Morgunblaðið - 13.10.2005, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 13.10.2005, Blaðsíða 8
8 ÆVI OG STÖRF / DAVÍÐ ODDSSON 13. OKTÓBER 2005 um fyrirtæki og fyrirtækjablokkir. Menn eru að átta sig á þessu hver um ann- an þveran, líka þeir sem voru á móti fjölmiðlalögunum á sínum tíma. Hitt er svo aftur að ef menn ætla að taka málið upp á nýjan leik, þá er ekki hægt að gera það á grundvelli fjölflokkaskýrslunnar, sem svo var samin. Það yrði verra en ekkert. Samfylkingin einbeitti sér að hagsmunagæzlu fyrir Baug í því starfi og því varð niðurstaðan hvorki fugl né fiskur. Menn verða að taka málið algjörlega upp á nýtt.“ Breytt andrúm og umhverfi –Hvað er þér efst í huga frá pólitíkinni, þegar þú hverfur nú frá henni? „Ég vil ekki taka neitt eitt mál út úr. Mér eru efst í huga þær breytingar sem hafa orðið á andrúmi og umhverfi í þjóðfélaginu. Vald stjórnmálamanna hefur verið takmarkað mjög verulega og þeir geta nú einbeitt sér að sínum verkahring; að setja þjóðfélaginu leikreglur. Þá hefur svigrúm fólks og fyrirtækja breytzt og aukizt svo um munar, þótt á okkur dynji endalaust reglugerðarfargan frá Evrópu.“ –En vantar þá ekki fleiri leikreglur en fjölmiðlalög? „Það er rétt að þar er verk að vinna. Það er auðvitað angi af málinu að um leið og stjórnmálamennirnir hverfa af vettvangi, þá ryðjast fyrirtækin inn í tómarúmið og þegar leikreglurnar vantar, þá má reikna með því að menn oln- bogi sig áfram af töluverðri hörku. Þess vegna mega stjórnmálamenn ekki heykjast á því að setja viðskiptalíf- inu heilbrigðar leikreglur þannig að enginn einn, tveir eða þrír aðilar geti náð yfirburðastöðu og drepið allt annað í dróma.“ –Þegar ég heyri þig telja þér til tekna að hafa dregið úr völdum stjórnmála- manna, þá skýtur það skökku við þá mynd, að þú sért hvarvetna með puttana í öllum málum og helzt ekkert gerist í landinu án þín! „Já, er það ekki skrýtin umræða? Ég sem er alltaf að reyna að sannfæra menn um það að ég sé bæði latur og værukær! Þess vegna hef ég enga þörf fyr- ir að skipta mér af. En ég finn til mikillar ábyrgðar, ef leikreglurnar eru brotn- ar. Frelsi eins má aldrei vera fjötur annars. Ef ég nefni Baugsmálið til dæmis, þá er mikið gert úr mínum hlut í þessu refsimáli, sem nú er rekið gegn fyrirtækinu. Gott ef ég á ekki að hafa hleypt því af stokkunum. Það er svo fjarri öllu lagi! Og þótt ég sé lögfræðingur að mennt þá hef ég ekki einu sinni lesið ákærurnar gegn fyrirtækinu og veit minna um málið en margur annar. Ég hef hins vegar ekki horft þegjandi upp á það að Baugur gíni yfir öllu og kunni sér ekki hóf. Refsimálið er hins vegar allt annar handleggur. Í því taka dómstólar ákvörðun og það snertir mig ekki á nokkurn hátt.“ Hér lítur Davíð til mín og heldur svo áfram: „Þeim fer nú að fækka tím- unum sem ég get talað svona frjálslega!“ –Heldur þú að þú saknir „málfrelsisins“ þegar þú ert kominn í Seðlabank- ann? „Ég held það hljóti að vera skrýtið að geta ekki blandað sér í umræðu dags- ins. Það hlutverk flytzt þá á annarra hendur. Vinur minn Jón Steinar Gunnlaugsson, en vináttu okkar er oft haldið til haga, var æði virkur í þjóðmálaumræðunni áður en hann varð hæstaréttardóm- ari. Honum hefur nú tekizt að steinhalda kjafti í ár svo ég hlýt að geta það líka!