Lesbók Morgunblaðsins - 25.09.2004, Blaðsíða 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 25. september 2004 | 7
B
andalag þýðenda
verður stofnað 30.
september næst-
komandi. Þýðinga-
starfsemi hefur vax-
ið mikið hérlendis
sem erlendis á undanförnum árum.
Þýðingar eru stundaðar á fleiri svið-
um samfélagsins en áður. Þær voru
einkum bundnar bókmenntum og
fjölmiðlum en með aukinni hnatt- og
alþjóðvæðingu hefur þörf á þýð-
ingum aukist mjög. Nú eru til dæm-
is gerðar kröfur um túlkaþjónustu
fyrir innflytjendur
en hún er starfrækt
á vegum Alþjóða-
hússins. Í fjármála-
heiminum er einnig víða birt-
ingaskylda á tveimur málum,
heimamálinu og ensku, til dæmis í
Kauphöllinni og Seðlabankanum. Í
utanríkisráðuneytinu er starfrækt
fimmtán manna deild þýðenda. Og
áfram mætti telja.
Að mati Gauta Kristmannssonar,
þýðingafræðings og eins af hvata-
mönnum að stofnun Bandalags þýð-
enda, er það orðinn hluti af sjálfs-
mynd Íslendinga að þeir kunni
einhverja ensku en þegar upplýsing-
arnar verði flóknar átti menn sig á
mörkum eigin þekkingar. Þá sé gerð
krafa um þýðingu á íslensku eins og
raunin hafi til dæmis orðið á í tilfelli
hugbúnaðar, bæði frá Apple og
Microsoft. Einnig hafi markaðs-
sjónarmið áhrif í þessa átt. Hugbún-
aður á móðurmálinu seljist betur en
hugbúnaður á erlendu máli. Andrés
Önd sé einnig þýddur á íslensku,
væntanlega til þess að hann höfði
betur til íslenskra barna nú um
stundir sem hafi ef til vill ekki jafn
góð tök á dönsku og börn höfðu áð-
ur.
Að sögn Gauta hefur aukning
veltu hjá sjálfstætt starfandi þýð-
endum sem telja fram til skatts ver-
ið 15% á ári frá 1997 samkvæmt
upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.
„Þessir þýðendur eru aðeins brot
af markaðnum en tölurnar staðfesta
að mikil aukning er í þýðingarstarfi
hérlendis sem annars staðar í Evr-
ópu. Vöxtur í þýðingum hér og í
Evrópu lætur nærri að vera að jafn-
aði þrefaldur hagvöxtur á ári.“
Þessar tölur stangast svolítið á við
meint yfirráð enskunnar í alþjóð-
legum samskiptum.
„Enska er vissulega orðið lykilmál
á mörgum sviðum,“ segir Gauti, „en
á sama tíma er æ meiri áhersla lögð
á að þýða texta á móðurmálin. Þess-
arar tilhneigingar verður vart alls
staðar í Evrópu. Móðurmálin eru
einnig að leggja sífellt stærri hluta
Netsins undir sig. Fólk virðist leita
eftir upplýsingum og vörum á móð-
urmálinu. Þetta er þekkt fyrirbæri í
markaðsfræði og er kallað „glocal-
isation“. Menn eru hvattir til að
huga að heimsmarkaðnum um leið
og starfað er á heimamarkaði.“
Hvað er þýðing?
Bandalagi þýðenda er ætlað að auka
fagvitund félaga sinna og gera starf-
semi þýðenda sýnilegri. Stuðlað
verður að endurmenntun og faglegri
umræðu. Einnig er ætlunin að koma
á stofn siðanefnd eða úrskurðar-
nefnd sem hægt verður að leita til
með álitamál sem kunna að koma
upp. Að sögn Gauta gerist það æ oft-
ar.
„Í þýðingum á viðskiptasamn-
ingum og öðrum meiriháttar samn-
ingum milli landa er oft verið að
fjalla um háar fjárhæðir. Ein villa í
meðförum á tölum getur valdið
miklu fjaðrafoki og sett samninga í
uppnám jafnvel.“
En hvernig eru þýðingar skil-
greindar hjá hinu nýja bandalagi?
Hvað er þýðing?
