Lesbók Morgunblaðsins - 12.06.2004, Side 4

Lesbók Morgunblaðsins - 12.06.2004, Side 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚNÍ 2004 M ig langar til að spyrja þig um upphaf skáld- ferilsins. Þú ert að- eins nítján ára þegar þú gefur út þína fyrstu ljóðabók, Sífell- ur. Þetta var árið 1969. Hvernig var fyr- ir unga stúlku að stíga út á ritvöllinn á þess- um tíma. Rannsóknir hafa sýnt að bók- menntaumhverfið á sjöunda áratugnum var ekki endilega hliðhollt konum og jafnvel miklu frekar þeim fjandsamlegt. „Ég var ofsalega ómeðvituð á þessum tíma en síðan hef ég orðið mjög hugsi um þetta, ekki síst núna þegar ljóðasafnið er að koma út. Ég hef líka verið að lesa aftur bækur og greinar eftir Helgu Kress um viðtökur kvennabókmennta á þessum tíma. Ég hóf ferilinn þegar íslenskir mennta- menn voru að níða niður kellingabækurnar svokölluðu sem gerði það að verkum að mað- ur var meira en lítið spéhræddur. Ég hafði eiginlega bara lesið bækur eftir karla alveg frá því ég var barn, Halldór Laxness, Þór- berg, Jóhannes úr Kötlum og fleiri. Maður vissi að Hulda var til en las hana ekki. Svava Jakobsdóttir og Jakobína Sigurðardóttir komu fram þegar ég var orðin unglingur, en ég var þá byrjuð að yrkja, byrjaði þrettán ára. Skáldkonur voru varla fleiri á Íslandi nema spássíukonurnar, látrabjargirnar og ólafarnar frá hlöðum. Kynjahlutföllin voru því mjög bjöguð. Rétt áður en ég fékk mína fyrstu bók út- gefna árið 1969 komu út ljóðabækur eftir Nínu Björk og Þuríði Guðmundsdóttur. Eftir á að hyggja held ég að það hafi orðið til þess að mér datt yfirleitt í hug að safna saman ljóðunum mínum og fara með þau til útgef- anda. En á þessum tíma upplifði ég umhverfið alls ekki sem fjandsamlegt. Ég fékk ynd- islegustu viðtökur sem höfundur getur feng- ið á Almenna bókafélaginu þar sem ég talaði við Baldvin Tryggvason, Eirík Hrein Finn- bogason og Tómas Guðmundsson. Það var auðvitað engin smáuppörvun að Tómas skyldi lesa yfir handritið og samþykkja að gefa það út. Bókin kom út í mörgum eintök- um og ég fékk dágóð höfundarlaun. Þau komu sér vel þar sem ég var á leiðinni til Dyflinnar í nám. Kannski þorði ég að gefa ljóðin út vegna þess að ég var á leiðinni úr landi. Maður afhjúpar sig svo í ljóðum. Viðtökurnar voru góðar, en mér þótti þetta samt frekar skrýtið, ég hló að þessu, gerði grín að sjálfri mér sem skáldkonu, hringdi í vinkonur mínar og kynnti mig sem skáldið. Ég tók þetta eiginlega ekki alvar- lega þótt ljóðagerðin væri mér alvörumál.“ Lifði í heimi atómskáldanna Hverjar voru fyrirmyndir þínar? „Vilborg Dagbjartsdóttir var auðvitað ein af þeim ásamt Svövu og Jakobínu.“ Maður heyrir enduróm frá atómskáldun- um líka. „Já, ég lifði í þeirra heimi. Bókin er til- einkuð móður minni, Önnu Margréti Kol- beinsdóttur, sem hafði þessa höfunda fyrir mér, einkum Stein Steinarr og Hannes Pét- ursson, en líka gömlu meistarana eins og Einar Benediktsson. Ég hafði með mér upp- skriftir af ljóðum þessara skálda þegar ég fór á svissneskan kvennaskóla fimmtán ára vegna þess að ég gat ekki borið allar bæk- urnar. Á þessum skóla kynntist ég Rilke og Nietzsche. Þetta var súrrealísk ferð. Ég las líka einhver dönsk skáld á þessum árum, ég las sonnettur Shakespeares og aðrar ljóða- þýðingar sem urðu á vegi mínum.