Lesbók Morgunblaðsins - 27.12.2003, Side 16

Lesbók Morgunblaðsins - 27.12.2003, Side 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 27. DESEMBER 2003 Í lok nóvember sl. kom út hjá bókaforlag- inu Eddu þegar umdeilt rit Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Halldór, sem í undirtitli er sagt ævisaga Halldórs Kilj- ans Laxness 1902–1932. Bókin, sem er 620 blaðsíður að lengd, hefur fengið mikla auglýsingu í fjölmiðlum sem merkt fræðilegt framlag, fullt af nýjum upplýsingum, löng viðtöl hafa birst við höfund- inn í sjónvarpi, ritdómarar hafa hrósað stórvirk- inu og það hefur verið tilnefnt til Íslensku bók- menntaverðlaunanna. Viðtökur bókarinnar vekja satt að segja upp spurningar um stöðu íslensks fræðasamfélags, þekkingu þess, gagnrýnið sjónarhorn og heið- arleika gagnvart viðfangsefninu. Í löngum rit- dómi eftir Björn Þór Vilhjálmsson í Morgun- blaðinu 16. desember segir um vinnubrögð Hannesar að hann taki sér „hlutlausa stöðu sem það framast er hægt í verki sem þessu“ og geri sér „far um að að halda sig í ákveðinni fjarlægð frá hugarheimi Halldórs þegar heimildir skort- ir.“ Þetta er „aðferð, sem ekki verður gagn- rýnd,“ segir hann, „ábyrg og örugg.“ Í lokin kemur ritdómari upp um þekkingarleysi sitt á því rannsóknasviði sem hann hefur tekið að sér að fjalla um. Þótt aðeins séu liðin örfá ár síðan Halldór Laxness lést staðhæfir hann að ævi- sögu hans hafi „einfaldlega verið beðið“ og styð- ur það svipuðum lýsingarorðum og nú tíðkast í auglýsingatextum: „Mikilvægt, knýjandi, safa- ríkt, umfangsmikið, miðlægt og æsispennandi viðfangsefni beið þess ár eftir ár, og jafnvel ára- tug eftir áratug, að fræðimaður, eða einfaldlega fróður maður, tæki sér fyrir hendur að gera því skil.“ Þá heldur ritdómari því fram að við rann- sóknir á íslenskum bókmenntum hafi nútíminn verið skilinn eftir „í uppnámi“ og séu þar „styttri greinargerðir oftast látnar duga.“ Þarna hafi Halldór Laxness löngum verið „skýrasta óminnisgapið“ og sé það „í senn sorg- legt og furðulegt hversu lengi þurfti að bíða eftir að í það væri fyllt.“ Og því, segir hann, á „Hann- es Hólmsteinn Gissurarson ekki hrós skilið ein- vörðungu fyrir ágæt vinnubrögð [...] heldur einnig fyrir sjálft framtakið.“ Hann lét nefnilega ekki „vandasaman og margflókinn“ nútímann festa sig í bönd, heldur réðist í „risavaxið verk- efni“ og sinnti „fyrsta hluta þess afbragðsvel.“ Ómælt gagn Þessi ritdómur sem birtist í víðlesnasta dag- blaði þjóðarinnar er með ólíkindum, þó ekki væri fyrir annað en það að í honum er fullkom- lega gengið framhjá fyrri rannsóknum á ævi og verkum Halldórs Laxness eins og þær hafi aldr- ei verið til. Hér hefði fyrst átt að nefna grund- vallarrit Peters Hallbergs um Halldór Laxness sem spannar alla ævi hans í fjórum bókum og fjölmörgum fræðigreinum. Þá hafa um árabil ís- lenskir fræðimenn stundað grundvallarrann- sóknir á ýmsum þáttum í verkum Halldórs og birt um þær bækur og greinar. Nokkrar ráð- stefnur hafa á síðustu árum verið haldnar um Halldór Laxness, bæði hér á landi sem erlendis, þar sem fjöldi fræðimanna lagði fram rannsókn- ir sínar, og einnig hafa nýlega komið út safnrit með greinum um hann. Minnst af þessum rann- sóknum hefur Hannes kynnt sér. Í eftirmála nefnir hann aðeins tvo fræðimenn sem áður hafi fjallað um verk Halldórs Laxness, þá Peter Hallberg og Eirík Jónsson, þótt hann segist „auðvitað“ hafa haft „ómælt gagn af rannsókn- um annarra fræðimanna.