Íslendingaþættir Tímans - 30.08.1973, Blaðsíða 8

Íslendingaþættir Tímans - 30.08.1973, Blaðsíða 8
80 ára Salvör Jörundardóttir ljósmóðir Þar sem drenghnokkinn stendur i hlaðvarpanum berst árniðurinn til hans austan yfir ásana. Iðgrænt túnið fyrir fótum, en fjær flóinn, sem nú hefur tekið á sig grænan lit sumarsins. Fjærst glampar á voginn og hafið. Viö- ur fjallahringurinn, fjólublár og blár i fjarlægðinni. Akrafjalliö og Skarðs- heiðin með Skarðshyrnu og Snók, en utar Leirárkinnar og Hafnarfjall. En brátt er árhljóð Leirár, þar sem hún brýzt fram úr þrengslunum við Berg- hyl og rennur niður eýrarnar, rofið af öðru hljóöi, óþekktu á þessum slóöum. Vörubill kemur i ljós. Hann silast upp með Leirá eftir árfarveginum aö mestu og nú hefir þetta furðuverk tek- ið hug drengsins fanginn. Hann hvorki heyrir né sér annað. En drengnum fjögurra ára, sem dvelur þarna i sveit hjá afa sinum og ömmu er einnig ann- að tilhlökkunarefni i hug. Hann á von á leiksystur. Jafnöldru sinni, sem kem- ur til meö að eiga þarna framtiðar- heimili, ásamt móður sinni Salvöru Jörundardóttur, sem þennan vordag árið 1928 flytzt að Vestri-Leirárgörö- um og giftist nokkrum dögum siöar Magnúsi Eggertssyni, næstelzta syni hjónanna þar, Benónýju Jónsdóttur og Eggerts Gislasonar. Þannig stendur undirrituðum koma Salvarar og Vilborgar dóttur hennar að Leirárgörðum ljóst fyrir hugskots- sjónum, þótt langur timi sé um liöinn. Og þennan dag var lika lagöur grund- völlur að langri vináttu. Salvör er ættuð frá Birnhöfða i Innri- Akraneshreppi, dóttir Sesseliu Bjarnadóttur og Jörundar Hákonar- sonar, útvegsbónda. Eins og titt var, varð hún snemma að taka til hendi, ekki sizt eftir að móðir hennar dó frá börnunum ungum. Salvör þótti snemma mikil fyrirmyndar stúlka. Arið 1917 er hún i Reykholtsdal i Borg- arfirði. Þá er þess fariö á leit við hana, að hún fari til Reykjavikur til þess að læra ljósmóðurfræði. Hún dvaldist i Reykjavik 1918 og tók við ljósmóður- starfi i Reykholtsdal áriö eftir. Hún giftist ungum manni úr sveitinni, Kristófer Guöbrandssyni frá Klepp- járnsreykjum, en missti hann eftir stutta sambúð. Þau höfðu eignast eina dóttur, Vilborgu. Salvör var áfram i Reykholtsdal eftir lát bónda sins. Jafnframt ljósmóðurstarfinu var hún hjúkrunarkona viö læknissetriö á Kleppjárnsreykjum og það var einmitt þar, sem leiðir þeirra Magnúsar Egg- ertssonar og hennar lágu saman. Vor- ið 1928 giftust þau Salvör og Magnús og hún flutti að Vestri-Leirárgöröum i Leirársveit, sem að framan greinir. Nokkrum árum eftir komu sina i Leirársveit tók hún við ljósmóður- starfi i Leirársókn. Þau Magnús og Salvör bjuggu i sambýli við Eggert og Benónýju til ársins 1944, er þau keyptu Melaleiti i Melasveit og fluttu þangað með bú sitt og börn, Vilborgu og Jón Kristófer. En timinn liður, svo sem sjást má og 26. ágúst s.l. varð vinkona min Salvör áttræð. Margs er aö minnast frá gömlum dögum i Leirárgörðum og allar eru þær minningar bjartar og skemmti- legar. Þótt þröngt væri á stundum i eldhúsinu, þar sem eldaö var fyrir tvö heimili hraut aldrei styggöaryröi milli þeirra húsfreyjanna. Ljúfmennska og fyrirmyndar umgengnisvenjur voru i hávegum hafðar. Báðar húsfreyjurnar gæddar þeirri ró, yfirvegun og heil- steyptri skapgerð að samstarfið og sambýlið varð báðum til ánægju. Eftir að þau Salvör og Magnús fluttu að Melaleiti stækkaði búið að sjálf- sögðu. Sama snyrtimennskan úti og inni hefur einkennt búskapinn alla tið og að lita þangað heim er augnayndi. Nú er Vilborg gift og húsfreyja i ná- grenninu og Jón, sonur þeirra, kvænt- ur. Sonardæturnar fjórar aö vaxa úr grasi. Þau Jón og Kristjana hafa tekið viö búskapnum að miklu leyti, en Sal- vör og Magnús hafa enn fjárbúskap. Enn búa þau i sambýli, nú viö son og tengdadóttur og þar rikir sami góði andiog i Vestri-Leirárgörðum forðum. Svo vel þekki ég vinkonu mina Salvöru Jörundardóttur, aö ég veit að litlar þakkir myndi hún kunna mér fyrir að ausa hana þvi lofi á prenti sem vert væri. Þrátt fyrir það veröur ekki framhjá þvi gengið, að hún er sakir mannkosta ein merkasta kona, er ég hefi kynnzt. Eins og hver árstimi hefir sina sér- stöku töfra, svo hefir einnig hvert skeið i lifi manns sinn ákveöna þokka. Veturinn, kaldur með snævi þakin fjöll og bragandi noröurljós. Vorið, er ár og lækir losna úr klakaböndum og jöröin verður iðgræn móti hækkandi sól. Sumariö með sól á sundum og töðuilm i sveitum, og haustið, sem oft á tiðum er fegursti timi ársins, er dýrlegir haustlitir taka hug manns fanginn. I heiðriku siðsumarstillunnar, þegar þvi er likast sem öll náttúran hlusti og hvergi sést ský á lofti verður manni einnig ljóst að siðsumarið i lifi mann- fólksins er lika hamingjutimi. Og þá ósk á ég bezta Salvöru til handa á átt- ræðisafmælinu, aö hún megi enn um langa stund njóta þeirrar hamingju, sem hún hefir svo vel til unnið. Sveinn Sæmundsson. 8 islendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.