Lesbók Morgunblaðsins - 19.02.2005, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 19.02.2005, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 19. febrúar 2005 B ókmenntaverðlaun Norð- urlandaráðs hafa verið veitt í ríflega fjóra áratugi og njóta mikillar virðingar á Norðurlöndum og þykir mikill heiður að hljóta þau. Þau hafa fimm sinn- um verið veitt íslenskum höfundum en áratugur er síðan Einar Már Guðmundsson hlaut þau fyrir skáldsöguna Engla alheimsins og finnst mörgum kominn aftur tími á íslenskan verðlaunahafa. Þeir sem kynna sér hvernig verðlaunin hafa fallið und- anfarin ár sjá hins vegar að það er ekki kvóta- skipting milli þjóða sem ræður úrslitum, heldur eiga fagurfræðileg viðmið að gilda – og gera það vonandi. Eins og tíðkast leggja Íslend- ingar, Danir, Norðmenn, Finnar og Svíar fram tvö bók- menntaverk hver þjóð og Færeyingar leggja fram eitt verk. Samar og Grænlendingar sem eiga rétt á þátttöku nýta ekki þann rétt að þessu sinni. Í ár eru það fjórar ljóðabækur og sjö skáldsögur sem eru í pottinum, þar af eru tvær íslenskar skáldsögur: Stormur eftir Einar Kárason og Skugga-Baldur eftir Sjón. Mehren tilnefndur í sjöunda sinn Ljóðabækurnar sem tilnefndar eru að þessu sinni koma frá Færeyjum, Danmörku, Noregi og Svíþjóð og kennir þar ýmissa grasa. Það vekur óneitanlega athygli að Norðmenn til- nefna enn einu sinni ljóðskáldið Stein Mehren (f. 1935) fyrir ljóðabókina Imperiet lukker sig (Heimsveldið lokar sér) en þetta er í sjöunda skipti sem hann er tilnefndur (fyrst árið 1967). Enginn annar höfundur hefur verið tilnefndur eins oft til þessara verðlauna og Mehren en að sama skapi hafa verðlaunin aldrei fallið honum í skaut. Stein Mehren, sem verður sjötugur á árinu, er þó margverðlaunaður á öðrum vett- vangi sem skáld, en auk ritstarfa fæst hann við abstrakt málaralist og kveðst hann sækja efni- viðinn, liti og form til náttúrunnar. Að sumu leyti gildir það einnig um ljóðlist hans, en hann leitar þó víðar fanga í hana: til mannkynssög- unnar, bókmenntasögunnar, goðsagna og trúarbragða svo eitthvað sé nefnt. Í viðtali við norska dagblaðið Aftenposten sagði Mehren fyrir nokkrum árum: „Ég mála til að hvíla mig á orðunum. Ég mála til að losna við að útskýra og rökstyðja það sem ég skapa“. Ekki veit ég hvort Mehren hefur mikið verið krafinn um út- skýringar á ljóðlist sinni en í Noregi nýtur hann mikils álits sem ljóðskáld og mætti jafnvel kalla hann þjóðskáld. Mehren er heimspeki- menntaður og má merkja það af ljóðum hans; hann veltir gjarnan upp tilvistarlegum spurn- ingum í ljóðunum, efinn er grunntónninn en trúin á manninn og lífið þó aldrei langt undan. Sagt hefur verið að sá sem vilji kynna sér norskan samtímaskáldskap og lætur hjá líða að lesa Stein Mehren sé ekki ósvipaður ferðalangi sem fer til Rómar og sleppir því að skoða hring- leikahúsið og Vatikanið. Imperiet lukker sig er mikil og vönduð ljóðabók, bæði að útliti og inni- haldi. Ljóðin sem breiða úr sér yfir hundrað blaðsíður eru bæði myndrík og andrík og ekki fer á milli mála að skáldinu liggur enn margt á hjarta. Poulsen tilnefndur í þriðja sinn Færeyingurinn Tóroddur Poulsen (f. 1958) hef- ur einnig verið tilnefndur nokkrum sinnum þótt hann sé aðeins hálfdrættingur á við Stein Mehren (enda rúmum tveimur áratugum yngri). Hann er nú tilnefndur í þriðja sinn og nú fyrir ljóðabókina Eygnamørk sem er nítjánda verk hans í röðinni frá fyrstu ljóðabók- inni, Botnfall sem kom út árið 1984. Sem ljóð- skáld hefur Tóroddur þróast mikið á tveggja áratuga ferli sínum en síðari verk hans ein- kennast af leik með tungumálið, paródíu og húmor. Tóroddur var