“ Kallaleiðindi Tónninn í Sífellum er talmálslegur og jaðr- ar stundum við að vera hálfkæringslegur; þú segir reyndar í einu ljóðinu að þú munir nálgast ljóð þín af léttúð, „bjóða áleitnum hugsunum glas/(ef með þarf fer ég í snúsnú)“. Varstu í meðvitaðri andstöðu við hið þungbrýnda móderníska ljóð? Eða hvað kallaði á þennan léttleika einmitt á þessum tíma? „Þetta voru náttúrlega svo þungir og hrút- leiðinlegir tímar. Orðið hrútleiðinlegur á vel við vegna þess að þetta voru svona kallaleið- indi. Húmorinn var varla fæddur, nema hjá Svövu, Guðbergi og fáeinum fleirum. Ég held að skriftir séu uppreisn í sjálfum sér og uppreisnin er kannski tvöföld þegar kona skrifar í karllegum bókmenntaheimi. Vondu fréttirnar eru hins vegar þær að líklega er hálfkæringur aldrei skáldskapur, eins og Sigfús Daðason bendir á í einni af frábærum bókmenntagreinum sínum,“ segir Steinunn og skellir upp úr. „En ég hefði aldrei getað tekið mig jafnhátíðlega og karl- arnir þótt ég hafi ort ljóð af fúlustu alvöru.“ Ég þrífst ekki í hópum Allt frá byrjun skynjar maður nánast botnlausa íróníu í ljóðum þínum gagnvart hlutum sem virðast fastir í hendi, staðreynd- um, veruleikanum, ástinni og lífinu sjálfu. Ertu sammála því? „Þetta er skemmtilegt. Ég hef aldrei hugs- að þetta svona. En ég er mikil efasemda- manneskja. Ég þrífst til dæmis ekki í hópum og ekki í trúarbrögðum og ekki stjórnmála- flokkum. Ég get ekki aðhyllst eina stefnu í öllum málum. Á einhverjum tímapunkti byrja ég alltaf að efast. Þetta er grunntónn- inn í sjálfri mér. En þetta þýðir ekki að ég hafi ekki skoðanir á tilteknum málum. Ég hef til dæmis mjög sterkar skoðanir á því hvernig við erum að fara með náttúru lands- ins okkar. Þar erum við á villigötum.“ Ég var bara ekki sú týpa sem er með heiminn á herðunum Mig langar í framhaldi af þessu að spyrja þig út í skáldskaparviðhorf. Og það er kannski ekki vitlaust að nota módernismann sem viðmiðun. Það var ákveðin staðfesta í módernismanum, menn virtust hafa ákveðna stefnu, bæði í tilvistarlegum, pólitískum og skáldskaparlegum skilningi, en síðan er eins og það taki við ástand sem einkennist af upplausn, menn taka að efast um að heims- myndin sé rétt, að það sé verið að hugsa hlutina rétt, og það tekur við óvissa og þá verða skáld annaðhvort mjög raunsæ eða ákaflega írónísk og jafnvel fjarlæg, kannski stefnulaus. Skynjar þú þetta svona? Skynj- aðir þú þig svona sem ung skáldkona? „Þegar maður lifir hlutina finnst manni þeir sjálfsagðir. Ég var ekki meðvituð um að þetta væru merkilegir tímar. 68 var auðvitað mikilvægt móment. Þessi uppreisn opnaði samfélagið mjög mikið, hún veitti fólki frelsi. En þetta var ekki varanleg opnun. Ég á dóttur sem er fædd 1974 og hennar kynslóð er til dæmis ekki nærri því eins frjálslynd í ástamálum og við vorum. Eftir á að hyggja var maður í bullandi uppreisn gegn ríkjandi gildum. Aðstæður okkar voru allt aðrar en foreldra okkar fyrr á öldinni. Og það var í raun alger gjá á milli okkar og foreldranna. Stúlkur gátu ekki tal- að við mæður sínar um hvað sem er eins og nú. Kvennapólitíkin tók að blómstra þótt ég hafi reyndar verið