Lesbók Morgunblaðsins - 19.02.2005, Page 10

Lesbók Morgunblaðsins - 19.02.2005, Page 10
Í herbergi númer 19 í kjallaranum á Elliheimilinu búa tveir gamlir menn. Þeir heita Pjetur og Jón. Báðir eru þeir ættaðir „að austan“ og báðir blindir. Þessir herbergisfjelagar hafa margt sameiginlegt, t.d. kunna þeir mesta sæg af rímum og ljóðum og skemta sjer oft við að þylja hvor sín fræði. En þegar betur er aðgætt ber þeim Pjetri og Jóni margt á milli. Maður skyldi nú álíta, að tveir gamlir menn, sem báðir eru blindir, hefðu svipaðar skoðanir á sjónleysinu – en því fer fjarri um þá fjelaga á nr. 19. Pjetur er altaf að dásama þessa „blessuðu“ birtu, sem al- veg ætli að gera útaf við hann. En fyrir Jóni er sjónleysið eins og löng og myrk nótt, og honum leiðist, að senn skuli ekki renna upp bjartur morgunn! Pjetur hefir orðið: – Það var fyrsta daginn í síðustu vikunni á undan vetrinum, sem var í hitteðfyrra! Jeg stóð á blettinum norðaustan við þetta hús, og sólin skein í heiði. Eitthvað var jeg að stússa – jeg man ekki hvað það var. En alt í einu verður mjer litið upp, og sje jeg þá blessaðan, elsku frelsarann minn koma einhvers staðar langt að handan – eða neðan úr bæ – og stefna svona skáhalt fram hjá mjer. Jeg brá hönd yfir augu og ætlaði að virða hann fyrir mjer, um leið og hann færi fram hjá. – En hvað heldurðu hann hafi gert? Hann gekk beina leið til mín, rjetti mjer hendina og hjelt hendi minni í lófa sínum „jeg giska á svona korter til hálftíma“. Og þegar hann hafði horft á mig góða stund, tók hann mig tali og sagði: – Þú ert þreyttur orðinn, Pjetur minn. Hættu að vinna og hvíldu þig, það sem eftir er. Þú hefir verið trúr í starfinu og gert skyldu þína. – Þú, minn náðugi herra! sagði þá jeg. Hvernig fer það ef jeg hætti að vinna? – Það fer vel, Pjetur minn – það er stutt þangað til þú kemur til okkar! Þá kunni jeg mjer ekki læti fyrir fögnuði og fór að hlaupa fram og aftur. En áður hafði jeg verið svo latur og lumpinn. Jeg spurði hann síð- an, hvort hann vildi ekki hjálpa mjer til að hverfa hjeðan, sem skjótast, og upp í alsæluna. – Það er ekki hægt, Pjetur minn, ekki fyr en þinn tími er kominn. – Af hverju stafar þessi mikla birta og ljómi, sem umvefur mig allan? spurði jeg. – Þetta ljós var tekið frá englunum handa þjer, uns þú kemur. Þá fá englarnir aftur ljósin sín! Svo vjek hann frá mjer, blessaður frelsarinn. En nokkru seinna kom hann til mín aftur og kvaðst ætla að biðja mig bónar. Þá hnussaði jeg svona við og sagði: – Það má ekki vera mikið, góði minn, ef jeg á að geta gert það, – blessaður frelsarinn minn. Þá kvaðst hann bara vera kominn til að vita hvort jeg myndi nokkuð af því, sem okkur hefði farið á milli. Jeg fór að hugsa mig um og sá þá alt í einu, eins og loga letri skráð, fyrir framan mig, alt sem hann hafði beðið mig að muna og breyta eftir. Svo byrjaði jeg að þylja þetta upp fyrir honum – og mikið þótti honum vænt um þetta. Fyrst klappaði hann mjer og kysti á mjer hend- ina, og mælti síðan: – Jeg hefi farið víða um jörðina og spurt mennina um það, sem jeg hafði kent þeim og beðið þá að breyta eftir. Og enginn mundi neitt. Þú ert fyrsti maðurinn, Pjetur minn. Jón: – En þvættingurinn í honum vini mínum Pjetri! Þetta eru bara draumar – en þeir eru fallegir fyrir því. Mig hefir dreymt líkt og þetta – en líka ýmislegt annað, eins og t.d. Í nótt dreymdi mig, að til mín kom kona, sem jeg þekti, og sagði: – Það er hart í böggum hjá ykkur núna, drengir mínir. En það batnar! Þennan draum rjeði jeg á þann veg, að í hönd færi góðæri. Skyldi það ekki ganga vel á síld- inni í sumar? Meðan það var móðins að sjá drauga sá jeg mikið af öllu slíku. En síðan enginn maður trúði því, að slíkir hlutir væru til hefi jeg aldrei sjeð neitt! – Hvaðan eruð þjer ættaðir, Jón? – Jeg er kominn í beinan karllegg af Hjörleifi kvensama, sonur Jóns Steingrímssonar og Oddnýjar Sveinsdóttur, er bjuggu allan sinn búskap í Breiðabólsstaðargerði í Suðursveit. Þar er jeg fæddur 8. febr. 1858 og ólst þar upp til 21 árs aldurs. Þá fór jeg í vinnumensku aust- ur í Múlasýslu, og