tilnefndur fyrst fyrir prósasafnið Reglur árið 1996 og síðan fyrir ljóðabókina Blóðprufur árið 2002. Titill nýju ljóðabókarinnar Eygnamørk – eða Augnamörk – vísar til þess sem afmarkar augun/sjónina en í bókinni er hið innra sjónarhorn ríkjandi og það er mannsævin sem myndar þann grunn sem ort er út frá. Fyrsta ljóðið fjallar um vöggu ungbarnsins og það síðasta um gröf gamlingj- ans og þarna á milli eru ljóð sem hvert um sig er svipmynd frá mannsævi, endursköpuð í minningu ljóðmælandans. Ljóðmálið hér er að mörgu leyti þýðara en í fyrri bókum Tórodds, margar myndirnar sem hann dregur upp eru undurfallegar í tærleika sínum og einfaldleika. Hallberg og Grotrian Hin sænska Anna Hallberg (f. 1975) og hinn danski Simon Grotrian (f. 1961) eiga ýmislegt sameiginlegt sem ljóðskáld þótt aldursmunur sé nokkur á þeim. Anna er yngst þeirra höf- unda sem tilnefndir eru í ár og ekki nema þrjú ár síðan hún gaf út sína fyrstu bók, ljóðasafnið Friktion (2001). Hún er tilnefnd fyrir ljóðabók- ina på era platser sem kannski mætti kalla á ís- lensku takið ykkur stöðu. Simon Grotrian á hins vegar að baki langan feril sem ljóðskáld og hefur sent frá sér fjölda verka og hann er nú til- nefndur í fyrsta sinn fyrir Korstogets lille tab- el. Þær samlíkingar sem draga má fram með þessum tveimur skáldum snúa kannski fyrst og fremst að meðferð þeirra á tungumálinu en bæði eru þau afar meðvituð um möguleika – eða kannski öllu heldur takmarkanir – tungu- málsins til að tjá veruleikann á nýjan, ferskan og persónulegan máta. Þau gera þó sitt til að forðast klisjurnar og vanabunda hugsun. Ræt- ur Grotrians liggja í eins ólíkar áttir og til súr- realisma og konkretisma sem og til krist- indómsins og er trúarlegt samhengi ljóðlistar hans nokkuð fyrirferðarmikið í Litlu töflu krossferðanna, svo ég leyfi mér að snara titl- inum á bók hans á einfaldan hátt. Anna Hall- berg sækir einnig til konkretismans en annars verður ljóðagerð hennar ekki svo auðveldlega dregin í dilka. Kannski má notast við orðið „leikur“ til að lýsa aðferð hennar; hún leikur sér í tungumálinu og að því og sá leikur tekur oft á sig undarlegar myndir sem gerir lestur og skilning stundum erfiðan, en kannski líka ný- stárlegan og ferskan. Forsíðan á ljóðabókinni på era pladser hefur einnig tilvísun til leikvallar og gefur því færi á svona ályktunum. Þaðan sem smjörið drýpur Danir tilnefna líka Kirsten Hammann (f. 1965) fyrir skáldsöguna Fra smørhullet sem kannski mætti kalla á íslensku Þaðan sem smjörið drýp- ur. Þetta er grípandi saga úr samtímanum, sögð frá sjónarhóli ungrar konu sem, líkt og flestir Norðurlandabúar, býr við allsnægtir og á helst við skort á ástríðum og skoðunum að stríða. Hin 35 ára Mette er „ofur venjuleg“ að eigin áliti: hvorki sérlega gáfuð, né sérlega heimsk, hvorki góð né vond, hún hefur engan sérstakan áhuga á pólitík eða menningu eða listum eða samfélagsmálum. Hún er bara eins og hver annar neytandi í allsnægtasamfélagi en horfir þó með hrolli, kvíða, skilningsleysi og þó fyrst og fremst sektarkennd á óreiðuna og hryllinginn sem fjölmiðlarnir matreiða fyrir neytendur sína daglega. Hún býr í vernduðum heimi þar sem smjörið drýpur af hverju strái og horfir þaðan á veröld stríða, hryðjuverka, glæpa, hungurs, ofbeldis og dauða – og finnur hvernig óttinn læðist að henni og hvernig stoðir hins verndaða veruleika byrja að bresta. Kirsten Hammann hefur sagt að drifkraftur skrifa hennar sé hennar eigin reiði út í óskilj- anlega veröld sem hún getur með engu móti sætt sig við. „Stundum gefst ég auðvitað upp, eins og við flest, en yfirleitt get ég þó nýtt reið- ina í skrifin.