Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.2005, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.2005, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 24. desember 2005 stéttafólks í Kína. Þar eru nú fleiri milljónamæringar en í Evrópu. Hvorug þessara stétta var til fyrir tuttugu árum; hvað þá milljarðamæringar, sem einnig eru að spretta upp. Nýverið var birtur listi milljarðamæringa [í dollurum talið] í Shanghæ einni saman, en þeir hafa allir auðgast á einungis tíu árum eða svo,“ segir hann. „Fyrir tuttugu árum hafði fólk í borgum hvorki salernisaðstöðu né rennandi vatn – það bjó við hrikalegar aðstæður, stækan óþef og sjúkdómshættu. Nú býr það í húsnæði með pípulögnum, rafmagni og öllu því sem færir hversdagslífið til nútímahorfs.“ Scott blæs á allar sögusagnir um að tilraunaefnahags- svæðin í Kína standi ekki undir sjálfum sér og þeirri upp- byggingu sem þar er að eiga sér stað. „Þessar borgir eru þvert á móti uppspretta ótrúlegs auðs, sem streymir inn í hagkerfi landsins sem heildar,“ staðhæfir hann. „Allt frá stofnun Alþýðulýðveldisins fram undir 1985 var Shanghæ – sem á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar var stærri og auðugri en Chicago og New York – ein helsta orkustöð efna- hagslífsins í öllu Kína. Um miðjan níunda áratuginn, var yf- irvöldum í Sjanghæ gefið vald til að beina hluta þess fjár- magns sem varð til í borginni til uppbyggingar innan hennar. Sú ákvörðun gerði borgina að því efnahagslega undraverki sem hún er í dag.“ Lýsingar Howards á aðkomunni í Sjanghæ í byrjun ní- unda áratugarins, rétt eftir að endurnýjun borgarinnar hófst, eru með nokkrum ólíkindum ef miðað er við þá glæsi- legu, nútímalegu háhýsaframhlið sem nú einkennir hana. „Í raun vildu þeir gera allt í einu – og gerðu það. Nánast öll borgin var grafin upp á sama tíma, þeir lögðu vatns- og skolpleiðslur, nýtt gatnakerfi, rafmagns- og símalínur, rifu rústirnar frá því í stríðinu og sömuleiðis öll önnur hús sem þurftu að víkja fyrir nýjum byggingum í þessari ótrúlegu „metrópólis“ sem nú er búið að byggja. Sendinefnd sem ég sat í á þessum tíma þurfti að klífa tveggja til þriggja metra háa hauga á leið sinni á milli húsa!“ segir hann og hlær. Scott vísar til nýlegrar skýrslu þar sem fram kemur að nú er verið að reisa fleiri byggingar í Peking, heldur en í öllum löndum Efnahagsbandalags Evrópu, „og þá eru hinar millj- ónaborgirnar í Kína ekki teknar inn í myndina.“ Hann þarf ekki að lýsa þessu nánar fyrir mér; eftir þriggja mánaða dvöl í Kína veit ég af eigin raun að umfang þess sem er að eiga sér stað í Kína er í sannleika sagt ofar skilningi flestra. Hugsað fram í tímann Þótt auðvelt sé að gagnrýna kínversk stjórnvöld, verður ekki framhjá því horft að þau hafa sýnt mikla forsjálni í kjölfar þeirra efnahagsframfara sem Deng Xiaoping greiddi götuna fyrir. Kínverjar vinna að því hörðum höndum að tryggja undirstöður iðnaðarframleiðslu sinnar til langframa og um leið samkeppnisaðstöðu sína á alþjóðamarkaði. Þetta gera þeir með því að gera langtímasamninga um hráefn- isöflun erlendis svo öruggt sé að birgðir þrjóti ekki og jafn- framt að gæði þess efniviðar sem þeir þarfnast séu við- unandi. Vefnaðar- og tískufataframleiðsla er til dæmis gífurleg í Kína og til að tryggja bakland hennar hafa Kínverjar efnt til umfangsmikils samstarfs á milli ullarframleiðenda í Nýja- Sjálandi, vefnaðar- og saumaverksmiðja í Kína og stórmark- aðarins Wall-Mart sem sér um dreifingu vörunnar. Vegna þessa samstarfs eru Kínverjar langstærstu kaupendur að ull í Nýja-Sjálandi en öfugt við hina stóru kaupendurna, Þjóð- verja og Ítali, taka þeir ekki við ullinni óþveginni. Til hreinsunarstarfsins þarf mikið vatn sem yfirleitt er af skornum skammti í Kína svo þeir hafa farið þá leið að kaupa heilu hreinsunarstöðvarnar í Nýja-Sjálandi og hreinsa ullina þar áður en hún er flutt til frekari vinnslu heima fyrir. Með skipulögðum aðgerðum á borð við þessar er engin hætta á að sá mikli mannafli sem vinnur við framleiðsluferlið í Kína standi uppi verkefnalaus með alvarlegum afleiðingu fyrir efnahagslífið í heild. Í raun má segja að það eina sem standi þeim fyrir þrifum á þessu sviði séu kvótar efnaðra þjóða sem vilja hefta innflutning til að vernda sinn eigin iðnað. Á Nýja-Sjálandi hafa Kínverjar einnig tryggt sér stóran hluta þess pappírs og timburs sem þeir þurfa í margvíslega framleiðslu sína með því að fjárfesta í fyrirtækjum er fram- leiða timbur í nytjaskógum. Þeir hafa ennfremur um langt skeið fjárfest í námum í Ástralíu til að tryggja sér greiðan aðgang að málmum og kolum. Howard Scott bendir á að ný- lega gerðu Kínverjar enn einn samninginn við Ástrali „sem hljóðaði upp á marga milljarða og vakti mikla athygli. Þeir hafa einnig keypt sig inn í stóran hluta heildarframleiðslu á sojabaunum í Brasilíu, sem þeir ætla að láta þjóna sinni inn- anlandsframleiðslu á matvælum – sem er gríðarleg.