eftir mikinn flæking – að- allega á enskum fiskiskútum, er fluttu afla sinn til Suðurlanda – kom jeg til Reykjavíkur og settist hjer að 1889. Eftir það var jeg um 20 ára skeið skútu- maður hjá Geir heitnum Zoëga. Þegar skút- urnar liðu undir lok fór jeg að róa á opnum bát- um og reri bæði frá Vestfjörðum og Austurlandi. Síðast reri jeg á Bakkafirði 1919 – og ekki hefi jeg á sjó komið, sem nýtur og dug- andi maður, eftir það. Þá fór jeg að skera tóbak og skar og skar miskunnarlaust í 15 ár, eða þangað til 1934 að jeg fór austur á Norðfjörð til barnanna minna og Steins bróður míns og var þar í tvö ár. Þaðan kom jeg hingað á Elliheim- ilið, og þá var búið að „konkúrera“ mig út í tób- aksskurðinum, og síðan hefi jeg aldrei haft neitt að gera. Jeg hefi aldrei verið kvæntur „í guði“, eins og Pjetur kallar það, – en jeg bjó með tveim kon- um og átti með þeim sex börn. Tvö eru á lífi – bæði á Norðfirði. – Þjer kváðuð hafa verið töluverður æf- intýramaður? – Og læt jeg það nú vera. Harla lítið fanst mjer það æfintýralegt að verða hálf-blindur 25 ára – svo jeg sá ekki á bók – og svo til stein- blindur fertugur. En altaf gat jeg samt hausað fiskinn á hverju sem gekk. – Segið mjer einhverja gamla sjóarasögu, þar sem þjer eruð sjálfir söguhetjan. – Jeg er búinn að gleyma öllu slíku og þvílíku – en ef jeg lenti í „harki“ þá beið jeg aldrei eftir því að mjer væri gefið á hann. Um að gera að vera fyrri til – fyrri til að slá! Eina sögu gæti jeg sagt þjer, því jeg var að rifja hana upp í morgun. Svoleiðis var, að jeg var staddur í Höfn og átti þar fyrir kunningja, er Bruun hjet. Hann var skipstjóri. Það stóð til að halda Íslend- ingaball og þangað langaði mig að koma. Bruun benti mjer þá á eina „góða“ – það var frönsk „danserinna“. Jeg labbaði mig svo til og gerði við hana „samning“ um að hún kæmi með mjer á ballið. Það eitt út af fyrir sig kostaði 9 krónur, sem greiddar voru fyrirfram. Auk þess setti hún að skilyrði, að jeg undirhjeldi sig vel á ballinu og hún mætti drekka það, sem hana lysti. Svo kom ballið, og stelpan pantaði eitt hel- vítafár af allrahanda vínum – en jeg fór hægt í sakirnar, því jeg hefi aldrei vínmaður verið. Er leið á nóttina gerðist sú franska mín all- drukkin og til að forðast „alla hneysu“ stungum við af og nú átti jeg að fá að fylgja henni heim. En á miðri leið mátti jeg taka hana upp á öxl- ina, bera hana óraleið eftir langri götu og loks upp á fimta loft. Já – það kemur margt fyrir á langri leið – ekki síst á sjónum! Mig langar altaf út á sjó. Það er alveg óþolandi að sitja hjer og halda að sjer höndum árið út. Pjetur: – O, sei, sei! Hvað ættir þú að geta gert, blessaður auminginn. En síst ber að lasta í þjer drýgindin. Hvað hefir þú nú aðhafst meðan jeg var að smíða klemmurnar mínar? Ekki nokk- urn hlut nema hugsa þarna og yrkja – og hverj- um er gagn í því? Það hafa nú líka verið skáld í minni ætt. Móðir mín hjet Ágústína og orti langar drápur eftir flesta í minni sveit. Faðir hennar – og afi minn – var prestur og skáld mikið – og kvennamaður í þokkabót. Það var síra Jón á Bægisá. Jeg er nú á því, Jón minn sæll, að þjer væri nær að yrkja ögn minna og trúa dálítið betur – trúa á frelsarann, eins og jeg. Skyldi þjer veita af því. Jón: – Má vel vera, Pjetur minn. En jeg er þá illa svikinn, ef það er mikil eftirspurn á þvotta- klemmur í himnaríki. Jeg hefi nú þá skoðun, að ljóðin mín verði prentuð og lesin – en klemmurnar þínar fjúki allar út í veður og vind. En til himnaríkis förum við báðir – enginn efi. Við skulum fá okkur í nefið, upp á það. Hvar er hendin á þjer? Svo fálma þeir báðir út í sólskinið og sumarið – hvor í sínu myrkri. Jón rjettir Pjetri tóbaks- dósirnar sínar – og loks mætast hendur þeirra í myrkrinu. Verið þið blessaðir. Gæfan leiði ykkur. S.B. Lesbók Morgunblaðsins | 11. júlí 1937 Samtal við tvo gamla menn á Elliheimilinu Jón og Pjetur „Hvar er höndin á þér?“ Lífið á nr. 19 -- 80 ára 1925 2005 10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 19. febrúar 2005

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.