Lesbók Morgunblaðsins - 24.01.2004, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 24.01.2004, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. JANÚAR 2004 5 klukkustundir að renna frá Hala niður á Lækjartorg – af hverju ættingjar ofvitans gátu ekki sent honum tunnu af salkjöti eða hangi- kjötslæri, þó ekki væri nema blóðmörskepp? En farartálmar óbrúaðra jökulfljótanna gera að verkum að Suðursveit er þá eins og í öðru sólkerfi. Reyndar var Þórbergur búinn að svara Halldóri fyrirfram með eftirfarandi klausu úr Ofvitanum: „Menn geta farið hundrað sinnum alfarnir úr Mosfellssveitinni. En það fer enginn oftar en einusinni alfarinn úr Hornafirði.“10 *** Þegar Ljóri sálar minnar og Mitt rómantíska æði urðu heyrinkunnar laust eftir miðjan níunda áratuginn var ekki laust við að sumum fyndist sem Þórbergur hefði stolið undan stórum hluta af angistinni og pastellitað dægrin. Einna mestum tíðindum þótti sæta mishermið um hina frægu framhjágöngu Þórbergs þegar hann eftir sumarlanga þrá og ómælt erfiði var loksins kominn að bænum þar sem elskan hans bjó, en heyktist á heim- sókninni og hélt áfram suður – fótgangandi. Jafnvel það var uppspuni. Þau höfðu hist. Og ekki nóg með það, elskan hans sem hann hafði aldrei árætt að snerta, í dagbókinni frá 1918 gat að lesa skýrum stöfum: „Sunnudag einn bauð hún mér heim til sín. Þá bjó hún í þessu herbergi og þar kysti eg hana þá. Eg geng út að glugganum og lít í suðausturátt út á túnið. Þar er aflangur hóll og laut hinum megin hólsins. Þar skemtum við okkur þá …“11 Hvað var hann að gefa í skyn? Var þetta ekki álíka og ef í fornum leirkrukkum í hellum úti í Palestínu hefðu fundist ævagömul handrit sem segðu að Jesú hefði aldrei stigið á krossinn, þvert á móti fengið að hafa hann með sér heim og smíðað úr honum tvo snúrustaura? *** Víkjum þá að Bréfum til Sólu. Margan hafði furðað á því að Þórbergur skyldi ekki halda áfram með hina vinsælu ævisögu sína þar sem Ofvitanum sleppti, þvert ofan í boðað framhald. Þeir sem í mestu ofvæni biðu fúlsuðu við Indriða miðli (1942) og Viðfjarðarundrunum (1943) þar sem höfundurinn þótti heldur en ekki missa hæð miðað við það sem á undan var komið. Ef marka má umsagnir samtímamanna er ekki laust við að sumir lesendur Þórbergs hefðu þurft á áfallahjálp að halda, áþekkri þeirri sem farþegar Flugleiða voru sviknir um í fyrra þegar þotan missti flugið úr þúsund metra hæð niður í 100 metra hjá Tjerebo- flugvelli, svo lá við stórslysi. En framhaldið kom aldrei, þess í stað settist Þórbergur við fótskör gamals þular, Árna prófasts Þórarinssonar, og hóf að skrifa upp hans ævi sem síðan birtist árvisst á fimm ára tímabili frá 1945 til 1950 og þokaði sjálfsævisögu höfundarins smám saman úr sjónmáli. Um ástæður þess að hann hélt ekki verkinu áfram segir Þórbergur í samtali við Matthías í Í kompaníi við allífið: „Sögu Unuhúss treysti ég mér ekki til að skrifa af þeirri hreinskilni, sem mér sæmir, og þess vegna læt ég það ógert.