Lesbók Morgunblaðsins - 10.07.2004, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 10.07.2004, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 10. júlí 2004 | 3 E lvis er löngu orðinn stærri en við, meiri en við, gnæfir yfir tónlistarheiminn, grannvaxinn, nötr- andi af eðlunarfýsn / útblásinn belgur í glit- saumuðum samfestingi – tákn fyrir allt það besta og versta sem fylgt getur frægðinni. Hann var hæfileikamikill, kynþokkafullur, glæsilegur, villtur, feitur, ruglaður dópisti. Allt sem sagt hefur verið um Elvis er lygi og það er líka allt satt. Vitur maður sagði eitt sinn að þar sem mannkyninu fari sífellt fram, það leiti í átt að meiri þroska, í átt að fullkomnun, verði allir á endanum eins og Elvis. Þess er minnst um þessar mundir að Elvis Presley söng blúss- lagara inn á band fyrir fimmtíu árum; fimmta júlí 1954 var hann að gaufast með músíköntum í Sun-hljóðverinu hjá Sam Phillips, búinn að reyna að taka upp rómantískar ballöður en gekk ekki, upptökulotan að verða búin og ekk- ert komið af viti. Þá var það að hann stakk upp á blús sem hann þekkti vel, That’s All Right eftir negrann Arthur „Big Boy“ Crudup. Undirspilið var uppmagn- aður hálfkassagítar og kontrabassi, ósköp venjulegt rokkabillí en það var söngurinn sem gerði gæfumuninn, ungæðisleg röddin, hrynjandin í henni og spennan; er nema von að Phillips hafi sperrt eyrun – hann heyrði í framtíðinni. 5. júlí er hátíðisdagur, því þá tóku þeir Elvis, Scotty Moore og Bill Black upp lagið fræga, en sá tíundi, dagurinn í dag, er hinn raunverulegi gleðidagur því þá hljómaði það í útvarpi í fyrsta sinn, þá hófst byltingin. Elvis og Gladys Samband Elvis við Gladys móður sína var ríkur þáttur í persónu- leika hans. Hún vakti yfir hverri hreyfingu hans sem má eflaust skýra að einhverju leyti með því að Elvis var tvíburi en Jesse Garon bróðir hans fæddist andvana nokkrum mínútum áður en Elvis kom í heiminn og var grafinn úti í garði í skókassa. Svo hrædd var Gladys um að missa strákinn sinn að hún baðaði hann ekki, heldur þvoði honum með rakri dulu, óttaðist að hann myndi drukkna annars. Hún fylgdi honum í skólann á hverjum degi, en er hann amaðist við því af ótta við stríðni skólafélaga gekk hún í humátt á eftir honum eða leyndist í runnum eða á bak við bíla á leiðinni. Náið samband Elvis og Gladys mótaði hann og því hefur verið fleygt að hann hafði aldrei náð sér eftir andlát hennar, en hún lést úr lifrarbólgu 14. ágúst 1958 er Elvis gegndi herskyldu. Mánuði eftir að Elvis missti móður sína var hann kominn til Þýskalands, til Friedberg. Þar hitti hann unglingsstúlku, Pris- cilla Beaulieu, fjórtán ára snót en hann 24 ára. Hann féll fyrir sakleysi hennar og barnslegri fegurð, hún var ekki eins og hisp- ursmeyjarnar sem hann gamnaði sér með, og hún var upp með sér af athyglinni aukinheldur sem Elvis var óneitanlega glæsi- legur. Elvis lauk herskyldu 1960 og tók upp þráðinn þar sem frá var horfið í músíkinni, en vinsældir hans höfðu lítið sem ekkert dvín- að árin sem hann var í hernum, Parker höfuðsmaður, umboðs- maður hans, sá um það. Jólin 1962 kom Priscilla í heimsókn til Elvis í Graceland og 1963 fluttist hún til hans til Bandaríkjanna. Þau giftu sig vorið 