„Ég spyr nemendur mína iðulega
þessarar spurningar og það verður
oft fátt um svör. Orðabókin segir að
þýðing sé að snúa af einu máli yfir á
annað. Þetta er gömul hugmynd um
þýðingar og sennilega eitt af
stærstu vandamálunum í allri um-
ræðu um þetta starf, fólki finnst
bara eins og verið sé að snúa við
blaði þegar þýtt er, flóknara sé það
ekki. Allir sem hafa reynt að þýða
eitthvað vita að þetta er ekki rétt.
Tungumál er ekki kóði heldur
geymsla fyrir þekkingu og upplýs-
ingar. Mikið af þessum upplýsingum
eru sjálfgefnar. Það vita til dæmis
allir Íslendingar hvað skyr er. En
hvernig á að þýða þetta orð, þetta
hugtak, þetta fyrirbæri yfir á annað
tungumál? Það er hægt að tala um
einhvers konar jógúrt eða bara
mjólkurafurð sem sé unnin með
vissum aðferðum en það myndi
sennilega seint komast til skila hvað
skyr er í huga og munni okkar Ís-
lendinga. Einnig er forvitnilegt að
skoða hvernig Njáluþýðendur þýða
þessa frægu setningu: Fögur er
hlíðin. Schön ist der Hang eða
Beautiful is the slope? Það er nánast
sama hvað þýðendur myndu reyna,
þetta er bara ekki sami hluturinn. Á
þýsku og ensku er þetta einungis
venjuleg staðarlýsing en í huga Ís-
lendinga hafa þessi orð miklu víð-
tækari merkingu.
En svo ég víki aftur að spurning-
unni þá má velta því fyrir sér hvort
ekki séu til aðrar þýðingar en af einu
tungumáli á annað. Ég hef haldið því
fram að það sé hægt að þýða miklu
fleira en texta. Það er til dæmis
hægt að þýða bókmenntaform. Þeg-
ar Jónas Hallgrímsson skrifar
fyrstu sonnettuna þá þýðir hann
formið inn í íslenska menningu.
Þetta er þjóðlegt afrek. Þjóðir þýða
ýmis form inn í menningu sína til að
komast upp á sama stig og aðrar
þjóðir, verða hámenningarþjóðir.
Jónas orti ljóð sitt Ísland með eleg-
ískum hætti. Aðrar þjóðir hafa þýtt
sexliðuháttinn til að ná Hómer, að
lyfta þjóðtungunni á sama stall og
grísku. Það sama hefur verið gert
með form úr rómverskri menningu
og endurreisnarmenningu. Ég hef
kallað þetta móðurmálsmenningu
sem varð til upp úr endurreisninni.
Dante skrifaði fyrstur eins konar
málsvörn fyrir móðurmálið þar sem
hann fjallaði um það hvernig ætti að
yrkja á því. Á þessum tíma tóku
menn að þýða Biblíuna á móðurmál
og önnur verk. Áður var latína og
gríska tungumál menntamanna en
móðurmálin voru notuð við dagleg
störf. Til þess að móðurmálin fengju
æðri tilgang þurfti að þýða hin há-
leitu form fornaldarinnar á þau.
Þetta gerist á öllum sviðum. Það
má taka dæmi af þýðingu Halldórs
Laxness á Vopnum kvöddum eftir
Hemingway frá því snemma á
fimmta áratugnum. Þar tókst Hall-
dóri að þýða á íslensku það skáld-
sagnaform sem Hemingway hafði
mótað. Í íslenskum kvikmyndum má
sjá hvernig erlend viðmið hafa verið
löguð að íslensku umhverfi, bæði í
frásagnarhætti og umfjöllunarefni.
Hið sama er greinilegt í auglýsing-
um. Íslenskar auglýsingar eru að
stórum hluta þýðingar á erlendum
auglýsingum. Með því að þýða form
tekst okkur að standa jafnfætis
hinni erlendu fyrirmynd, okkar eigið
sjálf nær uppfyllingu í gegnum hið
erlenda form burtséð frá því hver
textinn er eða inntak hans.“
Er hægt að halda því fram að við
lifum í þýðingamenningu?
