Lesbók Morgunblaðsins - 24.04.2004, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 24. APRÍL 2004
N
orræna kvikmyndahátíð-
in í Rúðuborg var haldin
í sautjánda skiptið dag-
ana 17.–28. mars, með
bækistöð sína í stóru
tjaldi við hliðina á got-
nesku dómkirkjunni,
samkvæmt gamalgró-
inni hefð. Frá upphafi hefur það verið mark-
mið hátíðarinnar að kynna kvikmyndagerð á
norðurslóðum, og var hún fyrst takmörkuð við
Norðurlönd, síðan voru Eystrasaltslönd tekin
með og loks einnig Holland, Belgía og Saxland.
Þótt forsprakkar hátíðarinnar kvarti á stund-
um yfir lélegu sambandi við Íslendinga, hefur
íslenskum kvikmyndum verið gert hátt undir
höfði, þær hafa stundum fengið verðlaun, og
gerðist það einnig að þessu sinni, því fulltrúi
Íslands í samkeppninni, myndin „Salt“ sem
var eftir Bandaríkjamanninn Bradley Rust
Gray en gerð á Íslandi og með íslenskum leik-
urum, fékk svokölluð „verðlaun ungra áhorf-
enda“. Þau voru upphaflega veitt af dómnefnd
menntaskólanema í Rúðuborg en voru nú í
höndum nemenda frá ýmsum Evrópulöndum.
Hafi menn vonast til þess í byrjun að kvik-
myndahátíðin í Rúðuborg gæti stuðlað að því
að koma norrænum kvikmyndum á framfæri í
Frakklandi, er varla hægt að segja að þær von-
ir hafi ræst, en um það er ekki við aðstand-
endur hátíðarinnar, Jean-Michel Mongrédien
og Isabelle Duault, að sakast. Þau hafa unnið
mikið starf. En þegar maður er staddur í
Frakklandi, í frönskum menningarheimi, virð-
ist eins og einhver ósýnilegur múrveggur liggi
þvert í gegnum álfuna og sé meiri háttar sam-
göngutruflun á leið menningarafurða, svo sem
bókmennta, myndlistar og tónlistar, frá Norð-
urlöndum suður til Frakklands. Þær sem
hverfa ekki með öllu á þessu flakki, komast á
leiðarenda rifnar úr sínu upphaflega sam-
hengi, kannski fyrir einhverjar annarlegar
ástæður, svo sem snobberí, og oft á tíðum of-
urseldar alls kyns misskilningi. Þekktur
franskur gagnrýnandi sagði einu sinni að Síb-
elius væri „versta tónskáld veraldar“, og er
ekki að furða þótt Frakkar hafi lengi fúlsað við
honum. Að Grieg er gjarnan brosað háðslega
og Carl Nielsen er nánast óþekktur. Jafnvel
Ibsen átti harla erfitt uppdráttar í Frakklandi,
þangað til Patrice Chéreau setti „Pétur Gaut“
á svið árið 1981, – ef eitthvert leikrit hans var á
annað borð sýnt veltu gagnrýnendur því fyrir
sér hvers vegna menn væru eiginlega að dusta
rykið af þessum þriðja flokks höfundi sem best
væri að láta liggja áfram í gleymsku – og þann-
ig mætti lengi telja. Þetta gildir ekki síður um
kvikmyndir en annað. Fyrir hálfri öld samdi
Boris Vian og söng svo inn á plötu lag sem
hann nefndi „Ég er snobb“. Með ýktri og til-
gerðarlegri rödd taldi hann upp þau furðulegu
uppátæki sem þessum ósköpum fylgdu, og var
eitt atriðið í þulunni: „Ég horfi á sænskar kvik-
myndir“. Þurfti þá ekki lengur vitnanna við.
Hvað sem þessu líður er það athyglisverð stað-
reynd, að ýmsar kvikmyndir sem mikla athygli
hafa vakið á Norðurlöndum undanfarin ár,
hafa alls ekki verið teknar til venjulegrar
dreifingar í Frakklandi, og má nefna „Hams-
un“ og grænlensku myndina „Í hjarta ljóss-
ins“, sem báðar voru sýndar í Rúðuborg á sín-
um tíma. Það var sorglegt hvað franskir
gagnrýnendur misskildu myndina „Hafið“ eft-
ir Baltasar Kormák: einn þeirra hélt að ungi
maðurinn sem er staddur í París í byrjun
myndarinnar og hans franska kærasta væru
aðalpersónurnar og myndin snerist um Ís-
landsferð þeirra. Raunverulegt viðfangsefni
myndarinnar virtist fara fram hjá þeim með
öllu. Frá þessu áhuga- og skilningsleysi
Frakka eru yfirleitt ekki nema fáeinar und-
antekningar. Á þessum síðustu tímum eru
undantekningarnar Lars von Trier, Aki Kaur-
ismäki og „Nói albínói“ (sem fékk aðalverð-
launin í Rúðuborg í fyrra, og var það upphaf
ferils hennar í Frakklandi). Túlkanir gagnrýn-
enda á „Nóa albínóa“ voru þó stundum dálítið
skrautlegar.
