Morgunblaðið - 21.09.2004, Page 29

Morgunblaðið - 21.09.2004, Page 29
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 21. SEPTEMBER 2004 29 MINNINGAR ✝ Knútur Hákonar-son fæddist í Njarðvík 9. ágúst 1942. Hann lést 13. september síðastlið- inn. Foreldrar Knúts voru Hákon Teitsson rennismiður, f. 19. ágúst 1914, d. 21. maí 1987, og Guðrún Elísabet Jónsdóttir húsmóðir, f. 26. ágúst 1904, d. 17. júní 1986. Knútur var einkason- ur þeirra hjóna. Knútur ólst upp í Njarðvík fyrstu ævi- ár sín en fluttist ungur að árum með foreldrum sínum að Lang- holtsvegi 185 þar sem hann bjó sín æsku- og unglingsár. Árið 1967 kvæntist Knútur Sigrúnu Björk Einarsdóttur, f. 30. júní 1944, dóttur hjónanna Elínborgar Gísla- dóttur, f. 15. ágúst 1914, og Ein- ars Þóris Steindórssonar bifvéla- virkja, f. 10. október 1916, d. 19. apríl 1991. Börn Sigrúnar og Knúts eru 1) Einar Björgvin, f. 10. ágúst 1970, sambýliskona Hjördís Inga Jóhannesdóttir, f. 16. apríl 1983. 2) Elsa Björk, f. 10. október 1972, maki Bjarni Hrafn Ívarsson, f. 21. desember 1971, börn þeirra eru Þórunn Björk Bjarnadóttir, f. 9. júlí 1996, og Rakel Þöll Bjarna- dóttir, f. 17. apríl 2002. 3) Bryndís Guðrún, f. 23. nóv- ember 1975, sam- býlismaður Júlíus Örn Ásbjörnsson, f. 17. september 1977, sonur þeirra er Dag- ur Breki Júlíusson, f. 3. nóvember 2002. 4) Elínborg Erla, f. 23. júní 1979, sambýlis- maður Eymar Krüg- er, f. 23. júlí 1975, sonur þeirra er Knútur Gauti Ey- marsson Krüger, f. 23. maí 2003. Knútur var bifvélavirki að mennt og starfaði við þá grein megnið af sinni starfsævi. Knútur hóf ungur að starfa fyr- ir Olíuverslun Íslands. Árið 1962 hóf hann störf hjá Vegagerðinni og starfaði þar í 13 ár. Árið 1975 hóf Knútur störf hjá Bifreiðaverk- stæði Sveins Egilssonar og starf- aði þar til ársins 1989 þegar hann tók til starfa hjá Frumherja hf. en þar starfaði hann til dánardags. Knútur tók virkan þátt í starfsemi félags bifvélavirkja á starfsferli sínum. Útför Knúts fer fram frá Foss- vogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Elsku pabbi. Ég á erfitt með að trúa því að þú sért farinn. Þú varst ekki aðeins pabbi minn heldur varstu einnig besti vinur minn. Ég gat alltaf leitað til þín þótt ég hafi oft verið svolítið lokaður og þrjóskur. Við áttum margt sameiginlegt, við vorum báðir ljón og stundum kom það fyrir að við skiptumst á skoð- unum hvor við annan, svo mamma var alveg að verða gráhærð. En í flestöllum tilfellum hafðir þú betur ef ekki í öllum og eins og þú veist var það bara til að efla þrjóska skapið okkar. En þrátt fyrir allt sem hefur geng- ið á okkar á milli hef ég lært mikið af því. Manstu pabbi minn þegar við þú veist … þú veist … þú veist … Og manstu, þú veist … Æi, pabbi, manstu ekki …, en ég man það og gleymi því ekki. Ef ég ætti eina ósk. Ég myndi óska mér að fengi ég að sjá þig brosa á ný, eitt andartak á ný í örmum þér. Á andartaki horfin varstu mér. (Hannes Örn Blandon.) Guð geymi þig, elsku pabbi minn, ég mun alltaf elska þig. Hlakka til að sjá þig aftur en bara ekki alveg strax. Þinn sonur, Einar Björgvin Knútsson. Elsku pabbi, nú ertu farinn og ég sit hérna dofin, grátin, og utan við mig. Innra með mér eru tilfinningar sem ég hef ekki borið áður, svona mikill söknuður, ég veit ekki hvernig ég á að koma fram við þessar nýju til- finningar