Lesbók Morgunblaðsins - 24.01.2004, Page 10

Lesbók Morgunblaðsins - 24.01.2004, Page 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. JANÚAR 2004 J avier Marías er fæddur í Madríd árið 1951. Hann hefur sent frá sér fjölda skáldsagna, smásagna- og greinasafna, auk þess sem hann hefur fengist við þýðingar; hann hefur fengið ýmiskonar verðlaun fyrir skrif sín á Spáni og víðar og verið þýddur á ótal tungumál. Hann er háskólamaður og hefur verið pró- fessor í bókmenntum bæði í Madríd og í Ox- ford. Marías er með þekktustu og virtustu rithöfundum á Spáni. Skáldsagan sem hér er til umfjöllunar er hans nýjasta, kom út árið 2002 og nefnist Tu rostro mañana sem út- leggst Ásjóna þín á morgun. Þetta er fyrsta bók í þríleik, hinar tvær eiga enn eftir að líta dagsins ljós; þessi hluti nefnist Fiebre y lanza, titill sem er öllu erfiðara að útleggja, eitthvað á borð við Sótthiti og lensa, eða Sótthiti og sókn, en verkið skiptist í tvo hluta, Fiebre og Lanza, Sótthita og Sókn. „Maður ætti aldrei að segja frá neinu,“ eru upphafsorð bókarinnar, og í kjölfarið fylgir hugleiðing um það að segja frá og það að þegja, um þá blessun og bölvun sem hvoru fylgir; þetta er eitt af þemum verksins, að segja og að þegja, að segja frá fortíðinni, hvernig hún býr í nútíðinni, að tala í nútíð- inni, hvernig svik geta búið á næsta götu- horni. Fiebre y lanza er njósnasaga, það er eiginlega sú grein sem best lýsir bókinni, að minnsta kosti gengur söguþráður hennar út á njósnir og líklega verða þær meira ríkjandi í næstu bindum. Sagan segir frá Spánverj- anum Jaime Deza sem er sögumaður bók- arinnar og lýsir í fyrstu persónu öllu sem í henni gerist. Deza fer til Oxford í Englandi til að starfa við háskóla um nokkurt skeið, hann hefur búið þar og kennt áður en öðrum þræði er hann að snúa til baka til að jafna sig á skilnaði, gefa sér og fyrrverandi eig- inkonunni fjarlægð og andrými. Sögumaður er öllum hnútum kunnugur í háskólaborginni og umgengst gamlan aðalsmann og prófessor á eftirlaunum, Sir Peter Wheeler. Þeir eiga saman löng samtöl þar sem lávarðurinn rifj- ar upp ævi sína. Smám saman kemur Whee- ler okkar manni í samband við njósnabatterí þar sem hann tekur til starfa og er leitt fyrir sjónir að hann tilheyrir ört fækkandi hópi fólks sem býr yfir ákveðinni náðargáfu: Að sjá inn í framtíðina, að geta sagt til um hvernig ásjónur fólks líta út á morgun, vitað hverjir muni svíkja og hverjir reynast trygg- ir. Þetta er þó ekki skyggnigáfa heldur nokk- urskonar næmi, hæfileiki til sundurgrein- ingar, analýsu á mannlegu atferli, læsi á gjörðir fólks og orð, svipmót, handahreyf- ingar, augnatillit … Deza er látinn fylgjast með yfirheyrslum njósnadeildarinnar og samræðum við fólk sem hann veit ekkert um og gefa síðan álit eða skýrslu um greiningu sína. Störf hans við þessa njósnadeild og samskipti hans við Sir Peter Wheeler eru hryggjarstykkið í verkinu. En þetta segir enga sögu því enda þótt bókin sé njósnasaga er alls ekki þar með sagt að hún sé æsispennandi, það er hún hreinlega ekki, það eru ekki óvæntir atburðir á hverri síðu, engar fléttur, óvæntir hlykkir, morð eða æsingur. Í rauninni fer ekki svo mikill hluti textans í þessi njósnastörf, þau eru næstum hversdagsleg, atburðarásin er hæg og framrás sögunnar og spenna er ekki það sem knýr lesandann áfram. Hvað er það þá? Stíllinn og pælingarnar. Marías notar langar setningar og margsamsettar, textinn flæðir áfram og í ótal áttir áður en hann tek- ur upp þráðinn á ný. Fiebre y lanza tilheyrir því sem má kalla kontemplatívar bókmennt- ir, hugleiðandi skrif, Marías er algjörlega óragur við útúrdúra. Kannski verður eitt svipbrigði á andliti sögumanni tilefni til heimspekilegra vangaveltna sem taka tíu síð- ur eða meira. Eða þá að eitthvað minnir hann á gamla sögu úr fortíð sinni, útúrdúr upp á kannski tugi síðna. Ein slík saga, svik vinar við föður hans að lokinni spænsku borgarastyrjöldinni, verður mikilvægur þráð- ur í verkinu. En það sem verður helst til að kveikja hugleiðingar sögumanns í þessari bók eru tungumálin enska og