“ Rannsókna Eiríks Jónssonar sér að vísu engan stað í bók hans, en þeim mun meir Peters Hallberg sem Hannes vitnar stundum til aftanmáls, þegar hann nýtir sér rannsóknir hans og tekur upp í eigið verk sem sínar. Oftar vitnar hann þó alls ekki til þeirra eða mjög óljóst. Þannig fyllir hann með aðstoð hans það sorglega „óminnisgap“ sem rit- dómari Morgunblaðsins var áratugum saman búinn að bíða eftir að yrði fyllt. Rit Hannesar byggist alfarið á rannsóknum Hallbergs og bæt- ir þar engu við sem máli skiptir. Felst aðferð Hannesar ýmist í því að gera útdrátt úr köflum eða endursegja þá svo til orðrétt. Á sama hátt hefur hann nýtt sér texta Halldórs Laxness sem hann setur fram sem sinn eigin. Að öðru leyti einkennist stíll bókarinnar af upptalningum, mest á fólki, og samhengisleysi þeirra atriða sem tínd eru til, oft úr annarra manna ritum, og er þá undir hælinn lagt hvort heimilda sé getið. Hér er aðeins rúm til að sýna örfá dæmi um þessi vinnubrögð en ýtarlegri ritdóms er að vænta í næsta hefti Sögu (1/2004). Risavaxið verkefni Fyrstu kaflarnir í ritinu eru ýmist útdráttur úr minningabókum Halldórs eða bein endur- sögn á þeim, þar sem Hannes gerir texta Hall- dórs að sínum. Stundum finnst honum þó ástæða til að bæta um betur, skipta út orði, draga saman eða sleppa. Á það einkum við þar sem hann færir augljóst sjónarhorn Halldórs til sín. Sem dæmi um þetta má benda á kaflann í Í túninu heima þar sem Halldór segir frá flutningi fjölskyldunnar að Laxnesi: Á suðurgaflinum miðjum voru tröppur uppað mynd- arlegu fordyri og þar stóð presturinn sjálfur á þröskuld- inum að taka formlega á móti okkur, góðlegur höfðíngs- maður, sköllóttur með stórt yfirskegg, í bláum klæðisfötum og bauð okkur velkomin og bar mig yfir þröskuldinn sem var í hærra lagi. (Í túninu heima, 31) Hér lendir Hannes í vandræðum með barna- sjónarhornið sem er augljóslega Halldórs og tekur til þess bragðs að barngera viðfangsefnið og kalla „Dóra litla“. Til að leggja eitthvað til málanna sjálfur skiptir hann út orðum, hefur „þrep“ í staðinn fyrir „tröppur“, „höfðingi“ í staðinn fyrir „höfðíngsmaður“, „mikið yfir- skegg“ í staðinn fyrir „stórt yfirskegg“, „blá- klæddur“ í staðinn fyrir „í bláum klæðisfötum“. Þá sleppir hann þröskuldinum í fyrra skiptið. Að öðru leyti er frásögnin eins: Á suðurgafli þess miðjum voru þrep upp að myndarlegu fordyri, og þar stóð presturinn sjálfur til að taka á móti nýjum eigendum, góðlegur höfðingi, bláklæddur, sköll- óttur með mikið yfirskegg. Hann bauð þau velkomin og bar Dóra litla yfir þröskuldinn, sem var í hærra lagi. (Halldór, 19) Í beinu framhaldi af þessu kemur lýsing Hannesar á staðháttum í Laxnesi: Laxnes stendur í miðjum dal á grasi vöxnu landflæmi. Aðrir bæir kúra undir lágum fellum beggja vegna í daln- um, en bak við þau hærri fjöll. Norðan megin rísa fjöll eins og Kistufell, Hágöngur og Móskarðshnúkar og eru öll hluti af Esju. Til austurs er heiðin, en í vestri fjalla- girðing, sem byrgir sýn til Reykjavíkur. Skál er í girðing- unni þar sem hún er lægst, og þar rennur áin í Laxnesi út í sjó. Með berum augum má grilla í hluta sjávarins gegn- um þetta hálfa gat. (Halldór, 19) Ekki er annað tekið fram en athugunin sé eft- ir Hannes, en hún er tekin beint upp úr Í túninu heima: Laxnessbærinn stendur í miðjum dal á grasivöxnu land- flæmi sem átti nú um sinn að verða minn himinn og jörð, Laxnestúnið. Aðrir bæir stóðu undir lágum fellum sitt hvorumegin í dalnum, en bakvið þau, einkum norð- anmegin, risu þó fjöll sem mark var á takandi eins og Kistufell Hágaungur Móskarðahnúkar og öll tilheyrðu Esju. Til austurs var opin leið inní óendanleikann […] Mér til mikillar huggunar