1967 og níu mánuðum síðar fæddist Lisa Mar- ie. Þegar Pricilla var orðin móðir lauk samlífi hennar og Elvis að mestu leyti og þau skildu 1972. Elvis og Nixon Það var svo til að kóróna síðustu æviár hans er þeir hittust í Hvíta húsinu, konungur rokksins og skálkurinn Richard Nixon. Þegar hér var komið sögu, í desember 1970, var Elvis orðinn hálfruglaður af pilluáti og veruleikafirrtur. Hann fékk þá flugu í höfuðið að hann ætti að leggja sitt af mörkum til að forða banda- rísku þjóðinni frá byltingarsinnuðum vinstrimönnum, Svörtu hlé- börðunum, hippum og dópistum. Á leiðinni skrifaði hann Nixon bréf sem hann afhenti síðan í hliðinu að Hvíta húsinu. 21. desem- ber hittust þeir svo Elvis og Nixon, Nixon í hefðbundnum klæðn- aði forseta, teinóttum jakkafötum, hvítri skyrtu og með bindi, og Elvis hefðbundnum klæðnaði konunga, þröngum fjólubláum flauelsbuxum, hvítri fleginni silkiskyrtu með háum kraga, dökk- fjólublárri skikkju, gullmedalíu um hálsinn, silfruð sólgleraugu og breiðan gullsleginn mittislinda. Ekki má svo gleyma því að Elvis var vopnaður. Í samtali forsetans og kóngsins kom meðal annars fram skoð- un Elvis á andamerísku atferli Bítlanna, áhyggjur hans af auk- inni eiturlyfjaneyslu, rannsóknir hans á heilaþvottaraðferðum kommúnista og ósk hans um að fá inngöngu í bandarísku alrík- islögregluna, en það var víst aðalástæða heimsóknarinnar; Elvis taldi að stöðu sinnar vegna gæti hann orðið flugumaður í ungliða- og námsmannahreyfingum. Nixon gekk ekki svo langt að munstra Elvis í alríkislögregluna, en gaf honum lögregluskjöld. Elvis dópisti Elvis komst snemma upp á lagið með að nota lyf til að auðvelda sér lífið; hressandi áður en hann fór inn á svið og svo róandi að tónleikum loknum. Síðustu æviárin var hann meira og minna í vímu og við krufningu fundust leifar af fjórtán mismunandi lyfj- um í blóði hans. Margir urðu til að kenna líflækni Elvis síðustu tíu árin sem hann lifði, George Nichopoulos, um dauða hans, enda var hann duglegur að gefa út lyfseðla; nægir að nefna að árið sem Elvis lést hafði hann ávísað til hans 10.000 lyfjaskömmtum þegar kom- ið var fram í ágúst. Á endanum var Nichopoulos sviptur lækn- ingaleyfi. Flest bendir þó til að hann hafi frekar reynt að letja Elvis í pilluátinu en hvetja. Málið er að þegar Nichopoulos kom til sög- unnar var Elvis búinn að nota ýmis lyf í óhófi árum saman og ekki bara hann heldur liðið sem var með honum, Memphis- mafían svonefnda. Elvis hafði mikinn áhuga á lyfjum og var æv- inlega spenntur fyrir því að prófa ný og spennandi lyf, ekki síst ef þau voru sterkari en þau sem hann notaði fyrir. Áhugi Elvis á lyfjum riðu honum nánast að fullu, hann tók til að mynda of stóran skammt af lyfjum í febrúar 1973 og var í dái í þrjá daga í svítu sinni á Hilton-hótelinu í St. Louis. Í árslok var hann lagður inn á spítala í Memphis hálfrænulaus af lyfjanotkun eftir cortison-eitrun og einnig til að sigrast á fíkn í verkjalyf sem innihélt mikið af kódeiní. Lyfin hafði hann fengi hjá læknum sem hann hitti án vitundar Nichopoulos. Eftir það fór Nichopoulos alltaf með Elvis í heimsóknir til ann- arra lækna, og var þannig alltaf viðstaddur þegar Elvis fór til tannlæknis, svo dæmi séu tekin. Á