spænska. Sag- an á eðli málsins samkvæmt að gerast á ensku og sögumaður greinir frá því hvaða ensku orð viðmælendur hans nota og hvernig hann þýðir þau á spænsku, þau séu ekki ná- kvæmlega það sama, sumt er ekki hægt að þýða, annarsstaðar þokast merkingin til; sögumaður fer gjarnan út í samanburð á eðli þjóðanna sjálfra í gegnum tungumálið; það er vel þekkt stúdía og Marías tekst þetta ágætlega, enda hefur hann þýtt sjálfan Trist- ram Shandy eftir Laurence Sterne á spænsku og er vel verseraður í blæbrigðum og svikulum lit orðanna. Þó verður þessi merkingarfræði öll dálítið tilgerðarleg, orða- tiltækin sem tekin eru aðeins of dæmigerð fyrir málsnið enskra hefðarlorda, vangavelt- urnar eru ansi tíðar og útskýringarnar lotu- legar þegar orðasamböndin eru eitthvað sem heyra má í hvaða enskum sjónvarpsþætti sem er. Marías er að skrifa fyrir Spánverja, þeir eru hræðilegir í ensku og heyra ekki í Hugh Grant tala nema döbbaða spænsku; við hin engilsaxneskuvæddu þykjumst hinsvegar ekki þurfa á öllum þessum flúruðu útskýr- ingum á sjálfsögðum hlutum að halda. Mynd- in sem höfundur dregur upp af heldri mönn- um og háskólalífi í Oxford er ef til vill líka dálítið klisjukennd yfirleitt – en kannski hitta klisjurnar bara naglann á höfuðið. Besti vangaveltukaflinn er rýni í enskar áróðursmyndir úr stríðinu; þessar myndir eru birtar í bókinni; Marías hefur oft rýnt í ljósmyndir í skáldsögum sínum en þessi myndasería er hreint makalaus. Áróðurinn beinist gegn lausmælgi venjulegs fólks við venjulegar kringumstæður, beinist gegn því, einfaldlega, að tala. „Gálaust tal kostar mannslíf“, segir eitt slagorðið, „Að segja vini getur merkt að segja óvininum“, „Hugsaðu þig tvisvar fyrir langlínusímtal“, „Be like dad, keep mum!“ Markmið áróðursherferð- arinnar var að koma í veg fyrir að til dæmis tal háseta í landlegu við kærustu sína leiddi til þess að Þjóðverjar kæmust yfir upplýs- ingar um staðsetningu skipa; þeim var ætlað að koma í veg fyrir að njósnarar gætu reikn- að út mikilvægar hernaðarupplýsingar út frá ýmsu smálegu sem þeir hirtu upp af götunni, heyrðu af tali almennings. Stríðsástand, vissulega, samt er þetta óvenjulegt. „Maður ætti aldrei að segja frá neinu,“ eru upphafs- orð verksins og áróðursplakötin smellpassa við þetta þema þess, hinn talandi mann, að náttúra manneskjunnar er að tala. Hlýtur ekki að vera einsdæmi að stjórnvöld biðji al- menning að gæta tungu sinnar með þessum hætti? Að yfirvöld grípi inn í samtal kærustu og kærasta, móður og dóttur? Inn í nánasta einkalíf fólks? Að einkalífið og opinbera lífið skarist með þessum hætti? Ekki fylgir sög- unni hvort þetta hafði nokkur minnstu áhrif og nú er ég að vísu að ganga út frá því sem gefnu að þessi kafli bókarinnar sé alger sagnfræði; hann hefur allan þann blæ og gæti allt eins verið úr fræðiriti. En ályktunin getur auðvitað verið varasöm; rithöfundurinn Javier Cercas birtir söguleg gögn úr spænsku borgarastyrjöldinni í nýlegri skáld- sögu sinni Soldados de Salamina (Hermenn- irnir í Salamína) en þau eru öll sömul meira og minna fölsuð og uppdiktuð. En ég sé ekki betur en að plakötin í Fiebre y lanza séu ekta. Skiptir máli hvort svo sé? Eitt er mjög merkilegt við fyrsta hluta Tu rostro mañana en það er samspil verksins við fyrri bækur höfundar. Því þegar maður les Todas las almas (Allar sálirnar) frá 1989 kemur úr dúrnum að hún er meira en lítið skyld Fiebre y lanza. Hún gerist í Oxford þar sem sögumaður og aðalpersóna að nafni Deza starfar við háskóla, þá hefur hann ekki enn kynnst konu sinni og ekki skilið við hana en heldur við aðra sem er gift. Önnur bókin er ekki framhald af hinni en margar sögu- persónur eru þær sömu – það er ekki nóg með það heldur eru vangavelturnar stundum nauðalíkar. Ein aukapersónanna er blóma- sölustúlka sem kveikir hugleiðingar sögu- manns, það gerist líka í Fiebre y lanza að blómasölustúlka kveikir hugleiðingar, aðeins er blæbrigðamunur á þeim. Forfallinn og undarlegur bókasafnari leiðir sögumann á slóð sjaldgæfra bóka sérstæðs höfundar, rétt eins og gerist í Fiebre y lanza, hér er