óskaplega ómeðvituð um það. Það var ekki neitt fyrir mér að ég var kvenmaður en ég er viss um að ég hefði gert hlutina allt öðruvísi ef ég hefði verið karl- maður. Ég var bara ekki sú týpa sem er með heiminn á herðunum eins og svo margir á þessum tíma. Kannski vegna þess að ég fór til Dyflinnar í nám en ekki Svíþjóðar. Í Dyfl- inni var umræða um þjóðfélagsmál og heims- pólitík ekki mikil. Sú umræða sem fram fór fjallaði um ástandið á Norður-Írlandi sem var að verða mjög eldfimt um þetta leyti.“ Það er svo auðvelt að byrja Aftur að skáldskaparviðhorfum. Í annarri ljóðabók þinni, Þar og þá, yrkir þú ljóðaflokk sem nefnist Til Davíðs og segir: „Sláum nú á léttari strengi, Davíð/og yrkjum úthverf ljóð“. Það var mikið talað um opna ljóðið á áttunda áratugnum, það var úthverft og auð- skilið en ekki innhverft og óskiljanlegt eins og ljóð módernistanna. Hafðir þú áhuga á opna ljóðinu? „Ég var ekki að reyna að yrkja opin ljóð. En ég man að mér þótti þetta fyndið tal því að ljóðið kemur að innan hvort sem það er innhverft eða úthverft. En auðvitað er mun- ur á því hvort maður slöngvar fram frásagn- arkenndu ljóði eða setur saman einhverja margflókna mynd sem hefur setið eins og ímyndaður kökkur í hálsinum á skáldinu um langan tíma.“ Þriðja ljóðabókin, Verksummerki, kemur út 1979, átta árum eftir að þú sendir frá þér aðra bókina. Hvers vegna leið svo langur tími milli bóka? „Það er svo auðvelt að byrja. Ég byrjaði á að senda frá mér tvær bækur og af þeim finnst mér sú seinni verri, hún er versta ljóðabókin mín. En síðan þarf maður að halda áfram og þá áttaði ég mig á því hvað þetta er erfitt. Til þess að verða ánægð þurfti ég að leggja mikið á mig. Síðan eignaðist ég líka Tinnu dóttur mína. Og ég skrifaði leikrit á þessum árum sem aldrei hafa komið fyrir annarra sjónir.“ Að vera skáld er að hluta til að leika sér Verksummerki er alvörugefnari bók en þær tvær fyrstu. Það er bæði þyngri tónn í henni og ljóðin eru flóknari að allri gerð. Það er dýpra á merkingunni, ef svo má segja. „Já, ég er sammála þessu. Ég er ekki viss um að það sé hægt að merkja það af fyrstu tveimur bókunum hvort ég átti eitthvað er- indi í þetta. En það gegnir öðru máli um Verksummerki, að mínu mati, þrátt fyrir þennan titil sem er auðvitað ansi hlægilegur. Það er eins og ég hafi þurft að stappa stálinu í sjálfa mig. Ég lagði mikið í þessa bók. Og ég er ánægð með hana. Hún er fjölbreytt, en kannski fullóljós á köflum. Annars þarf mað- ur ekki endilega að skilja allt sem stendur í ljóðum. Sjálfri finnst mér oftast nóg að heyra hljóminn í ljóði. En þarna held ég að ég hafi verið komin á skrið.“ Síðan verður aftur langt hlé á ljóðabóka- útgáfu þinni. Kartöfluprinsessan kemur 1987 og svo Kúaskítur og norðurljós 1991. Í milli- tíðinni kemur Tímaþjófurinn (1986), skáld- saga sem er eiginlega ljóð, að minnsta kosti ljóðræn. Mig langar til að spyrja þig út í samspilið á milli ljóðskáldsins og skáldsagna- höfundarins. Hvernig gengur þessi sambúð? „Þetta er ekki vandamál,“ segir Steinunn og hlær. „Okkur kemur vel saman. Þetta er eins og fullkomið hjónaband þar sem fólk bætir hvað annað upp, þroskar hvað annað. Ég er ekki að skrifa ljóð til þess að geta skrifað betri skáldsögur, en ég held að það sé raunin. Það er miklu skemmtilegra að fást við báðar þessar bókmenntagreinar en að tak- marka sig við aðra. Það að vera skáld er að hluta til að leika sér. Fleiri hafa bent á það. Þetta er nógu erfitt þótt maður kæfi sig ekki líka úr leiðindum. Ég er ekki mikið gefin fyrir póetískan prósa, en mér skilst að ég skrifi hann. Það er ekki markmið. Annars finnst mér ljóðin ekki bara hafa áhrif á skáldsögurnar heldur einn- ig öfugt.