Lesbók Morgunblaðsins - 07.02.2004, Side 10

Lesbók Morgunblaðsins - 07.02.2004, Side 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. FEBRÚAR 2004 ÞAÐ er erfitt að gera sér grein fyrir því hvenær og með hvaða hætti maður fer að fá áhuga fyrir listum. Mér finnst að ég hafi haft hann frá því að ég var smákrakki og hlýddi á móður mína kveða rímur á dimmum vetrarkvöldunum og föð- ur minn lesa Passíusálmana á föstunni. Mér er þó sérstaklega minnisstætt er Jón á Loftsstöðum lék fyrir mig á gamla org- elið sitt og Gísli Jónsson málari sýndi okkur myndirnar sínar. Allt þetta listafólk finnst mér ennþá í hópi þess besta sem ég hefi kynnst á lífsleiðinni. Á Loftsstöðum þar sem ég var strák- ur og sat yfir ám var mikið líf og fjör. Þar bjó dugandi fólk af gamla skólanum, sem vann baki brotnu myrkranna á milli, til þess eins virtist mér, að hafa ráð á því að fórna stund fyrir sjálft sig við söng og lestur. Stundum var komið þar upp smá- hljómsveit, það var orgel, fiðla, munnharpa og harmonika. Það var nú meiri músikkin á því heimili. Þar lærði ég að „wo man singt da lass dich ruhig nieder“, og að vont fólk elskar ekki listir. Listin er eina meðalið við mannvonsku. Á Lofts- stöðum var ákaflega yndislegt fólk, gáfað, kátt og hjálpsamt. Ég held að mér verði alltaf ennþá minnisstæðara er ég heyri unga stúlku á Loftsstöðum spila allegrettóið úr sjöundu sinfóníu Beethovens, en þegar ég tæpum aldarfjórðungi síð- ar, heyrði það í fyrsta sinn leikið af sinfóníuhljómsveit í Berl- ín undir stjórn sjálfs Wilhelms Furtwanglers, eða að minnsta kosti var endurminningin um konsertinn á Lofts- staðaorgelið efst í huga mér þá stundina og svo hitt, hvort stúlkan, sem lék á hljóðfærið, og nú er margra barna móðir austur í Flóa, og ég hefi því miður aldrei séð síðan, hafi í raun og veru verið eins afskaplega fal- leg eins og myndin af henni undir tónum Furtwangl- ers í Berlín. Lagið eins og hún lék það var þessa stund- ina svo ferskt í endurminningunni að ótrúlegt er að myndin hafi brenglast. Á Bakkanum var reyndar furðumargt til skemmt- unar. Þar var leikið og þar voru kórar. Áhrifin frá kaupmannshúsinu náðu meira og minna inn á hvert einasta heimili. Það var mikil heppni fyrir Suðurland að það fólk skyldi setjast að á Bakkanum. Eins og ann- ars staðar á landinu eyddi fólk frístundunum mest við lestur. Allar bækur voru bókstaflega lesnar upp til agna. Mér er sérstaklega minnisstætt eintakið sem ég komst yfir af Svörtum fjöðrum. Það leit út eins og handritin á Árnasafni nema hvað það hafði ferskari slorlykt. Við bræðurnir bjuggum mestan hluta sumarsins í tjaldi rétt hjá Kaldaðarnesi, þar sem faðir okkar hafði slægjur. Við tókum með okkur mikið af bókum í mat- arskrínunum. Við fórum ekki alltaf heim um helgar því þá vorum við reknir til að þvo okkur, en við vorum nískir á tímann frá heyskap og bókum. Fyrstu árin mín í Reykjavík gerði ég nokkrar til- raunir til þess að læra á ýms hljóðfæri en úthaldið brást. Ég hafði lag á því að fá kennarana til þess að spila fyrir mig í staðinn. Ég hafði sem betur fór enga hæfileika til þess að leggja þar neitt til málanna sjálfur og fyrir það gáfnaleysi þakkaði ég guði mínum oft síð- ar, er ég kynntist listamönnunum og lærði að skilja hvílíkt voðalegt átak þarf til þess að skapa listaverk og leika þau og hve hroðalegar fórnir margra listamanna og takmarkalaus þrælkun er vanþökkuð í lífinu. Stundum hefir fólk sagt við mig: Hvernig er það með hann Pál vin þinn Ísólfsson eða hann Halldór Kiljan gera þeir eiginlega nokkuð. Ég svara nú ekki svona spurningum um vinnutíma lista- manna, það er ekki