Lesbók Morgunblaðsins - 13.03.2004, Síða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. MARS 2004
B
andaríski rithöfundurinn Don
DeLillo á það sameiginlegt með
mörgum frægustu höfundum
vísindaskáldsagna að virðast
stundum forspár í bókum sín-
um. Í skáldsögunni White Noise
(1985) er kafli sem nefnist „The
Airborne Toxic Event“ og segir
frá eiturefnaslysi sem minnir óþægilega á milt-
isbrandsárásir sem voru yfirvofandi í New
York, Flórída og víðar um heiminn árið 2001,
meðal annars hér á landi. Í Mao II (1991) má
lesa um ýmsar hliðar hins margumtalaða „stríðs
gegn hryðjuverkum“ sem Bush Bandaríkjafor-
seti lýsti yfir eftir árásirnar 11. september 2001.
Í stærstu skáldsögu sinni, Underworld (1997),
er kafli um vegamorðingja í Texas sem minnir
um margt á leyniskytturnar Malvo og Muham-
mad sem fyrr í þessari viku voru dæmdir fyrir
morð á tíu manneskjum í október 2002 í Wash-
ington og nágrenni. Framan á þessari sömu bók
er svo drungaleg mynd af tvíturnunum í New
York, efsti hluti þeirra hverfur upp í skýin en til
hliðar sést svartur fugl fljúga í átt að þeim, í for-
grunni er kirkjuturn með krossi sem ber við
skýjakljúfana. Það þarf ekki mikið hugmynda-
flug til þess að sjá tenginguna við atburðina 11.
september 2001 þegar heimsmynd hins síðkapí-
talíska heims, sem þessar tvær byggingar stóðu
fyrir í huga margra, hrundi til grunna.
Í nýjustu skáldsögu sinni, Cosmopolis (2003),
fjallar DeLillo einmitt um þessa heimsmynd en
út frá öðru sjónarhorni. Sagan gerist á einum
degi í aprílmánuði árið 2000 eða einu og hálfu ári
fyrir ógnarverkin. Sögusviðið er Manhattan og
aðalsöguhetjan er ungur maður, Eric Packer,
sem hefur átt ótrúlegri velgengni að fagna í við-
skiptalífinu. Hann hefur grætt tugi milljarða
dollara en tapað veruleikaskyninu fyrir vikið, að
því er virðist. Þennan dag hefur hann lagt allt
sitt undir með kaupum á japanska jeninu.
Greinendur á gjaldeyrismarkaði telja að jenið
sé í hámarki en Eric er sannfærður um að það
muni fara hærra. Annað kemur á daginn. Eric
tapar hverjum eyri. Og þegar þessi dagur er að
kveldi kominn virðist veröld hans – viðskipta-
veldi byggt á stafrænu verðbréfa- og gjaldeyr-
isbraski, glæsiíbúð, glæsibifreiðar, glæsikonur
og fjarrænn veruleiki skjámyndarinnar allt um
kring – vera hrunin og hann sjálfur horfa inn í
eilífðina. Bókin fjallar um endalok tímabils
óstjórnlegrar bjartsýni á alþjóðlega peninga-
markaðinn þegar e-bólan sprakk, virði fjölda
stórfyrirtækja féll og mótmæli gegn hnattvæð-
ingu urðu æ hatrammari. Og, að margra mati,
tekst DeLillo betur en flestum að lýsa því hvert
stefnir í hinum veruleikafirrta póstmóderníska
heimi; hann hefur sannarlega reynst sannspár
áður.
Grimmur gagnrýnandi
Don DeLillo er tvímælalaust eitt af stóru
nöfnunum í bandarískum bókmenntum um
þessar mundir; hann, Pynchon, Roth, Sontag,
Morrison, Updike, Oates ... og sennilega væri
hægt að telja fleiri, en DeLillo á það að minnsta
kosti sameiginlegt með öllum þessum höfundum
að vera grimmur samtíma- og samfélagsrýnir.
Allt frá fyrstu bók sinni, Americana (1971), hef-
ur sjálfsmynd Ameríku verið til umfjöllunar í
verkum DeLillos; ofbeldis- og ógnarmenningin,
rokkmenningin, sjónvarpsmenningin, neyslu-
menningin og þannig mætti lengi telja; fáum
höfundum hefur tekist jafn vel að afhjúpa land
frelsisins, draumanna og allsnægtanna.
