Lesbók Morgunblaðsins - 12.06.2004, Qupperneq 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 12. JÚNÍ 2004
N
ýjasta gallerí borgarinnar
er 101 gallery á Hverfis-
götu 18a, í bakhúsi sem
er mitt á milli Hverfis-
götu og Laugavegar.
Fyrsta sýning gallerísins
var opnuð 3. júní sl. og
eru þar sýndar málaðar
lágmyndir eftir listakonuna Huldu Hákon. Er
blaðamann ber að garði, daginn eftir opnun, til
að hitta eiganda gallerísins, Ingibjörgu S.
Pálmadóttur, hefur hægri hönd hennar, Böðvar
Gunnarsson rekstrarstjóri gallerísins, nóg að
gera við að taka á móti gestum auk þess sem
iðnaðarmenn enn á fullu við að innrétta og setja
rýmið inn af sýningarsalnum í stand. Ingibjörg
hlær og bendir á að eins og svo oft vill verða þá
hafi allt smollið á síðustu stundu: „Þannig voru
menn hér að setja glerið í útidyrahurðina fimm
mínútum fyrir opnunina í gær, en það hafðist
allt á lokasprettinum.“ Þegar inn er komið tekur
á móti manni bjartur og rúmgóður salur, alls í
kringum 130m² með tveimur burðarsúlum. Hér
er svo sannarlega hátt til lofts og vítt til veggja.
Aðspurð segir Ingibjörg það lengi hafa verið
draum sinn að stofna gallerí í miðborginni.
„Raunar eru nokkur ár síðan ég fór fyrst að
gæla við þessa hugmynd en ég keypti þetta hús-
næði hér fyrir mörgum árum, einmitt með það
fyrir augum að gera húsið að allsherjar menn-
ingarhúsi, enda sé ég fyrir mér að hér verði ým-
iss konar skapandi starfsemi auk myndlistar-
sýninga. Það var hins vegar ekki fyrr en um
síðustu áramót sem ég loks gerði alvöru úr þess-
ari hugmynd, enda hafði ég náttúrlega verið
upptekin við að byggja hótelið mitt hér neðar í
götunni.“
Hér vísar Ingibjörg auðvitað til 101 hótels
sem hún hannaði sjálf, á og rekur, en eitt af því
sem vakti sérstaka athygli í tengslum við hótelið
var sú mikla áhersla sem Ingibjörg leggur á að
sýna myndlistarverk eftir íslenska samtíma-
listamenn á hótelinu. „Það gerir mikið fyrir
mann að hafa list í kringum sig. Auk þess finn ég
hvað gestir hótelsins eru áhugasamir um lista-
verkin og spyrja mikið út í þau,“ segir Ingibjörg
og bendir á að þetta hafi verið ein aðalástæða
þess að hún ákvað að hafa nöfn og lógo gallerís-
ins og hótelsins með svipuðu sniði. Hún segir í
bígerð að setja hlekk á galleríið inn á vef hótels-
ins og sér hún fyrir sér að það geti hjálpað til að
við að vekja athygli á nýja galleríinu erlendis.
Enn vantar fleiri sýningarstaði
Að sögn Ingibjargar stefnir hún að því að
vera með fjórar til fimm stórar einkasýningar á
ári í 101 gallery. „Mig langar til að prófa að hafa
hverja sýningu lengur en venjulega, þannig
stendur sýning Huldu Hákon t.d. í sjö vikur í
staðinn fyrir þessar venjulegu þrjár. Sjálf er ég
alltof oft að lenda í því að missa af sýningum þar
sem þær standa svo stutt yfir.“ Innt eftir því
hverjir munu sýna í kjölfar Huldu segist Ingi-
björg ekki alveg vera búin að plana næsta sýn-
ingarár, en meðal þeirra listamanna sem hún
hefur boðið að sýna hjá sér í 101 gallery eru
Steingrímur Eyfjörð, sem verður með sýningu í
haust, Jón Óskar, en hann mun sýna á vori kom-
anda, Helgi Þorgils og Daníel Magnússon.