“12 Þessi setning líktist einna helst gátu þar til árið 1983 að Bréf til Sólu urðu lýðum ljós, ástarbréf sem áttu aldrei að birtast, sem móttakandinn fól þriðja manni þvert á móti að brenna, en það fórst ævinlega fyrir að stinga þeim í ketilinn og þau þokuðust fyrir vikið á bak við þar sem þau fengu að dúsa árum saman á meðan heimsstríð geisaði og gengisfellingar og ríkisstjórnir komu og fóru og alltaf biðu þessi bréf á bak við í ruslakompu tímans. Uns einn góðan veðurdag þau birtust í bókarlíki í byrjun níunda áratugarins. Þótt síðan séu liðin rétt tuttugu ár er eins og þau hafi verið of stór biti fyrir unnendur Þórbergs að melta, áhrif þeirra eru varla komin fram enn. Því hér getur að líta Þórberg sem sannarlega kemur á óvart, Þórberg fram- haldsins sem aldrei kom, Þórberg sem aðeins örfáir vissu að hefði verið til, Þórberg í sárum ástarinnar, berskjaldaðan Þórberg, Þórberg afvopnaðan, auðmjúkan Þórberg, Þórberg án stíls, Þórberg án fyndni, guðhræddan Þórberg, Þórberg á biðilsbuxum útmálandi hamingjuna sem bíði hans og Sólu ef þau bara fái að njótast og sem síðan snýr baki við henni þegar hún hefur alið honum barn. Hér var kominn sá kafli í ævi Þórbergs sem hann kaus að hlaupa yfir. Hinn sannleiks- leitandi Þórbergur sem svo miskunnarlaust hafði svipt hulunni af sjálfum sér í bersöglustu lýsingum íslenskra bókmennta – hann hlaut að sniðganga þennan kafla ævi sinnar. Sóla verður barnshafandi eftir Þórberg í maí 1923 og Helgi M. Sigurðsson leiðir rök að því í Frumlegri hreinskilni að fréttin af óléttu Sólrúnar hafi bókstaflega hleypt Bréfi til Láru af stokkunum. 13 Raunar má ganga lengra og segja að þungi Sólrúnar geri Þórberg ávaxtarsaman, hann skrifar meira að segja marga kafla Bréfsins rúmliggjandi eins og sængurkona, það er ekki laust við að við sjáum hina frægu óléttusögu höfundarins í Bréfi til Láru í eilítið breyttu ljósi. *** Það er einkennileg tilviljun að nákvæmlega um sama leyti og Þórbergur á í þessu sálarstríði á annað skáld, fjórtán árum yngra, lausaleiksbarn í vændum sem veldur honum ekki minna hugarangri. Halldór Guðjónsson frá Laxnesi hefur gert íslenskri vinnukonu úti í Kaupmannahöfn barn. Í bréfi til Jóns Sveinssonar segist hann hafa „orðið fyrir skakkafalli sem er sannkallað andskotans skakkafall“. En stendur að því leytinu betur að vígi en Þórbergur, eins og segir í bréfi til Jóns Helgasonar: að „vinir mínir múnkarnir í Clervaux eru allir á mínu bandi, standandi á því fastara en fótunum að ég sem kaþólíki beri einga ábirgð á þeim axarsköftum sem ég hef gert sem prótestant“.14 Og víst má segja að þessi uppákoma breyti engu til eða frá um höfundarverk Halldórs, hans ævisaga er víðsfjarri í þeim skáldsögum sem frá honum fljóta. En það gegnir öðru um Þórberg, þar eð hann sjálfur er yfirlýstur efniviður og uppistaða skáldverka sinna. Og þar er hreinskilnin efst á blaði. Æðsta mark Þórbergs er að segja satt. Aftur á móti fer maður strax að hlæja þegar sannleikur og Halldór eru nefnd í sömu andránni og Halldór hlær þá manna hæst. En það hlýtur að vera þónokkur gáta hvernig hinn hreinskilni Þórbergur gat lifað og skrifað án þess að minnast nokkru sinni á þetta ástarsamband, né ávöxt þess. Og hvernig gat þetta farið svo dult í bæjarfélagi sem taldi aðeins fáeina tugi þúsunda. Það er fyrst árið 1945 sem dóttir Þórbergs, Guðbjörg, fréttir hið sanna um faðerni sitt, hún er þá 21 árs. Árið 1947 gefur hún sig fram við Þórberg sem gengst greiðlega við dóttur sinni og hún er kynnt fyrir vinum og kunningjum þeirra