sem innra með mér búa. Þegar þið mamma komuð heim frá Serbíu og við grilluðum öll saman uppi í Árbæ til að taka á móti ykkur vissir þú eitthvað sem við vissum ekki. Ég sá strax að eitthvað var ekki eins og það átti að vera, svo kom í ljós að þú varst með lungnakrabbamein í vinstra lunganu þínu. Sumarið hefur einkennst af veikindum þínum, bar- átta þín við krabbameinið sem þú greindist með í lok apríl var illvíg. Þú varst duglegur, sterkur, þrjóskur og reyndir að horfa fram á veginn þó að þú hafir oft verið þreyttur, uppgef- inn og mjög veikur. Það var erfitt fyrir þig að biðja um hjálp enda alltaf gert allt sjálfur. Það var erfitt fyrir okkur að horfa á þig svona veikan. Stoltur barðist þú með mömmu þér við hlið sem stóð með þér í einu og öllu. Við systkinin hjálpuðumst að við að fara með þér á spítalann og reyndum allt sem við gátum til að þér liði eins vel og unnt var. Þú kvaddir snögglega, við vorum ekki undir það búin, þú lást síðustu vikuna þína inni á 11E í rannsóknum og læknirinn þinn var nýbúinn að segja okkur frá áformun sínum um að bæta líðan þína. Lungnabólga í heilbrigða lungað þitt, sem mjög skyndilega bar niður, var þér um megn. Þér hrakaði mjög fljótt og inn- an skamms varstu farinn. Farinn fyrir fullt og allt. Fram á síðustu stundu sýndir þú hversu sterkur þú varst. Minningarnar hrannast upp, allt sem við höfum gert saman, í æsku, á unglingsárum mínum og fullorðins- árum. Samband okkar var byggt á trausti, gagnkvæmri virðingu, tillits- semi og vináttu. Þið mamma hafið svo sannarlega unnið gott verk við að koma okkur systkinunum til manns og munum við alltaf búa að því. Þegar ég kynntist Bjarna mann- inum mínum, urðuð þið strax mjög góðir vinir og náðuð vel saman, það eru ófár klukkustundirnar sem þið áttuð saman, enda áhugamálin hin sömu svo ekki sé talað um allar stundirnar sem þið voruð saman í skúrnum. Bjarni á eftir að sakna þeirra, þú varst alltaf tilbúinn að hjálpa okkur, það var sama hverju það tengdist. Stelpurnar okkar, Þórunn Björk og Rakel Þöll, hafa alltaf verið mikið með ykkur mömmu og munu þær sakna þess mikið að hafa þig ekki því þú hefur alltaf spilað stórt hlutverk í okkar lífi. Elsku pabbi, megir þú hvíla í friði, laus við veikindi og þjáningar, við munum hugsa vel um mömmu sem á um mjög sárt að binda núna. Þín Elsa Björk. Elsku pabbi, ég er enn að átta mig á því að baráttu þinni við lífið er lok- ið. Það er svo stutt síðan reiðarslagið kom síðasta vor. Þú varst harður á því að taka á þessu verkefni eins og hverju öðru af miklum dugnaði en hógværð. Mestu sýnilegu vonbrigði þín voru að komast ekki til Noregs með mömmu þetta sumarið. Ég vildi trúa því að þér myndi takast að vinna þetta verkefni enda kannski ekki ástæða til annars því fyrri veikindi buguðu þig, heljarmennið, ekki, heldur miklu frekar styrktu og efldu. Það hefur sjálfsagt læðst sá grunur að þér að í þetta skiptið yrðir þú að láta í minni pokann. Þegar ég hugsa til þess þá var hlátur þinn ekki eins sjálfgefinn og áður en baráttan hófst, þó að ég heyri hann í þessum skrif- uðu orðum. Dagur Breki tekur það ekki í mál að þú sért kominn til Guðs, heldur er afi heima veikur. Það er engin furða að sonur minn fullyrði það því fráfall þitt er eins óraunveru- legt og það getur verið. Elsku kallinn minn, þó hjarta mitt sé harmi slegið