Lesbók Morgunblaðsins - 07.02.2004, Qupperneq 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 7. FEBRÚAR 2004 13
H
vað er flúxus? Þetta er ein-
föld spurning sem erfitt er
að svara,“ segir René Block
þar sem hann situr milli fjöl-
breytilegra verkanna á sýn-
ingunni. „Það eru svo marg-
ar hliðar á flúxus, og mikið
um misskilning. Þetta var
ekki afmarkaður hópur eins og súrrealistarnir
hans André Bretons. Forsprakkinn George Ma-
ciunas hafði ákveðnar hugmyndir um það hvað
flúxus ætti að vera; mjög andkapítalísk hreyf-
ing. Hann var á móti listmarkaðinum, reyndi að
finna nýjar leiðir til að dreifa list og finna nýja
virkni í listinni. Ég held að flestir listamannanna
hafi verið sammála honum upp að ákveðnu
marki, en þeir höfðu líklega ólíkar hugmyndir
um hvað væri list.
Það var samkomulag meðal flúxusfólks að
halda sig frá listmarkaðinum og það var ástæð-
an fyrir því að nánast allar fyrstu uppákom-
urnar voru í formi konserta. Nokkuð sem ekki
var hægt að selja.“
Ósýnanleg verk og óseljanleg
Fyrsta flúxusuppákoman var haldin í
Wiesbaden í Þýskalandi árið 1962 og tveimur
árum seinna opnaði Block, sem var þá einungis
22 ára gamall, gallerí í Berlín. Þrátt fyrir að
höndla með list tók hann að vinna náið með
mörgum helstu flúxuslistamönnunum. „Ég var
með konserta og uppákomur í galleríinu og svo
sýningar á ungum listamönnum, Gerhard Rich-
ter og Sigmar Polke þar á meðal. En samband
mitt við flúxusmenn eins og Josef Beuys og
Wolf Vostell var í formi konserta og ósýnan-
legra verka – og óseljanlegra. En það er ekki
víst að mér hefði tekist að finna að þeim kaup-
endur þá, þótt ég hefði viljað,“ segir hann og
hlær.
„Miklu síðar gerði ég mér grein fyrir því að
allir þessir listamenn gerðu frábær verk og í
kringum 1970 fór ég að selja þau. Flúxus er
mjög opin og sjálfstæð listræn tjáning; lista-
maðurinn notar það form sem hentar best í að
túlka hugmyndina. Það getur verið hlutur,
teikning, performans, kvikmynd eða texti. Þessi
skörun forma er hvað mikilvægasti þátturinn.
Annað mikilvægt einkenni er hvernig allir
þessir listamenn höfðu samband sín á milli og
vissu hver um annan. Póstlistin varð til sem list-
form. Verkin voru heldur ekki til sölu, bara
skipti á upplýsingum og hugmyndum.
Maciunas var alveg á móti stjörnudýrkun en
engu að síður urðu nokkrir flúxuslistamenn
mikilvægastir fyrir þróunina, urðu að stjörnum.
John Cage fyrir tónlistina, Josef Beuys fyrir
skúlptúr og Nam June Paik varð sá allra mik-
ilvægasti í vídeótækni. Þessir þrír höfðu mikil
áhrif á listþróun seinni hluta nýliðinnar aldar.“
Á áttunda áratugnum hætti Block rekstri
gallería sinna í Berlín og New York, tók að
vinna sem sjálfstæður sýningarstjóri en hann
hefur sett upp fjöldann allan af stórum listsýn-
ingum víða um heim. Fyrir áratug starfaði hann
um tíma fyrir stofnunina IFA, sem er ábyrg fyr-
ir kynningu á þýskri list erlendis.
„Fram að því hafði lítið verið gert af því að
safna saman verkum flúxuslistamanna í Þýska-
landi, þótt hreyfingin hafi átt þar upptök sín. Ég
fékk hugmynd um að gera sýningu um þetta
fyrirbæri og koma henni á ferð um heiminn.
