Morgunblaðið - 11.09.2005, Qupperneq 6

Morgunblaðið - 11.09.2005, Qupperneq 6
6 | 11.9.2005 ÓLÆKNANDI BAKTERÍA Læknavísindunum fleygir ört fram, en þau mega sín lítils gegn tónlistarbakteríunni hjá fjórum starfandi læknum sem allir eru virkir tónlistarmenn í hjáverkum. Eftir Pál Kristin Pálsson | Ljósmyndir Kristinn Ingvarsson Haukur Heiðar Ingólfsson var um það bil sjö ára þegar hann fór að fikta við gamalt stofuorgel sem móðir hans átti. „Ég byrjaði á að reyna að spila eftir eyranu dægurlög þess tíma,“ segir hann. „Svo þótti viðeigandi að senda mig til náms og tólf, þrettán ára gamall fór ég til orgelkennara af því við vorum með orgel heima. En það hentaði mér ekki, ég var kominn á allt aðra línu og farinn að seilast í öll píanó sem ég komst í hjá kunningjum, í skólanum og á stúku- fundum. Ég entist því ekki lengi í orgelnáminu en sneri mér alfarið að píanóinu og eignaðist mitt fyrsta píanó nítján ára gamall.“ Haukur Heiðar er fæddur og uppalinn á Akureyri og hóf þar að leika í skólahljómsveit í gagnfræðaskólanum fimmtán ára. „Þar fékk ég aðgang að píanói, en ég lærði aldrei al- mennilega að lesa nótur. Ég náði góðum tökum á því að spila eftir eyranu og las að sjálfsögðu hljóma. Ég hugsa að ein af ástæðum þess að ég lagði mig ekki eftir nótnalestri hafi verið að á þessum árum var lítið um nótur yfir létta músík, þá tónlist sem höfðaði mest til mín á þeim tíma.“ Spilamennska Hauks Heiðars og félaga barst fljótlega út fyrir veggi skólans. „Við fórum að spila á ýmsum danshúsum í bænum, Hótel KEA, Alþýðuhúsinu og á sveitaböllum. Eftir gagnfræðaprófið fór ég að vinna í herrafataverslun KEA, spilaði á kvöldin og ætlaði ekkert í meira nám. En þegar árin liðu fann ég að ég var ekki sáttur og hafði þá fengið áhuga á læknisfræði. En ég var ekki með stúdentspróf, og til að komast í menntaskólann þurfti ég að taka landspróf. Ég tók það og síðan þriðja bekk í menntó utanskóla, en spilaði alltaf meðfram í hljómsveitinni og vann fulla vinnu. Settist síðan á skólabekkinn og lauk stúdentsprófi vorið ’65. Þá flutti ég suður til Reykjavíkur og settist í læknadeildina um haustið. Tveimur árum áður hafði ég kynnst Ómari Ragnars- syni og okkar langa samstarf hófst, bæði á samkomum og nokkrum plötum, meðal annars á fyrstu og einu gamanvísna- plötu hans sem kom út 1965 og við tókum upp „live“ í Ríkisút- varpinu, sem þá var eina stúd- íóið á landinu. Hún var endur- útgefin fyrir skömmu á geisladiski.“ Langt hlé varð á opinberri spilamennsku Hauks Heiðars þegar hann fór í fimm ára sér- nám í heimilislækningum í Sví- þjóð og í nokkur ár eftir að hann kom aftur heim. „Ómar hafði enda fengið annan með- leikara þegar ég fór út. En svo hringdi hann í mig eitt kvöldið og vantaði píanista, spurði hvort ég gæti hjálpað honum eina helgi. Þetta var 1983 og við höfum unnið saman allar götur síðan. Um svipað leyti fór ég að spila dinnermúsík, einn, til dæmis á Broadway, og hef núna sent frá mér fimm geisladiska með slíku efni,“ segir Haukur Heiðar sem þykir læknisfræðin og tónlistin fara afar vel saman. „Það er mjög gott að hafa þetta sem aukastarf; geta farið úr aðalvinnunni, sem stundum getur tekið á mann, og í tónlistina sem er allt annar heimur, endurhlaða þannig batteríin og hvíla hugann. Svo er þetta einfaldlega ólæknandi baktería.