þá er brjóst mitt fullt af minningum um þig. Í huga minn kemur minningin um pabba og pabbafaðm, um minn besta vin og jafningja, tengdapabbann, Knút afa, útivistargarpinn, húmoristann, ,,þrjóskupúkann“ og svona gæti ég lengi haldið áfram. Þú varst vissu- lega fremstur á meðal jafningja, góð- ur vinur tengdasona þinna og vina barna þinna. Þú tókst öllum svo vel, sóttir í félagsskap og þegar veisla var haldin á Langholtsveginum léstu þig ekki vanta. Kaffibollaumræður okkar eru mér ómetanlegar um lífið, tilveruna og málefni líðandi stundar, þá aðallega stjórnmál. Eftirminni- legastar eru frásagnir þínar af fjöl- skyldunni, uppvaxtarárum þínum, Hákoni afa og Rúnu ömmu. Í stjórn- málaumræðunni varstu alltaf svo rökvís, stóðst fast á þínum skoðunum og oft harður í horn að taka, svei mér þá ef þú skiptir þá nokkurn tíma um skoðun. Á seinni árum bættist stang- veiðin við umræðuna, eitt helsta áhugamál Júlla. Þú fórst of snemma. Ég var farin að sjá þig fyrir mér njóta ellinnar í faðmi mömmu, barna þinna og afa- barna. Þú varst maður allra verka, mikill vinnuþjarkur og mjög atorku- samur. Þreytan var hins vegar farin að segja til sín enda orðinn veikur maður. Þú hefur sannarlega unnið mikið afrek á öllum sviðum. Hvíldu í friði, elsku pabbi, án allra hindrana. Þú verður alltaf lifandi fyrir mér og ljósið sem lýsir mér, Júlla og Degi Breka hinn margslungna lífsins veg. Við munum hugsa vel um mömmu, hvert annað og stöndum ávallt sam- an sem eitt. Takk fyrir allt og allt, þín elsku hjartans kelling. Bryndís. Elsku pabbi, minningarnar sem við eigum saman eru svo margar og góðar. Fyrir rúmu ári eignaðist ég lítinn ljósgeisla sem varð svo nafni þinn er þú hélst honum undir skírn og ber hann nafn með rentu. Hann er svo líkur þér, sami netti grallarinn en svo stutt í ljúfu hliðina, alltaf til í að taka utan um mig og knúsa. Minning þín mun lifa sterk í gegnum hann og þakka ég fyrir það. Knútur Gauti er mikill afastrákur sem og öll afabörn- in þín, þú varst svo yndislegur við þau sem og önnur börn sem löðuðust að þér. Þú tókst öllum opnum örmum og sýndir ávallt mikla væntumþykju. Það var svo gott að vera í kringum þig og áttum við ófá kvöldin saman, hvort sem við sátum og spjölluðum, fórum í göngutúra eða á völlinn að horfa á Eymar spila. Við gerðum mikið saman og fannst mér alltaf gott að vera með þér, það eru stundir sem ég kem mikið til með að sakna. Ég gat alltaf leitað til þín með hvað sem var og alltaf vissir þú réttu svör- in og ráðin, þú varst kletturinn minn sem ávallt stóð, sama hvað á bjátaði. Elsku pabbi, þú kvaddir okkur svo snögglega en ég veit að nú líður þér vel, þú hefur fengið hvíld og meina þinna bót. Þú barst þig svo vel í þess- ari þrautagöngu þinni, tókst henni sem hverju öðru og varst ákveðinn í að hafa betur en í þetta skipti voru örlögin búin að ákveða annað. Þú og mamma voruð hetjur í baráttunni við krabbameinið sem þú greindist með fyrr á árinu. Lækkar lífdaga sól. Löng er orðin mín ferð. Fauk í faranda skjól, fegin hvíldinni verð. Guð minn, gefðu þinn frið, gleddu’ og blessaðu þá, sem að lögðu mér lið. Ljósið kveiktu mér hjá. (Herdís Andrésdóttir.) Elsku pabbi, hvíl í friði, þú munt alltaf lifa með okkur. Mamma, við munum varðveita pabba í hjörtum okkar, við stöndum saman í þessari miklu sorg. Kveðja Elínborg Erla (Ella). Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni. (Hallgrímur Pétursson.) Elsku besti Knútur afi minn, mér finnst mjög leiðinlegt að þú sért dá- inn af því að þú varst besti afi í öllum heiminum. Mér fannst svo gaman að gista hjá ykkur ömmu og svo spil- uðum við og púsluðum og fórum í göngutúra. Ég mun alltaf sakna þín og ég mun alltaf hugsa um ömmu Sigrúnu fyrir þig. Þú varst mjög góður og duglegur maður og ég vildi að þú værir enn á lífi. Þín stóra afastelpa Þórunn Björk. Yfir góðviðrisdögum sumarsins hefur hvílt dimmur skuggi. Knútur greindist með alvarlegan sjúkdóm snemmsumars og nú er komið að kveðjustundinni. Baráttan var stutt en ströng. Á svona stundu finnur maður vanmátt sinn, að finna vin og fjölskyldumeðlim þjást og berjast og geta lítið að gert. Knúti kynntist ég þegar hann og Sigrún systir mín fóru að draga sig saman, ung að árum. Mér fannst mikið til hans koma því hann var mikill aðdáandi Presleys, bæði í mús- ik og hárgreiðslu. Síðar kynntist ég mannkostum hans, greiðasemi, hjálpsemi og manngæsku. Knútur og Sigrún byrjuðu sinn bú- skap í Hraunbænum og hafa búið þar síðan og ólu þar upp börnin sín fjög- ur. Á sorgarstundu rifjast upp marg- ar góðar minningar. Er mér ljúft að minnast ótalmargra ferðalaga upp að Langavatni, vestur á firði og fleiri ferða sem við fórum með þeim hjón- um að ógleymdum áramótafögnuð- um í blokkinni þeirra, þegar allir komu saman og fögnuðu nýju ári. Minningar um rólegar samveru- stundir þar sem skipst var á skoð- unum á málefnum líðandi stundar, heimsmálin rædd og vandamálin leyst. Knútur hafði ákveðnar skoð- anir á flestum málefnum og hafði gaman af rökræðum en vildi oftast hafa síðasta orðið og skildi okkur oft eftir klórandi okkur í kollinum alls- endis óviss um að niðurstaða hefði fengist í umræðurnar. Knútur var mikill barnakall og nú þegar barnabörnin komu í heiminn eitt af öðru kom það berlega í ljós hve hann naut sín í sinni stóru fjöl- skyldu enda hafði hann af miklu að gefa. Í sumar ætluðu þau hjón að ferðast um Noreg til að fagna 60 ára afmæli Sigrúnar. Ekkert varð úr þeirri ferð en okkur til mikillar ánægju komst Knútur með tjald- vagninn sinn í okkar árlegu fjöl- skylduferð. Ég held að enginn vafi hafi verið á að hann hafi haft ánægju af því. Hann bar sig ótrúlega vel, sló á létta strengi og náði auðvitað nokkrum rökræðum. Ekki heyrði maður hann kvarta þó sárþjáður væri. Það tekur tíma til að átta sig á að Knútur er ekki lengur meðal okkar, hann sem var svo stór hluti af lífi okkar, en við eigum um hann svo margar góðar minningar sem við getum gripið til þegar við þurfum á að halda. Að lokum þakka ég Knúti sam- fylgdina og bið góðan guð að veita fjölskyldunni hans styrk um ókomin ár. Minningin um góðan mann mun lifa með börnum hans og barnabörn- um. Guð geymi þig. Þórlaug. Við hittum Knút í fyrsta skipti fljótlega eftir að við festum kaup á okkar fyrstu íbúð í Hraunbænum. Hann heimsótti okkur ásamt vinnu- félaga sínum til að ræða sameiginleg kaup á innréttingum í allar íbúðirnar í blokkinni. Hugmyndin kom okkur alveg í opna skjöldu, slík samvinna tíðkaðist ekki í þá daga en hún lýsir Knúti vel því hann var framtakssam- ur og traustur, maður samvinnu og samheldni. Fyrstu árin í Hraunbænum köll- uðu á mikið samstarf íbúanna og tókst það svo vel að meðal allflestra