Fáir andmæla því að Underworld sé ein af
merkustu skáldsögum síðustu áratuga. Hún
fjallar um Ameríku á tímum kalda stríðsins. Það
er raunar fráleitt að lýsa umfjöllunarefni þess-
arar miklu bókar í svo fáum orðum en sjálfur
hefur DeLillo sagt að hún greini frá átökum á
mörgum sviðum en þó einkum sviði tungumáls
sem reynir að vinna gegn þeirri ógnarlegu her-
tækni sem skyggði á allt annað á þessu tímabili
og mótaði viðfangsefni bókarinnar. Underworld
er verk sem hafði verið eins og í bígerð um
nokkurn tíma þegar það kom út. Það hlaut ein-
hver að skrifa svona bók um eftirstríðsárin í
Ameríku enda vandséð að hægt hefði verið að
gera efninu viðlíka skil í öðru formi en stórri
skáldsögu. Sumir gagnrýndu bókina reyndar
fyrir að vera of stór en hún spannar 827 blaðsíð-
ur. Breski gagnrýnandinn Malcolm Bradbury
sagði að bókin væri sterk, „en í amerískum
skilningi, ofvaxin á átakanlegan og hömlulausan
máta.“ Sjálfsagt er ýmislegt til í þessu en það er
auðvitað dæmigert að Cosmopolis er nú gagn-
rýnd fyrir hið gagnstæða, að vera of stutt.
Þetta eru ekki endalokin
Og hún hefur verið gagnrýnd fyrir að vera of-
hlaðin boðskap, og það er að vissu leyti rétt: Bók-
in virðist ekki segja merkilega sögu, í henni virð-
ist fátt gerast, en hún segir lesendum ýmislegt
um þann heim sem við lifum í um þessar mundir
og henni líst svona rétt mátulega á hann.
Eric Packer er hættur að geta sofið. Það fáum
við að vita í fyrstu setningu bókarinnar. Nóttina
fyrir þennan apríldag hækkaði jenið umfram
væntingar. Eric lætur það sem vind um eyru
þjóta og ákveður að fara í klippingu. Hann tekur
einkalyftu – aðra af tveimur – úr 48 herbergja
íbúð sinni í tæplega þrjú hundruð metra háum
skýjakljúfinum niður á götu þar sem Torval líf-
vörður bíður hans við hvíta limmann. Í þeim bíl
eiga þeir eftir að eyða lunganum úr deginum.
Þeir eru að reyna að komast yfir í hinn enda
borgarinnar þar sem rakarinn er staðsettur en
ýmsar hindranir verða á vegi þeirra; forseti
Bandaríkjanna er í heimsókn á Manhattan og
því er stórum hluta vegakerfis borgarinnar lok-
að, andstæðingar hnattvæðingarinnar eru með
mótmælaaðgerðir í borginni og það er verið að
jarða vinsælan rappsöngvara. Að auki sinnir
Eric ýmsum hlutum á leiðinni, flestum óvænt-
um svo sem að heimsækja hjákonu sína og
borða morgunmat með ungri og ríkri eiginkon-
unni til 22 daga; hann rekst fjórum sinnum á
hana um daginn en á alltaf jafn erfitt með að
þekkja hana úr fjöldanum. Flestum erindum
sinnir hann þó innan í bílnum þangað sem gestir
sækja hann heim hver á fætur öðrum; tækniráð-
gjafi hans, sem fullyrðir að tölvukerfi hans sé al-
gerlega öruggt, sérfræðingur hans í gjaldeyr-
isviðskiptum, ráðgjafi hans í heimspeki og
auðvitað læknirinn sem hann hittir daglega en
skoðar nú á honum endaþarminn meðan hann á
fund með fjármálaráðgjafanum.
Heimurinn fyrir utan bílinn er fjarstæðu-
kenndur í augum Erics. Hann sér fólk ganga um
göturnar, þetta er „hitt fólkið sem tilheyrir göt-
unni, endalaust, nafnlaust, tuttugu og eitt líf á
sekúndu“, og þetta fólk er þarna til þess að sýna
fram á að maður þarf ekki að horfa á það. Eric
er ekki í neinu sambandi við heiminn utan bíls-
ins, nema í gegnum sjónvarps- og tölvuskjána
sem miðla honum upplýsingum um það sem er
að gerast: „Hlutirnir voru skiljanlegri í sjón-
varpinu,“ segir þar sem þeir Torval sitja fastir í
bílnum inni í miðri þvögu mótmælenda gegn
hnattvæðingunni. Ráðist er á bílinn, brotist er
inn í búðir og banka, sprengjur springa, lög-
reglan beitir táragasi, það er allt að verða vit-
laust og Eric fylgist með atburðunum ásamt
vinkonu sinni á skjánum meðan þau ræða sam-
an um kenningar Marx og sköpunarkraft mark-
aðarins sem brjótist út í óeirðum eins og þess-
um. Á gangstéttarkantinum brennur maður til
bana hægt og hægt. Þau sjá það betur á skján-
um og Eric reynir að ímynda sér sársaukann.
En Eric hefur gleymt því hvernig venjuleg
manneskja finnur til: „Þetta er gott,“ segir hann
við eiginkonu sína þegar hann uppgötvar að þau
eru að spjalla saman um sársauka og afbrýðisemi.