Inn á milli stóru sýninganna segist Ingibjörg
langa til að vera með uppákomur og smærri
sýningar sem standi í styttri tíma. „Þannig hef
ég mikinn áhuga á að sýna verk ungra myndlist-
armanna sem enn eru kannski ekki búnir að
skapa sér nafn þótt þeir séu að gera áhugaverða
hluti. Raunar sé ég fyrir mér að 101 gallery
verði ekki einvörðungu ætlað myndlist, því það
væri gaman að bjóða t.d. upp á tónlistarinnsetn-
ingar og fleira í þeim dúr. Ég er sannfærð um að
slík blanda í sýningarhaldi geti gert galleríið
skemmtilegra og meira lifandi.“ Þar sem Ingi-
björg mun sjálf sjá um valið á listamönnum er
ekki úr vegi að forvitnast aðeins um hennar eig-
in myndlistarsmekk. Hún segir ómögulegt fyrir
sig að nefna einhverja ákveðna listamenn, slíkt
þætti henni ekki mjög taktískt nú þegar hún er
að hefja rekstur gallerísins, en tekur þó fram að
hún hafi fyrst og fremst áhuga á núlifandi ís-
lenskum listamönnum.
En hvað veldur því að kona sem flestir þekkja
fyrst og fremst sem kaupsýslukonu velur að
fara út í myndlistarbransann og starfrækja gall-
erí, sem allir vita að er ekki gróðavænlegt, enda
er ekki lengra síðan en um áramót að Gallerí
Hlemmur lagði upp laupana sökum rekstr-
arörðugleika. „Það skal alveg viðurkennast að
þetta er langt því frá gróðavænlegur „bissness“
eða rekstur. Og það var náttúrlega algjör synd
að rekstri Gallerís Hlemms skyldi hætt. En þú
spyrð af hverju myndlist hafi orðið fyrir valinu
hjá mér. Við því er bara eitt svar; ég hef einfald-
lega mjög mikinn áhuga á myndlist og langar til
að leggja mitt af mörkum til að koma listinni á
framfæri. Það má því segja að hér sé um ákveð-
ið hugsjónastarf að ræða. Ég fann það svo
greinilega á námsárum mínum í New York hvað
við Íslendingar leggjum í raun allt of litla
áherslu á myndlistaruppeldi í skólum. Sem er
mikil sýnd, því það er mjög mikilvægt að ala
börnin upp við sjónmennt þar sem það skilar sér
í auknum myndlistaráhuga í samfélaginu al-
mennt.“
Að sögn Ingibjargar má segja að það hafi ver-
ið viss ládeyða í gallerílífinu hér að undanförnu.
„Sem stafar fyrst og fremst af því að það er erf-
itt að reka gallerí, því það kostar pening. Ég
myndi segja að þær kostnaðartölur sem Þóra
Þórisdóttir hjá Gallerí Hlemmi gaf upp í viðtali í
Lesbókinni í byrjun árs séu afar raunhæfar.
Það er staðreynd að það kostar alla vegna millj-
ón á mánuði að reka gallerí á borð við þetta,“
segir Ingibjörg og bendir á að almennt sé ekki
hægt að reka gallerí án einhverja styrkja.
„Enda tel ég það vera á ábyrgð ríkis og sveitar-
félaga að leggja menningunni lið, en raunar er
staðreynd að allt of litlir peningar eru settir í
myndlistina í samanburði við t.d. íþróttirnar.
Þetta er hugsunarháttur sem þarf að breyta, því
það er skylda okkar sem samfélags að styðja vel
við menninguna.“
Spurð hvort henni hafi fundist vanta fleiri
sýningarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu svarar
Ingibjörg því játandi. „Það vantaði og vantar
enn. Þau fáu sem eru starfrækt hér í bænum
eru mjög fín, en þau geta ekki þjónað öllum. Og
þó 101 gallery bætist í hópinn vantar enn svona
þrjú til fjögur í viðbót til þess að geta búið til
góða flóru. Að mínu mati er mikilvægt að hafa
góðan hóp öflugra gallería, vegna þess að með
því skapast viss orka sem er afar góð fyrir lista-
lífið í heild.“
Spurð um viðtökur fólks við hinu nýja galleríi
segir Ingibjörg þær vera afar góðar. „Ég finn að
þetta leggst afar vel í fólk og ég hef þegar fengið
fyrirspurnir frá stórum hópi listamanna sem
sýnt hefur því áhuga að fá að sýna í 101 gallery.
