Morgunblaðið - 24.05.2005, Side 17
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 24. MAÍ 2005 17
MINNSTAÐUR
AKUREYRI
AUSTURLAND
ALLS bárust 495 umsóknir um sumarstörf
á vegum Akureyrarbæjar frá ungmennum
17 ára og eldri. Þetta eru mun færri um-
sóknir en undanfarin tvö ár en í fyrra voru
umsóknirnar 620 og 687 umsóknir árið
2003. Mun fleiri umsóknir eru frá konum en
körlum, eða 339 frá konum og 156 frá körl-
um. Er kynjahlutfallið svipað og undanfarin
ár. Alls verða 255 ráðnir í sumarstörf á veg-
um bæjarins.
Halla Margrét Tryggvadóttir, starfs-
mannastjóri Akureyrarbæjar, sagði það
gleðilegt að umsóknum skyldi fækka milli
ára, enda væri líklegast að ástæðan væri
betra atvinnuástand á hinum almenna
vinnumarkaði. Bæjarráð samþykkti fyrir
helgi að láta gera könnun í byrjun júní nk. á
því hversu margir væru þá enn án atvinnu
og hefja undirbúning að því að tryggja 17
ára og eldri með lögheimili á Akureyri 6
vikna vinnu í sumar. Í fyrra bárust 111 um-
sóknir um starf í atvinnuátaki og þáðu 75
ungmenni boð um starf í 6 vikur. Þetta er
töluverð fækkun frá árinu áður en þá sóttu
130 um starf og 96 tóku boði um vinnu.
Þá bárust 469 umsóknir um unglinga-
vinnu í sumar frá 14–15 ára unglingum en í
fyrra voru umsóknir frá þessum aldurshópi
444. Umsóknir frá 16 ára ungmennum voru
166, sem er svipaður fjöldi umsókna og á
síðasta ári.
Sumarvinna 17 ára og
eldri hjá bænum
Umsóknum
fækkaði tölu-
vert á milli ára
Stofnfjárstyrkur | Á fundi bæjarráðs ný-
lega var lögð fram greinargerð fram-
kvæmdastjóra Lundar, rekstrarfélags til
fjármögnunar, smíði og rekstrar nem-
endagarða á Akureyri, vegna umfjöllunar
Akureyrarbæjar um styrkveitingu til
byggingar nýju nemendagarðanna við
framhaldsskólana á Akureyri. Bæjarráð
samþykkti að verða við ósk Lundar um 10
milljóna króna stofnfjárstyrk sem greidd-
ur yrði á tveimur árum, í fyrsta sinn 2006.
Styrkveiting þessi er skilyrt því að rík-
issjóður leggi fram sambærilega fjárhæð
til rekstrarfélagsins Lundar.
Egilsstaðir | Í gærmorgun flaug frá Egilsstaða-
flugvelli 120 sæta YAK 42D vél áleiðis til Kaup-
mannahafnar og markar það flug upphaf vikulegs
áætlunarflugs milli þessara tveggja áfangastaða.
Um 50 farþegar fóru utan með vélinni.
Flugvélin mun koma til Egilsstaða á sunnu-
dagskvöldum og fara árla næsta dags til Kaup-
mannahafnar.
Ferðaskrifstofan Trans-Atlantic á Akureyri
kom þessu flugi á og stefnir að vikulegum ferðum
fram til haustsins, en þá á að fækka ferðum í tvær
á mánuði. Ferðaskrifstofa Austurlands selur far-
miða í flugið og kostar fargjaldið báðar leiðir
34.900 krónur með öllum sköttum og 17.450 fyrir
börn fram til 20. júní, en eftir það verður far-
gjaldið fyrir þau með 20% afslætti. Önnur leiðin
fyrir fullorðna kostar 19.450 krónur. Arngrímur
Viðar Ásgeirsson hjá Ferðaskrifstofu Austur-
lands segir símann ekki hafa þagnað eftir helgina
og fólk sýni þessum nýja ferðamöguleika mikinn
áhuga.
Vélin sem notuð er til flugsins er frá litháíska
flugfélaginu Aurela Air.
Egill Örn Arnarson hjá Trans-Atlantic segir að
kjölfestan í verkefninu nú séu flutningar á starfs-
mönnum erlendra verktaka sem starfa á Austur-
landi, en í framhaldinu sé vonast til að bjóða megi
ferðamönnum í Skandinavíu að nýta flugið.
Ítalska verktakafyrirtækið Impregilo er til að
byrja með stærsti einstaki notandi flugsins milli
Egilsstaða og Kaupmannahafnar og voru flestir
farþegarnir í gærmorgun á þeirra vegum.
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Nýr valkostur Flogið verður vikulega milli Egils-
staða og Kaupmannahafnar í sumar.
Beint flug milli Egilsstaða og
Kaupmannahafnar hafið
Egilsstaðir | Héraðsbúar eru marg-
ir hverjir farnir að skammast
ótæpilega út í ríkjandi veðráttu og
þykir nóg komið af snjó og hagl-
éljum í áliðnum maímánuði. Páska-
liljur og annar vorgróður reynir þó
sitt besta til að halda uppi merkjum
árstíðarinnar, en þó ekki laust við
að liljurnar drúpi höfði í þeirri
kaldranalegu baráttu.