myndaðist skál í fjallgirð- ínguna í vestur, þar sem hún verður lægst og útum þessa glufu rann áin okkar í Laxnesi útí sjó, og mátti grilla með berum augum part af sjónum gegnum þetta hálfa gat sem var í laginu einsog maður hefði bitið skarð í röndina á undirskál. (Í túninu heima, 32–33) Við samanburð þessara tveggja texta koma vinnubrögð Hannesar glögglega í ljós. Hann sleppir skáldlegum lýsingum, svo sem óendan- leikanum og samlíkingunni við skarðið í und- irskálina, og í stað „ég“ og „við“ er komin hin hlutlausa þriðja persóna fræðimannsins. Þá set- ur hann kommur milli staðaheita. Þó gætir hér einnig skáldlegra tilþrifa því að bæina lætur hann „kúra“. Á þennan hátt þræðir Hannes sig í gegnum Í túninu heima, fer nákvæmlega í sumt, en hratt yfir annað, án þess að sjá megi nokkurt samhengi í valinu, og hvergi kemur annað fram en textinn sé eftir hann. Það er hann líka stund- um, þ.e. þegar hann breytir, eins og t.a.m. í ann- ars nákvæmri endursögn á kafla Halldórs um gönguferð þeirra feðga fyrsta morguninn í Lax- nesi og „Dóri litli sá lóu í fyrsta skipti“ (Halldór, 19). Í frumtextanum er sá fugl „ekki einsog pút- ur“ (Í túninu heima, 38), en hjá Hannesi er pút- urnar orðnar að hænu. Hjá Halldóri endar frá- sögnin á setningunni: „Nýtt líf var byrjað,“ og með henni hefst um leið ný efnisgrein. Eftir þessu fer Hannes að öðru leyti en hann breytir sögninni og segir: „Nýtt líf var hafið.“ Mikilvægt, knýjandi, safaríkt Á svipaðan hátt nýtir Hannes sér skáldsögur Halldórs sem hann virðist líta á sem sagnfræði- legar heimildir, og þá ekki aðeins um tilfinn- ingar og hugarástand höfundar, heldur einnig um atvik í ævi hans. Ein nýstárlegasta kenning Hannesar er trú- lofun Halldórs og Helgu Jóhannsdóttur frá Brautarholti á Kjalarnesi. Fyrir samskiptum þeirra hefur hann litlar sem engar heimildir. En eitthvað verður hann þó að segja um þetta, og grípur því til þess ráðs að láta kærustuparið ganga á Esjuna í rómantískri frásögn sem sótt er beint í Sölku Völku, 20. kafla. Um þetta segir hann í aftanmálsgrein á bls. 572: „Hér er skáld- að í eyðurnar, því að heimildir eru af skornum skammti. En auðvitað hafa þau Halldór og Helga farið í gönguferðir út frá Brautarholti, um fjörur og upp á fjall.“ Í næstu aftanmáls- grein er hugmyndin orðin að staðreynd, því að þar hefur hann leitað leiðbeininga hjá Agli J. Stardal um það „hver líklegasta gönguleið þeirra hefði verið upp á Esju frá Brautarholti.“ Þá nefnir hann almennt grein eftir Egil um svæðið. Þessum tveimur „heimildum“ fléttar hann síðan saman í frásögninni af fjallgöngunni, tekur orðrétt upp úr þeim báðum og setur fram sem eigin texta. Eins og í skáldsögu Halldórs er kærustuparið látið rekast á hryssu með folald á leið sinni, þær Helga/Salka elta folaldið og kjassa það, en þeim Arnaldi/Halldóri líkar betur við gamla hesta. Þau Salka og Arnaldur ganga ekki á fjall, en það gera þau Halldór og Helga, og með aðstoð Egils J. Stardal komast þau á tindinn. Útsýninu þaðan lýsir hann svo í grein sinni: Þegar Hátindi er náð er ekki úr vegi að kasta mæðinni, taka sér sæti á kolli tindsins og virða fyrir sér víðáttu þá sem Esjan býður þeim að skoða er lagt hefur á sig það erfiði að klifra upp í hásæti hennar […] vestan Skarðs- heiðar er útsýni yfir Hvalfjörð og Akrafjall og þaðan vestur um allar Mýrar til fjalla á Snæfellsnesi, þangað sem jökulinn ber við hafsbrún og langt til hafs yfir Faxa- flóa. Til suðurs sést yfir Sundin, eyjarnar og allt höf- uðborgarsvæðið [… o.s.frv.]