Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.2005, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 24. desember 2005 | 3
V
iktor Arnar Ingólfsson á tví-
mælalaust bestu byrjunina í
glæpasögum ársins en Árni
Þórarinsson og Jón Hallur
Stefánsson eiga bestu lokin –
hrollur fór um mig, hárin risu,
taugarnar sendu vellíðunarefni um allan
kroppinn, svona eiga krimmar að byrja og
enda – en engin þessara þriggja bóka og þar
með engin af íslensku glæpasögunum sem
komið hafa út og ég lesið þetta haust bæði
byrja og enda með hámarksáhrifum, Viktor
Arnar kemst kannski næst því með ísköldu
lokauppgjöri en bók Árna er svolítið lengi af
stað og bók Jóns Halls byrjar reyndar vel en
ekki á þessum hrollkenndu nótum sem fær
mann til þess að leggjast undir sæng og lesa
fram á rauða nótt.
Glæpsamleg sprengja
Á síðustu tíu árum hefur verið skrifað meira
af glæpasögum hér á landi en í allri Íslands-
sögunni samanlagðri þar á undan. Á þessum
stutta tíma hafa Íslendingar náð góðum tök-
um á þessari bókmennta-
grein. Arnaldur Indriða-
son nýtur líklega met-
vinsælda í íslenskri bókmenntasögu þótt
samanburður við eldri höfunda sé erfiður að
því leyti, til dæmis við Gunnar Gunnarsson
sem var næst mest seldi höfundur á eftir
Goethe í Þýskalandi á þriðja áratug síðustu
aldar. Þess má geta að sænski glæpasagna-
höfundurinn Henning Mankell er söluhæsti
höfundurinn í Þýskalandi nú um stundir en
120 norrænir krimmahöfundar hafa verið
þýddir á þýsku og 700 glæpasögur koma þar
út á ári, frumsamdar og þýddar. Arnaldur er
hins vegar kominn inn á Bandaríkjamarkað
sem verður að teljast afrek. Arnaldur fær
líka mörg verðlaun. Árni Þórarinsson gerir
mikla sölusamninga erlendis sem færa hon-
um fáheyrðar fyrirframgreiðslur. En
kannski endurspeglast orðstír íslenskra
krimmahöfunda einna best í þeim samn-
ingum sem Yrsa Sigurðardóttir gerði í haust
um sölu á þýðingarrétti til hundrað landa án
þess svo mikið að hafa gefið út eina einustu
bók af þessu tagi.
Markverðar bókmenntir?
Þetta er satt að segja með ólíkindum, ekki
síst þegar haft er í huga að bara á Norður-
löndum koma út 130 nýjar glæpasögur á
hverju ári. Framboðið er gríðarlegt.
Á Norðurlöndum á þessi bókmenntagrein
sér lengri sögu en hér þótt það séu reyndar
ekki nema þrjátíu ár síðan hún festi almenni-
lega rætur þar, eins og norski bókmennta-
fræðingurinn Nils Nordberg sagði frá í fyrir-
lestri á glæpasagnaþingi í Vilníus í byrjun
nóvember. Sjöwall og Wahlöö ruddu braut-
ina á áttunda áratugnum en áhrif bóka
þeirra, sem höfðu sterka samfélagspólitíska
undirtóna, eru enn greinanleg í norrænum
glæpasögum. Tveir reyfarar, Lesið í snjóinn
eftir Peter Høeg og Atburðir við Vatn eftir
Kerstin Ekman, hafa hlotið Bókmenntaverð-
laun Norðurlandaráðs sem má væntanlega
túlka sem vísbendingu um að þessi bók-
menntagrein er ekkert olnbogabarn á þess-
um slóðum. Nordberg sagði reyndar í fyr-
irlestri sínum að skandinavískir gagn-
rýnendur og bókmenntafræðingar líti á
krimma sem fullgildar bókmenntir – umræð-
an snýst þar ekki lengur um það hvort reyf-
arar séu há- eða lágmenning, þeir eru ein-
faldlega markverður hluti af
bókmenntalandslaginu.