til neins. Ef þessum mönnum væri bara greitt tímakaup, væru þeir hæstu skattgreiðendur landsins, svo mikið er fast starf þeirra reiknað í klukkustundum, þó listin sjálf væri metin eins og vegavinna. Svo er um alla menn, sem mikil afrek vinna, þeir hafa langan vinnudag og lífið ann þeim engrar hvíldar, næðis eða þæginda. Við því er ekkert að segja, hitt er harður kostur er við, sem njótum afreka þeirra tökum í sama strenginn. Mikið listaverk krefst meiri áreynslu, meiri fórna og meiri þjáninga en nokkuð annað, sem heimurinn þekkir. Það var ekki fyrr en ég kom í leikfimi til þess frábæra manns, Jóns Þorsteinssonar íþróttakennara, að ég áttaði mig verulega á því að listin væri eitthvað annað og meira en landslagið í kringum okkur og söngraddir brimsins við ströndina. Hjá Jóni, sem er einn einlægasti listunnandi, sem ég þekki, var ekki unnt að sleppa undan að gera sér grein fyr- ir hlutunum. Hann gerði sér ekki að góðu að æfingin væri rétt gerð, það mátti ekki vera nein tilviljun, heldur hugsuð hreyf- ing. Hann leit á líkamsíþróttir, sem við köllum svo, sem frum- stig andlegrar þjálfunar. Mörkin á milli íþrótta í takmarkaðri merkingu og andlegra íþrótta eru mjög óljós. Um leið og tján- ing kemur til greina eins og í listdansi og raunar mörgum fleiri íþróttum, er það orðin list. En alltof margir líta á íþrótt- ir í takmarkaðri merkingu, og fyrir mörgum þeirra fara þær útí sorglegar öfgar, eins og t.d. í boxi, sem ætti að banna eins og aðrar óspektir á almannafæri. Íþróttamál unga fólksins í Rvk. eru á margan hátt að komast í gott horf. Annars álít ég að í fyrsta bekk barnaskólanna ætti ekkert að kenna annað en íþróttir, kenna börnunum ýmiskonar fagrar hreyfingar, kenna þeim að koma boðum frá heilanum til ýmsra útlima, hreyfa sig eftir músik, taktmæli og æfa þau í að koma fallega fram. Krakki sem búinn er að fá slíkan skóla einn vetur undir handleiðslu góðs kennara vinnur tímann fljótt upp í skrift og lestri og er miklu betur undirbúinn undir annað nám. Listin, sem er íþrótt hjarta og hugar, þarf að vera í sem ríkustum mæli takmark allra manna, og aldrei byrja börnin of snemma að iðka listir. Þau börn eru fremur undantekning sem ekki hafa einhverja hæfileika til þátttöku í listum. Listin er eina – alls eina leiðin til þess að lyfta manneskjunum uppúr því vol- æði heimsku, slæpingsháttar og hégóma, sem alltof margir una við. Og íþróttir eru fyrstu einföldu sporin til þjálfunar hinna æðri tauga, innri skynjana, heyrnar, sjónar og tilfinn- ingar. Þátttaka mín í músikmálum með stofnun Tónlistarfélagsins og Tónlistarskólans var fyrir áeggjan vina minna, sem vissu að ég var sporléttur, fremur en af eigin hvötum, og alltof mik- ið hefir verið gert úr mínu starfi þar, því miður. Það fer ekki á milli mála hver hefir unnið þar mest, það er að sjálfsögðu Páll Ísólfsson og Björn Jónsson í upphafi, ásamt öllum fé- lögum okkar í Tónlistarfélaginu, en síðari árin eru það kenn- arar Tónlistarskólans ásamt ýmsum tónlistarmönnum. En ég held að ég hafi helst orðið að liði sem bókaútgefandi og ástæðan fyrir því að ég fór að gefa út bækur, þó að ég hafi vit- anlega engan veginn unnið þar neitt brautryðjendastarf al- mennt, var að mér rann til rifja að sjá, eftir að allt hafði feng- ið hér á sig furðumikinn menningarbrag í þeim efnum, að ýmsu leyti, að fín bók, sem seld var fyrir hundrað krónur, skyldi oft og tíðum ekki geta skilað höfundi sínum fyrir einni máltíð, allt fór í prentarann, bókbindarann og pappírssalann. Ég gerði fyrstu tilraunina fyrir kunningja minn og hún mis- heppnaðist náttúrlega vegna þess að ég hafði þá