Lesbók Morgunblaðsins - 12.06.2004, Side 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚNÍ 2004 5
unarsemi að vera að skrifa þessar bækur og
gefa út svo fólk kaupi og lesi? En ég geri það
nú samt.“
Meginmáli skiptir þó hvað
er innan í forminu
Mig langar að lokum að spyrja þig út í
stöðu ljóðsins. Ég hef það á tilfinningunni að
íslenska ljóðið hafi aldrei vaxið upp úr mód-
ernismanum. Og ég held að þetta sé hálfgert
tabú í íslenskri bókmenntaumræðu. Það eru
reyndar eiginlega allir hættir að skrifa um
ljóð. Og yngri skáld eru flest að skrifa ljóð
eins og þau voru skrifuð fyrir fimmtíu árum.
Eða hvað?
„Mér finnst þetta merkilegt, en ég hef
aldrei velt þessu fyrir mér. Það getur vel
verið að eitthvað sé til í þessu, en mér finnst
til að mynda skáld eins og Kristín Ómars-
dóttir vera að yrkja á mjög frumlegan hátt.
Mér finnst líka Óskar Árni Óskarsson frum-
legt skáld, til dæmis í Lakkrísgerðinni.
Staða ljóðsins er mjög dularfull. Fólk
kaupir ekki ljóðabækur en það les ljóð, það
les þau meira að segja oftar en einu sinni
ólíkt skáldsögum, og fólk kemur á ljóða-
upplestra. Það er eins og ljóðið lifi skuggalífi
en sé samt ódrepandi.
En kannski er þetta rétt hjá þér. Það
kemur ef til vill ekki til af góðu hvað mér
þykir miklu erfiðara að skrifa skáldsögur en
ljóð. Hugsanlega tekur maður ljóðforminu
sem gefnu í stað þess að umturna því eins og
skáldsögunni.“
Finnst þér þetta form virka?
„Ég er ekki viss um eitt eða neitt sem ég
er að gera, en ég er örugg í ljóðinu. Það þarf
ekki að vera góðs viti.
Meginmáli skiptir þó hvað er innan í form-
inu.“
throstur@mbl.is
HVERS konar heim býr Steinunn Sigurðardóttir
lesendum sínum? Nú þegar allar ljóðabækurnar
hafa verið endurútgefnar í einu bindi vakna upp
spurningar um fólkið og heimana sem þær hýsa.
Sá lesandi sem fetar sig ár fyrir ár og ljóð fyrir
ljóð inn í safnið hlýtur að staðnæmast stöku
sinnum og spyrja sig eins og konan í einu ljóði
Steinunnar: „Hef ég verið hér áður, er það satt?“
Viðfangsefni margra ljóðanna eru gamalkunn-
ug: Maður og náttúra, ást, einmanaleiki og að-
skilnaður, tími sem eirir engu og dauðinn á
næstu grösum. En þessi þemu spretta af
ákveðnum myndum sem sumar raðast saman og
mynda heild sem má rekja á milli bóka, á meðan
aðrar standa stakar. Í ljóðheimum Steinunnar er
fólk á sífelldu flakki. Það heldur út í daginn eða
nóttina eftir vegunum og brautum lestanna. Það
dokar við eina kvöldstund á krá eða kaffihúsi, en
lætur aldrei staðar numið. Að vera ekki á stans-
lausri hreyfingu jafngildir því að deyja. Í ljóðum
Steinunnar má sjá konur í útför, konur í kirkju-
görðum, konur sem eru myrtar eða grafnar lif-
andi í kartöflugarði, konur sem verða úti í stór-
hríð og heimavinnandi konur að hakka kjöt. Við
sjáum konur sem sitja við opna glugga og lesa
bækur þegar regnið fellur, á meðan aðrar sauma
við lokaða glugga og stormurinn lemur rúðurnar.
Svona mætti lengi telja.
Á kápu skáldsögunnar Ástin fiskanna (1993) er
að finna málverkið Hrafnabjörg eftir Jón Stef-
ánsson. Því er ekki neita að sum ljóð Steinunnar
minna á gullaldarskeið íslenska landslagsmál-
verksins. Í þeim birtist sterk og persónuleg vit-
und um sérkenni íslenskrar náttúru þar sem
samspil „lands og sjálfsveru verður aldrei til-
gerðarlegt þótt unnið sé með hugmyndir um
náttúruna sem táknræna umgjörð eða ramma ut-
an um sálarlíf sögupersóna“ svo vísað sé í um-
fjöllun Eiríks Guðmundssonar um Hjartastað
(1995), en hann segir jafnframt að fara þurfi
langt aftur til að finna „skáldsögu sem virkjar og
endurnýjar sýn okkar á íslenska náttúru á jafn
velheppnaðan hátt og saga Steinunnar gerir“.