“ –Þær raddir heyrast á eftir þér í Seðlabankann, að það komi vel á vondan, að Davíð Oddsson seðlabankastjóri skuli þurfa að fást við afleiðingar af gjörð- um Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. „Það er ekkert ósanngjarnt að tala svo. Seðlabankanum er ætlað að halda utan um verðbólguna og honum er gjarn- an órótt, þegar mikil velta er í þjóðfélaginu og spenna. Við í ríkisstjórninni vissum, þegar ákvarðanir voru teknar, að afleiðingarnar myndu reyna á þanþol efnahagslífsins. Hér áður fyrr hefði dæmið ekki gengið upp, en nú hafa sveigj- anleikinn og fjölbreytnin í þjóðfélaginu aukizt svo að við getum staðið undir þeirri spennu sem hlutunum fylgir. Og orsakirnar eru jákvæðar, stóraukinn kaupmáttur og raunveruleg eignamyndun í landinu. Fylgikvillarnir eru áhætta sem menn töldu þjóðfélagið geta risið undir. Reyndar tel ég að bankarnir hafi sett strik í reikninginn með viðbrögðum sínum á íbúðalánamarkaðnum. Þeir máttu gjarnan fara hægar í sakirnar. En það er alveg eðlilegt að Seðlabankinn sé á tánum. Og það er líka eðlilegt að menn telji það koma vel á vondan að það verði mitt hlutverk að horfa á mál- in út frá sjónarhóli bankans. Maður sem hefur spilað í framlínu Manchester United og verið færður í bakvarðarsveit annars liðs, hann spilar leikinn öðru vísi. En hann verður áfram að standa sig. Í Seðlabankanum fær formaður bankastjórnarinnar engu ráðið einn. Seðla- bankastjórarnir eru þrír og nánast jafnsettir. Ég verð því þarna í þriggja manna hópi og á allt mitt undir samþykki hinna.“ –Allir vita um bridds og skriftir. En fæstu við eitthvað annað í tómstundum? „Já, þjóðin veit að við Jón Steinar erum briddsfélagar. Það er annars merki- legt umburðarlyndi Jóns að vera spilafélagi minn svo mikill er styrkleikamun- urinn honum í hag. Hann hefur haft á orði að mér fari lítið fram, en ég reyni. Annars er ég mjög sáttur við að vera miðlungsmaður í bridds. Það stælir mann að reyna sig gegn sér sterkari mönnum. En umburðarlyndi spilafélaga míns gagnvart öllum mínum fingurbrjótum verður seint oflofað! Fyrir utan bridds og skrif þá uni ég mér vel við gróðursetningu í sumarlandi okkar hjóna.“ Horfir frekar til flokksins en sín sjálfs Þegar við Davíð hófum þetta samtal, hafði hann fengið góðar fréttir af sínu heilsufari, en hann átti við krabbamein að stríða og gekkst bæði undir aðgerðir og meðferðir þess vegna. „Það má eiginlega segja, að ég hafi sjálfur komið mér mest á óvart í þessum veikindum. Ég hef alltaf verið svoddan kveif að ég mátti aldrei sjá nál á lofti í sjónvarpinu, þá fór ég bara og lagaði te. Konan horfði auðvitað á öll ósköpin, enda hjúkrunarfræðingur! En þegar ég stóð frammi fyrir veikindunum varð mér ekki fyrst fyrir að líta undan eða leggja árar í bát. Ég fann að ég bjó yfir einhverjum innri krafti til þess að takast á við sjúkdóminn. Ég veit nú að ég er ekkert sérstakt fyrirbrigði hvað þetta varðar. Við erum öll þessarar gerðar.