En þetta sem hér hefur verið sagt gildir þó
ekki í sama mæli um öll héruð Frakklands. Í
Normandí hefur lengi verið lifandi áhugi á
Norðurlöndum og Norðurlandamenningu, og
þótt Parísarpressan virði kvikmyndahátíðina
varla viðlits – þegar Jean-Michel Mongrédien
reyndi að fá blaðamenn frá París á kynning-
arsýningu á mynd eftir Vilgot Sjöman spurðu
þeir aðeins: „hvaða kújón er nú það?“ – er ljóst
að í Normandí vekur hátíðin mikla athygli fjöl-
miðla og dregur að sér fjölda áhorfenda. Að því
leyti er þess vegna betur farið en heima setið.
Kvikmyndahátíðin í Rúðuborg er jafnan tví-
þætt: annars vegar er samkeppnin, þar sem
nokkrar myndir eru valdar og lagðar undir
dóm dómnefndar og áhorfenda, og svo ýmiss
konar dagskrár helgaðar einhverjum þáttum
kvikmyndagerðar á norðurslóðum fyrr og síð-
ar.
Þar sem samkeppnin er þverskurður af því
sem helst er á seyði hverju sinni, endurspeglar
hún uppsveiflur og öldudali. Svo var að heyra á
hátíðargestum, að þeim fyndust nú samkeppn-
ismyndirnar heldur í lægri kanti, miðað við
það sem oft hefur áður verið. Af þeim tíu
myndum sem voru í samkeppninni í ár voru
reyndar sex fyrsta eða önnur mynd viðkom-
andi höfundar, margar fjölluðu um unglinga og
vandamál þeirra, og hef ég grun um að slíkt
kunni að fæla suma áhorfendur frá.
Það var norsk mynd að nafni „Himmelfall“
eftir Gunnar Vikene sem fékk aðalverðlaunin,
og er mér ekki alveg ljóst hvort það var af
verðleikum sem aðrir myndu meta eða af því
að í Normandí virðast norskar myndir jafnan
hafa mikinn byr í seglin. Þessi mynd gerist á
geðveikrahæli og segir einkum frá ungmenn-
unum Reidari, sem er sannfærður um að hann
geti búist við að fá loftstein í kollinn, og Juni,
sem er slæg og gefur mönnum brokkandi og
skriðþungan kinnhest ef þeir koma í minna en
80 sm fjarlægð frá henni. Erfitt var verjast
þeirri tilfinningu að þessi tvö væru komin úr
bresku myndinni „Family Life“ með fáum
millilendingum. En sögusvið norsku myndar-
innar var víðtækara, og var það einn megin-
þáttur hennar að þeir sem voru utan veggja
geðveikrahælisins voru yfirleitt ennþá tjúllaðri
en þeir sem voru innan veggja þess. Norsk
kona áleit að það væri boðskapur myndarinn-
ar. Í lok hennar réttir Juni Reidari höndina, að
vísu eftir að hafa slegið hann harkalega, ekk-
ert bólar á loftsteini, en flugeldageymsla
springur. Myndin gerist í Stafangri, eins og
áhorfendur fá gjörla að heyra strax í byrjun,
en meðal persónanna er danskur geðlæknir
sem talar dönsku eins og gerist og gengur.
Ekki virðist það valda neinum vandræðum fyr-
ir aðrar persónur, en í hvert skipti sem hann
upplýkur sínum túla birtist hins vegar norskur
texti með vandlegri þýðingu. Þegar læknirinn
segir „ja“ eins og Dönum er títt, stendur því
skilvíslega neðst á tjaldinu „ja“. Þetta fannst
mér nú ógreiði við þá sem eru að reyna að út-
skýra fyrir Frökkum hvað Norðurlandamál
eru lík.
Þau verðlaun sem áhorfendur hátíðarinnar
veittu hlaut finnska kvikmyndin „Hundaklóa-
klipparinn“ eftir Markku Pölönen. Í byrjun
hennar eru finnskir hermenn að leggja út í
stríð gegn Rússum til að reyna að endur-
heimta þau landsvæði sem Finnar misstu í
vetrarstríðinu 1940, og fær áhorfandi þá til-
finningu að þarna sé á ferðinni enn ein finnsk
stríðsmyndin frá. En framhaldið er óvænt.