Eitthvað skortir á að svo sé hérlendis sem
er kannski eðlilegt. Suma óar við þeirri hol-
skeflu krimma sem riðið hefur yfir lands-
menn undanfarin misseri (þeir eru á annan
tug í haust, að minnsta kosti á milli tíu og
fimmtán eftir því hversu þröng skilgrein-
ingin er) og virðist að mörgu leyti kaffæra
aðrar tegundir íslenskra skáldsagna, meðal
annars á metsölulistunum. Rannsóknir á
þessari bókmenntagrein hafa þar að auki
verið afar takmarkaðar, það er hreinlega
ekki á mikilli þekkingu að byggja í um-
ræðunni.
Endurvakning raunsæishefðar
Friðrik Rafnsson, bókmenntafræðingur og
þýðandi, skrifaði grein í Morgunblaðið í byrj-
un desember þar sem hann vildi halda því til
haga að spennubækur séu ekki mikil bók-
menntaverk þótt þær fái, að hans mati, mikla
og raunar allt of mikla umfjöllun í fjöl-
miðlum: „En látum ekki fjölmiðlafólk telja
okkur trú um að þær skipti máli,“ sagði Frið-
rik. „Enda þótt þær séu ágætlega skrifaðar
hafa þær sáralítið bókmenntagildi, þær nema
engin ný lönd á sviði skáldsögunnar og eru
sennilega dæmdar til gleymsku skömmu upp
úr áramótum.“ Friðrik kom líka fram í Silfri
Egils síðustu helgi og líkti glæpasögum við
vatnslitamyndir af landslagi.
Ég er ekki viss um að Friðrik hafi rétt fyr-
ir sér um að glæpasögur fái meiri umfjöllun
en aðrar bókmenntategundir í fjölmiðlum, að
minnsta kosti ekki í þeim miðlum sem á ann-
að borð fjalla að ráði um bókmenntir eins og
þetta blað og Ríkisútvarpið. En það má hins
vegar gera ráð fyrir að Friðrik endurómi
bókmenntaskoðanir einhverra í hópi þeirra
sem fjalla um þessa listgrein á opinberum
vettvangi. Aðrir í þeim hópi, þar á meðal
undirritaður, vilja hins vegar líta svo á að
glæpasögur séu áhugaverður hluti af íslensk-
um bókmenntum.
Bókmenntalegt gildi glæpasagna felst ekki
síst í því að þær hafa endurvakið hefð
raunsæis eins og Nordberg og fleiri hafa
bent á. Reyfararnir eru undantekningarlítið
raunsæisleg lýsing á samtímanum og þeir
taka margir hverjir vandamál samfélagsins
til umræðu. Bækur Arnaldar Indriðasonar
eru flestar dæmigerðar um þetta en nýjasta
bókin hans, Vetrarborg, fjallar um kynþátta-
fordóma í íslenska fjölmenningarsamfélag-
inu, eiturlyfjaneyslu og tvístrun fjölskyldna.
Bók Árna Þórarinssonar, Tími nornarinnar,
fjallar einnig um eiturlyf en glímir þó enn
fremur við að sýna ákveðin (sjúkdóms)
einkenni á efnahagslegri og pólitískri stefnu
síðustu ára, meðal annars virkjunarfram-
kvæmdum. Blóðberg eftir Ævar Örn Jóseps-
son gerist beinlínis á virkjunarsvæðinu við
Kárahnjúka þar sem allt lítur út fyrir að
fyrsta hryðjuverkið í sögu landsins hafi verið
framið. Ævar Örn virkjar óttann sem sest
hefur að okkur eftir 11. september 2001 og
er reyndar vinsælt umfjöllunarefni í erlend-
um reyfurum nú um stundir. Þráinn Bertels-
son glímir svo við að varpa ljósi á efnahags-
legt og pólitískt valdatafl í íslenskum
samtíma með lykilsögunni Valkyrjum, og lík-
lega mætti tína til fleiri dæmi.
