Lesbók Morgunblaðsins - 19.02.2005, Qupperneq 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 19. febrúar 2005 | 5
„Það má velta því fyrir sér hvort aðrar leiðir hefðu ekki verið heppi-
legri,“ segir Pétur. „Hugsanlega hefði mátt byggja anddyrið með aust-
urhliðinni, hafa það í lægri byggingu sem sneri að trjágöngunum og leysa
innra flæðið með öðrum hætti. Væntanlega hefði minna farið fyrir slíkri
byggingu. Eflaust hafa menn velt þessum möguleikum mjög vel fyrir sér
en komist að annarri niðurstöðu.“
Pétri þykir það galli á þeirri leið sem farin var að ekki sést vel hvar
gamla byggingin endar og hvar sú nýja tekur við.
„Sá sem kemur að húsinu og veit ekki af viðbyggingunni kann að eiga í
erfiðleikum með að skilja hina upprunalegu
formhugsun. Skilin eru ekki skýr. Það kann því að vera ákveðinn kostur
að hafa viðbyggingar í allt öðrum stíl en frumbyggingarnar eru, til dæmis
eins og gert var við Alþingishúsið. En þetta er alltaf spurning um ákveðið
jafnvægi og fagurfræðilegt mat.“
Fagurfræðileg dómgreind
Jafnvægi og fagurfræðilegt mat. Það eru lykilorð.
Í sjálfu sér er sú hefð sem hér hefur sumpart skapast um að byggja við
gamlar byggingar ekki vond. Alþingishúsið og Þjóðminjasafnið eru stór
hluti af sjálfsmynd Reykjavíkur og þjóðarinnar allrar. Það eru sannarlega
ákveðin verðmæti fólgin í því að þessi hús séu enn í fullri notkun. Þannig
halda þau áfram að vera virkur þáttur í þjóðarvitundinni en ekki aðeins
hluti af sögulegum minjum. Til þess að hægt sé að nýta þessar byggingar
er oft óhjákvæmilegt að stækka þær og breyta þeim í takt við nýjar kröfur
og nýja tækni. Út frá byggingarsögulegum og fagurfræðilegum sjón-
armiðum séð þurfa þessar viðbætur ekki að vera vondar heldur. Eins og
Pétur bendir á er það alþekkt í evrópskri byggingarsögu að mikilvæg hús
hafi tekið miklum breytingum í gegnum aldirnar og hver viðbygging beri
tíma sínum vitni, sé merkileg menningarsöguleg heimild. Séu bygging-
arnar varðveittar í sinni upprunalegu mynd eru vissulega ákveðin bygg-
ingarsöguleg og fagurfræðileg verðmæti fólgin í því en menningarsögulegt
gildi slíkra mannvirkja er annað og í vissum skilningi minna.
En þessi hefð að halda ákveðnum lykilbyggingum í notkun með því að
byggja við þær breytir því ekki að aðalatriðið er að ganga um hinn bygg-
ingarsögulega arf af fullri virðingu og smekkvísi. Við verðum að gangast
við því að borgin verður ekki byggð í eitt skipti fyrir öll en sú samræða sem
fram fer á milli ólíkra tímaskeiða verður jafnframt að vera skynsamleg, yf-
irveguð, í samhengi og samræmi við ákveðin fagufræðileg gildi.
„Arkitekt klárar aldrei verkið,“ segir Pétur. „Hann getur vandað sig eft-
ir megni en síðan verður hann að treysta komandi kynslóðum fyrir því að
lesa úr verki sínu á skynsamlegan og smekklegan hátt. Þegar upp er staðið
snúast viðbyggingar, eins og þær sem við höfum verið að skoða, um fag-
urfræðilega dómgreind einstaklinga sem hafa eitthvað um það að segja
hvernig borgin þróast. Til þess að bæta og efla þetta starf er mikilvægast
að menntun arkitekta í fagurfræði og sögu byggingarlistar sé með sem
bestum hætti.“
Morgunblaðið/Golli Tengibygging „Hún sker sig ansi mikið frá gömlu húsunum og er frek í umhverfinu …“
bendir til dæmis á að hlutföllin milli aðalbyggingarinnar og viðbygging-
arinnar séu með þeim hætti að nýja húsið skyggir ekki á það gamla heldur
dregur sig til baka þegar horft er frá Austurvelli. Hann segir aftur á móti
að útfærsla á þaki og val á gleri og fleiri smáatriði séu með öðrum hætti en
hann hefði kosið.
Alþingiskringlan – sérstaðan í hinu smáa
Önnur og mun eldri viðbygging er við Alþingishúsið. Flestir þekkja þennan
hluta byggingarinnar enda skagar hún út úr henni en færri vita sennilega
að hann var upprunalega ekki hluti af húsinu. Þetta er kringlan aftan á
húsinu sem var teiknuð af danska arkitektinum Frederik Kiørboe árið 1909
en hann er einnig höfundur Landakotsskóla og Reykjanesvita. Að mati
Péturs H. Ármannssonar er þessi viðbygging ein sú best heppnaða í borg-
inni.
„Munurinn á þessari viðbyggingu og til dæmis þeirri sem tengir saman
gömlu timburhúsin í Kirkjustræti er sá að það þarf að rýna vel til þess að
koma auga á að hún er frá öðrum tíma en aðalbyggingin en tengibyggingin
milli gömlu húsanna hreinlega öskrar á mann. Kiørboe sýnir að oft þarf
ekki nema eitthvað pínulítið til þess að skapa sérstöðu og tjá mismunandi
tíðaranda. Sé kringlan skoðuð vel má sjá að gluggastærðin er önnur en í
frumbyggingunni og það er svolítið meira flúr í veggjunum. Hann leysti
verkefnið af mikilli fágun.“
Þjóðminjasafnið – aðrar leiðir?
Sennilega verður ekki deilt um að það sé mjög misauðvelt að byggja við
gömul hús. Oddfellowhúsið gerir til dæmis ráð fyrir að byggt sé við tvær
hliðar þess eins og áður var getið. Það hefur reyndar ekki verið gert á þeim
rúmlega sjötíu árum sem liðin eru frá því húsið var reist þótt byggt hafi
verið við það með öðrum hætti. Gluggalausir gaflar eru víða í borginni eins
konar minjar um hugmyndir um samfellda borgarbyggð. En í borginni eru
einnig reist hús sem eru hugsuð sem hringsæjar byggingar, form þeirra er
nákvæmlega hugsað frá öllum sjónarhornum og standa nánast eins og
höggmynd í borgarlandslaginu. Þjóðminjasafnið á horni Suðurgötu og
Hringbrautar er eitt þessara húsa en það er teiknað af Sigurði Guðmunds-
syni og Eiríki Einarssyni árið 1945. Pétur segir það dæmi um byggingu
sem nánast útilokað er að byggja við án þess að setja hana niður.
„Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeim sem teiknuðu viðbygginguna.
Næmt formskyn var einkennismerki þeirra Sigurðar og Eiríks; hús þeirra
voru listilega úthugsuð í þrívíðu formi. Þeir teiknuðu mörg fyrstu funkis-
húsin í Reykjavík og þau eru einnig afar viðkvæm fyrir breytingum.“
Hin nýja viðbygging við húsið er í raun í tvennu lagi, annars vegar
steyptur inngangur við suðurgafl hússins og hins vegar skáli úr gleri og
stáli við austurhlið þess. Mikið ber á inngangsbyggingunni enda umbreytir
hún algerlega öllum suðurgafli hússins sem var afar fallegur. Sú spurning
hlýtur að vakna hvers vegna arkitektar breytinganna létu ekki minna á
þeim bera.