Lesbók Morgunblaðsins - 12.06.2004, Side 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚNÍ 2004
R
onald Reagan er allur og hefur ef
til vill fengið svarið við spurn-
ingunni sem hann gerði að yf-
irskrift einnar „sjálfsævisögu“
sinnar: Wherés the Rest of Me?
Bókin kom í Bandaríkjunum ár-
ið 1965, löngu áður en Reagan
varð forseti og ári áður en hann
varð ríkisstjóri Kaliforníu. Bókin er skilgreind
sem sjálfsævisaga enda þótt Reagan sé ekki
einn um að stýra pennanum heldur er skráður
meðhöfundur hans Richard G. Hubler.1 Þessi
sjálfsævisaga er bráðskemmtileg, hún er skrif-
uð í fyrstu persónu af ágætum húmor og – eins
og við er að búast – mikilli þjóðerniskennd. En
það er ekki síst titill hennar sem mig langar að
dvelja við núna þegar Reagan er allur. Þessi tit-
ill gæti í raun staðið sem yfirskrift allra sjálfs-
ævisagna því í honum felst sá kjarni sem líklega
býr að baki flestum sjálfsævisagnaskrifum.
Titilinn sækir Reagan til þeirrar setningar
sem er honum minnisstæðust frá leikaraferlin-
um, því eins og alkunna er þá lék Ronald Reag-
an í ýmsum Hollywood-kvikmyndum áður en
hann brá sér í gervi forseta Bandaríkjanna.
Kvikmyndin sem hér um ræðir heitir King’s
Row og er byggð á samnefndri skáldsögu eftir
rithöfund að nafni Henry Bellamann. Í mynd-
inni leikur Ronald Reagan kvennabósann
Drake McHugh. Hápunktur myndarinnar er at-
riði þar sem Drake McHugh hefur lent í slysi og
þarf að gangast undir uppskurð. Hann lendir
undir höndum skurðlæknis nokkurs sem á hon-
um lambið gráa að launa. Drake McHugh hefur
nefnilega dregið dóttur læknisins á tálar og full-
ur hefndarþorsta notar faðir hinnar smánuðu
ungu konu tækifærið þegar hann hefur bósann
hjálparlausan á valdi sínu og aflimar hann, tek-
ur af honum báða fætur við mjaðmalið (var ein-
hver að tala um geldingartáknmál?). Drake
greyið vaknar upp eftir aðgerðina, opnar augun
og lítur vankaður niður eftir aflimuðum skrokk
sínum og hrópar í örvæntingu: Wherés the Rest
of Me?! Þessa ógleymanlegu setningu velur
Reagan síðan sem titil sjálfsævisögunnar og er
það val ekki út í bláinn. Þeir sem skrifa sjálfs-
ævisögur eru í flestum tilvikum að reyna að
púsla sér saman í heildstæða mynd. Búa til línu-
lega frásögn af ævi sinni, tína saman part héðan
og part þaðan, skipa þeim niður í frásögn, sögu
af sjálfi, af ævi: Sjálfsævisögu. En auðvitað get-
að þeir aldrei sagt söguna alla, það er alltaf eitt-
hvað sem sleppt er eða sleppur undan, einhver
rest – jafnvel þótt sá sem skrifar trúi því að
hann geti sagt sögu sína á heildstæðan hátt.
Wherés the Rest of Me? Spurningin er ekki
síst skemmtileg í póstmódernísku samhengi. Þá
er ég að vísa til þess póstmóderníska skilnings á
sjálfinu (hugverunni) sem gengur út frá því að
allar hugmyndir um heildstætt sjálf séu falskar.