ekki gert mér grein fyrir því í hverju þetta lá, hélt að prentarinn og bókbindarinn hefðu bara okrað á mér og að af þeim ætti að taka eitthvað handa höfundinum, en þeir reyndust ekki borg- unarmenn fyrir ritlaunum. Þeir höfðu nóg með sig. Bækurnar urðu að hækka að minnsta kosti í svipinn fyrir ritlaununum og það hætti ég á að gera. En þá eignaðist ég marga óvini og það meðal greindra manna. Margir trúðu á það að nauðsyn- legt væri að skáld væru mjög hungruð, skáldskapurinn væri sultardropar snillingsins. Ef útgefandi reiknaði með handriti, sem útgjaldalið í bókaútgáfu, varð að skoða það sem ölmusu. Bók var pappír og prentsverta, það var allt og sumt. Við sem kaupum bækur til þess að lesa þær, til þess að skyggnast inní hugarheim listamannsins og hlýða á það sem hann hefir að segja, af sinni blóðugu lífsreynslu, skiljum það mætavel, að þær skrifa sig ekki sjálfar, og að það er ekki hægt að ráða menn til þess að skapa listaverk fyrir sig. Þær þjóðir sem hæst meta listir og gera mest til þess að efla þær í landi sínu, hafa orðið forustuþjóðir í heiminum, en þær sem hafa kúgað og vanmetið listina, hafa horfið af landabréfinu smám saman. Í svipinn virðist mér að gróska sé í íslenskri list, sérstaklega skáldskap. Ástæðan er kannski að nokkru leyti sú að þjóðin hefir komist í vanda vegna átakanna í heiminum, sem við höfum orðið þátttakendur í meira en áður, en listin er samviska þjóðanna. Hitt er einnig mjög áberandi með listina, engu síður en iðnaðinn að samkeppnin hefir sett mönnum harða kosti. Meðan engar vörur fengust hér var hægt að selja leiðinlegar bækur og lélega iðnaðarframleiðslu. Nú er hvor- ugt hægt að bjóða. Miklir listamenn eru að vísu óháðir slíku vöruframboði, en hinir minni spámenn margir að nokkru leyti. Nú eru að koma fram ung skáld með skemmtilegar bæk- ur, virðist mér. Fólk talar oft um féleysi til þess að koma upp menning- arstofnunum. En þetta er að nokkru leyti viðbára. Það getur t.d. ekki verið af féleysi að það eina sem ólokið er við af hin- um 10 milljón króna stýrimannaskóla er veggmynd, sem þar átti að koma. Það er jafnvel búið að steypa gagnstéttina heim. Fólk skilur ekki nægilega vel þýðingu listanna fyrir uppeldi og sérstaklega manndóm unga fólksins. Ég styð mjög ein- dregið harða samkeppni og frjálsræði í verslun eins og list- um, en ég get ekki neitað því að mér rann til rifja forustuleysi þjóðarinnar, þegar ég sá þriðja bensíntankinn skjóta upp kollinum við hliðina á þeim tveim, sem víða voru fyrir út um allt Ísland og alltof víða eina „prýðin“ á bæjunum. En í svipuðu hlutfalli og þessum nýju Essótönkum fjölgar útum sveitir landsins fækkar þar því eina, sem víða hélt unga fólkinu heima á bæjunum, hljóðfær- unum. Og fyrst við fórum að minnast á hljóðfæri, álít ég að það sé ekki aðeins menningaratriði, heldur bein- línis lífsspursmál að vinna nú þegar að því að koma hér upp vísi að verksmiðju er framleiði handa alþýðu- heimilum við sjó og í sveit ódýr smápíanó og önnur hljóðfæri, eins og gert er í öllum löndum öðrum. Er- indi mitt til útlanda núna á þriðjudag er til þess að at- huga möguleika á því að koma slíkri verksmiðju hér á fót. Hljóðfæraleysið er orðið okkur til skammar og er í þann veginn að stöðva allt tónlistarnám hjá fátæku al- þýðufólki. Það er sorglega eftirtektarvert hve mörgu fólki vex í augum það fé sem það lætur af hendi fyrir bækur, listaverk, aðgöngumiða að leikhúsum og konsertum. Leikhúsmiðar að leiksýningum á borð við þær sem okkur er boðið hér, kosta víðast hvar í Evrópu tvöfalt við það sem hér er, svipað gildir um konsert. Þó er nauðsynlegt að almenningur