“ Davíð lét þau orð falla, þegar hann var spurður hvort veikindin ættu ein- hvern þátt í brotthvarfi hans úr pólitík, að hann hefði fengið gula spjaldið og þá reyndu menn að haga sér skynsamlega til þess að fá ekki rauða spjaldið líka. Í þessu samtali hefur hann líka brugðið fyrir sig líkingum af knatt- spyrnuvellinum. Er fótboltinn honum áhugamál eins og skriftirnar, briddsið og gróðursetningin? „Ég fylgist svona með en er enginn sérfræðingur til þess að vera kallaður í umræðuþætti. Ég horfi stundum á fótbolta mér til ánægju. Ég er frá gamalli tíð hlynntur Fram. Það á rætur að rekja til þess, þegar ég bjó í Barmahlíðinni og fór á Framvöllinn hjá Sjómannaskólanum. En ég komst ekki í nokkurt lið. Síðan hefur samúð mín legið hjá Fram, þótt það hafi svo sem ekki hjálpað mikið að undanförnu!“ Davíð Oddssyni hefur tekizt að fylkja Sjálfstæðisflokknum á bak við sig og búa við betri frið en margur fyrirrennari hans á formannsstóli. Hver er gald- urinn? „Flokkurinn skiptist hér áður fyrr oft í fylkingar og það má segja að nú hafi í nokkurn tíma í fyrsta skipti ekki verið neinir flokkadrættir. Það eru engir Dav- íðsmenn og engir aðrir eyrnamerktir einhverjum öðrum. Þingflokkurinn hefur staðið traustur með forystunni og það hefur ríkt óvenjuleg eindrægni í þessum ágæta flokki. Fyrir þetta er ég þakklátur. En galdramaður er ég enginn!“ –En af hverju þá að hætta nú? „Það er út af fyrir sig ekkert sem knúði á þessa ákvörðun. Og ég hygg að það sé sjaldgæft að menn kjósi að hætta, þegar þeir njóta svo góðs stuðnings, sem ég finn mig njóta í mínum flokki. Flokkurinn stendur sterkur í ríkisstjórn og hefur á kjörtímabilinu verið að mælast með þetta 38–44% miðað við 34% í síðustu kosningum. Ég er enn á sæmilegum aldri og bý við bærilegt heilsufar, því ég veit ekki annað en ég sé búinn að jafna mig af veikindum mínum. En ég horfi frekar til flokksins en mín sjálfs, þegar ég kýs að hverfa af pólitískum vettvangi. Ég held að breyt- ingar séu tímabærar og persónulega finnst mér það dýrmætt að geta sjálfur valið stundina til þess að sinna einhverju öðru.“ En hver er pólitísk arfleifð Davíðs Oddssonar? Hann réttir mér forsætisráð- herrabókina, þar sem hann skrifaði sjálfur eftirfarandi um Hannes Hafstein: „Það er gjarnan spurt um einstaka gengna forystumenn hver hafi verið hlut- ur hans og jafnvel hver sé hans pólitíska arfleifð. Slíkum spurningum er ekki auðvelt að svara þótt flest ætti að liggja fyrir um ferilinn þegar sagan hefur farið um hann hönd- um í áratugi. Í lýðræðisþjóð- félagi gera menn fæst einir, jafn- vel þeir stjórnmálamenn sem öflugastir þykja og hafa um skeið mest völd á hendi. Fjöl- margir eiga hlut að því hvernig mál þróast frá hugmynd til ákvörðunar. Eru sumir allsýni- legir en einnig hafa fjölmargir komið sögu sem hvergi glittir í. Öll eignafærsla stjórnmálalegra afreka og afglapa kallar því á varúð og fyrirvara.“ Morgunblaðið/Ásdís Kjeld Magne Bondevik og Davíð Oddsson að veiðum í Noregi.Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, nýtur sagnamannsins Davíðs Oddssonar.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.