út- færslan ýtarlegri, birt er ljósmynd af höfund- inum sérstæða og önnur af dauðagrímu hans, saga hans er sögð í löngu máli, lengra máli en í Fiebre y lanza. En ég sé ekki betur en að sumt sé orðrétt alveg eins í bókunum tveimur. Má þetta? Er Javier Marías alltaf að skrifa sömu bókina? Já, eiginlega. En er eitthvað að því? Er ekki í lagi að stela frá sjálfum sér? Frumleikakrafan er misjafnlega sterk eftir löndum, en víða er stutt í hróp um það að nú sé höfundur fagurbókmennta far- inn að endurtaka sig; í stað þess að dýpka eigin þemu og auka við þau er þess krafist að gerð sé hallarbylting í hverri bók, hún á helst ekki að eiga nokkurn skapaðan hlut skylt við eldri verk höfundar, hann á að koma sífellt á óvart, birtast úr ólíklegustu áttum, já, höfundarverkið á helst að vera eins sundurlaust og mögulegt er. Það er semsé ekki tilfellið með Marías. Þó flækist málið enn þegar hafinn er lest- ur á Negra espalda del tiempo (Svart bak tímans) sem Javier Marías sendi frá sér árið 1998. Sögusviðið er – mikið rétt! – Oxford (var ég búinn að nefna að Marías kenndi eitt sinn um hríð við háskóla í Oxford?) Ég hef ekki enn lokið við að lesa þessa skáldsögu en hún tilheyrir einhverri illhöndlanlegri grein sem ekki er alveg metafiksjón en þó eitthvað í þá áttina. Söguhöfundarröddin sem talar í fyrstu köflunum segir frá skáldsögu sinni To- das las almas og viðtökum á henni á Eng- landi. Svo virðist sem jafnvel í háskólasamfé- laginu í Oxford séu menn ekki lausir við þann leik að leita að fyrirmyndum skáld- sagnapersóna í veruleikanum og leggja svo að jöfnu þetta tvennt með næsta groddaleg- um hætti. Þannig hafa lesendur reiknað út að eins og söguhetja sín hafi Javier Marías haldið við gifta konu og eru búnir að finna út hver hún sé. En „Orðið – jafnvel hið talaða orð, einnig illa valin orð – er myndhverfing í sjálfu sér,“ segir sögumaður, og hann heldur áfram og segir: um leið og notuð er líking í frásögn, föst líking þar sem eitthvað er „eins og“ eitthvað annað, þá tekur skáldskapurinn flugið og breytir því sem gerst hefur og fals- ar það … Sögumaður rekur ýmsar samsvar- anir sem lesendur hafa þóst sjá á milli per- sóna Todas las almas og fólks í veruleikanum; á blaðsíðu tuttugu er birt mynd af húsverði sem er semsé ekki fyr- irmynd húsvarðar í háskóla í Todas las al- mas. Og þannig heldur bókin áfram að rekja muninn á og samband skáldskapar og veru- leika. Auðvitað væri gaman ef Marías hefði skáldað upp viðtökur eldri bókar sinnar í Ox- ford og falsað þann fjölda mynda sem í þess- ari bók eru en mér sýnist að svo sé ekki. En aftur að Fiebre y lanza, fyrsta hluta þríleiksins Tu rostro mañana. Óklárað verk sem vantar í framhaldið. En þetta er fín bók, margslungin og sleip, skemmtilega útúrdúra- söm og full af frjóum hugmyndum og vanga- veltum þótt þær eigi það til að verða tilgerð- arlegar. Fiebre y lanza kemur örugglega fljótlega út á ensku, ef hún er ekki þegar komin, eins og aðrar bækur höfundar; tilfinn- ing mín er sú að hún gæti ekki verið eftir enskan höfund og enn síður íslenskan. En þeir sem vilja snarpt plott og snurðulausa frásagnarlega samfellu ættu að leita annað. Það gerist ekki mikið í bókinni og fátt eitt sem ekki hefur áður gerst í bókum eftir Jav- ier Marías, en það skiptir engu máli og er hreint ekki veikleiki á höfundarverki hans, Marías hefur fundið sína sögu og heldur sig við hana, maður ætti kannski aldrei að segja frá neinu en það eru ótal leiðir við að segja frá því sama ef maður gerir það á annað borð. „MAÐUR ÆTTI ALDREI AÐ SEGJA FRÁ NEINU“ Höfundur er bókmenntafræðingur. Javier Marías Eitt af áróðursspjöldunum sem um er rætt í bókinni. Fátt gerist í þessari bók Javiers Marías. E F T I R H E R M A N N S T E FÁ N S S O N Er Javier Marías alltaf að skrifa sömu bókina? Já, eiginlega. En er eitthvað að því? Er ekki í lagi að stela frá sjálfum sér? Þessar spurningar verða til við lestur nýjustu bókar spænska rithöfundarins Javier Marías, Tu rostro mañana – 1 Fiebre y lanza, sem kom út árið 2002.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.