“ HAUKUR HEIÐAR INGÓLFSSON, 63 ÁRA Allt annar heimur Svo hringdi hann í mig eitt kvöldið og vant- aði píanista. Lýður Árnason byrjaði seint í tónlist. „Í miðju lækna- náminu kom tímabil þar sem mér leiddist svo mikið að ég ákvað að fá mér gítar,“ rifjar hann upp. „Ég segi ekki að ég hafi náð góðum tökum á gítarnum – hins vegar hef ég mjög gaman af því að semja lög og samdi mitt fyrsta lag 25 ára. Við vorum nokkur í læknisfræðinni sem haldin vorum þessum námsleiða og ákváðum að fara í hljóðverið hans Didda fiðlu og gera plötu. Diddi varð ansi hissa, því við vildum taka upp plötu áður en við höfðum almennilega lært að spila. Stúdíótíminn fór því mikið í að ná tökum á hljóðfærunum, og útkoman bar kannski einhver merki þess.“ Þetta voru Kartöflu- mýsnar, sem gerðu tvær breiðskífur, árin ’95 og ’98. „Við vorum aðallega stúdíóband, þótt við kæmum ein- staka sinnum fram opinberlega, á árshátíðum og svona. Svo kom erfitt ár í náminu, sjötta árið, þá var sjálftekin pása frá þessu og síðan tvístraðist hópurinn, eins og gerist, þegar náminu lauk.“ Lýður er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Sérgrein hans er heimilislækningar og hann starfar sem slíkur á Flateyri, en er einnig með Þingeyri og Ísafjörð að hluta. „Ég er því hálfgerður flökkulæknir,“ segir hann, sem starfaði fyrst eftir námið um tíma í Vestmannaeyjum og svo á Höfn í Hornafirði áður en leiðin lá vestur á firði. „Samkvæmt samningi hef ég nokkuð rúman frítíma, eða um fjóra mánuði á ári, og þá fer ég til Reykjavíkur eða eitthvað annað. Þetta er þægilegt fyrirkomulag fyrir mann sem hefur fleiri áhugamál en fræðin og gefur ákveðið svigrúm.“ Lýður er einnig virkur kvikmyndagerðarmaður. „Kvikmyndagerðin tekur reyndar meira af tíma mínum en tónlistin, en hún er þó þar eitt af mörgum element- um. Árið 2002 gáfum við út plötu með tónlistinni úr kvikmynd okkar Jóakims Reynissonar, Í faðmi hafsins. Hér á Vestfjörðum gáfum við svo út plötu með mús- íköntum frá Flateyri, sem var eldskírn mín í upptökum. Ég ákvað að læra á græjurnar með því að taka upp plötu, og hún heitir Rokk og reykur. Í fyrra gáfum við konan mín, Íris Sveinsdóttir, og Jón Rósmann Mýrdal út plötuna Frá Valhöll til himnaríkis, sem innheldur þjóðlegt rokk. Í sumar hljóðritaði ég þrjár plötur, eina með Sigga Björns, trúbadúr frá Flateyri, aðra með íslenskum þjóðlögum í flutningi Olavi Körre, sem er eist- neskt tónlistarviðundur og tónlistar- kennari á Þingeyri, og sú þriðja er poppmessa eftir mig og Óla popp skipstjóra.“ Er tónlistin hvíld frá læknisfræð- inni? „Fyrir mér er læknisfræðin fyrst og fremst góð og áhugaverð vinna. Hún er ekki ástríða eins og kvik- myndagerðin og tónlistin. Ég get séð mig vera eingöngu í músík og bíó- myndum, en ekki bara í læknisfræð- inni, það held ég að myndi ekki ganga vel. En þetta fer mjög vel saman, og ég tel alltof fáa lækna hafa einhverja svona hliðargrein. Það hefur oft hent mig að fólk spyr af hverju læknirinn sé í kvikmyndagerð og tónlist, ekki síst kvikmyndagerð- armennirnir. Þeir eru ekkert hrifnir af því að læknir sé að flækjast um með þrífót, alveg eins og læknar vilja ekki að grasalæknar séu að fíflast inn á þeirra svið. Það er þessi „paranoja“ hjá þeim sem hafa lært eitthvað og telja sig vera komna á einhvern akur sem tilheyrir bara þeim og vilja verja sitt. Þannig að fyrir sumum er ég hálfgerður bastarður að stunda þetta tvennt.“ LÝÐUR ÁRNASON, 40 ÁRA Ástríða, ekki vinna Ég ákvað að læra á græj- urnar með því að taka upp plötu.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.