„Við erum eins og fólk að tala saman. Er það ekki
svona sem fólk talar saman?“ spyr hann, og hún
svarar: „Hvernig ætti ég að vita það!“
En Eric er í nánu sambandi við tæki sín og
tól, þar finnur hann lífsmörkin. Hann er í svo
góðum tengslum við hina rafrænu miðla að hann
sér þar óorðna hluti án þess að botna neitt í því
hvers vegna. Hann er guð eða eins konar guð-
legt afkvæmi þeirrar tækni sem gegnsýrir líf
hans en æðsti draumur hans er að sættast við
dauðleikann í einhvers konar tæknilegu al-
gleymi, „að lifa utan við gefin mörk, í flögu, á
diski, sem upplýsingar, í ofurhraða, undir geisla,
vitundarlífi handan tómsins.“
DeLillo er sannarlega ansi þungur á brún í
þessari bók þótt hún sé hvergi nærri þung eða
leiðinleg aflestrar. Hann boðar algera upplausn
í sýndarverulegum heimi, ofurmarkað, ofur-
tækni, ofurveruleika og ofurmann sem hverfur
inn í þokuna sigri hrósandi: „Þetta eru ekki
endalokin,“ segir í lok Cosmopolis.
Dulbúin ritgerðasöfn
Það væri raunar hæglega hægt að lesa
Cosmopolis sem svarta kómedíu. Eric er ekki
persóna sem lesandinn á auðvelt með að sam-
sama sig við en hann kann að hlæja brjálæðis-
lega að honum. Það er tilfinning sem skort hefur
í sumar bækur svipaðs efnis frá síðustu árum.
Fáir hafa sennilega skellt upp úr við lestur á
American Psycho eftir Bret Easton Ellis eða
Öreindanna eftir Michel Houellebecq.
Hugsanlega mætti halda því fram að DeLillo
sé höfundur – eða að minnsta kosti einn af höf-
undum – þeirrar tegundar skáldsögu sem leitast
við að varpa ljósi á samtímann og samfélagsást-
and með hugmyndalegri og menningarlegri
greiningu. Stundum verða skáldsögur hans eins
og dulbúin ritgerðasöfn á sviði menningar-
fræða. Með þessum hætti er hægt að gera
skáldsöguna að öflugu tæki til að afhjúpa
ríkjandi ástand en stundum er það á kostnað
hinna klassísku frásagnarþátta, ekki síst per-
sónusköpunar og sögulegrar framvindu. De-
Lillo hefur einmitt verið gagnrýndur fyrir að
vera ekki mikill fléttumeistari í hefðbundnum
skilningi og sögur hans eru sumar sagðar lýsa
dauðu fólki. En skáldsagan hefur raunar aldrei
verið neitt sérstaklega upptekin af því að vera
klassísk eða hefðbundin. Og þessi skáldsagna-
tegund – sem myndi sennilega teljast til fé-
lagslegu skáldsögunnar – hefur orðið æ meira
áberandi á síðustu árum. Í Bandaríkjunum er
fjöldi yngri höfunda sem gengið hafa í smiðju
DeLillos, áðurnefndur Bret Easton Ellis er einn
þeirra en helsta má nefna Jonathan Franzen og
Richard Powers. Báðir hafa þeir svarað kalli
DeLillos um breiðar félagslegar samtímasögur í
bókunum The Corrections (2001) og The Time
of Our Singing (2003).
VITUNDARLÍF
HANDAN TÓMSINS
Nýjasta skáldsaga bandaríska rithöfundarins Dons DeLillo, Cosmopolis, virðist ekki segja
merkilega sögu, í henni virðist fátt gerast, en hún segir lesendum ýmislegt um þann heim sem við lifum í um
þessar mundir og henni líst svona rétt mátulega á hann. ÞRÖSTUR HELGASON segir frá bókinni
sem stundum virðist á mörkum þess að vera skáldsaga og ritgerðasafn um menningarfræði.
Í Bandaríkjunum er fjöldi yngri höfunda
sem gengið hafa í smiðju DeLillos.
DeLillo er sannarlega ansi þungur á brún í þess-
ari bók þótt hún sé ekki leiðinleg aflestrar.
throstur@mbl.is
En Eric er í nánu sambandi við tæki sín og tól,
þar finnur hann lífsmörkin. Hann er í svo
góðum tengslum við hina rafrænu miðla að
hann sér þar óorðna hluti án þess að botna
neitt í því hvers vegna. Hann er guð eða eins
konar guðlegt afkvæmi þeirrar tækni sem gegn-
sýrir líf hans en æðsti draumur hans er að sætt-
ast við dauðleikann í einhvers konar tæknilegu
algleymi, „að lifa utan við gefin mörk, í flögu,
á diski, sem upplýsingar, í ofurhraða, undir
geisla, vitundarlífi handan tómsins.“