„Já, tvímælalaust. Þýðingar eru
alls staðar nánast. Opinberar stofn-
anir okkar eru líka flestar þýðingar
á sambærilegum erlendum stofnun-
um. Íslensk lög eru þýðingar á Evr-
ópusambandslögum að stórum
hluta. Áður voru þau að stórum
hluta þýðingar á dönskum og norsk-
um lögum. Þýðingar snerta öll svið
samfélagsins þar sem teknir eru upp
hættir eða siðir annarra þjóða. Þess
vegna má, að mínu viti, halda því
fram að við lifum í þýðingamenn-
ingu.“
Þjóðarbókmenntir
þrífast ekki án þýðinga
Hvernig er samspil þjóðlegrar
menningar (íslenskrar menningar)
og þýddrar menningar? Eru einhver
mörk þarna á milli? Þegar erlend
bók hefur verið þýdd er stundum
talað um að hún sé orðin hluti af ís-
lenskum bókmenntum.
„Já, ég er á því að þýdd bók sé
hluti af íslenskum bókmenntum en
mér sýnist að þessi hugsun hafi ekki
skilað sér inn í hina rituðu bók-
menntasögu. Ég held að mörkin
þarna á milli séu ímynduð að mörgu
leyti, nánast tilbúningur. Ég held að
þjóðarbókmenntir geti ekki þrifist
án þýðinga. Íslenskar bókmenntir
væru ekki til sem slíkar nema vegna
þess að þær hafa þróast í samræðu
við erlendar bókmenntir, við þýddar
bókmenntir. Upphaf íslenskra bók-
mennta er líka undir áhrifum af er-
lendum bókmenntum þótt okkur
þyki kannski flottara að halda því
fram að sögurnar séu sjálfsprottnar.
Og ef við skoðum hvað þjóðernis-
sinnar nítjándu aldarinnar höfðust
að þá voru þeir að þýða ljóð, vís-
indarit, form, þeir voru að reyna að
flytja íslenskar bókmenntir og
menningu upp á sama stall og ann-
arra þjóða. Þetta gerðu Þjóðverjar
líka á átjándu öld. Í byrjun hennar
var þýska bara mállýska. Friðriki
mikla þótti hlægilegt að ætla að nota
þýsku á miðri átjándu öld, franska
var bókmenntamálið. Í byrjun
nítjándu aldar var þýska hins vegar
nánast búin að ná menningarlegu
forræði í álfunni. Flest stærstu nöfn
tímans skrifuðu á þýsku, Goethe,
Hegel, Schiller og svo framvegis.
Þetta hefði ekki gerst nema vegna
þess að það var gríðarleg þýðinga-
starfsemi í þýskalandi alla átjándu
öldina. Þjóðverjar þýddu sig inn í
hámenninguna.“
Gauti heldur því fram að íslenska
hafi ekki nægilega víða skírskotun
vegna þess að ekki sé nægilega mik-
ið þýtt á málið. Það sé ekki til orð-
ræða á mörgum sviðum sökum
þessa. Við lærum um ýmsar hug-
myndir á erlendum málum, við skilj-
um þær en við getum ekki tjáð okk-
ur um þær á íslensku vegna þess að
það vantar texta. Hugsanlega séu til
orð til að lýsa hugmyndunum en oft
skorti samkomulag um þau. Þegar
orðin hafi verið notuð í fimm til tíu
útgefnum textum verði til ákveðið
samkomulag um að þau séu hluti af
tungumálinu.
„Að þýða er samstofna orðinu
þjóð. Að þýða er að vissu leyti að
þjóðgera, það er tilraun til þess að
vera þjóð meðal þjóða. Fáir deila um
að íslenska er stór hluti af sjálfsvit-
und okkar sem þjóðar.“
Hinn íslenski málfarsskóli
Það hefur lengi verið deilt um það
hvernig á að þýða texta. Þekktust er
sú hugmynd að þýða frá orði til orðs
en einnig hafa verið notaðar mun
frjálslegri aðferðir við að snara
texta af einu máli á annað. Um tíma
var rætt um að þýðendum bæri að
stefna að því að finna jafngild orð og
hugmyndir í eigin máli. Nú um
stundir er í auknum mæli talað um
að stefna að viðeigandi þýðingu orða
og hugmynda.
„Áður en texti er þýddur,“ segir
Gauti, „eru markmiðin sem textinn á
að hafa í hinu þýdda máli skilgreind.
Þýðing frá orði til orðs er yfirleitt
ekki heppileg aðferð til að ná settu
markmiði en það getur gefið góða
raun að fara bil beggja og leyfa sér
að þýða frjálslega þar sem það á við.