. (Egill J. Stardal, „Esja og nágrenni,“ Árbók Ferðafélagsins, 1985, 107–108). Nákvæmlega þetta upplifir Halldór Laxness í ævisögu sinni, nýtrúlofaður á tindi Esju, og eins og Arnaldur trúir hann kærustunni fyrir fram- tíðardraumum sínum. Þau Helga kasta ekki mæðinni eins og segir í ferðalýsingu Egils, en eru „göngumóð“ þegar þau ná „HáEsju“ (svo skrifað), og við blasir útsýnið frá Hátindi í setn- ingum Egils J. Stardals: Þaðan sést vítt um, vestan Skarðsheiðar yfir Hvalfjörð og Akrafjall og þaðan vestur um allar Mýrar til fjalla á Snæfellsnesi, og ber jökulinn við hafsbrún og langt til hafs yfir Faxaflóa. Halldór horfði lengi á jökulinn. Til suðurs blasa Sundin við, eyjarnar og Reykjavík [… o.s.frv.] (Halldór, 160) Til að minna lesendur á að þetta sé ekki leið- arlýsing, heldur atvik úr ævi skálds, er Halldór látinn horfa upphafinn og lengi á hið skáldlega tákn jökulsins. Ágæt vinnubrögð Uppistaðan í bók Hannesar eru grundvall- arrit Peters Hallberg um ævi og störf Halldórs Laxness. Þetta er þó ekki svo að skilja að hann vinni úr þeim og taki til þeirra afstöðu, heldur fellir hann úr þeim orðrétta kafla í sitt rit. Þetta einkennir bók hans frá upphafi til enda, og er hreint ótrúlegt að lesa. Sem sláandi vitnisburð- ur er umfjöllun Hannesar um skáldsögu Hall- dórs Undir Helgahnúk sem er tekin beint upp úr riti Hallbergs, Vefarinn mikli I (1957). Hér er aðeins rúm fyrir eitt dæmi: Hinn fyrrnefndi kvænist … og er kona hans ung dönsk- amerísk ekkja. Honum þykir þetta vera siðferðileg skylda sín gagnvart konunni, sem hafði látið að vilja hans eina nótt. (Vefarinn mikli I, 168) Snjólfur kvænist ungri dansk-bandarískri ekkju, þótt hann elski hana ekki, en hann hafði fengið hana til að láta að vilja sínum eina nótt og taldi síðan varða við dreng- skap sinn að ganga að eiga hana. (Halldór, 273) Hér hefur Hannes reyndar misskilið þegar hann breytir amerísku ekkjunni í bandaríska, en hún var kanadísk. Þetta sýnir að hann hefur ekki lesið skáldsöguna sem hann fjallar um. Ekki hefur hann heldur lesið smásöguna „Júdit Lvoff“, en styðst við umfjöllun Hallbergs. Þetta kemur skýrt fram í því að hann endurtekur villu hjá Hallberg, lætur bóndasoninn vera úr Rang- árvallasýslu en ekki Borgarfirði eins og í sög- unni sjálfri. Við athugun á umfjöllun Hannesar um önnur rit Halldórs koma sömu vinnubrögð í ljós. Þar sem hann t.a.m. fjallar um kvikmyndahandritin endursegir hann svo til orðrétt kafla Hallbergs í Vefarinn mikli I, án þess að annað komi fram en hann hafi farið í frumheimildir og rannsóknin sé eftir hann sjálfan. Svona mætti lengi telja, og fer þá að verða spurning eftir hvern bók hans er. FYLLT Í GAP Í þessari grein eru birtar nokkrar ábendingar um vinnubrögð Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við ritun ævisögu Halldórs Laxness. Höfundur telur að Hannes Hólmsteinn eigni sér rannsóknir og skrif annarra í bók sinni. Höfundur er prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. E F T I R H E L G U K R E S S Peter Hallberg Halldór Kiljan Laxness Hannes Hólmsteinn Gissurarson Rit Hannesar byggist alfarið á rannsóknum Hallbergs og bætir þar engu við sem máli skiptir. Felst aðferð Hannesar ýmist í því að gera útdrátt úr köflum eða endursegja þá svo til orðrétt. Á sama hátt hefur hann nýtt sér texta Halldórs Laxness sem hann setur fram sem sinn eigin. Að öðru leyti einkennist stíll bókarinnar af upptalningum, mest á fólki, og samhengisleysi þeirra atriða sem tínd eru til, oft úr annarra manna ritum, og er þá undir hælinn lagt hvort heimilda sé getið.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.