íbúanna myndaðist traust vinátta sem haldið hefur í nær fjörutíu ár. Samheldni íbúanna varð til þess að stofnaður var leikhúsklúbbur, farið í útilegur, veiðiferðir, áramótapartí voru haldin í stigaganginum og stofnaður var saumaklúbbur kvenn- anna. Á þessum tíma myndaðist órjúfanleg vinátta við Sigrúnu og Knút. Við minnumst margra góðra stunda, þegar rætt var og deilt um landsins gagn og nauðsynjar, öll vandamál landsins ýmist leyst eða flækt, okkur til ómetanlegrar skemmtunar. Oft urðu endaskipti á fyrirætlun- um. Við buðum þeim hjónum í heim- sókn þegar við fluttum til Horna- fjarðar fyrir fjórum árum. Sigrún og Knútur mættu á staðinn degi á und- an okkur og buðu upp á kaffi í tjald- vagni sínum þegar við mættum á svæðið. Eins og þeirra var von og vísa báru þau síðan búslóðina með okkur inn á nýja heimilið og dvöldu hjá okkur ógleymanlega daga. Það var alltaf tilhlökkunarefni þegar von var á þeim hjónum í heimsókn, hvort heldur til Hafnar eða í sumarbústað- inn. Við minnumst með þakklæti síð- ustu verslunarmannahelgar, þegar við dvöldum saman austur í sveit. Fyrir rúmri viku, þegar við sátum heima hjá þeim eina kvöldstund, ákváðum við að fara aðra slíka ferð um leið og Knútur hresstist en til þess stóðu vonir okkar þá. Við fráfall Knúts er höggvið stórt skarð í okkar vinahóp, við þökkum kærum vini samfylgdina og minn- umst glettni, hlýju og trygglyndis hans. Elsku Sigrún, Einar Björgvin, Elsa Björk, Bryndís og Ella, ykkur sendum við okkar innilegu samúðar- kveðjur. Guðrún og Jóhann. Elsku Knútur. Þegar ég fékk þær sorglegu fréttir að þú værir farinn þyrmdu yfir mig minningar. Minningar um þig og góðu stundirnar okkar saman. Það vantaði ekki að alltaf var ég og er vel- komin inn á heimili ykkar Sigrúnar og þar var mér tekið eins og einni af dætrum ykkar og var nú oft gantast með það að ég væri nú hálfpartinn dóttir ykkar, svo mikið var ég hjá ykkur. Sundlaugarferðirnar með þér og dætrum þínum er við vorum litlar eru ofarlega í huga mínum er ég rifja upp minningar um þig. Ég vil þakka þér og Sigrúnu fyrir að fá að vera partur af fjölskyldu ykkar, það er mér ómetanlegt. Nú er sál þín rós í rósagarði Guðs kysst af englum döggvuð af bænum þeirra sem þú elskaðir aldrei framar mun þessi rós blikna að hausti (Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir.) Elsku Sigrún, Elsa, Bryndís, Ella og Einar, megi guð styrkja ykkur og fjölskyldur ykkar í þessari miklu sorg. Nína Berglind. Í dag verður borinn til grafar starfsfélagi okkar og vinur Knútur Hákonarson. Knútur starfaði sem skoðunarmaður hjá Frumherja hf. og áður Bifreiðaskoðun Íslands í 14 ár. Við munum fyrst og fremst minn- ast Knúts sem góðs og trausts fé- laga. Knútur var ávallt liðtækur í fé- lagsmálum og tók virkan þátt í þeim. Hann lá ekki á skoðunum sínum og sagði ávallt meiningu sína í þeim efn- um. Þó var ávallt stutt í glettnina og minnumst við með bros á vör margra prakkarastrikanna sem Knútur kryddaði lífið með. Við kveðjum þig, Knútur, með söknuð í huga og biðjum Guð að styrkja Sigrúnu og fjölskyldu þína í sorg þeirra. Vinnufélagar hjá Frumherja hf. KNÚTUR HÁKONARSON  Fleiri minningargreinar um Knút Hákonarson bíða birting- ar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Jóna og Þór- ólfur.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.