Morgunblaðið - 13.10.2005, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 13.10.2005, Blaðsíða 4
4 ÆVI OG STÖRF / DAVÍÐ ODDSSON 13. OKTÓBER 2005 4 ég gaf mig að stjórnmálum, þá var ekki vafi hvar ég myndi bera niður. Í stúdentapólitíkinni í háskólanum hallaði ég mér að Vöku. Og á SUS- þinginu 1973 studdi ég Björn Bjarnason gegn Friðriki Sophussyni, sem vann þá kosningu. Þessir menn urðu báðir ráðherrar í ríkisstjórn hjá mér og tókst með þeim góð vinátta, þótt eitthvað hafi verið stirt með þeim fyrst eftir SUS-þingið. 1974 fór ég í prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Þarna voru milli 80 og 90 frambjóðendur, því á þessum tíma lögðu menn mikið upp úr fjöldanum til þess að sýna breidd flokksins. Margir lánuðu flokknum nafnið sitt, en lyftu svo ekki litlafingri og enduðu með fáein atkvæði svo þetta leit út eins og þeir nytu minni stuðnings og virðingar en í raun var. Ég lenti í tí- unda sæti, en flokkurinn hafði átta borgarfulltrúa. Svo vildi til að í áttunda og níunda sæti höfnuðu tveir læknar; Páll Gíslason og Úlfar Þórðarson, en það þótti mönnum ekki vænleg uppstilling. Því var mér skotið inn á milli þeirra. Níunda sætið vannst og þar með var ég kominn í borgarstjórn. Svo fór boltinn að rúlla. Sex árum síðar ákvað oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, Birgir Ís- leifur Gunnarsson, að snúa sér að þjóðmálum og þá tók ég við af honum rétt eins og ég geri nú í Seðlabankanum 25 árum síðar. Eins tók Geir Haarde við af mér sem inspector scholae fyrir 35 árum. Þetta er meira en tilviljun og menn verða að rýna í tunglstöðuna og fleira til þess að finna skýringuna!“ – Hvernig kom það til að þú varðst arftaki Birgis Ísleifs? „Það komu ýmsir til greina. En ég held að mínir félagar hafi talið mig mesta bardagamanninn og því líklegastan til að vinna borgina aftur.“ – Áttirðu í erfiðleikum í byrjun með að fá menn til þess að taka þig alvar- lega, krullhærðan Matthildinginn? „Það var eitthvað gert úr því að ég væri eiginlega á skjön við þá virðulegu og háttvísu menn, sem voru merkisberar Sjálfstæðisflokksins. Ég man að Birgir Ísleifur var spurður út í þennan mann sem kæmi svona úr allt annarri átt. Hann tók bara vel í það og taldi mig vera góða búbót fyrir flokkinn! Andstæðingar mínir sögðu að ég væri eilífur bubbi og bærilegur brand- arakarl og gæti sjálfsagt verið til skemmtunar í hófum í Höfða, en ég hefði hins vegar ekkert í það að stýra flokki. Þeir sögðu líka, að ég kynni að hafa verið fyndinn einu sinni, en væri það ekki lengur! Það tók því ekki að tala um mig sem stjórnmálamann!“ – Gramdist þér þetta? „Nei. Ég man ekki eftir því að ég hafi tekið þessi skrif eða tal nærri mér. Mín gremja beindist inn á við, að sjálfum mér, ef ég gerði eitthvað skakkt. Mönnum á að vera verst við sín eigin afglöp. En hitt lét ég mér í léttu rúmi liggja. Það var þó svolítið skondið, að menn yrðu fyrst að sanna að þeir væru leið- inlegir til þess að geta öðlazt traust!“ – Flögraði einhvern tímann að þér að breyta til? „Það hvarflaði aldrei að mér að búa til einhverja aðra persónu en ég var sjálfur. Ég verð að hryggja andstæðinga mína, sem sumir hverjir hafa skrifað um mig í áraraðir, að þeir hvorki stressa mig né rugla mig í ríminu, en þeir sýna lofsverða tryggð! Ég tek hins vegar eftir því ef einhver er sérstaklega lúalegur og þá fær sá skríbent ákveðna mynd í mínum huga og gerir mér ekkert eftir það.“ – Fannst þér erfitt að fara frá Matthildi? „Já, já, þótt ég hafi nú reyndar aldrei skilið alveg við hana! Ég hef skrifað fyrir sjálfan mig og flutt ræður, þar sem ég hef getað látið þessa hluti njóta sín. Ég er að mestu hættur öllum ræðuflutningi, en í góðra vina hópi get ég enn ræktað þessa gáfu, ef það er þá einhver gáfa.“ Framtak á kostnað formsins – Hafa þau störf sem þú hefur gegnt breytt þér eitthvað? „Ég vona að mér hafi tekizt að vaxa af þeim að visku og skilningi, svo ég setji mig í tilgerðarlega stöðu. Mér finnst það skipta sköpum að menn haldi sjálfum sér til haga, þótt þeir gegni einhverjum embættum. Ég hef séð menn taka við embættum og fara svo að taka sjálfa sig hátíðlega af því tilefni. En það eru embættin sem menn eiga að taka hátíðlega, ekki sjálfa sig. Þetta á við um embætti borgarstjóra og embætti forsætisráðherra. Þegar upp úr þessum stólum er staðið, þá eru þetta sömu rúmlega 90 kílóin sem hlunkuðust niður á sínum tíma.“ – Hvað fannst þér skemmtilegast í borgarstjórninni? Fjölskyldan fer á kjörstað; Davíð, Þorsteinn og Ástríður.Matthildingarnir; Hrafn Gunnlaugsson, Þórarinn Eldjárn og Davíð Oddsson. Clinton-hjónin, Hillary og Bill, í heimsókn hjá Ástríði og Davíð.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.