Morgunblaðið - 13.10.2005, Blaðsíða 7

Morgunblaðið - 13.10.2005, Blaðsíða 7
haldi og peningaeyðslu og allt hvað er. Menn eru að reyna að kortleggja fram- tíðina. Það er bara ekki hægt. Það dugar að meginatriðin séu sæmilega ljós. Stuttir stjórnarsáttmálar eru lykillinn að góðu stjórnarsamstarfi. Það er nefnilega svo, að fyrir almenning skiptir það ekki mestu máli, hvern- ig stjórnarsáttmálinn lítur út, heldur hitt að þegar eitthvað það gerist, sem hef- ur áhrif á líf þjóðarinnar, þá séu samstarfsfúsir og sæmilega öruggir menn við stjórnvölinn.“ Davíð braut í blað í stjórnarmyndunum á Íslandi með því hversu stjórn- armyndun hans gekk hratt fyrir sig. Ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæð- isflokks var ýmist kölluð ný viðreisn, með skírskotun til fyrra ríkisstjórn- arsamstarfs flokkanna, eða Viðeyjarstjórnin, en flokksformennirnir; Davíð og Jón Baldvin Hannibalsson, höfðu hitzt til viðræðna í Viðey. Davíð hélt upp- teknum hætti við myndun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995 og seinni stjórnarmyndanir flokkanna hafa líka gengið rösklega fyrir sig. Viðeyjarviðreisnin Davíð segir, að stjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks hafi haft frísklegt yfirbragð. Flokkarnir höfðu jafnmarga ráðherra, þrátt fyrir stærðarmun. „Ég var sannfærður um að flokki liði betur í ríkisstjórn, ef jafnræði væri með flokkunum hvað ráðherrafjölda snerti, þótt stærðarmunur væri á flokk- unum. Ég taldi að það myndi skapa miklu meiri ró í ríkisstjórninni. Það má svo sem segja, að þetta gefi ekki rétta mynd af hlutunum og ég hef tekið eftir því að svona er ekki gert erlendis, þar sem ráðherrafjöldi flokka endurspeglar stærð þeirra. En mér fannst þetta skynsamleg leið fyrir okkur og ég tel að hún hafi verið rétt. Davíð hélt þessu fyrirkomulagi áfram í ríkisstjórnarsamvinnu við Framsóknarflokkinn og gilti þá einu, þótt Framsóknarflokkurinn kæmi t.d. veikur út úr kosningunum 1999. Davíð segir ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft sérstaka afstöðu til Evr- ópumálanna og verið einn um þá stefnu að tryggja aðgang að sameiginlegum Evrópumarkaði með sérstökum tvíhliða samningi við Evrópusambandið. Samningur um myndun Evrópska efnahagssvæðisins; EES-samningurinn, náðist og segir Davíð hann hafa tryggt Íslendinga gegn því að þurfa að ganga í Evrópusambandið. Styrmir Gunnarsson segir í kaflanum um Davíð Oddsson í forsætisráð- herrabókinni, að EES-samningurinn sé annað tveggja sem hafi átt mestan þátt í að umbreyta íslenzku samfélagi í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Hitt atriðið sé einkavæðingin. Davíð segir að í viðræðunum um EES-samninginn hafi Norðmenn sýnt mik- inn ósveigjanleika í sjávarútvegsmálum, sem séu hrein aukageta hjá þeim miðað við þunga sjávarútvegsins hjá okkur. „Ég náði góðu sambandi við Gro Harlem Bruntlant forsætisráðherra Norð- manna en það hafði verið eitthvað stirt á milli kratanna, Jóns Baldvins og hennar. En þegar hreyfing komst á vann Jón mjög vel að málinu. Við vorum fyrsta þjóðin sem viðurkenndi sjálfstæði Eystrasaltslandanna. Við Jón unnum vel saman í því máli, en sem utanríkisráðherra hafði hann um það forystu og hefur með réttu haft góðan sóma af.