Lesbók Morgunblaðsins - 12.06.2004, Qupperneq 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚNÍ 2004
S
ú aldna stofnun Menntaskólinn í
Reykjavík er rík að hefðum,
bæði að því er lýtur að skóla-
starfinu sjálfu og því sem gert
hefur verið nemendum til
skemmtunar og þroska utan
hins reglubundna skólahalds.
Þannig tíðkaðist það um langt
árabil að efnt væri til nokkurra daga ferðar að
loknu vorprófi í fimmta bekk, seint í maí, á
meðan sjöttu bekkingar sveittust enn við, enda
lauk stúdentsprófum ekki fyrr en komið var
fram í júní.
Vorið 1954 var lagt upp í fimmta bekkjar
ferðina – en svo voru þessar reisur jafnan
nefndar – laugardaginn 29. maí. Ekið var sem
leið liggur vestur í Bjarkarlund í Reykhólasveit
þar sem gist var tvær nætur. Kynnisferðir voru
farnar um nágrennið, m.a. gengið á Vaðalfjöll,
en lengst var farið í Þorskafjörð og staldrað við
að Skógum, á fæðingarstað þjóðskáldsins
Matthíasar Jochumssonar. Þar í hlaðvarpanum
hittum við fyrir einsetukonuna Sesselju Helga-
dóttur – Settu, eins og hún var jafnan kölluð á
heimaslóðum. Hún var 78 ára þegar þetta var,
fædd á gamlársdag 1875, og lést um mitt ár
1976, aldargömul og hálfu ári betur. Á þriðja
degi var haldið heim á leið og þá ekið að Stað-
arfelli. Þar var stigið um borð í dekkbátinn
Hafdísi sem flutti okkur út endilangan
Hvammsfjörð; viðkoma var höfð í Klakkeyjum
og síðan haldið áfram út Breiðasund til Stykk-
ishólms. Þar var staðurinn skoðaður og síðan
sest að kvöldverði á gamla hótelinu, sem stóð á
hafnarbakkanum, og átti fremur skammt eftir
ólifað þegar þetta var, brann árið 1959. Að
áliðnu kvöldi var ekið suður yfir Kerlingar-
skarð og að félagsheimilinu Breiðabliki í Mikla-
holtshreppi. Þar var gist í flatsæng síðustu nótt
ferðarinnar, eftir að dans hafði verið stiginn og
þyrlað upp ærnu ryki áður en lagst var til
svefns. Gengið var á Eldborg daginn eftir,
stefnan síðan tekin heimleiðis, staldrað við í
Borgarnesi til að borða, komið við í Hvalstöð-
inni og ekið í hlað við Menntaskólann síðdegis
þennan dag, þriðjudaginn 1. júní.
Tveir kennarar voru með í för, til leiðsagnar
og eftirlits, Einar Magnússon (1900–1986) –
Einar Magg, eins og hann var jafnan nefndur,
kennari við MR nærri hálfa öld og rektor síð-
ustu fimm árin; hinn var Hermann Einarsson
fiskifræðingur (1913–66), en hann var þessi ár-
in stundakennari við skólann.
Einar hafði vitaskuld kennt okkur öllum, en
flest okkar þekktu Hermann minna. Hann kom
hins vegar ekki tómhentur til leiks, heldur
hafði gítar meðferðis, og ekki höfðum við lengi
ekið þegar hann sagði okkur að vinur sinn, Sig-
urður Þórarinsson (1912–83), sem einnig var
stundakennari við MR, hefði gert sig út með
nýjan brag sem ekki hefði áður verið sunginn
„opinberlega“. Og er þá komið að því sem er til-
efni þessara skrifa. Það var sum sé hér, í rútu-
bíl frá Kjartani og Ingimar, sem Vorkvöld í
Reykjavík – eða Svífur yfir Esjunni, eins og
það er oft nefnt eftir upphafslínunni – hóf sína
sigurgöngu ef svo má að orði komast. Eftir að
Hermann hafði kynnt textann og tók að slá gít-
arstrengina náði lag og texti slíkum tökum á
þeim hæfilega tömdu menntskælingum sem
þarna skipuðu för, að þetta nýjasta framlag
Sigurðar Þórarinssonar til sönglistarinnar óm-
aði meira og minna út alla ferðina.
Á hinum björtu vordögum árið 1954 lét fólk
það að sjálfsögðu ekki þvælast fyrir sér hvaðan
sjálft lagið væri ættað, og svo mun vera um
marga þeirra sem hefja upp þennan vinsæla
söng hvort heldur í rútubíl eða annars staðar
þar sem fólk kemur saman á góðri stundu.
Meðal allra þeirra sem eitthvað kunna fyrir sér
í sögu tónlistar kemur nafn höfundar lagsins þó
kunnuglega fyrir, slíkur jöfur sem Evert Taube
(1890–1976) er meðal sænskra lagahöfunda, en
á þeim vettvangi þykir hann ganga næst Carl
Michael Bellman (1740–95) að frægð og færni.