Myndin segir frá ungum manni sem fær kúlu í
höfuðið í stríðinu og er fáviti eftir það. Einhver
segir honum frá öldruðum hundi með klær
sem vaxa vitlaust, þannig að það verði að
klippa klærnar eða lóga skepnunni, og þá
hleypur hann af stað norður á bóginn til að
lækna hundkvikindið. Á leiðinni hittir hann
gamlan félaga sinn sem tekur hann með sér og
fær handa honum vinnu við skógarhögg. Aðal-
efni myndarinnar er það hvernig menn leggj-
ast á eitt að vernda þennan illa farna mann
gegn þeim skakkaföllun sem yfir honum vofa í
því ástandi sem hann er kominn í. Að lokum
klippir hann klærnar, en hundurinn launar
honum lækninguna með því að skella skolt-
inum utan um handlegg hans, þannig að af því
hlýst blóðeitrun. En maðurinn lifir það af og
myndinni lýkur á táknrænan hátt, á hátíðis-
degi skáldsins Runeberg með blaktandi
finnskum fánum. Myndin var uppfull af mann-
úð, kannski í fullstórum skammti, og það var
óvenjulegt að sjá finnska mynd sem var gjör-
samlega laus við fyllirí, hnífstungur, banaslys í
ölæði og manndráp, og reyndar sérstæð þótt
víðar væri leitað til samanburðar. Var það
kannski þess vegna sem hún fékk svo góðar
viðtökur áhorfenda.
Um myndina „Salt“, sem var fulltrúi Íslands
í samkeppninni, voru skoðanir í meira lagi
skiptar. Ýmsum fannst hún harla slæm, en hún
fékk náð fyrir augum, „ungra áhorfenda“ og
voru þó ýmsar aðrar myndir í keppninni sem
virtust vel til þess fallnar að fá verðlaun þeirra.
Þessi mynd var vissulega sér á báti, í ætt við
„tilraunamyndir“, því hún var tekin á hreyf-
anlega myndavél, hlutar hennar áttu reyndar
að vera viðvaningslegt myndband sem persón-
ur hennar gerðu sjálfar, og því voru einstök at-
riði hennar oft á einhverri stanslausri ferð, öll
á skjön og með miklum hoppum og heljar-
stökkum, og tengsl þeirra og persónanna sín á
milli í meira lagi óljós framan af. Meginhluti
myndarinnar, eftir langan inngang, var ferð
tveggja ungmenna, sem koma að austan og
sitja föst í smábæ (Hofsósi) vegna bilunar í bíl,
og sagði frá þeim tilfinningum sem kvikna með
þeim. Fara þá þræðirnir fyrst að koma saman
og verða skiljanlegir. Aðalleikkonur myndar-
innar, Brynja Þóra Guðnadóttir og Melkorka
Huldudóttir, voru mættar í Rúðuborg og stóðu
hetjulega fyrir svörum í umræðum í lok þeirr-
ar sýningar sem ég sá. Áhorfendur höfðu skilið
sögulok á þann veg að aðalpersónan fargaði
sér með því að ganga í sjóinn, en Melkorka
leiðrétti það og sagði að í rauninni væri hún af
selaættum og breyttist því í sel. Þetta er
myndbreyting sem ég held að Óvíd skáld hafi
haft takmarkaða nasasjón af, og var þetta eitt
af því sem hefði mátt koma skýrar fram.
Það hefur kannski orðið þessum þremur
myndum til framdráttar að þær voru lausar
við það ofbeldi sem gagnsýrði ýmsar aðrar
myndir og stuðlar einnig að því að fæla áhorf-
endur frá. Hollenska myndin „Guði gleymdir“
eftir Pieter Kuijpers sagði frá unglingi sem
lendir í slagtogi með smáglæpon og flækist
þannig í innbrot sem verður að morði án þess
að nokkuð slíkt hafi nokkru sinni verið á dag-
skrá. Eftir það sígur æ meir á ógæfuhlið, mað-
ur heldur eitt andartak að eitthvert ljós fari að
renna upp fyrir unglingnum en í stað þess er
framhaldið ekki annað en meira ofbeldi sem
verður sífellt sóðalegra og sóðalegra. Danska
myndin „Slátrararnir grænu“ eftir Anders
Tomas Jensen sagði frá mannáti í Danmörku,
en þar sem slíkt er ekki þáttur í mínu andlega
fóðri leiddi ég þá mynd hjá mér.