Náttúrumálverkin má finna víða í ljóðabókum
Steinunnar, jafnt í stökum ljóðum og svo ljóða-
flokkum á borð við „Gróður himins og jarðar“ í
Verksummerkjum (1979), „Á suðurleið með
myndasmið og stelpu“ í Kartöfluprinsessunni
(1987) og „Árstíðasöngli“ í Kúaskít og norður-
ljósum. Í Hekluljóðunum tveimur í Hugástum
(1999) skoðar Steinunn þetta fræga eldfjall frá
ýmsum hliðum, frá hringveginum og innan af há-
lendinu, frá Rangárvöllum og úr Gnúpverja-
hrepp. Hún setur upp trönur sínar og festir það
sem fyrir augun ber á blað:
Hekla framanverð er meyprinsessa
spengileg, grimm, á köflum banvæn.
Þessa hlið þekkir það
dauðlegt fólk sem skröltir á hringvegi.
Önnur Hekla blasir við görpum
sem hætta sér inn á hálendistómið:
Óþekkjanleg stútungskerling
breið og brussuleg aftanfyrir.
Verðlaun ofurhugans, segja hringvegsmenn.
Ljóðum Steinunnar er ætlað að endurheimta
tilfinningu lesandans fyrir lífi og náttúru, að
vinna gegn vélrænu hversdagslegra athafna og
hjálpa honum að upplifa nánasta umhverfi sitt á
nýjan leik, en það taldi rússneski formalistinn
Viktor Shklovskíj vera helsta hlutverk listarinn-
ar. Listamaðurinn neyðir menn til að sjá hlutina
í nýju og óvæntu ljósi með því að framandgera
veruleikann, en aðferðinni er ætlað að gera form-
ið torvelt, „að auka á erfiðleika skynjunarinnar
og teygja úr henni, þar eð skynjunarferlið er list-
rænt markmið í sjálfu sér og verður því að fram-
lengja.“ Í ljóðinu hér að ofan birtist framand-
gervingin ekki aðeins í því að Hekla skuli vera
kvengerð. Sjónarhornið varpar ljósi á hinar ólíku
en ógnvænlegu kvenmyndir eldfjallsins, annars
vegar höfum við hina vel þekktu meyprinsessu
sem ber við himin frá hringveginum, hins vegar
þá framandgerðu stútungskerlingu sem kemur í
ljós frá óvæntu sjónarhorni hálendisins.
Í ljóðum Steinunnar halda rykugir þjóðveg-
irnir alltaf áfram út í sjóndeildarhringinn. Við
veginn vex fífa og stráin bifast í léttri golu. Utan
vega uppi á heiði má finna tærar uppsprettur og
í lautum speglar himinninn sig í litlum tjörnum.
Ferköntuð ský gára vatnið á leið sinni milli
fjallstinda. Það er enn snjór í hæstu fjöllum þó
að komið sé fram í júlí. Þó að oftast blási er
stundum líka blankalogn og sumargras sem má
sofna í. Þegar haustar leitar snjórinn niður hlíð-
arnar ofan í dalinn og ef við horfum nógu lengi
sjáum við svartan hest í urð undir fjalli sem bít-
ur daufgult gras. Bráðum leggur tjarnirnar og
rotnandi laufið þekur jörðina. Mýrar liggja undir
moldugum himni á meðan vindurinn gnauðar og
lemur svartar greinar trjánna. Tunglið hangir í
fjallstindi og þögnin á öræfum þéttist. Aðeins
melar og hjarn, freðnir stígar og norðurljós.
Þó að spáin sé góð verður að hafa allan vara á,
því að ljóðið er óútreiknanlegt eins og íslenska
veðrið.
Úr formála Guðna Elíssonar er nefnist Hef ég
verið hér áður?
Í þversagnarkenndum tíma
Í fornum sögum um guði í skógarlundum, um
frjósemisgoð sem deyja og fæðast á víxl, má
merkja dulda von mannsins um að leggja megi
menn og náttúruna alla að jöfnu, að hringrás
náttúrunnar gefi vísbendingu um mannlegt hlut-
skipti. Náttúruelegíur eru þannig í bland frið-
þægingarljóð þar sem hverfulleiki lífsins er har-
maður, en endurnýjun náttúrunnar er ætlað að
fullvissa okkur um upprisu sálarinnar í næsta
lífi.
