Morgunblaðið - 11.09.2005, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 11.09.2005, Blaðsíða 8
8 | 11.9.2005 Hlynur Þorsteinsson keypti sinn fyrsta gítar 17 ára og byrjaði fljótlega að semja lög og texta. „Það er engin sérstök tenging á milli tónlistarinnar og vinnunnar,“ segir hann, „því tónlistin kemur löngu á undan. Við vorum lítill hópur sem spilaði saman, ekki beint hljóm- sveit, nema einhvern tíma vorum við þó með þjóðlaga- grúppu, sem kom nokkrum sinnum fram opinberlega. Þegar valið stóð svo um hvort ég myndi hella mér út í þetta eða mennta mig, þótti mér einsýnt að tónlistin yrði aldrei lifibrauð hjá mér, hún yrði að vera auka- hlutur í tilverunni. Ég skellti mér því í læknisfræðina, en hef alltaf haft tónlistina meðfram og sú iðkun hefur reyndar færst mjög í aukana á seinni árum.“ Hlynur er menntaður heimilislæknir og starfar á slysa- og bráðamóttöku LSH í Fossvoginum. „Ég hef aðallega fundið fyrir því að menn séu að flokka tónlist- ina,“ svarar hann spurningunni um viðbrögð fólks við því að hann stundi þetta tvennt. „Og að það þætti virð- ingarverðara fyrir lækninn að hafa lært eitthvað og spila klassíska músík, frekar en að vera sjálflærður rokkari.“ Hlynur er í þremur hljómsveitum, sem heita Póst- húsið í Tuva, Sigurboginn og Dúskar, og hafa samtals sent frá sér sjö plötur á síðustu þremur árum. „Já, þetta hófst með miklum látum árið 2002 þegar við gáfum út tvo diska með Pósthúsinu. Af því að við bjuggum við uppsafnaðan vanda í fjölda laga ákváðum við að setja í gang annað batterí, Sigurbogann, og fyrsti diskurinn kom út á Þorláksmessu 2003. Dúskar eru svo farvegur fyrir annað efni sem ekki kemur formlega út, þeir hafa gert tvo diska fyrir tvenn síðustu jól og voru þeir sendir til ættingja og vina eins og jólakort. Í mars síðast- liðnum kom út diskurinn Gullhamrar með Sigurbog- anum og innan skamms kemur út nýr diskur með Póst- húsinu sem heitir Undir grund. Nafnið vísar til plötudóma Arnars Eggerts Thoroddsen á Mogganum um okkur, þar sem hann talaði um okkur sem jað- arhljómsveit, að við vær- um „underground“.“ En hvernig skilgreinirðu sjálfur þína tónlist? „Ég geri það ekki. Við reynum einfaldlega að láta hvert lag njóta sín og gefum skít í hvort það flokkast sem kántrí í þetta skiptið eða blús í hitt skiptið eða eitt- hvað annað. Hins vegar er þetta eiginlega textamúsík allt saman. Það er mikið lagt upp úr því að hafa kjöt á beinunum í textunum, háð og spé og skot og meiningar, undir áhrifum frá köllum eins og Leon- ard Cohen og svoleiðis liði, sem gerði feita texta á sín- um tíma. Ég er að vinna niður mikið lagasafn og er núna með um fjögur verk- efni í gangi. Yfirleitt byrja ég á því að semja textann og eins og einhver sagði þá leynist að minnsta kosti eitt lag í hverjum þokka- lega sömdum texta og maður reynir að finna það. Óneitanlega gerist stundum að lagasmíðarnar tengist lækninum, einkum það sem ég hef gert fyrir árshátíðir á spítalanum. Eitt þeirra laga er nokkuð þekkt og heitir Flórens í höfuðið á erkihjúkkunni sjálfri. Að öðru leyti tengist þetta ekki, ég held ekki að maður semji fleiri eða færri lög vegna þess að maður vinnur á spítala.