En það var líka nóg að sjá fyrir þá sem vildu
hvíla sig á þessum uppskriftum samtímans.
Ein dagskrá var helguð verkum Lars von
Trier og önnur verkum Vilgot Sjömans, og
fleiri kynningar voru í gangi. Þar á meðal gat
að líta forkostulega „dans- og söngvamynd“
finnska frá 1950, „Veru fögru“, sem gerist á
báti sem siglir til Pétursborgar með timbur-
farm og sígaunastúlkuna Veru innanborðs á
þeim tíma þegar Finnar lutu Rússakeisara. Á
sögunni var hvorki haus né sporður, hún var
full af öllum hugsanlegum og óhugsanlegum
klisjum, og allt varð að tilefni til sjómanna-
dansa, sígaunadansa, kósakkadansa o.þ.h.,
sem jafnframt voru skopstældir í aðra röndina.
Þetta var drepfyndið frá upphafi til enda. Svo
var önnur finnsk mynd, nýleg að vísu (frá
2003) en eigi að síður allfjarlæg okkar veröld:
„Brúður sjöunda himins“ eftir Markku Lehm-
uskallio og Anastasiu Lepsui. Hún gerðist
meðal nenet-þjóðarinnar, sem býr í tjöldum
nyrst í Rússlandi og stundar hreindýrabúskap,
og fjallar hún um aldraða konu sem var á unga
aldri vígð til að vera brúður goðsins Num: seg-
ir hún barnungri, blindri stúlku sögu sína, sem
jafnframt er sýnd. Myndin var ljóðræn og öll
töluð á máli neneta (sem áður voru kallaðir
samojedar). Höfundar hennar hafa gert fleiri
myndir um þessa þjóð, m.a. merkilega heimild-
armynd sem sýnd var í Rúðuborg í fyrra.
Ef menn vildu hins vegar sjá eitthvað sem
væri þónokkuð nær vandamálum líðandi
stundar, vantaði ekki stundlegar myndir,
heimildarmyndir og aðrar. Meðal þeirra var
danska myndin „Færøerne. DK“ eftir Ullu
Boje Rasmussen, sem var kölluð „Maraþon í
átt til sjálfstæðis“ í Frakklandi og sagði frá
samningaumræðum Dana og Færeyinga um
hugsanlegt sjálfstæði eyjanna. Þar voru
stjórnmálamenn sýndir í návígi, með bólum og
vörtum að sumir sögðu, og myndin endaði á
orðastappi um efni sem Íslendingum er að vísu
kunnugt: skilgreiningu á orðinu „þjóð“. For-
sætisráðherra Dana hafði tvær færeyskar
orðabækur að vopni og dugði þó ekki. Málið
var með öllu óútkljáð þegar myndinni lauk.
Hollenska heimildarmyndin „Uppskeran eftir
þögnina“ var af öðru tagi. Hún sagði frá fimm
kínverskum nútímatónskáldum sem urðu illi-
lega fyrir barðinu á „menningarbyltingunni“
ósællar minningar en sluppu þó án þess að
bíða varanlegt tjón og náðu að hasla sér völl.
Segja þau frá reynslu sinni, en í myndinni
hljómar einnig tónlist þessara manna og sem
kontrapunktur við hana eru svipmyndir frá
Kína nútímans. Geta áheyrendur reynt að
skynja tengsl á milli.
Þannig er kvikmyndahátíðin í Rúðuborg
gluggi í margvíslegar áttir og er það ekki síst
gildi hennar fyrir franska áhorfendur og aðra.
Ég spurði aðstandendur hennar um nokkrar
íslenskar myndir sem mér fannst að hefðu vel
átt heima á einhverri dagskrá en sáust þar
ekki, m.a. heimildarmyndina „Hlemm“. En
þær þekktu þau ekki: þessar myndir höfðu
ekki verið sendar.
SELKONA Í RÚÐUBORG
E F T I R E I N A R M Á J Ó N S S O N
Hafi menn vonast til þess í byrjun að kvikmyndahá-
tíðin í Rúðuborg gæti stuðlað að því að koma nor-
rænum kvikmyndum á framfæri í Frakklandi, er varla
hægt að segja að þær vonir hafi ræst, segir í þessari
grein um hátíðina sem haldin var síðast í mars. Í
Normandí vekur hátíðin hins vegar mikla athygli fjöl-
miðla og dregur að sér fjölda áhorfenda.
Íslenska myndin Salt eftir Bandaríkjamanninn Bradley Rust Gray fékk svokölluð „verðlaun
ungra áhorfenda“ í Rúðuborg í mars.
Höfundur er íslenskukennari við
Sorbonneháskóla í París.