“ Og Hammann tekst að miðla reið- inni og umfram allt ógleðinni sem fylgir því að vera ofvirkur neytandi velferðarsamfélagsins og óvirkur áhorfandi að hlutskipti hinna verr settu. Ógleðin er einmitt eitt af leiðarstefjum frásagnarinnar og hefur ýmsar bókmennta- legar skírskotanir, t.a.m. til skáldsögu Sartres með sama nafni. Finna má ýmsa snertifleti með sögu Kirsten Hammann og skáldsögu hinnar sænsku Maj- gull Axelsson, Den jag aldrig var eða Sú sem ég aldrei var. Majgull Axelsson (f. 1947) hefur starfað árum saman jöfnum höndum sem blaðamaður og skáldsagnahöfundur og skrif hennar tengjast alltaf félagslegum veruleika, gjarnan veruleika þeirra sem minna mega sín í samfélaginu. Í öllum skáldsögum hennar eru konur í brennidepli, gjarnan konur sem ekki ganga alfaraleiðir. Í Sú sem ég aldrei var er það MaryMarie sem líkt og nafnið bendir til er kona með tvískipt sjálf og tvenns konar sögu. Frásögnin spannar þroskasögu hennar frá unglingsaldri og fram á fimmtugsaldur, en spurningin er auðvitað sú sem felst í titlinum: Hver er saga MaryMarie? Hver var hún? Hér er í raun um að ræða tvær sögur í einni, frá- sögn af tvenns konar möguleika á lífi, mögu- leika sem ræðst af því hvernig aðalpersónan bregst við á ögurstundu. Sögurnar tvær spegla hvor aðra um leið og þær mynda saman eina sterka heild. Sú sem ég aldrei var er spennandi frásögn, allt frá fyrstu síðu, saga sem líkt og saga Kirsten Hammann felur í sér ágenga lýs- ingu af samtímanum og ýmsum dekkri hliðum hans. Það er mansal sem er hinn félagslegi glæpur sem frásögnin snýst um, en hér er líka dregin upp mynd af óbærilegu hjónabandi, af svikum, hefnd eða fyrirgefningu (allt eftir því hvora söguna við erum að tala um). En þetta er líka saga um leitina að ástinni og vináttunni, og ekki síst um leitina að sjálfum sér og mögu- leikum manneskjunnar til að bregðast við óbærilegum aðstæðum af reisn. Um listmálarann Helene Schjerfbeck Finnar tilnefna tvær konur til Bókmenntaverð- launanna í ár, aðra finnska og hina finnlands- sænska eins og hefð þeirra kveður á um. Hin finnska Rakel Liehu (f. 1939) er tilnefnd fyrir skáldsöguna Helene sem byggð er á ævi list- málarans Helene Schjerfbeck (1862–1946). Kannski mætti lýsa bókinni sem samblandi af ævisögu og sögulegri skáldsögu en þótt efnivið- urinn sé sóttur í ævi raunverulegrar persónu ríkja lögmál skáldskaparins ofar öðru í frá- sögninni. Þetta kemur best fram í stílnum þar sem ljóðrænan leikur stærst hlutverk ásamt myndrænum lýsingum sem eiga uppruna sinn í málverkum Helene. Segja má að grunnþemu bókarinnar séu tvenns konar: Annars vegar er hér fjallað um eðli hinnar listrænu sköpunar og þau vandamál sem tengjast henni. Hins vegar er dregin upp mynd af samfélagi þar sem skap- andi konur mættu bæði fordómum og mót- stöðu, því karlmenn vildu ríkja einir á hinu list- ræna sviði. Að auki fá þeir sem þekkja til listakonunnar og mynda hennar nokkuð fyrir sinn snúð, því verkið býr yfir nýjum túlkunum á list Helene Schjerfbeck, ekki síst á hinni at- hyglisverðu sjálfsmyndar-seríu sem hún er einna frægust fyrir (og skoða má á verald- arvefnum). Ameríska stúlkan Hinn fulltrúi Finnlands er hin finnlands- sænska Monika Fagerholm (f. 1961) sem til- nefnd er fyrir þriðju skáldsögu sína, Den am- erikanska flickan eða Ameríska stúlkan sem sænska pressan hefur dæmt einna sigur- stranglegasta af tilnefndum verkum. Fager- holm hafði sent frá sér tvö smásagnasöfn þegar hún sló í gegn með skáldsögunni Underbara kvinnor vid vatten árið 1994 og festi sig svo enn í sessi með Divu árið 1998, sem einnig var til- nefnd til Bókmenntaverðlauna Norður- landaráðs. Í Amerísku