En með því að skilgreina markmið
þýðingarinnar eru minni líkur á því
að deilur verði um niðurstöðuna.“
Hvað finnst þér að mætti helst
betur fara í þýðingum?
„Ef við ræðum sjónvarpsþýðingar
þá held ég að sjónvarpsstöðvarnar
þurfi að nálgast viðfangsefnið með
öðrum hætti en tíðkast. Þær líta á
þetta sem óþægilega skyldu og vilja
helst lítið borga fyrir hana. Þetta
endurspeglast í vinnuferli þýðend-
anna. Það eru minni líkur á að gerð
séu mistök ef þýðandinn fær að
fylgja textanum alla leið á enda, frá
því að hann sér myndina þar til
myndin fer á skjáinn. Þýðandinn er
til dæmis ekki alltaf sá sem setur
textann inn á myndina en það þarf
að gerast með talsverðri nákvæmni.
Stundum sinna tæknimenn þessum
hluta starfsins og þeir velta því
kannski ekki endilega fyrir sér hvort
þýðingin sé rétt eða passi nákvæm-
lega á þann stað sem henni var upp-
haflega ætlað að fara.
Það má gera ráð fyrir að skjá-
textar séu mest lesna efni lands-
manna, kannski fyrir utan Frétta-
blaðið og Morgunblaðið, og því
mikilvægt að vandað sé til þeirra.
Bókmenntaþýðingar hafa hins
vegar farið batnandi síðustu fimmtíu
ár. Það var oft ansi frjálslega farið
með texta í þýðingum á erlendum
bókmenntaverkum um miðja síðustu
öld. Það var verið að spara papp-
írinn og prentkostnað. Stundum var
líka hlutum sem þóttu ósiðlegir eða
ekki passa af einhverjum ástæðum
bara sleppt úr verkunum. Sú hug-
mynd að íslenskan væri rétthærri
frummálinu var líka ríkjandi í mörg-
um tilfellum. Það var því kannski
ekki alltaf verið að flytja nýstárleg
form eða setningabyggingu inn í
málið. Hinn íslenski málfarsskóli var
mjög sterkur, sterkari en nú þótt
sumum þyki kannski nóg um eins og
er. Nú hafa hins vegar svo margir
aðgang að frumtextum bókmennta-
verka að þýðendur og útgefendur
hafa miklu meira aðhald. Þeir hafa
líka meiri metnað.“
Að þýða er að þjóðgera
Morgunblaðið/Sverrir
„Að þýða er samstofna orðinu þjóð. Að þýða er að vissu leyti að þjóðgera,
það er tilraun til þess að vera þjóð meðal þjóða.“ Þetta segir Gauti Krist-
mannsson þýðingafræðingur en 30. september næstkomandi stendur hann
ásamt fleirum að stofnun Bandalags þýðenda sem hefur það markmið að
efla fagvitund þýðenda.
Eftir Þröst
Helgason
throstur@mbl.is
Fögur er hlíðin „Schön ist der Hang eða Beautiful is the slope? Það er nánast sama hvað þýðendur myndu reyna, þetta er
bara ekki sami hluturinn,“ segir Gauti Kristmannsson sem segir að tungumál séu ekki kóði heldur geymsla fyrir þekkingu.
Ekki aðeins bókmenntir eru þýddar. Ekki aðeins textar eru þýddir heldur einnig listform ýmiss
konar og samfélagsstofnanir. Við lifum í þýðingarmenningu vegna þess að marga ef ekki flesta
hluti höfum við þegið af öðrum þjóðum með því að þýða þá. Í sífellt fjölmenningarlegra samfélagi fara samskipti okkar þar að auki æ meira fram með hjálp
túlka. Störf þýðenda og túlka snerta líf okkar því kannski meira en við gerum okkur grein fyrir. Bandalag þýðenda og túlka verður stofnað á fimmtudaginn
kemur en því er ætlað að efla fagvitund þessara starfsstétta og almenna umræðu um verk þeirra. Á næstu fjórum síðum er fjallað um þýðingar og túlkun frá
ýmsum sjónarhornum, Harry Potter kemur við sögu, biblíuþýðingar, skjáþýðingar, túlkun fyrir innflytjendur og ljóðaþýðing er birt.
Bandalag þýðenda og túlka