Evert Taube var raunar fleira til lista lagt en
lagasmíð. Hann samdi sína söngtexta sjálfur og
var jafnframt liðtækur lausamálshöfundur. En
ekki nóg með það því að hann fékkst einnig með
góðum árangri við listmálun og myndskreyt-
ingar. Nutu m.a. hans eigin bækur þess. Starf-
andi er félag í Svíþjóð honum helgað, sem gefur
út ársrit (Evert Taube-sällskapets Årsskrift),
og þar hefur m.a. birst doktorsritgerð um
þennan fjölhæfa meistara.
Til gamans má geta þess að prófessor Albert
Engström (1869–1940), þekktur maður á sínum
tíma í Svíþjóð, var velgjörðarmaður Everts
Taube og honum til stuðnings og örvunar á
braut skáldskapar og málaralistar. Sá hinn
sami Albert Engström lagði leið sína til Íslands
árið 1911 og samdi um ferðalög sín hér og kynni
af landi og þjóð bókina Åt Häcklefjäll (1913),
nefnd Til Heklu í íslenskri þýðingu (1943).
Sigurður Þórarinsson stundaði nær allt sitt
háskólanám í Svíþjóð og dvaldist þar samfellt
frá 1932 til 1945, en einungis skamman tíma í
senn eftir það. Sigurður var eins og kunnugt er
í fremstu röð íslenskra jarðfræðinga, en hann
var líka einhver mesti snillingur íslenskur sem
söngvísnahöfundur. Þegar tóm gafst til var
yndi hans að slá gítarinn og leiða söng með góð-
um félögum, samstarfsmönnum eða nemend-
um. Oft hafði hann þá eitthvað nýtt fram að
færa sem tengdist tilefni eða kringumstæðum.
Mikið safn af slíku er t.d. að finna í Gríms-
vatnagrallaranum (1975). Vinsælustu söngvar
hans rötuðu fljótlega inn í vasasöngbækur, þar
á meðal hið sænskættaða Vorkvöld í Reykja-
vík.
Sigurður var á háskólaárum sínum í Svíþjóð í
forystu fyrir Félagi íslenskra stúdenta í Stokk-
hólmi næstum heilan áratug, enda félagslyndur
alla tíð. Á árum sínum þar ytra kynntist hann
vísnasöng sem átti sér ríka hefð í Svíþjóð, allt
frá tíma Bellmans. Og vitað er að Sigurður
komst í nokkur persónuleg kynni við Evert
Taube.
Þeir fylla næstum tuginn íslensku höfund-
arnir sem gert hafa texta við lög Everts Taube,
allt frá Jóni frá Ljárskógum til Davíðs Odds-
sonar, hinn síðar nefndi notaðist reyndar við
dulnefnið Gunnlaugur Sveinsson. Nefnist
bragur hans Tileinkun og kom út á hljómdisk-
inum Kærleiksblóm árið 1992. Ekki er annað á
þeim diski við lag eftir Evert Taube.
Í þeim tilvikum sem íslenskir höfundar
sömdu texta við lög Everts Taube styðjast þeir
sjaldnast við ljóð hans, í mesta lagi að ort sé í
anda þeirra. Það á m.a. við um brag Sigurðar
Þórarinssonar, Vorkvöld í Reykjavík. Hinn
sænski texti Everts Taube, sem hann samdi
þetta vinsæla lag við, heitir Sjösala vals og birt-
ist fyrst í Sjösalaboken, 1942. Söngvana í bók-
inni samdi höfundurinn fyrsta sumar sitt á
sveitasetri fjölskyldunnar, Sjösala, og var þeim
ætlað að hefja til vegs fegurð og gleði, til mót-
vægis við þá depurð sem sveif yfir vötnum í
miðri heimsstyrjöld.
Einn þeirra íslensku höfunda sem borið hafa
við að þýða texta eftir Evert Taube er Páll H.
Jónsson frá Laugum (1908–90). Þær þýðingar
er að finna á hljómdiski sem sönghópurinn
Rjúkandi frá Ólafsvík stóð að og kom út 1994,
og fylgja textarnir prentaðir með. Þar er ásamt
öðru eitt erindi með yfirskriftinni Sjösala vals
og er sungið undir sama lagi og Vorkvöld í
Reykjavík. Um er að ræða mjög frjálslega þýð-
ingu á fyrsta erindi hins sænska brags. Þarna
kemur fram tilbúin persóna, Rönnerdahl, í
hinni íslensku þýðingu Páls H. Jónssonar
nefnd Dala-Hreinn, og skýtur hún upp koll-
inum í allmörgum öðrum söngvum Everts
Taube, enda talið að hann hafi þarna sjálfan sig
í huga, a.m.k. að hluta til.
Vorkvöld í Reykjavík öðlaðist mjög hratt
vinsældir með þjóðinni eftir að það var fyrst
kynnt menntaskólanemunum vorið 1954. Rík-
isútvarpið mun vissulega hafa átt sinn þátt í
því, þótt varðveisla efnis frá þeim tíma í safni
útvarpsins leyfi ekki nákvæma tímasetningu.