hjóna. Í einu vetfangi hefur Þórbergur eignast uppkomna dóttur, reyndar dótturdóttur líka því Guðbjörg hafði þá eignast stúlkuna Salome. Í fyrstu virðist allt ætla að falla í ljúfa löð, en svo kemur bakslagið þegar eiginkona Þór- bergs, Margrét, leggur blátt bann við því að Þórbergur umgangist dóttur sína og barna- barn. Að áliti Sigfúsar Daðasonar var Guðbjarg- armálið þriðji harmleikur Þórbergs um ævina. Hinir tveir voru Arndísarmál Ofvitans og svo Sólumálið.15 Þessir atburðir eiga sér stað á tímabilinu þegar Þórbergur situr við fótskör séra Árna, en um það hefur Sigfús Daðason þessi orð: „Samstarfið við séra Árna verður Þórbergi nokkurskonar próf, þraut sem hann ákveður að inna af hendi, og gleyma sjálfum sér.“16 Það er ekki laust við að þessi orð „að gleyma sjálfum sér“ birtist manni í nýju ljósi, að Þórbergur hafi einmitt haft ríka þörf fyrir að gleyma sjálfum sér á þessu árabili. *** Það verk sem Þórbergur tekst á hendur þegar hann er staðinn upp frá Árna Þórarinssyni er Sálmurinn um blómið sem út kom í tveimur bindum árin 1954 og ’55. „Staðinn upp“ er satt að segja ónákvæmt orðalag, því kveikjan að verkinu er einmitt þegar Þórbergur leggst í gólfið og setur sig í stellingar nýfædds barns, eins og lýst er í 93. og 94. kafla Sálmsins, sem jafnframt er einhver eftirminnilegasta lýsing á kveikju og tilurð skáldverks sem um getur. Þórbergur hefur þegar hér er komið sögu lýst í löngu máli meðgöngu verksins, erfiðleikunum við að koma sér niður á tón bókarinnar þrátt fyrir tíðar gönguferðir, heit böð og jógaæfingar, uns hann er kominn að því að örvænta. „Allt í einu hvíslar mildileg rödd inn í hægra eyrað hans og Sobbeggi afi heyrði, að það var röddin hans Gvuðs: „Gerðu eins og litla manneskjan, þegar hún var lítil sér!“ Það var eins og eitthvað opnaðist í höfðinu á Sobbeggi afa. Hann gretti sig sinni ljótustu grettu, beit saman tönnunum og sagði: „Asninn ég! Að hafa aldrei dottið „þetta“ í hug í öllum þessum þrengingum! Alltaf er Gvuð ein- faldastur og geníalastur.“ Sobbeggi afi vatt sér úr jakkanum og vestinu og ytri buxunum, henti þeim í hrúgu á gólfið í unnskiptingastofunni og varð allur lítill sér og fór að skríða um gólfið á fjórum fótum og babla við sjálfan sig og slefa út í munnvikin. Hann tosaði sér með skelfilegum erfiðismunum á hnjám og höndum inn í fallegu stofuna, skreið þar frá einum doddinum til annars, reisti sig á hnén upp við þá og lamdi svolítið með lófunum á doddaseturnar og þruglaði eitthvað. Svo skreið hann að karlaskápnum og sat lengi fyrir framan hann og skoðaði karlamyndirnar og potaði með sleikjufingrinum sínum upp að þeim og sagði: „A-a a-a úa pú-a“ Þaðan lagði hann á stað skríðandi til gylltu bókanna í bókaskápnum vestanmegin dyranna í fallegu stofunni. Mammagagga er ákaflega næm og mikil fjarviskumanneskja. Nú fann hún víst á sér fram í eldhúsið, að það mundi ekki allt með felldu í fallegu stofunni. Allt í einu opnar hún hurðina, þegar Sobbeggi afi er kominn rúmlega hálfa leið að gylltu bókunum, og segir: „Hvað eiga þessi djöfuls asnalæti að þýða? En að þú skulir ekki skammast þín að láta eins og óviti. Þær verða fallegar á hnjánum nærbuxurnar eftir þetta.