Miðað við svörunina sem ég hef fengið finn ég að
það var greinilega mikil þörf á að koma hér upp
nýju galleríi.“
Einkageirinn getur ekki
borið ábyrgð á listalífinu
En umsvif Ingibjargar í myndlistarheiminum
felast raunar í meiru en að reka 101 gallery, því í
byrjun árs var hún tilnefnd af menntamálaráðu-
neytinu í stjórn Kynningarmiðstöðvar íslenskr-
ar myndlistar (KÍM) og gegnir hún þar stjórn-
arformennsku. Aðspurð hvort tilnefning
menntamálaráðherra hafi komið sér á óvart
svarar Ingibjörg því játandi. „Ég verð að við-
urkenna að ég þurfti að hugsa mig aðeins um
áður en ég ákvað að slá til, þar sem ég hafði efa-
semdir um að ég myndi „funkera“ í stofnanaum-
hverfinu,“ segir Ingibjörg og hlær. „Raunar
verð ég að segja að mér fannst Þorgerður sýna
mikið hugrekki þegar hún tilnefndi mig, þar
sem ég kem kannski ekki beinlínis úr innsta
kjarna myndlistargeirans. Ástæða þess að ég
ákvað að slá til var að ég taldi mig sjá hvað hún
var að hugsa með þessari tilnefningu, því með
henni er hún að blanda saman fólki úr ólíkum
geirum þjóðlífsins. Og er ég alveg sammála
henni um mikilvægi þess að stefna á þennan
hátt saman ólíkum heimum og ólíkum sjónar-
miðum.“
En hvernig sér Ingibjörg hlutverk sitt sem
stjórnarformanns? „KÍM er náttúrlega mjög
ung stofnun og það má segja að allt sé enn í mót-
un, því það á eftir að „strúktúrera“ stefnu stofn-
unarinnar og útfæra í smáatriðum. KÍM var
stofnuð í desember sl. en ég kom ekki að starf-
inu fyrr en í febrúar. Þá höfðu þegar farið fram
umræður um hvernig reka ætti stofnunina og
búið var að setja saman stofnskrá.“
Aðspurð segir Ingibjörg ríkið leggja til sjö
milljónir á ári í starfsemi KÍM. „Það verður að
viðurkennast að það eru ekki ýkja miklir fjár-
munir, því þegar búið er að borga laun forstöðu-
manns KÍM stendur ekki mikið eftir. Það er því
afar mikilvægt að nýta þessa mjög svo takmörk-
uðu fjármuni sem ríkið setur í starfsemina á
sem skynsamlegastan hátt til að fá sem mest
fyrir peninginn. Þannig verður til að byrja með
aðallega lögð áhersla á að fá hingað til lands
bæði sýningarstjóra og erlenda aðila í myndlist-
arheiminum til að kynna sér listalífið hér, því við
höfum enga peninga til að senda listamenn út til
sýningarhalds. En því má ekki gleyma að mark-
miðið er að samskiptin við útlönd verði gagn-
kvæm, því enda þótt markmið KÍM sé að kynna
íslenska myndlist erlendis og auka þátttöku ís-
lenskra myndlistarmanna í alþjóðlegu mynd-
listarstarfi þá er afar mikilvægt að þessi tengsl
séu gagnkvæm.“
Hvað fjármögnun varðar segir Ingibjörg ljóst
að það þurfi að leita leiða til að fá aukið fjár-
magn í rekstur KÍM. „Ég sé fyrir mér að hægt
verði að fá fyrirtæki atvinnulífsins til samstarfs
um einstök verkefni, en fjárhagslega ábyrgðin
hlýtur samt ávallt að hvíla á herðum ríkisins,
enda er ekki hægt að gera einkageirann ábyrg-
an fyrir listalífinu.“
Í höndum forstöðumanns
að móta starfsemi KÍM
Nú gætu einhverjir haft áhyggjur af því að þú
sem stjórnarformaður KÍM og jafnframt eig-
andi gallerís, sem ætlar sér kannski einhverja
hluti erlendis í framtíðinni, gæti lent í þeirri
óheppilegu aðstöðu að vera beggja megin borðs.