Stjórnendur þátta með blönduðu efni urðu oft
fyrstir til að kynna þjóðinni sönglög sem til vin-
sælda voru fallin, og er Litla flugan skýrasta
dæmið um það, en hún hóf flugið í þætti Péturs
Péturssonar árið 1951. Söngvinnir menn minn-
ast vel vinsælda Vorkvöldsins á síðari hluta
sjötta áratugarins. Einn þeirra hefur til dæmis
rifjað það upp fyrir sér að hafa að loknu góðu
stúdentsafmæli vorið 1958 reikað þurrbrjósta
ásamt félögum sínum upp á Arnarhól. Rauluðu
þeir sér til hugarhægðar hinn vinsæla texta
Sigurðar þegar þeir nálguðust Ingólf, þar sem
„tryggir hvíla rónar hjá galtómum bokkunum“,
þótti eins og þá stóð á sem örlög þeirra væru
svipuð orðin.
Það var svo árið 1960 sem að því kom að Vor-
kvöld í Reykjavík væri hljóðritað á plötu. Þar
var að verki Svavar Gests með hljómsveit sína
og Ragnar Bjarnason sem söngvara. Fjórum
árum yngri er upptaka hljómsveitar hans og
Fjórtán fóstbræðra. Síðar hafa aðrir komið til
og haldið áfram að miðla þjóðinni þessu vinsæla
sönglagi þeirra Sigurðar og Everts Taube.
Texti Vorkvöldsins hefur líka margsinnis
komið í vasasöngbókum, fyrst árið 1960 í Söng-
bók menntaskólanema, sem út var gefin af
Framtíðinni, málfundafélagi Menntaskólans í
Reykjavík, og fór vel á því miðað við það sem
hér hefur verið rakið um „frumflutning“ brags-
ins.
SVÍFUR YFIR ESJUNNI
Hálf öld er síðan Vorkvöld í Reykjavík
eftir Sigurð Þórarinsson kom fyrst fram.
Hér er sagt frá tilurð þessa þjóðþekkta brags.
Evert TaubeSigurður Þórarinsson
E F T I R E I N A R S I G U R Ð S S O N
Höfundur er stúdent frá Menntaskólanum
í Reykjavík 1955.
Sesselja Helgadóttir úti fyrir bæjardyrum
að Skógum í Reykhólasveit.
Ljósmynd/Einar Sigurðsson
Ljósmynd/Ólafur Jónsson
Einar Magnússon reyndi fyrir sér sem vatns-
beri í hlaðvarpanum að Skógum, en það þótti
vel til fundið þar sem hann hafði lýst vanþókn-
un á samnefndri höggmynd eftir Ásmund
Sveinsson og barist gegn því að hún yrði sett
upp í Reykjavík.
Eftir Evert Taube, fyrsta erindi af fjórum.
Rönnerdahl han skuttar med ett skratt ur sin säng.
Solen står på Orrberget.
Sunnanvind brusar.
Rönnerdahl han valsar över Sjösala äng.
-- Hör min vackra visa, kom, sjung min refräng!
Tärnan har fått ungar och dyker i min vik,
ur alla gröna dungar hörs finkarnas musik,
och se, så många blommor som redan slagit ut på
ängen!
Gullviva,
mandelblom,
kattfot
och blå viol.
Sjösala vals
Þýðing Páls H. Jónssonar frá Laugum.
Dala-Hreinn að morgni kveður draumanna beð,
sól er yfir Bláfjalli sunnan í dalnum.
Dala-Hreinn hann syngur, því að glatt er hans geð,
lærið nú hans söngva og syngið þá með.
Vorkvöld í Reykjavík
Eftir Sigurð Þórarinsson.
Svífur yfir Esjunni sólroðið ský,
sindra vesturgluggar, sem brenni í húsunum.
Viðmjúk strýkur vangana vorgolan hlý,
vaknar ástarþráin í brjóstum á ný.
Kysst á miðju stræti er kona ung og heit,
keyra „rúntinn“ piltar, sem eru í stelpuleit.
Akrafjall og Skarðsheiði eins og fjólubláir draumar.
Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík.
Tjörnin liggur kyrrsæl í kvöldsólarglóð
kríurnar þótt nöldri og bjástri í hólmanum.
Hjúfra sig á bekkjunum halir og fljóð
hlustar skáldið Jónas á þrastanna ljóð.
Dulin bjarkarilmi á dúnsins mjúku sæng
dottar andamóðir með höfuð undir væng.
Akrafjall og Skarðsheiði … .
Hljótt er kringum Ingólf og tæmt þar hvert tár
tryggir hvíla rónar hjá galtómum bokkunum.
Svefninn er þeim hóglega siginn á brár.
Sunnanblær fer mildur um vanga og hár.
Ilmur er úr grasi og angan moldu frá,
aftansólin purpura roðar vestursjá.
Akrafjall og Skarðsheiði … .
Sjösala vals