Forsenda hugverundar okkar býr ekki í frjálsri,
meðvitaðri hugsun sem skapar okkur heild-
stæða lokaða sjálfsmynd – líkt og við höfum vilj-
að trúa lengst af – heldur er sjálfið ferli í stöð-
ugri þróun, ófrjálst eða bundið ómeðvituðum
(dulvituðum) þrám og löngunum. Spurningin
Wherés the Rest of Me? getur því tjáð þetta
hugveruástand; við þráum einingu sjálfsins,
samruna og heildstæða nærveru, þá sem við
upplifðum í frumbernsku þegar við vorum hluti
af móðurlíkamanum, eins og sálgreiningin orðar
það, en misstum fyrir lífstíð þegar sjálf okkar
klofnaði frá móðurlíkamanum, dulvitundin varð
til og við gengumst lögmáli föðurins, samfélags-
ins og tungumálsins á vald. Þá tók við fjarveran
og þráin sem rekur okkur sífellt áfram frá tákn-
mynd til táknmyndar í eilífri leit merkingar og
sjálfsskilnings: Wherés the Rest of Me?
Nú er það ekki svo að Ronald Reagan sé að
tjá þennan póstmóderníska skilning hugver-
undar þegar hann velur sjálfsævisögu sinni
þennan titil. Hann trúir reyndar því gagnstæða,
hann heldur fast í þá blekkingu að maðurinn
geti búið yfir heildstæðu sjálfi og lýst því í sjálfs-
ævisögu. Hann segir sögu sína á nokkuð hefð-
bundinn hátt, byrjar á að lýsa fæðingu sinni þar
sem hann skýst í heiminn 6. febrúar 1911 ná-
hvítur, eldrauður og blár – eins og bandaríski
fáninn. Frásögnin fylgir síðan lífsferli hans í
réttri tímaröð og eins og búast má við er lengst
dvalið við leikaraferil Reagans sem spannaði tvo
áratugi og 53 þrjár kvikmyndir. Þótt titilinn
Wherés the Rest of Me? megi túlka sem tján-
ingu á sundruðu sjálfi (eins og ég geri hér að of-
an) vísar hann hjá Reagan einfaldlega til þess að
æviferli hans er ekki lokið þegar bókinni lýkur,
hann er ekki allur, og þess vegna gæti þessi
spurning allt eins staðið sem yfirskrift allra
sjálfsævisagna.
II
Vikjum sögunni að annarri bók um Ronald
Reagan, í þetta sinni er um ævisögu að ræða –
eða hvað? Bókin Dutch: A Memoir of Ronald
Reagan2 eftir hinn þekkta bandaríska ævi-
sagnaritara Edmund Morris (hann hlaut Pulitz-
er verðlaunin fyrir ævisögu sína um Theodore
Roosevelt) kom út árið 1999 og vakti samstundis
gífurlegar deilur sem snerust ekki síst um að-
ferðir og vinnubrögð höfundar. Verkið er svo-
kölluð „opinber“ (authorized) ævisaga Reagans,
þ.e.a.s. það er unnið með vitund og vilja Ronalds
Reagan sjálfs sem réð Morris til starfans eftir
endurkosninguna 1984 og fékk honum öll hugs-
anleg gögn í hendur og leyfi til að fylgjast með
lífi sínu og störfum í Hvíta húsinu. Þetta mun
vera einsdæmi, að ævisagnaritari forseta hafi
slíkan aðgang að viðfangi sínu. En fjölskylda
Reagans var víst ekki alls kostar sátt við bókina
þegar hún kom út því Morris fer áður óþekktar
leiðir í ævisagnaritun merkra manna. Hann tek-
ur sér nefnilega skáldaleyfi, blandar skálduðum
persónum inn í frásögn sína af ævi forsetans.
Morris býr til sögumann, persónu sem ber nafn-
ið Edmund Morris og er samtíða Reagan og
vitni að flestu því sem mestu máli skipti í lífi
hans (minnir á aðferðina í kvikmyndinni Forr-
est Gump þar sem hetjan verður vitni að öllum
helstu sögulegum tíðindum tuttugustu aldarinn-
ar í Bandaríkjunum). Hinn „skáldaði“ Morris
fylgist með ævi Ronalds Reagan frá því hann er
unglingur, lýsir kynnum sínum af honum þegar
hann var lífvörður á vinsælum sundstað, náms-
maður við háskóla, íþróttafréttaþulur í útvarpi,
leikari í Hollywood, leiðtogi stéttarfélags, tals-
maður fyrirtækis og ríkisstjóri Kaliforníu. Og til
að gæða hinn skáldaða tvífara sinn lífi í sögunni
býr Morris einnig til fleiri persónur, vini og
vandamenn sögumannsins. Forsetakosningaár-
ið 1981 tekur hinn „raunverulegi“ Edmund
Morris við af hinum skáldaða Morris/sögu-
manni og lýsir kynnum sínum af Ronald Reagan
í Hvíta húsinu eftir að hann varð forseti. Þetta
var eina leiðin til að gera lesendum kleift að sjá
heiminn eins og Reagan sá hann, fullyrðir Morr-
is: Eins og kvikmynd.