Þessi staðreynd hefur ekki farið framhjá
Steinunni. Í fimmta hluta „Daga og svo fram-
vegis“ rífur hún í sundur þau nærandi tengsl
manns og náttúru sem birtast okkur í goðsög-
unni. Eftir stendur kraftmikil greining á blekk-
ingunni sem stýrir trú okkar á hringrás lífsins,
tregaljóð þar sem engin von er gefin, ekkert fyr-
irheit um huggun og upprisu:
Að hætta og deyja
hvað er það?
Að verð’ ekk’ eldri aldrei
vera hættur.
Ganga engar götur ganga ekkert.
Hitta engan engan ekki kjaft
vera hættur hættur eins og hausttré.
Nei hausttré byrjar aftur núna í vor
en ekki sá sem hættir hann er hættur
eins og eitthvað ég veit ekki hvað
og byrjar ekki aftur byrjar aldrei.
Við deyjum ekki eins og náttúran á haustin
vegna þess að náttúran fellur í dvala og vaknar
aftur til lífsins ólíkt okkur. Maðurinn er ekki
heldur hluti af hinni náttúrulegu hringrás í nein-
um persónulegum skilningi. Dauði mannsins er
svo endanlegur að alla merkingu þrýtur frammi
fyrir honum. Hann verður ekki einu sinni tjáður
í ljóði, hann er „eins og eitthvað ég veit ekki
hvað“.
Skilningur ljóðmælandans í fimmta hluta
„Daga og svo framvegis“ fangar fullkomlega þá
írónísku tilvistarsýn sem ég gerði að umræðuefni
fyrr í þessari grein, hugmyndina um fallið. Paul
de Man tengdi tilvistarstöðu mannsins persónu-
legum og raunverulegum tengslum hans við nátt-
úruna og valdaleysi frammi fyrir henni. Náttúr-
an getur breytt manninum í lífvana hlut, en
maðurinn megnar ekki að gæða minnsta hluta
náttúrunnar persónuleika. Írónískt fall einstak-
lingsins leiðir í ljós endanleika tilvistarinnar, að
„sá sem hættir hann er hættur“ og „byrjar ekki
aftur“ þrátt fyrir þá nærandi blekkingu sem per-
sónugerving náttúrunnar birtir í bókmenntum og
trúarbrögðum. Þetta veit aðeins sá sem hefur
fallið og það er aðeins eftir fallið sem eðli mann-
legrar tilvistar verður ljóst. Þessi skilningur á
tengslum manns og náttúru mótar að mínu mati
tímavitundina í skáldskap Steinunnar þó að hún
komi sjaldan jafn berlega í ljós og í ofangreindu
ljóði.
Verk Steinunnar Sigurðardóttur heyra undir
táknsögulegan veruleika af því tagi sem breytir
strandkistum í standklukkur. Bækur hennar tifa
áfram njörvaðar niður í þversagnarkenndum
tíma sem oftast er annað hvort liðinn eða í vænd-
um. Í þeim er varpað fram þeirri spurningu
hvernig við getum fyllilega verið til á meðan for-
tíðin heldur okkur föstum og framtíðin hrifsar
okkur gráðug til sín. Svarið felst kannski í þeirri
list að lifa innihaldsríku lífi.
Úr grein Guðna Elíssonar í Ritinu (1/2004) er
nefnist Í kirkjugarði nefnum við ekki nöfn.
HEF ÉG VERIÐ
HÉR ÁÐUR?
Guðni Elísson ritar inngang að Ljóðasafni Steinunnar Sig-
urðardóttur. Hann hefur einnig nýlega birt grein um ljóð
Steinunnar í Ritinu. Hér eru birt brot úr ritgerðum Guðna.
Nokkrar myndir frá skáldaferli Steinunnar Sigurðardóttur. Myndin efst til vinstri
eftir Jón Kaldal var tekin 1970, ári eftir útkomu fyrstu bókarinnar.
En ég er mikil
efasemda-
manneskja.
Ég þrífst til
dæmis ekki í
hópum og ekki
í trúarbrögð-
um og ekki
stjórnmála-
flokkum. Ég
get ekki að-
hyllst eina
stefnu í öllum
málum. Á
einhverjum
tímapunkti
byrja ég alltaf
að efast.