Morgunblaðið/Steinunn Ásmundsdóttir
Enn snjóar
Álftafjörður | Hópur hreindýra hraktist út í sjó undan bif-
reiðum sem komu akandi eftir veginum við Geithella í
Álftafirði á dögunum. Þau létu sig hafa það að ösla á haf
út, en sem betur fer var aðgrunnt og tók sjórinn þeim að-
eins í kvið.
Er bifreiðarnar voru horfnar sjónum sneru dýrin frá villu
síns vegar og skakklöppuðust í land. Annars eru hreindýr
ágætlega synd og hefur þeim m.a. verið sundriðið yfir jök-
ulár, í það minnsta í skáldverkum.
Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson
Hreindýr af hafi
SLÖKKVILIÐIN á Dalvík og Ak-
ureyri æfðu slökkvistarf og reykköf-
un í gömlu íbúðarhúsi við Rauðuvík,
sem er um miðja vegu milli bæjanna,
sem kveikt var í síðdegis á sunnu-
dag. Alls tóku um 20 slökkviliðs-
menn þátt í æfingunni en um var að
ræða samstarfsverkefni liðanna á
Dalvík og Akureyri. Til stóð að rífa
gamla húsið í Rauðuvík þar sem þar
hefur nú verið reist nýtt hús en að
frumkvæði slökkviliðsins á Dalvík
fékkst að nýta það til æfinga.
Á meðal þeirra sem fylgdust með
því þegar íbúðarhúsið brann, voru
bræðurnir Haukur og Aðalsteinn
Svanur Sigfússynir en þeir áttu
heima í Rauðuvík fyrstu 20 árin sín.
Þar bjuggu foreldrar þeirra, Sigfús
Þorsteinsson og Edda Jensen, með
blandaðan búskap og örlitla útgerð.
Þeir bræður voru sammála um að
ekki væri eftir miklu að sjá, enda
húsið, sem var byggt árið 1897, farið
að láta á sjá og botnstykki og gólf
orðið lélegt.
Morgunblaðið/Kristján
Gamla heimilið Þeir bræður Hauk-
ur og Aðalsteinn Svanur Sigfússyn-
ir voru sallarólegir þótt gamla hús-
ið í Rauðuvík væri brennt til
grunna enda húsið orðið gamalt.
Íbúðarhús-
ið í Rauðu-
vík brennt
INGA Björnsdóttir var kjörin
heiðursfélagi Læknafélags Ak-
ureyrar á aðalfundi félagsins í
vetur og er hún fyrsta konan sem
hlýtur þann titil. Af því tilefni
var henni afhent heiðursskjal í
kaffisamsæti á FSA sl. föstudag.
Læknafélag Akureyrar átti 70
ára afmæli á síðasta ári en á að-
alfundinum gerðist það einnig að
Helga Magnúsdóttir svæf-
ingalæknir var kjörin formaður
félagsins og er hún fyrsta konan,
sem gegnir því starfi. Ólafur H.
Oddsson, fráfarandi formaður,
tók við stöðu varaformanns.
Inga Björnsdóttir fæddist þann
24. júní árið 1922 á Eiríksstöðum
á Jökuldal í Norður-Múlasýslu.
Hún lauk stúdentsprófi frá
stærðfræðideild Menntaskólans á
Akureyri árið 1941 og embættis-
prófi í læknisfræði frá Háskóla
Íslands í janúar 1949. Strax að
loknu prófi gerðist Inga aðstoð-
arlæknir hjá héraðslækninum í
Breiðumýrarhéraði, vann á Krist-
neshæli, síðar í Neshéraði, en hóf
kandidatsár á Landspítalanum í
desember 1949. Um sumarið 1951
tók hún við embætti héraðs-
læknis í Bakkagerðishéraði og
gegndi því starfi til 1959. Vann
þá sem aðstoðarlæknir á Fjórð-
ungssjúkrahúsinu á Akureyri í
eitt ár, síðan gerðist hún aðstoð-
arlæknir héraðslæknisins í Ak-
ureyrarhéraði í tæpt hálft ár.
Eftir það varð Inga sjálfstætt
starfandi heimilislæknir á Ak-
ureyri frá 1963–1985, en heilsu-
gæslulæknir í Heilsugæsluum-
dæmi Akureyrar frá 1985 til
ársloka 1992 er hún lét af störf-
um fyrir aldurs sakir. Eig-
inmaður Ingu, Sverrir Sigurðs-
son húsasmíðameistari, lést árið
1996. Þau eignuðust þrjú börn.
Inga starfaði með Lækna-
félagi Akureyrar, var m.a. gjald-
keri, varagjaldkeri og endur-
skoðandi. Inga var
brautryðjandi meðal kvenna í
læknastétt en hún var ein
þriggja kvenna í 11 lækna hópi,
sem brautskráðust árið 1949.
Hún var sú eina kvennanna sem
valdi sér heimilislækningar sem
ævistarf en hún starfaði sem
læknir í 43 ár.
Helga Magnúsdóttir, formaður Læknafélags Akureyrar
Morgunblaðið/Kristján
Heiðursfélagi Inga Björnsdóttir með heiðursskjalið sem fylgir nafn-
bótinni heiðursfélagi Læknafélags Akureyrar. Með henni á myndinni
eru Helga Magnúsdóttir, formaður félagsins, og Ólafur H. Oddsson
varaformaður.
Inga Björnsdóttir
kjörin heiðursfélagi
Starfaði sem
læknir í 43 ár