“ Davíð segir þessa fyrstu ríkisstjórn sína ekki hafa átt marga hveitibrauðs- daga. „Það þurfti að taka á erfiðum málum og menn ákváðu að axla erfiðleikana strax í upphafi kjörtímabilsins. Við höfðum gengið illa um fiskimiðin og nú var komið að skuldadögum. Við þurftum að skera þorskaflann niður um allt að helming. Og í efnahagslífinu varð að taka fyrir sjóðasukk og fara í allsherj- aruppstokkun á efnahagskerfinu. Allt voru þetta erfiðar aðgerðir og oft var þungt fyrir fæti. En smám saman áttuðu menn sig á því að það var komin ný hugsun. Hún var ekki alltaf vinsæl í mínum flokki. „Kemur mér ekki við“- afstaða var hún kölluð og það var sagt að hún myndi setja fyrirtæki á hausinn og leggja byggðarlög í rúst. En reyndin varð auðvitað önnur og það frelsi og framfarir, sem þessi rík- isstjórn lagði grunninn að og seinni ríkisstjórnir mínar unnu áfram hefur gjör- breytt íslenzku þjóðfélagi til hins betra. Menn eru ef til vill búnir að gleyma því nú, hvað upphaf þessara breytinga var í raun og veru erfitt. Það hrikti víða í. En ég má ekki gleyma því, að það hafði sitt að segja til þess að auðvelda málin, að það varð mikil endurnýjun í þingflokknum 1991, 13 nýir þingmenn í 26 manna þingflokki. Með þeim urðu allar breytingar þar auðveldari.“ Davíð segir góða samvinna hafa verið í ríkisstjórninni, einkum framan af, en það hafi auðvitað verið blóðtaka þegar Jón Sigurðsson og Eiður Guðnason fóru og svo bættist við að Jóhanna Sigurðardóttir hvarf óánægð úr ríkisstjórn. Þetta veikti samstarfsflokkinn og ríkisstjórnina. Handsal á Þingvöllum „Það var töluverður vilji í báðum flokkum til að halda samstarfinu áfram eftir kosningarnar 1995, en ég mat stöðuna svo að eins atkvæðis meirihluti á þingi væri alltof tæpur til þess að byggja á. Ég man að ég sagði eitthvað á þá leið að ég hefði lagt upp í Fjallabaksferð með fjögur varahjól, en mig fýsti ekki að fara aðra Fjallabaksferð með bara eitt varahjól! Þessi úrslit urðu til þess að við töluðum saman, Halldór Ásgrímsson og ég, um páskana á Þing- völlum, þar sem við dvöldum og konur okkar, og við Halldór handsöluðum stjórnarsamstarf, ef allt gengi eftir í okkar flokkum. Þetta handsal hélt, þrátt fyrir harða hríð vinstri flokkanna að Halldóri.“ Þar með hófst ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem nú er á sínu þriðja kjörtímabili. Davíð segir, að yfirlýsingar sem voru gefnar fyrir kosningarnar 1999 og 2003 um að flokkarnir gengju óbundnir til kosninga hafi verið sannleikanum samkvæmar. Engir baksamningar eða handsöl hafi legið fyrir. „En það lá í loftinu, að ef ekkert gerðist í kosningabaráttunni, væri ríkur vilji til áfram- haldandi samstarfs. 2003 hittumst við Halldór daginn eftir kjördag og þá kom í ljós að Samfylk- ingin hafði haft samband og boðið Halldóri forsætisráðherrastólinn. Menn voru varla vaknaðir! Mér þótti þetta með ólíkindum! Samfylkingin sem var eini flokkurinn sem hafði útnefnt sérstakt forsætisráðherraefni sitt fyrir kosn- ingarnar!“ –En Sjálfstæðisflokkurinn bauð Halldóri forsætisráðherraembættið á kjör- tímabilinu. „Mér fannst ekkert óeðlilegt að Halldór fengi að spreyta sig sem forsætis- ráðherra. Hann hafði mikla pólitíska reynslu og var heill í samstarfinu við mig og minn flokk. Svo bættist við þessi sérstaka staða sem Samfylkingin setti hann í með tilboði sínu. Mér fannst skipta meira máli að samstarf okkar héldi áfram og menn kláruðu hlutina heldur en hver sæti við borðsendann.