endanum fór Nichopoulos að gefa honum lyfleysu, fyrst þannig að hann og aðstoðarmenn Elv- is settu saltvatn í lyfjahylki og síðar fékk Nichopoulos framleið- anda þess verkjalyfs sem Elvis hélt mest upp á til að framleiða sérstaklega óvirkar pillur sem litu eins út og þær raunverulegu. Heilagur Elvis Ýmsir hafa orðið til að draga fram það sem þeir áttu sameig- inlegt, Jesús og Elvis (Jesús læknaði holdsveika, daufa og blinda, Elvis gaf fátækum kádiljáka) og ekki hefur dregið í sundur með þeim eftir fráfall Elviss; Elvis birtist fólki í stórmörkuðum og á bensínstöðvum, margir hafa komið sér upp altari þar sem færðar eru brennifórnir, reykelsi og kerti, og fregnir eru af því að Elvis hafi bænheyrt fólk og læknað. Aðdáendur hans, heittrúaðir, safnast saman árlega til að minn- ast hans í svonefndri „dauðaviku“, safnast saman við hliðið á Graceland og ganga síðan í prósessíu að gröf Elvis, tugir þús- unda og fjölgar ár frá ári. Fjölmargar bækur hafa komið út þar sem menn bera saman líf frelsarans og Elvis, lesa úr guðspjöllunum ævisögu Elvis ekki síður en Jesú – ekki er ólíklegt að trúnaður á Elvis verði orðinn almennur vestan hafs eftir hálfa öld eða svo. „Úr El-vis lesum við „Guð máttur“. Aron þýðir „kennari“ og Presley er komið af priestly sem þýðir „prestur“. Allir þrír helstu íverustaðir Elvis innihalda spádómsorðið „EL“: Graceland, Tup- elo og Bel Air. Að auki segir í Biblíunni að frá krossfestingu Krists njótum við náðartíma, þess 2.000 ára tímabils sem við hljótum fyrirgefningu vegna fórnardauða Krists. Setur Elvis Presley heitir Náðar-Land!“ Úr „The Elvis-Jesus Mystery – The Shocking Scriptural and Scientific Evidence That ELVIS PRESLEY Could Be the Mess- iah Anticipated Throughout History!“ eftir Cinda Godfrey. (Þess má geta að Elvis var að lesa bókina „Vísindaleg leit að andliti Jesú“ er hann lést.) Elvis og Elvis Eins og allir góðir snillingar tók Elvis ekki að láni, hann kunni að stela. Hann hlustaði á alla tónlist, allt frá svörtum blús í sálma- söng og spennan milli hins geistlega og veraldlega var í tónlist- inni, tónlist djöfulsins eins og predikarar kölluðu blúsinn, hryn- blúsinn og svo rokkið, sem er ekki bara músík heldur líka útlit, framkoma, uppreisnarandi. Elvis stal frá öllum, svörtum sem hvítum, rokki og rokkabillí, en hann fann ekki upp rokkið, hann fann upp Elvis. Elvis var sjálfsöruggur og góður með sig eins og ritari í Sun- hljóðverinu komst að þegar hann kom þar til að taka upp afmæl- isplötu fyrir móður sína sumarið 1954: Ég er söngvari, kynnti hann sig og spurður hvernig tónlist hann syngi svaraði hann: All- ar tegundir. Ekki var hann heldur hlédrægur þegar næsta spurning kom: Hverjum líkist þú, því svarið kom að bragði: Eng- um. Elvis er alstaðar Þess er minnst um þessar mundir að fimmtíu ár eru síðan Elv- is Presley tók upp fyrsta lag sitt sem eitthvað kvað að. Í kjöl- far þess varð hann vinsælasti tónlistarmaður Bandaríkjanna, konungur rokksins, samnefnari fyrir allt það gott og slæmt sem frægðinni getur fylgt. Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is Jesús læknaði holdsveika, daufa og blinda, Elvis gaf fátækum kádiljáka.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.