geti með auð- veldara móti náð til bóka, konserta og leikhúss. Það þarf að koma hér bæjarleikhús og bæði leikhúsin verða að hafa ódýrar sýningar jafnframt, það þurfa að vera hér vikulegir skólakonsertar að minnsta kosti og það er nauðsynlegt að í hverri sveit og þorpi séu bóka- söfn er láni almenningi allar góðar bækur sem út koma, gegn mjög vægu gjaldi. Það er nauðsynlegt að byrja að gera eftirprentanir í litum af ýmsum úrvals- málverkum okkar, handa fólki til þess að hafa hjá sér og kynnast myndunum, og tryggja málurunum tekjur af verkum sínum án þess að þurfa að láta þau öll af hendi. Listina má ekki loka inni. Að vísu eru eftirprentanir af málverkum ekki listaverkið sjálft, fremur en grammófón eða útvarpsmúsik. Því hefir hvorttveggja verið líkt við það að tala við kærustuna í síma. Tónlist af plötu vekur ekki þann tauga- og hugaræsing og þá hrifningu, sem grípur okkur á góðum konsert. Nærvera sjálfs listaverksins, eins og konunnar, er allt annað og meira, en við getum kynnst listaverkunum að vissu marki, og fólk keppist mest eftir að skoða frummyndir þeirra málverka, sem það hefir skoðað í bókum. Víða á sveitaheimilum og alþýðuheimilum í kaupstöðum er yfirleitt ekkert annað til skemmtunar en útvarpið. Fólk verð- ur að fá eitthvað sjálfstætt inná heimilin, hljóðfæraslátt, söng, upplestur, eitthvað fallegt til að dútla við, þar sem börnin eru beinir þátttakendur. Þau mega ekki sogast svo gjörsamlega af lífi og sál inní útvarpstækið að hin andlegu líffæri þess missi allan þrótt og alla náttúru, eins og meltingarfærin í þeim, sem fá fæðuna pumpaða beint inní æðarnar. Slíkt geng- ur ekki til lengdar. Það þarf að koma hljóðfæri inná hvert ein- asta heimili þar sem börn eru, fólk verður sjálft að lesa bæk- ur, en ekki láta Helga Hjörvar lesa þær allar ofaní sig. Í lok þessa mánaðar geri ég nýja tilraun í sambandi við bókaútgáfu. Ég byrja að kynna bækur með því að lána þær til reynslu, og ég byrja útgáfu svokallaðra vasabóka „pocketbo- oks“, sem mjög ryðja sér nú til rúms í samkeppni við tímaritin sem allt eru að gleypa. Það er hvorttveggja að bækur þurfa að lækka fyrir fólk sem lítið fé hefur handa á milli en þó frem- ur hitt að þær þurfa að vera hentugri. Fólk tímir ekki að taka fína bók út úr skáp til þess að hafa með sér á hárgreiðslu- og rakarastofur, læknastofur og á vinnustaði, til að líta í í kaffi- tímanum. Til þess eru þær of dýrar og þó einkum óhentugar. Úr þessu verður bætt með þessum nýju vasabókum okkar sem byrja að koma út í marz. Að lokum vil ég, að við biðjum þjóðina okkar einnar bónar sameiginlega; að henni megi auðnast að blanda ekki um of saman listum og pólitík. Ég las í gær í einu blaði skamm- argrein um menntamálaráð sem gæti bent til þess að þeir menn væru enn til, sem vildu koma hér í gang nýjum Stalín- isma, Hitlerisma eöa McCartyisma. Það er vandi að gerast dómari yfir listum og listamönnum og það ætti ekki að fela mönnum, sem eiga meira af hatri en góðvild. LISTIN ER EINA MEÐALIÐ VIÐ MANNVONZKU Grein þessa skrifaði RAGNAR Í SMÁRA fyrir um það bil 50 árum og er ekki ljóst hvort hún hefur birst einhvers staðar á þeim tíma. Hún birtist hins vegar í Lesbókinni árið 1980 og nú er hún birt hér aftur enda eiga þau sjónarmið sem Ragnar lýsir um hlutverk og stöðu lista í samfélaginu að mörgu leyti við enn þann dag í dag. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon Frá „lokaðri“ sýningu til heiðurs Ragnari Jónssyni í Smára 8. júlí 1975. Kristján Davíðsson talar við Ragnar Jónsson og konu hans Björgu. RAGNAR JÓNSSON

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.