Um breytt samfélag
Tilgátur um uppgang glæpasögunnar hér á
landi hafa flestar snúist um að íslenskt sam-
félag hafi fyrst borið slíkar bókmenntir á tí-
unda áratugnum, fyrir þann tíma hafi það
verið of einfalt og saklaust. Það er örugglega
eitthvað til í þessu. Meira að segja undirrit-
aður man þá tíð þegar íslenskir reyfarar
þóttu bara púkó. Björn Þór Vilhjálmsson
lýsti efasemdum í ritdómi hér í Morgun-
blaðinu (15. nóv.) um að þetta skýri hversu
langan tíma það tók krimmann að nema land
hér, hið sama megi nefnilega segja um flest-
ar svokallaðar „geirabókmenntir“ og liggi því
beint við „að telja að tregðan við að kyngja
skáldsagnaformum sem ekki bera svip af
fagurbókmenntum, a.m.k. á yfirborðinu,
tengist rökvísi íslensks bókmenntalífs á ein-
hvern djúpstæðan hátt“. Það er þó að
minnsta kosti skemmtileg hliðstæða að til-
koma raunsæisstefnu nítjándu aldarinnar
tengdist þjóðfélagsbreytingum sem urðu á
Frakklandi eftir júlíbyltinguna 1830 þar sem
vald aðalsins var beygt og hin efnaða borg-
arastétt réði því sem hún vildi. Hið sama
virðist hafa gerst nú þegar raunsæið gengur
í endurnýjun lífdaga í krimmanum. Fyrir
rúmum áratug tók íslenskt samfélag að
breytast, það opnaðist, peningar fóru að
streyma um það í meira mæli en áður þekkt-
ist og til varð kynslóð nýríkrar borgara-
stéttar sem var stærri og fyrirferðarmeiri en
áður, samfélagsleg og siðferðisleg gildi fóru
á flot með kynlífsbyltingu og neysluæði á
sama tíma og pólitíska kerfið virtist og virð-
ist enn eiga í vök að verjast gegn nýja fjár-
magninu, klækjum þess og drottnunargirni.
Þessi nýi og flókni veruleiki hefur verið eins
konar bakgrunnur mikils fjölbreytileika í
bókmenntasköpun, þar á meðal raunsæis-
legra glæpasagna sem hafa í síauknum mæli
beint spjótum sínum að honum.
Ekki sterkir
samfélagsgreinendur
En eru íslenskir krimmar góðar bókmenntir?
Það fer svolítið eftir því hvernig á það er
litið.
Íslenskar glæpasögur eru margar hverjar
vel skrifaðar bækur. Mesti styrkur þeirra er
gott plott eða vel ofinn söguþráður. Íslenskir
reyfarahöfundar kunna að flétta sögu þó að
sumar bókanna sem koma út í haust hafi
ákveðna byggingarlega galla. Persónur í
þessum sögum eru flestar snöggsoðnar.
Smámsaman hafa þó karakterar eins og Er-
lendur hjá Arnaldi og Einar hjá Árna orðið
áhugaverðir. Reyndar líst mér ekkert á það
hvað blaðamaðurinn Einar er orðinn and-
aktugur í drykkjubindindinu, eins og hann sé
á flótta undan klisjunni. Og Skarphéðinn, sá
sem allt snýst um í Tíma nornarinnar, er satt
að segja fremur leiðinlegur gaur þó að Árna
takist í sjálfu sér vel upp
með persónusköpunina.
Lögguparið í bók Jóns
Halls er ekki áhugavert en
Björn, sem er aðalsögu-
hetja bókarinnar þótt hann
liggi hálfdauður á sjúkra-
húsi alla söguna, vekur í
senn andúð lesanda og sam-
úð. Þóra lögfræðingur í bók
Yrsu Sigurðardóttur, Þriðja
tákninu, er hins vegar vel
mótuð persóna strax í
fyrstu bók og athyglisvert
hvernig höfundi tekst að
flétta saman sögu hennar
og framvindu glæpafrá-
sagnarinnar en það mun
vera algengt einkenni á
formúlufrásögnum af þessu
tagi. Og þannig mætti
áfram telja.
En hvorki plottið né per-
sónusköpunin ræður eitt og
sér úrslitum um það hvort
íslenskir krimmar nái því að
vera góðar bókmenntir. Það
sem engum hérlendum
reyfarahöfundi hefur tekist
enn er að skrifa verk sem
afhjúpar með einhverjum
hætti helsta viðfangsefni
sitt sem er íslenskt sam-
félag. Íslenskir reyfarahöf-
undar eru ekki sterkir eða róttækir grein-
endur þess samfélags sem þeir fjalla um.
