NT - 02.08.1984, Blaðsíða 1
Brjóstbirta um verslunarmannahelgina • Norðurleið: Hrísey -
Blönduós • Tyrkneskt bað § París • Timburmenn óþarfir • Minnislisti
ferðalangsins • Hott hott á hesti • Ferðabækur í farangrinum •
Getur þú lýst ánægjunni •
3. tölublað
l.árgangur
Fimmtudagur
2. ágúst 1984
Umsjón:
ívarJónsson
Kristín Ólafsdóttir
Verslunarmannahelgin
■ Fyrsta helgin í ágúst á ári hverju boðar frídag
verslunarmanna, sem er frídagur alls vinnandi fólks. í
samfélagi þar sem frídagar eru sjaldséðir gestir er þessari
helgi ætíð tekið með opnum örmum og koma hennar er
gjarnan vel undirbúin. NT hefur með aukablaði sínu að
þessu sinni reynt að leggja þessum undirbúningi nokkurt
lið og útlistar ýmsa möguleika til dægrastyttingar um
helgina sem er í vændum.
Með það fyrir augum höfum við haft í huga bæði þarfir
þeirra sem heima sitja og þeirra sem fýsir að leggja land
undir fót. Fyrir fyrrnefnda hópinn höfum við m.a. komið
með tillögu um ýmsa litríka drykki sem gætu lífgað upp á
tilveruna auk þess að minna fólk á þá ánægju sem hægt er
að hafa af ýmis konar tómstundagamni, en í landi þar sem
vinnan er mesta dyggðin vill slíkt gjarnan gleymast.
Fyrir síðar-nefnda hópinn höfum við hins vegar bent á
hina fjölbreytilegustu ferðamöguleika og höfum þá haft í
huga bæði skipulagðar samkomur helgarinnar og ferðir
fyrir þá sem ætla sér að eiga rólega og notalega helgi, ýmist
inn á milli fjalla eða á afskekktum eyjum. Auk þess höfum
við tekið tillit til þeirra sem eru svo vel efnaðir að geta
skotist út fyrir landsteinana og komum með tillögu um
ævintýralega helgi í París.
NT óskar öllu verslunarfólki og öllum lesendum sínum
ánægjulegrar helgar, en munið nú að fara gætilega og varast
slysin.