Þetta áttu ekki að vera bara þýskir flúxuslista-
menn, heldur líka listamenn sem höfðu búið í
Þýskalandi, kennt þar eða tekið þátt í uppá-
komunum árið 1962. IFA keypti öll verkin. Við
byrjuðum að leita verka og kaupa árið 1993 og
vorum heppin að finna þetta mikið, mörg verk-
anna mjög söguleg, og svo báðum við suma lista-
mennina að gera ný verk. Sýningin hefur nú
verið á ferðinni í tíu ár, sett upp bæði í stór-
borgum og minni söfnum. Hingað kom hún frá
Shanghai í Kína – það hefði verið ómögulegt að
sýna þessi verk þar fyrir tíu árum – og fer héðan
í tveggja ára ferð um Suður-Ameríku.“
Flúxus hefur gefið
listamönnum frelsi
Block hefur haldið áfram að koma að sýn-
ingum sem tengjast flúxus. Eins og fyrr segir
var fyrsti konsert listamannanna í Wiesbaden
árið 1962 og tuttugu árum síðar var Block boðið
að skipuleggja afmælissýningu á sama stað. „Þá
fékk ég sama sviðið og settur var saman nýr
konsert, þetta var þá orðið eins og lokaður
hringur; fyrir mér var það síðasti raunverulegi
performansinn sem kenna má við flúxus. Það
var áhugavert að sjá hvernig listamennirnir og
verkin höfðu breyst en líka áhorfendurnir og
viðtökur þeirra.
Vegna 30 ára afmælisins árið 1992 bauð ég
síðan níu af flúxusmönnunum að gera verk fyrir
ólíka staði í Wiesbaden og árið 2002 stóð ég fyrir
sýningu þar sem áhrif flúxus á ungu kynslóðina
komu berlega í ljós.
Flúxus hefur gefið listamönnum frelsi til að
nota alla möguleika í tækni, samsetningu miðla
og tjáningu. Og þrátt fyrir að áhrif galleríkerf-
isins séu enn mikil má samt sem áður sjá
ákveðna listamenn starfa á eigin vegum, frjálsa
og óháða.“
Block hefur nú í fjóra áratugi verið að setja
upp sýningar. Hann segist auðvitað eiga sér eft-
irlætislistamenn, en hann verði sífellt að hafa í
huga að listamenn hafi ólíka eiginleika og það
þurfi að sjá hvað þeir leggi til heildarinnar. Hins
vegar komi alltaf fram á sjónarsviðið fólk sem
kemur með nýjungar og leggur línur.
„Á sjöunda áratugnum, þegar farið var að
meta framlag Dadahreyfingarinnar í sögulegu
ljósi, þá voru ennþá nokkrir úr hreyfingunni á
lífi og þeir tóku að deila á afar heimskulegan
hátt um það hver hefði gert hvað og hver hefði
fundið upp orðið Dada. Þeir sem deildu voru alls
ekki með athyglisverðustu framlögin til Dada –
þeir höfðu einfaldlega lifað lengur en hinir. Nú
höfum við séð nokkuð þessu líkt gerast með
flúxus. Sumir merkilegustu þátttakendanna
hafa dáið og sumir þeirra minni – ef svo má
segja – eru á lífi og eru farnir að rífast um hver
er flúxus og hver er ekki flúxus. Þetta er alveg
fáránlegt.
Maciunas fór út í að ákveða hverjir væru flúx-
us. Hann meinaði sumum þátttöku, út af hinu og
þessu; samkvæmt stífustu skilgreiningum hans
var Beuys aldrei flúxus, Cage ekki heldur, Vos-
tell var rekinn burt og í endann var Paik orðinn
stjarna og því vísað burt – en um leið eru það
þessir fjórir sem þakka má öðrum fremur að
hugmyndin um flúxus hefur lifað. Beuys sagði
alltaf: Verkin mín eru flúxus, og þá vildi fólk vita
meira.“
Block segir langan tíma hafa liðið þar til fólk
fór að taka þessa listamenn, eins og Beuys, al-
varlega. „Fólki fannst hann alltaf vera með
bjánalega performansa. Hann þótti ekki nógu
alvarlegur skúlptúristi, hann notaði skrýtin efni
og framkvæmdi undarlega hluti. Það tók langan
tíma að fá fólk til að skilja hvað hann var að
gera.“
Vinn með og fyrir listamenn
Árið 1974 opnaði René Block sýningarsal í
SoHo í New York og sýndi þar fyrst og fremst
listamenn tengda flúxus. Fyrsta sýningin er
löngu orðin fræg og komin í listasögubækur, en
það var performans Beuys með sléttuúlfi.
„Beuys var þá orðinn þekktur í Evrópu og var
vel tekið af ungu listamönnunum í SoHo, en
enginn af hinum virtari gagnrýnendum eða list-
fræðingum lét sjá sig,“ segir Block. „Það komu
engir dómar um þennan performans í New
York Times og það var heldur ekkert skrifað
um sýningu hans ári síðar.
Ég var með frábæra listamenn í galleríinu,
ameríska flúxusmenn sem enginn galleristi þar
vildi sinna, og svo flutti ég inn Evrópumenn. En
ég safnaði bara mínusum,“ segir hann og ypptir
öxlum, „það var ómögulegt að selja þetta á þess-
um tíma. Ég rak salinn með hagnaði af gall-
eríinu í Berlín en ég var ekki sölumaður í þess-
um hefðbundna skilningi. Ef þú vilt selja þarftu
að fara í öll réttu partíin. Nota kerfið. Ég hafði
ekki áhuga á því.“
Hugmyndin á að koma
frá listaverkunum
En hvernig skyldi Block, með alla sína
reynslu, lýsa hlutverki sýningarstjórans í dag?