“ Eins og einhverja kann að reka minni til reyndu Kínverj- ar fyrir skemmstu að kaupa oíufyrirtæki í Bandaríkjunum, en tilboði þeirra var hafnað á þeirri forsendu að það kæmi frá ríkisfyrirtæki. Bandaríkjastjórn vildi einungis selja það til einkaaðila. Mörgum Kínverjum kom sú afstaða spánskt fyrir sjónir enda hafa þeir ekki sett fótinn fyrir fjárfestingar Bandaríkjamanna í Kína. Þrátt fyrir að hafa ekki komist inn á Bandaríkjamarkað eru fjárfestingar Kínverja í erlendri ol- íuframleiðslu umtalsverðar. Í Mið-Austurlöndum hafa þeir keypt bæði olíulindir og framleiðslufyrirtæki. Jafnframt hafa þeir fjárfest í olíulindum og vinnslufyrirtækjum í Afríku sem án efa munu nýtast þeim vel í framtíðinni. Sá iðnaður sem á sér stað í Kína og öll sú margvíslega framleiðsla sem þeim hefur tekist að skapa markað fyrir um heim allan, stendur og fellur með því að þeim takist að sjá sér fyrir nægum orkugjöfum. Um þessa staðreynd eru Kínverjar mjög með- vitaðir. Og hafa brugðist við með því að fjárfersta í fyr- irtækum um allan heim til að tryggja sem best framboð af öllum mögulegum hráefnum til úrvinnslu heimafyrir. Þeir hafa m.ö.o. uppgötvað að þrátt fyrir stærð landsins og margbreytileika þeirra auðlinda sem það býr yfir, er örugg- ara að hafa vaðið fyrir neðan sig. Fyrir vikið er allur heimurinn að verða þeirra leikvöllur á aðeins örfáum árum – kannski án þess að því hafi verið veitt mikil athygli. Menningarlegt kviksyndi Einungis kommúnismi getur bjargað Kína, sagði Maó for- maður. Nú hafa Kínverjar gjarnan á orði að einungis Kína geti bjargað kommúnismanum. Sú glettna viðleitni til að skapa sátt um viðvarandi ástand og gera það besta úr því, lýsir viðhorfi Kínverja til umhverfis síns betur en margt annað. Enda er staðreyndin sú – eins og Kínverjar útskýra gjarnan fyrir þeim sem sækja þá heim – að það er sama hverjir ráðast að rótum kínverskrar menningar eða hugs- unarháttar með byltingu eða yfirráð í huga; máttur nýju áhrifavaldanna gufar alltaf upp að lokum og samlagast ein- faldlega þeim gríðarstóra heimi sem kínversk menning er. „Kína er menningarlegt kviksyndi sem gleypir allt svo ekki sést af því tangur né tetur meir. Sjáðu allar þjóðirnar sem hafa ráðist á okkur úr öllum áttum í gegnum árþúsundin,“ sagði vinur minn, ungi listamaðurinn, „þær eru allar orðnar að Kínverjum! Það þjónar engum tilgangi að koma til Kína með trúboð, stjórnmálarhreyfingar, tískustrauma eða siðbót af einhverju tagi og ætla sér að breyta þjóðinni. Það er í eðli okkar Kínverja að sníða það sem kemur utan frá að okkar þörfum – sama hvort heldur það er búddismi, kristni, kapítalismi eða kommúnismi. Það hvernig allt samlagast kínverskri menningu að lokum er einmitt það sem hefur haldið menningunni á lífi í gegnum árþúsundin. Aðlög- unarhæfnin er líklega það sem alltaf hefur einkennt Kína umfram annað.“ Í þessum orðum hans eru töluverð sannindi. Í Kína þrífst hlið við hlið ótrúleg samsuða af siðum, þjóðernum, tungu- málum og lífsháttum. Í loftinu liggur nú sú þversögn að nánast allt sé hægt, þótt fólk búi um leið við það stjórnarfar að svo margt er ekki hægt. Ógnin sem eitt augnablik steðjaði að mér á ströndinni í Xiàmén er ekki alltaf í sauðargæru – allir vita að úlfurinn sýnir þeim enn tennurnar sem verða uppvísir að andófi eða gera uppsteyt. Konur hvattar í herinn Skilaboð til kvenna á hurð heilsugæslustöðvar, en fyrir fátækt ungt fólk getur herþjónusta verið lykillinn að menntun. Innreið kapítalismanns Bandarísk táknmynd hans til skrauts. Kínverskar stúlkur í frímínútum Þótt börnum sé tryggð menntun í Kína er háskólanám orðið dýrt, og einungis á færi forréttindastétta. Heimsþorpið Gervihnetti má finna á afskekktustu stöðum, sem líka bera merki þeirra umbreytinga sem nú eru að eiga sér stað í Kína.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.