“ –Hvaða hluti þurfti að klára? „Þeir hafa svo gengið eftir og tekizt vel; við höfum styrkt stöðu okkar í varn- arviðræðunum við Bandaríkjamenn, unnið áfram að skattalækkunum og gengið frá sölu símans, sem var vandasamt verkefni og verðugt smiðshögg á skipulega og víðtæka einkavæðingu ríkisstjórna minna. Og við náðum sam- komulagi um það hvernig andvirðinu af símasölunni verður varið.“ Fiskveiðistefna og fjölmiðlamál –Mikil átök um fiskveiðistefnuna enduðu með veiðigjaldi í sjávarútvegi. Það hefur verið kallað pólitískt kraftaverk að fá landsfund Sjálfstæðisflokks- ins til að samþykkja það. „Það var enginn vafi að verulegur meirihluti landsfundarmanna var andsnúinn þessari niðurstöðu. Ég var það og sagði á fundinum að í hjarta mínu væri ég á móti, en hins vegar teldi ég nauðsynlegt fyrir friðinn í landinu að samþykkja veiðigjald. Ég hygg að menn hafi hugsað sem svo, að fyrst for- maðurinn gæti beygt sig í þessu máli þá væri þeim ekki vandara um það til þess að skapa einhverja sátt. Og þessi niðurstaða hefur orðið til þess að það hefur ríkt sæmileg sátt um sjávarútveginn síðan. En ástæða þess að ég taldi rétt að breyta svona var sú, að mér fannst kom- inn svo mikill óhugur í þjóðina, tortryggni og undirgangur að við yrðum að finna botn í málið, sem menn gætu unað sæmilega við. Ég setti á fót nefnd, sem Jóhannes Nordal var formaður í og hún náði niðurstöðu, sem í mínum huga er forsenda þeirrar tiltölulega góðu sáttar sem ríkt hefur um málið síð- an.“ –Ríkisstjórnin lenti í því einsdæmi að forsetinn synjaði lögum, fjölmiðla- lögunum, staðfestingar. „Já. Í því máli áttaði ég mig ekki nægilega vel á andrúminu í þjóðfélaginu og get sjálfum mér um það kennt. Áhrif auðhringsins voru undir ýmsum merkjum og myndum og almenningi var því ekki ljóst, hversu víða þeir menn höfðu leitað fanga. Frjálsum fjöl- miðlum stafaði af þeim mikil hætta og mér fannst, að það hefði átt að hringja einhverjum bjöllum. Ef eitthvað mistekst er rétt að leita orsakanna í eigin ranni og ef ég geri það, hef ég vísast ofmetið hversu þroskað málið var í vitund fólks, að menn töldu það ekki komið á hættustig, þótt mat ríkisstjórnarinnar væri annað. Mönnum var út af fyrir sig vorkunn, því fjölmiðlum var óspart beitt gegn lagasetningu, stjórnarandstaðan hamaðist gegn málinu og svo freistaðist Ólafur Ragnar Grímsson til þess að beita úr sér gengnu ákvæði, sem hafði ekki verið útfært á Alþingi í 60 ár í þeirri von að fjölmiðlaveldið og félagar hans dygðu með hömlulausri misnotkun fjölmiðlanna til þess að málið yrði fellt í þjóð- aratkvæðagreiðslu. Það var því ekki um annað að ræða en taka málið aftur og leyfa því að gerjast enn um sinn í vitund þjóðarinnar.“ –Hefur það breytt einhverju? „Sú tilfinning sem ég var kominn með, þegar ríkisstjórnin lagði upp með sitt fjölmiðlafrumvarp, hefur heldur betur verið undirstrikuð síðan. Nú eru miklu fleiri sammála því að hér þurfi að gilda svipaðar reglur og annars staðar „Tenórarnir þrír“ Kristján Jóhannsson, Egill Ólafsson og Davíð Oddsson í fimmtugsafmæli hans. Morgunblaðið/Árni Sæberg Kosinn formaður Sjálfstæðisflokksins. ÆVI OG STÖRF / DAVÍÐ ODDSSON 13. OKTÓBER 2005 7

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.