“ En Sobbeggi afi var orðinn ákaflega lítill sér og gat engu svarað Mömmugöggu nema „bo bo“ og benti sleikjufingrinum sínum á gylltu bækurnar og settist á rassinn sinn. „Ég skil við þig, ef þú hættir ekki þessum asnaskap,“ sagði Mamma-gagga fokvond. En Sobbeggi afi barði lófunum niður á lærin sín og flissaði upp á Mömmugöggu og sagði: „Da da da-a-a.“17 *** Þessi óborganlegi kafli, það er ekki laust við að maður lesi hann með öðru hugarfari eftir Bréf til Sólu. „Régression“ heitir í sálfræðinni þegar við verðum fyrir svo alvarlegu áfalli að varnir okkar bresta og við hröpum aftur til snöggu blettanna í lífi sálar okkar. Fall í lausu lofti, þess vegna alla leið aftur til áfallsins mikla: fæðingarinnar. Sálarstríðið sem fer af stað við að endur- heimta dótturina og vera síðan meinað að um- gangast hana setur í gang hvarfið alla leið aftur til upphafsins. Sálmurinn um blómið er endurlausn Þór- bergs, þar sem allt er umskapað, ekkert heitir lengur sínum vanalegu nöfnum, allt er skírt upp á nýtt af lausnaranum, litlu manneskjunni, heimurinn verður nýr. Það er með nokkrum ólíkindum að þetta verk skuli ekki hafa verið þýtt á allar helstu tungur heims og farið sigurför um veröldina. En ef marka má bókaskrá hefur Sálmurinn aldrei náð út fyrir íslenskt málsvið. Og jafnvel á Íslandi er undarlega hljótt um hann. Hvernig skyldi standa á því? Hvað stendur í veginum? Eitt mesta máttarvaldið í veröld Sálmsins, næst á eftir Guði, er Stalín, sem þá var að berja nestið austur í Rússlandi, álitinn af andstæð- ingum sínum mikilhæfur stjórnmálaskörungur en í guðatölu hjá stuðningsmönnum Sovét- ríkjanna. Aldrei hefur sól Stalíns staðið jafn hátt og á ritunartíma Sálmsins. En aðeins þremur árum eftir að verkið kom út var hann afhjúpaður í Sovétríkjunum sjálfum sem geðveikur harðstjóri og smátt og smátt hefur framkallast mynd af honum sem einhverjum afkastamesta fjöldamorðingja sögunnar. Gætum við ímyndað okkur barnabók – sama hversu góð hún annars væri – sem þyldi að hafa fjöldamorðingja að eftirlætispersónu? En eftir þúsund ár er eins víst að Stalín verði kominn með áþekka stöðu og Pétur mikli eða Napóleon eða Genghis Khan í augum okkar sem lifum núna. Hver veit nema þá standi einhver ofviti á fjarlægri stjörnu hálfur út um þakglugga og mæni til jarðarinnar sem sindrar og tindrar á næturhimninum. Og verði þá hugsað til Þórbergs. Stytt útgáfa af erindi sem haldið var á málþingi um Þórberg Þórðarson á Hrollaugsstöðum í Suðursveit 29.–30. maí 2003. Neðanmálsgreinar: 1 Matthías Johannessen: Í kompaníi við Þórberg, 379. 2 Mitt rómantíska æði, 137. 3 Úngur eg var, 82. 4 Í kompaníi við allífið, 74. 5 Matthías Johannessen: Í kompaníi við Þórberg, 376. 6 Úngur eg var, 82. 7 Tímarit Máls og menningar, 1974, 129. 8 Ljóri sálar minnar, 214. 9 Íslendíngaspjall, 30–31. 10 Ofvitinn (1975), 267. 11 Mitt rómantíska æði, 31. 12 Í kompaníi við allífið, 10. 13 Helgi Sigurðsson, Frumleg hreinskilni, 91. 14 Peter Hallberg, Vefarinn mikli I, 120–121. 15 Frumleg hreinskilni, 69. 16 Sigfús Daðason: Þórbergur Þórðarson, Andvari 1981, 22. 17 Sálmurinn um blómið, 384 og áfram. Gasprarasvipurinn. Kaffiandinn tekur völdin. Hrossahlátur. Höfundur er rithöfundur. Skáldaglenna. Lj ós m yn di r/ Eg ill G uð m un ds so n

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.