III
Það var líklegast ekki nein tilviljun að Ronald
Reagan valdi setningu úr kvikmynd sem titil
sjálfsævisögu sinnar. Því hefur margoft verið
haldið fram að hann hafi átt í verulegum erf-
iðleikum með að skilja á milli raunveruleikans
og kvikmyndanna. Hann ku hafa kallað forseta-
starfið „uppáhalds hlutverkið sitt“ og fyrirskip-
aði: „Sýnið mér stríðsherbergið“ (Take me to
the war room) þegar hann var leiddur um ganga
Hvíta hússins í janúar 1981. Þegar fylgdar-
mennirnar tjáðu honum vandræðalegir að slíkt
herbergi fyrirfyndist ekki í húsinu, það væri
bara til í kvikmynd Stanleys Kubrick Dr.
Strangelove, varð hann fyrir verulegum von-
brigðum. Og kvikmyndir komu víst til tals í sam-
tali Ronalds Reagan og Mikhails Gorbachev í
Höfða í Reykjavík, ef marka má vitnisburð við-
staddra. Gorbachev hafði kynnt sér feril Banda-
ríkjaforseta og meira að segja lagt á sig að horfa
á nokkrar af kvikmyndum hans. Og viti menn:
„Mér fannst sérstaklega gaman að þeirri með
fótalausa manninum,“ á hann að hafa sagt – og
Reagan svaraði að bragði, með miklum tilþrif-
um: „Wherés the rest of me?!“ Samkvæmt við-
stöddum var þetta vendipunktur fundarins; hin
gamla Hollywoodmynd Kinǵs Row (var einhver
að tala um táknrænan titil?) bræddi ísinn á milli
þjóðarleiðtoganna og kalda stríðið var fyrir bí.“3
Það er stundum vísað til þess að fólkið á hvíta
tjaldinu sé í „yfirstærð“, það er larger than life.
Og kannski má segja það um Ronald Reagan að
hann hafi í lifanda lífi verið allt að því goðsögu-
leg persóna og í vissum skilningi hlaut hann
goðsögulegan endi; hann var maður sem sóttist
eftir því að skrá nafn sitt á spjöld sögunnar til
þess að verða ógleymanlegur. En sjálfur varð
hann að sæta þeim örlögum að gleyma smátt og
smátt öllu sem sjálfsmynd hans byggðist á. Á
meðan Edmund Morris hamaðist við að fram-
kalla mynd af ævi Ronalds Reagan var sjálfs-
mynd hans smám saman að eyðast hægt og
hægt. Það er nokkur galli á verki Morris að
hann heyktist á að takast á við þetta tímabil í lífi
Ronalds Reagan; tímabil eyðingar sjálfsins og
útþurrkunar minnisins.
IV
Menn deildu ákaft um bók Morris í Banda-
ríkjunum þegar hún kom út og blönduðu ýmsir
þekktir ævisagnaritarar sér inn í þá deilu og
ekki vissu allir í hvorn fótinn væri best að stíga.