“ HLYNUR ÞORSTEINSSON, 52 ÁRA Kjöt á beinunum Eitt þeirra laga er nokkuð þekkt og heitir Flórens í höfuðið á erkihjúkkunni. Páll Torfi Önundarson var tíu ára gamall þegar hann byrjaði að læra á klassískan gít- ar. „Ég stundaði það nám alveg þangað til ég varð stúdent,“ segir hann. „Ég var í MH og fór í kórinn hjá Þorgerði Ingólfsdóttur, þar sem ég kynntist því fólki sem varð uppistaðan í hljómsveitinni Diabolus in Musica. Öll komum við úr klassískri tónlist, en vorum líka að hlusta á tónlist frá Suður-Ameríku og djass. Í kórnum sungum við lög eftir Jón Ásgeirsson og Jón Leifs, svo það kom líka keimur af því inn í tónlistina okkar sem var órafmögnuð og mikið instrúmental. Þetta var mjög skemmtileg sam- suða.“ Eftir stúdentinn lá leiðin beint í læknisfræðina. „Ástæðan fyrir því var sú að ég ímyndaði mér alltaf að ég yrði aldrei nógu góður músíkant til að hafa það að ævistarfi. Þetta var líka einhverju leyti praktískt val. Menn fara ekki í læknisfræði með ein- hverja draumóra, heldur veit maður að ef maður stendur sig þá bíður áhugavert starf að námi loknu. Ingólfur Margeirsson, rithöfundur og blaðamaður, sagði einhvern tíma: Tónlistin er fögur, en hún er mögur. Og það er mikið sannleikskorn í því nema fyrir tiltölulega fáa einstaklinga. Tónlistin er mjög skemmtileg að því leyti að maður er alltaf að hitta gott fólk í alls konar samspili og skapandi starfi. Lækningar eru líka mjög fjölskrúðugt starf, og þótt ávallt sé einhver rútína til stað- ar þá veit maður aldrei hvað dettur inn hjá manni á hverjum degi. En það er alls ekki óalgengt að læknar leggi stund á listir. Sigvaldi Kaldalóns tónskáld var til dæmis læknir, svo má nefna Úlf Ragnarsson lækni og ljóðskáld, Valgarð Egilsson lækni og leikritaskáld og fleiri. Læknar eyða ekki bara frístundum sínum í að spila bridds eða golf eða fara í laxveiði.“ Diabolus in Musica sendi frá sér plötuna Hanastél árið 1976 og eftir það skildi leiðir. Páll Torfi hafði þá lokið einu ári í læknisfræðinni og einhenti sér í námið og fór síðan í sérnám í Bandaríkjunum, tók fyrst lyflækningar og svo blóðmeinafræði. „All- an þann tíma spilaði ég bara klassíska gítartónlist fyrir sjálfan mig, enda ekki tími til annars en að læra. Þetta var mjög stíft í Bandaríkjunum, iðulega 36 tíma tarnir og ein- hvern veginn litið svo á að öðruvísi væri ekki hægt að læra læknisfræði. Fljótlega eftir að ég kom síðan aftur heim hitti ég gömlu félagana og þeir fengu mig til að spila með sér. Út úr því komu meðal annars diskar eins og Flauelsmjúkar hendur, sem er sóló- plata Jóhönnu V. Þórhallsdóttur, og Björt mey og mambó með hljómsveitinni Six- pack Latino. Árið 2000 gaf ég út sólódisk sem heitir Timbúktú, og svo kom út annar diskur með lögum eftir mig í mars síðastliðnum, Jazzskotin stef. Mér finnst þetta sjálfum fara batnandi hjá mér, þannig að nýjasti diskurinn sé bestur. Hvað vinsældir varðar hafa ákveðin lög lifað frá Diabolusartímanum, eins og Pét- ur Jónatansson, Timbúktú og Sautján gráður á Celsíus, og á nýja diskinum er lagið Ferrari sem var í undankeppni Evróvision á sínum tíma og sungið af Ragnheiði Gröndal. Framhaldið verður svo bara að koma í ljós. Þetta kemur yfir mann stund- um og meira ef maður er í einhverju samspili, það hefur áhrif á hvað maður semur mikið. Hins vegar tæmist maður þegar maður er í stúdíói, ég get að minnsta kosti ekki haldið áfram að semja um leið og ég er að klára eitthvað annað. Ég hef líka nóg með að sinna mínu aðalstarfi sem yfirlæknir á blóðmeinadeild og blæðaramiðstöð LSH og dósent í blóðsjúkdómum við læknadeildina.“ PÁLL TORFI ÖNUNDARSON, 50 ÁRA Fögur, en mögur Mér finnst þetta sjálfum fara batn- andi hjá mér.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.