stúlkunni hefst frásögn- in við dularfullt dauðsfall titilpersónunnar, Eddie de Wire, og kærasta hennar; hún finnst drukknuð, hann hengdur, og enginn veit hvað gerðist. Aðalpersónur sögunnar eru hins vegar vinkonurnar Doris og Sandra, tvær ungar stúlkur sem ná saman vegna sameiginlegrar reynslu sinnar af óábyrgum foreldrum og ein- semdar. Hin dularfullu dauðsföll ungmennanna heilla vinkonurnar sem nokkrum árum eftir hina hörmulegu atburði fá örlög þeirra á heil- ann og reyna að endurskapa í hlutverkaleik það sem gerðist – með skelfilegum afleiðingum og enn einu dauðsfallinu. Ameríska stúlkan er því í aðra röndina spennusaga og frásögnin snýst að mörgu leyti um að reyna að henda reiður á þeim atburðum sem leiddu til hinna hörmulegu dauðsfalla þriggja ungmenna. En það er ekki einfalt að komast að því og sögunni vindur áfram í brotum, út frá ótal mismunandi sjón- arhornum og mismunandi frásögunum fólks sem lesandinn veit ekki hvort segir satt eða ekki . Um „það sem máli skiptir í lífinu“ Skáldsaga Moniku Fagerholm er mikill doðr- antur upp á tæpar 500 blaðsíður en skáldsaga Norðmannsins Karl Ove Knausgård (f. 1968), En tid for alt, slær henni hins vegar við hvað lengd varðar því hún er einar 560 blaðsíður. Og á þessum síðum fjallar Knausgård um „það sem máli skiptir í lífinu; um Guð og sköp- unarverkið; um ást og afbrýðisemi; um dauða og örvæntingu; um kynferðislegar langanir, hatur, ofbeldi, þrár og ótta,“ svo vitnað sé í norskan gagnrýnanda. Þessi stóru orð hæfa verki Knausgård ágætlega því hann ræðst svo sannarlega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur skrifar hann um engla og sögu þeirra, ásamt því að skrifa upp á nýtt ýmsar þekktar biblíusögur, svo sem söguna af Kain og Abel, söguna af Lot og söguna af Nóa svo nokk- uð sé nefnt. Sögurnar færir hann þó fram í tíma og staðsetur í kunnuglegu umhverfi um leið og hann klæðir biblíupersónurnar „holdi og blóði“ og gerir þær kannski nákomnari lesendum en frummyndirnar. Karl Ove Knausgård vakti þegar geysimikla athygli með fyrstu skáldsögu sinni Ute av verden (1998) og gagnrýnendur hikuðu ekki við að líkja honum strax við sagna- meistara á borð við Dostojveskí og Hamsun. Tími fyrir allt er önnur skáldsaga hans og þykir hún uppfylla þau fyrirheit sem hann gaf í frum- raun sinni þótt efniviðurinn hafi komið mörgum á óvart. Skáldsögurnar tvær eru tengdar í gegnum aðalpersónu þeirrar fyrri, Henrik Vankel, sem reynist einnig vera drifkrafturinn á bak við frásögn þeirrar seinni. Knausgård mun vera með þriðju söguna um Henrik Vankel í smíðum og hugsar verkin sem heild- stæðan þríleik. Keppa við Storm og Skugga-Baldur Eins og ljóst má vera af því sem hér hefur verið rakið eru mörg áhugaverð verk tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs nú sem endranær. Hér hafa verið kynnt þau verk sem keppa við Storm Einars Kárasonar og Skugga- Baldur Sjóns, tvö frábær verk sem saman bera fjölbreytninni í íslenskum samtímaskáldskap ótvírætt vitni, eins ólík og þau eru jafnt í formi sem efniviði. Ekki er langt að bíða niðurstöðu dómnefndarinnar því hún verður tilkynnt næstkomandi miðvikudag, eins og getið var um hér í upphafi. „Norden er i orden“ Næstkomandi miðvikudag, 23. febrúar, verð- ur tilkynnt hver hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár. Hér er fjallað um er- lendu bækurnar sem tilnefndar eru til verð- launanna að þessu sinni. Monika Fagerholm Er talin sigurstrangleg. Simon Grotrian Tilnefndur í fyrsta sinn fyrir Korstogets lille tabel.Eftir Soffíu Auði Birgisdóttur soffiab@hi.is Höfundur er bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.