Eric Lax, sem skrifað hefur bækur um Woody
Allen og Humphrey Bogart, var á þeirri skoðun
að aðferð Morris væri annaðhvort mjög bylting-
arkennd eða mjög mikið glappaskot, hann var
ekki viss hvort væri raunin. Margir ævisagna-
ritarar og sagnfræðingar sem aðhyllast hefð-
bundin vinnubrögð voru Morris ævareiðir. Þeir
fullyrtu að hann hefði vikist undan því verkefni
sem honum var trúað fyrir, sem var að skrifa
trúverðuga og raunsanna ævisögu forsetans
fyrrverandi. „Skáldskaparblekkingar eru mis-
notkun á rausn forsetans og sóun á tækifæri
sem aldrei gefst aftur,“ sagði ritstjóri Wall
Street Journal. Edmund Morris sagðist hins
vegar vera að ryðja nýja braut í ritun ævisagna
með því að leggja áherslu á ,,ímyndað og raun-
verulegt samband ævisagnaritarans og manns-
ins sem hann fjallar um.“ Og hann bætti við að
rit sagnfræðinga séu oft á tíðum of einhæf, mörg
þeirra séu leiðinleg og málfarið of fræðilegt.4
Morris rökstuddi einnig ákvörðun sína með því
að Ronald Reagan hafi verið leikari af lífi og sál
og í raun alltaf verið í einhverju hlutverki. Hann
hafi verið maður mikilla mótsagna og til að
koma sem best til skila þessu mótsagnakennda,
fjölbreytta sjálfi hafi aðferðir skáldskaparins
reynst bestar.
Gagnrýnendur áttu í vandræðum með að
flokka verk Edmunds Morris og sumir flokkuðu
það einfaldlega sem sögulega skáldsögu. Það er
athyglisvert að í raun bera allar skýringar
Morris á því hvers vegna hann valdi þessa að-
ferð við ævisagnaritunina að sama brunni; hon-
um fannst hann ekki getað höndlað sjálf Ron-
alds Reagan og komið því á framfæri á
trúverðuglegan hátt í texta. Og hann lýsir þessu
sjálfi sem hálu, brotakenndu, fjölbreyttu, þetta
er sjálf sem er í sífelldum hlutverkaleik og
smýgur undan öllum föstum skilgreiningum. En
ég spyr, er ekki svo um öll sjálf? Hefur Morris
ekki með sínu umdeilanlega verki bent okkur á
kjarna þess vanda að skrifa ævisögu hugveru
yfirleitt? Hvernig er mögulegt að lýsa hugver-
unni allri?
Það leiðir hugann aftur að sjálfsævisögunni
Wherés the Rest of Me? Í titlinum hlýtur að
leynast sá merkingarmöguleiki að það sjálf sem
liggur verkinu til grundvallar sé óheilt, að eitt-
hvað vanti upp á sjálfsmyndina til að hún verði
heil og fullkomnuð. Eins og ég hef rætt um er
slík þrá – þrá eftir heildstæðu og fullkomnu
sjálfi – tálsýn ein. Þessi þrá sem rekur margan
manninn út í að skrifa sjálfsævisögu sína getur
ekki fullkomnast með þeirri ritun. Ef til er heilt
og óskipt sjálf þá er það látið sjálf, dáið sjálf – í
dauðanum nær sjálfið fyrst að endapunktinum
sem lokar því. Titilinn á sjálfsævisögu Ronalds
Reagan mætti því þýða þannig á íslensku: Hvar
er ég allur? Og svarið er fengið.
Heimildir:
1 Ronald Reagan & Richard G. Hubler. Wherés the Rest
of Me? Duell, Sloan and Pearce 1965.
2 Edmund Morris. Dutch: A Memoir of Ronald Reagan.
Random House 1999
3 Edmund Morris. Dutch: A Memoir of Ronald Reagan.
Random House 1999
4 Sjá umfjöllun um bók Morris í Morgunblaðinu 3. október
1999
RONALD REAGAN ALLUR
Ronald Reagan, fyrrver-
andi Bandaríkjaforseti,
lést síðastliðinn laugar-
dag. Hér er fjallað um
sjálfsævisögu hans
Where’s the Rest of Me?
frá 1965 og ævisöguna
Dutch: A Memoir of Ron-
ald Reagan frá 1999 eftir
Edmund Morris en báðar
vekja þær ekki aðeins
spurningar um Reagan
heldur og ævisagnaritun
sem bókmenntagrein.
Höfundur er bókmenntafræðingur.
E F T I R
S O F F Í U A U Ð I B I R G I S D Ó T T U R
Reuters
„Og kannski má segja það um Ronald Reagan að hann hafi í lifanda lífi verið allt að því goðsöguleg persóna og í vissum skilningi hlaut hann goð-
sögulegan endi.“ Myndin er frá 1986.