“ Ég hef bara engan áhuga á að segja sögur, alls engan Á níunda áratugnum var talað um end- urkomu sögunnar í skáldsagnagerð, og þá var meðal annars átt við Einar Má og Einar Kárason, en þú skrifar skáldsögu sem geng- ur þvert á þennan straum, og kannski skrif- arðu skáldsögu sem er ekki í anda hinnar ís- lensku sagnagerðar. Hver er afstaða þín til hefðarinnar, íslenskrar bókmenntahefðar? „Íslendingasögurnar eru ekki bara það að segja sögur. Paul Klee sagði að listin hermdi ekki eftir veruleikanum heldur gerði hluti sýnilega, það er eitthvað dregið fram. Þetta lýsir Íslendingasögunum. Það sem er dregið fram í þeim er svo lifandi og listrænt, stór- kostlegt og á háu plani að það er eitthvað miklu meira á ferðinni heldur en bara það að segja sögu. Hver sem er getur sagt sögu. Mér þykir alltaf skrýtið þegar ég er kölluð Erzählerin á þýsku eða frásagnarskáld – ég hef bara engan áhuga á að segja sögur, alls engan, það er alveg af og frá.“ Hvað er það þá sem þú ert að gera? „Ég er að reyna að gera hluti sýnilega og ég reyni að gera það með einhverjum öðrum hætti en sá sem myndi segja sögu um þá. Maður notar sjónarhorn sem eru ekki aug- ljós, maður notar orð sem hafa ekki verið notuð í því samhengi áður, og maður notar húmor til að skerpa á hlutunum. Ég hallast að því sem Milan Kundera segir að skáldsög- ur séu rannsókn á möguleikanum á því að vera til. Og ég er auðvitað að nýta mér reynslu mína, bæði sem kona, móðir og blaðamaður til þess að varpa ljósi á hluti. Í blaða- mennsku tók ég viðtöl við fjölda fólks og þar lærði ég að klippa sundur texta og raða sam- an á ný, og þar lærði ég um mikilvægi þess að vera skýr. Allar bækur sem ég hef lesið og finnst eitthvað varið í eru skýrar þótt maður skilji þær ekki endilega. Joyce er yf- irskýr þótt maður skilji ekki allt sem hann segir. Mig langar til að vera nákvæm og skýr. En aldrei langar mig til að skrifa slétt- an og felldan stíl. Ég get ekki sagt það sem ég vil segja með því að vera settleg og skrifa fullkominn stíl, það þarf að vera óþægð í honum. Annars er erfitt að skilgreina ná- kvæmlega hvað maður er að vilja upp á dekk. Er þetta ekki í meira lagi tilætl- ÞETTA ER NÓGU ERFITT ÞÓTT MAÐUR KÆFI SIG EKKI LÍKA ÚR LEIÐINDUM „Þetta voru náttúrlega svo þungir og hrútleiðinlegir tímar. Orðið hrútleiðinlegur á vel við vegna þess að þetta voru svona kallaleiðindi. Húmorinn var varla fæddur, nema hjá Svövu, Guðbergi og fáeinum fleir- um,“ segir Steinunn Sigurðardóttir um árin sem hún var að byrja að yrkja. Fyrsta bókin hennar kom út 1969. Nú á 35 ára skáldafmæli hennar kemur út ljóðasafn sem inniheldur allar sex ljóðabækur henn- ar. ÞRÖSTUR HELGASON ræðir við hana.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.