Hann hlær og segir þetta viðkvæmt mál.
„Sýningarstjórinn – kúrator – er fyrirbæri sem
kom upp fyrir um tuttugu árum, en síðan hafa
þeir orðið sífellt meira áberandi. Þetta er oft
fólk sem fær hugmyndir og reynir síðan að búa
til sýningar út frá þeim. Það er sterkt tengsl-
anet milli þessara sýningarstjóra, ákveðin kyn-
slóð þeirra vinnur mikið saman og notar sýn-
ingar á vissan hátt til að búa sér til feril. Þeir eru
ekki endilega með sterk sambönd við listamenn.
Ég er hins vegar af annari kynslóð. Ég vinn á
vettvangi, ég vinn alltaf með listamönnunum,
þroskast með ákveðnum hópi listamanna – vinn
meira og minna með þeim og fyrir þá.
Úti um allan heim er nú í þróun kerfi tvíær-
inga og slíkra hátíða. Þannig sýningar eru mik-
ilvægar fyrir þróun sýningarstjórnunar. Þetta
er athyglisvert fyrirbæri. Hátíðir sem þessar
geta eflt samstarf sýningarstjóra og lista-
manna. Sýningarstjóri ætti að vera vinur lista-
manna, þróa hugmyndir að sýningum með lista-
mönnum; ekki nota listamenn til að útskýra
hugmyndir, eins og gerist stundum. Þá eru sýn-
ingarstjórarnir með hugmyndir, konsept, og
leita svo að listamönnum sem falla inn í það.
Þetta er röng aðferð. Hugmyndin á að koma frá
listaverkunum. Mér finnst sýningarstjórinn
eiga að vera eins og jarðskjálftafræðingur; hann
á að leita uppi listræn eldgos úti um heims-
byggðina.“
Frá árinu 1997 hefur Block verið forstöðu-
maður Kunsthalle Museum Friedricanum í
Kassel. Þar er hin þekkta sýning Documenta
haldin fimmta hvert ár og hann segist í þessu
starfi sínu vera að vinna með samtímann eins og
hann verður mest spennandi. Block var árið
1995 boðið að skipuleggja tvíæringinn í Istanbúl
og kynnti sér þá það helsta í myndlist Tyrkja og
nágranna þeirra, einkum þjóðanna á Balkan-
skaga. „Ég bauð listamönnum frá þeim öllum að
sýna, fannst þeir þurfa á þessu samtali við aðra
ólíka listamenn að halda. Og ég fann svo mikið
af áhugaverðri list þarna að aðalsýningin hjá
mér í Kassel í fyrra var helguð Balkanskaga.
Við sýndum verk 88 listamanna. Það var eins og
lítil Documenta. Það er mikil skjálftavirkni á
Balkanskaga um þessar mundir.“
Vil vinna með
íslenskum listamönnum
En skyldi Block hafa haft einhvern tíma til að
skoða íslenska myndlist?
„Í gegnum tíðina hef ég unnið nokkuð með ís-
lenskum listamönnum; ég hef alltaf boðið ein-
hverjum héðan á þá tvíæringa sem ég hef stýrt.
En það er ekki ómögulegt að mér takist, meðan
ég er enn í Kassel, að setja saman sýningu með
ólíkum kynslóðum íslenskra listamanna. En þá
þyrfti ég að koma aftur, skoða mikið og kynna
mér þá strauma sem eru í gangi.
Annars hefur það oft vakið athygli mína hvað
öflugir listamenn hafa komið frá Íslandi og hvað
listalífið er máttugt hér á landi.“
SÝNINGARSTJÓRINN
LEITAR AÐ ELDGOSUM
Yfirlitssýning á flúxus-
verkum listamanna á
borð við Josef Beuys,
John Cage, Dieter Roth
og Wolf Vostell var opnuð
í Listasafni Íslands um síð-
ustu helgi. Sýningarstjór-
inn, René Block, er einn
sá kunnasti í sínu fagi.
Hann tengist flúxushreyf-
ingunni náið og ræddi
við EINAR FAL INGÓLFS-
SON um sýningastjórn
og sitthvað fleira.
efi@mbl.is
Morgunblaðið/Einar Falur
René Block við verkið „Flúxus – píanó – Litháen: Til heiðurs Maciunas“ sem Wolf Vostell gerði árið 1994.