flytur verkið í Háskólabíói nk. fimmtudagskvöld.
Sibelius situr við að semja Fimmtu sinfóníuna árið 1915.