Ástæðan fyrir því að til dæmis Sjöwall og
Wahlöö nutu svo mikillar virðingar var sú að
þeir opnuðu löndum sínum algerlega nýja
sýn á þjóðfélag sitt, ekki síst á valdníðslu
hins opinbera og kerfisbundna áróðurs-
starfsemi. Norrænir glæpasagnahöfundar
hafa margir hverjir fetað í þessi spor, til
dæmis Henning Mankell. Hér á landi má
telja Arnald til þessarar hefðar og kannski
nýjustu bækur Árna og Þráins Bertelssonar
en engin þeirra hefur hins vegar náð að
marka sér verðugan sess á þessari grein
glæpasögunnar. Boðskapur Arnaldar er iðu-
lega einkennilega fyrirsjáanlegur, til dæmis í
Vetrarborg þar sem fordómar og skilnaðir
eru til umræðu á klisjukenndan hátt. Arnaldi
tókst betur upp í Grafarþögn að þessu leyti.
Árni leggur upp með metnaðarfulla, breiða
samfélagslýsingu í bók sinni og er sennilega
áhugaverðasta tilraunin í þá átt sem hér hef-
ur verið reynd á þessu sviði. Það vantar þó
skýrari eða kannski óvæntari tengsl á milli
glæpsins og þess þjóðfélagsástands sem Árni
lýsir til þess að áhrifin verði einhvers konar
uppljóstrun. Tilraun Þráins til þess að af-
hjúpa gangvirki íslensks þjóðlífs nú um
stundir er hins vegar í allt of miklum predik-
unarstíl, eftir lesturinn fær maður á tilfinn-
inguna að höfundurinn hefði allt eins getað
skrifað þrjú hundruð aðsendar greinar í
Morgunblaðið.
Úr alfaraleið …
En hvað er verið að þusa þetta, bækurnar
seljast vel og hljóta almennt góðar viðtökur
bæði hérlendis og erlendis. Íslenskir krimm-
ar þykja greinilega skemmtilegt og áhuga-
vert lesefni. Og þeir eru að minnsta kosti
mjög forvitnilegur og ferskur hluti af ís-
lenskum bókmenntum. Þeir eru reyndar
(enn þá?) flestir nokkuð líkir enda eiginlega
eingöngu um svokallaðar spæjarasögur að
ræða þar sem löggur, blaðamenn, lögmenn
eða aðrir eru í hlutverki þeirra sem rannsaka
glæpinn. Formúlan er allsráðandi, að
minnsta kosti í öllum þeim bókum sem hér
hafa verið nefndar: Glæpur er framinn en
enginn veit af hverjum, fylgst er með rann-
sókninni sem leiðir í ljós vísbendingar úr
ýmsum áttum um það hvernig, hvers vegna
og hver framdi glæpinn og alveg undir lokin
er gátan leyst, oftast með óvæntum hætti. Í
svona bókum skiptir öllu máli hvernig sagan
hefst því ef byrjunin kveikir ekki í lesand-
anum nennir hann ekki að fara þessa kunn-
uglegu ferð einu sinni enn. Til þess að verð-
launa þolinmóðan lesanda verður sagan síðan
helst að enda með stæl. Þetta hefur tekist
misjafnlega hjá íslensku reyfarahöfundunum
í ár eins og sagði í upphafi greinar.
Kannski eiga þeir eftir að koma okkur á
óvart næst með því að fara úr alfaraleið.
Eru íslenskir reyfarar
góðar bókmenntir?
Á annan tug íslenskra reyfara hefur komið út
í haust. Flestir hafa fengið góðar viðtökur og
margir þeirra eru á metsölulistum. En eru
þeir góðar bókmenntir? Sumir segja að þeir
hafi lítið bókmenntalegt gildi, aðrir segja að
þeir séu áhugaverður hluti íslenskra bók-
mennta. Hér er því meðal annars haldið fram
að íslenskir glæpasagnahöfundar séu ekki
sterkir eða róttækir greinendur þess sam-
félags sem þeir fjalla um.
Eftir Þröst Helgason
throstur@mbl.is
Morgunblaðið/Ásdís
Íslenskt samfélag „Það sem engum hérlendum reyfarahöfundi hefur tekist enn er að skrifa verk sem afhjúpar með ein-
hverjum hætti helsta viðfangsefni sitt sem er íslenskt samfélag.“