Hvað segir þú við þeim áhyggjuröddum? „Það
getur vel verið að einhverjir gætu upplifað það
svoleiðis, en ég sé það ekki þannig, því ég sem
stjórnarformaður er ekki einráð í ákvörðunum
og hef ekki þannig áhrif á reksturinn, enda
verður það fyrst og fremst í höndum forstöðu-
manns KÍM að móta starfsemina og starfrækja
frá degi til dags. Ég myndi raunar fremur halda
að ef eitthvað þá væri það til framdráttar fyrir
mig sem stjórnarformann að starfrækja gallerí,
því þá eru meiri líkur að maður geti lagt eitt-
hvað af mörkum til stofnunarinnar í formi
reynslu og sambanda.“
Fyrst minnst er á forstöðumanninn rifjast
upp fyrir blaðamanni að auglýst var í stöðuna í
síðasta mánuði og þá var talað um að líklega
yrði gengið frá ráðningu nú í júní. Innt eftir því
hver staða mála sé núna svarar Ingibjörg því til
að ákveðið hafi verið að auglýsa aftur þar sem
ekki náðist að koma auglýsingunni að í erlend-
um myndlistartímaritum. „Okkur í stjórninni
varð eiginlega ljóst að þriggja vikna umsókn-
arfrestur var kannski í styttra lagi, auk þess
sem okkur fannst mikilvægt að gefa erlendum
aðilum kost á að sækja um og það krefst einfald-
lega meiri tíma og undirbúnings að koma at-
vinnuumsókn að í erlendum listtímaritum á
borð við Flash Art og Art Forum. En auðvitað
er mikilvægt að ráða forstöðumann sem fyrst til
starfa til að koma þessu öllu í gang og vonandi
verður búið að finna réttu manneskjuna fyrir
haustið.“
Fyndist Ingibjörgu það þá kostur ef erlend
manneskja yrði ráðin í stöðuna? „Ekkert endi-
lega, enda hefur hvort tveggja sína kosti og
galla. Ef við fengjum erlenda manneskju til
starfa sem hefði góða innsýn og sambönd í lista-
heiminn úti þá væri það auðvitað afar jákvætt. Á
móti kemur að að útlendingur myndi þá kannski
ekki þekkja myndlistarheiminn okkar hér
heima nægilega vel. Besti kosturinn væri ef við
gætum fengið einhvern sem þekkir íslenska
listaheiminn samtímis því að hafa góð sambönd
úti. Svo skiptir reyndar ekki síður máli að við-
komandi eigi auðvelt með að tala við fólk og sé
hæfur í mannlegum samskiptum.“
Líkt og fram hefur komið áður felst hlutverk
forstöðumanns, samkvæmt stofnskránni, í því
að móta starfsemi stofnunarinnar auk þess að
sjá um allan daglegan rekstur og stjórna fjár-
málum KÍM. Hvað finnst Ingibjörgu um þær
raddir sem vilja meina að það fari kannski ekki
sérlega vel saman að sinna þessum tveimur
ólíku störfum, enda hafa sumir lýst efasemdum
sínum um að erlendur galleristi eða listfræð-
ingur fáist til starfans ef viðkomandi er fyrst og
fremst ætlað að sjá aðeins um daglegan rekstur
fremur en um listræna stjórnun og stefnumörk-
un KÍM? „Ég skil afskaplega vel þessar áhyggj-
ur manna, enda vill maður yfirleitt ekki vera að
blanda saman daglegum rekstri og listrænni
stjórnun. En satt að segja hef ég ekki það mikl-
ar áhyggjur af þessu, því meðan ekki er úr meiri
peningum að moða þá verður rekstrarhlutinn
ekki svo fyrirferðarmikill, auk þess sem við
fáum inni á skrifstofu SÍM. Síðar meir þegar
starfsemi KÍM ykist þá væri alltaf hægt að ráða
sérstaka skrifstofumanneskju til að sinna
rekstrinum,“ segir Ingibjörg að lokum áður en
hún þarf að rjúka á næsta stað, enda nóg að
gera hjá þessari kjarnakonu þessa dagana.
DRAUMUR VERÐUR AÐ VERULEIKA
Ingibjörg S. Pálmadóttir er flestum kunn sem kaupsýslukona, hóteleigandi og -stjóri. Fyrir skömmu lét hún
gamlan draum um að stofna gallerí rætast, því í byrjun mánaðarins var 101 gallery formlega opnað. Í samtali
við SILJU BJÖRK HULDUDÓTTUR ræðir Ingibjörg um nýja galleríið og umsvif sín í myndlistarheiminum.
Morgunblaðið/Golli
„Ég finn að galleríið leggst afar vel í fólk og ég hef þegar fengið fyrirspurnir frá stórum hópi listamanna sem sýnt hefur því áhuga að fá að sýna hér.
Miðað við svörunina sem ég hef fengið finn ég að það var greinilega mikil þörf á að koma hér upp nýju galleríi,“ segir Ingibjörg S. Pálmadóttir.
silja@mbl.is