Morgunblaðið - 30.10.2005, Page 8
8 | 30.10.2005
R öddin er mikilvægur þáttur framkomunnar,“ segir Ingveldur Ýr Jóns-dóttir mezzósópran. Stjórnun af ýmsu tagi og þjálfun starfsfólks erefst á baugi hjá fyrirtækjum um þessar mundir og segir Ingveldur Ýrað þjálfun talraddarinnar sé partur af þessari þróun. „Ég hef kennt
söng í 15 ár, en út frá því hefur spunnist fleira. Því fór ég að bjóða upp á námskeið,
bæði á mínum eigin vegum og fyrirtækis sem heitir Þekkingarmiðlun. Ég hef bæði
haldið fyrirlestra og námskeið hjá stórum fyrirtækjum, þar sem annars vegar er um að
ræða kynningu á eðli raddarinnar og hins vegar raddgreiningu, æfingar og þjálfun,“
segir hún.
Er mikil áreynsla fólgin í því að tala lengi?
„Eitt mesta áreiti sem röddin getur orðið fyrir er að tala allan daginn fyrir framan
hóp af fólki. Ef fólk býr ekki yfir nægilegri tækni fer það að ganga á röddina sína með
tíð og tíma og það kallar auðvitað á krónísk vandamál í hálsinum. Ef við skoðum
röddina nánar er í fyrsta lagi um að ræða raddböndin sjálf inni í barkakýlinu. Loftið
sem fer á milli þeirra myndar tóninn og öndunin stjórnar loftinu. Það sem gerir rödd-
ina okkar einstaka er hljómurinn, en hann ferðast upp í höfuðið á okkur og ræðst
meðal annars af því hvernig kinnbeinin eru og hversu stór höfuðkúpan er og hvernig
hún er í laginu. Einnig skiptir brjóstkassinn máli og bara allt rými innan í líkamanum
sem röddin getur hljómað í. Þetta hefur allt áhrif og þjálfun gengur mikið út á það að
sýna hvernig maður getur nýtt sér hljómrýmið. Fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir
því. Maður þarf að geta opnað og slakað hálsinn og beint röddinni þangað sem við
viljum að hún fari. Það gerist ekki síst í heilanum, því það er heilinn sem stjórnar
röddinni, bæði líkamlega og huglægt. Það er margt sem við getum hugsað bæði já-
kvætt og neikvætt sem hefur áhrif á röddina. Raddböndin eru í raun vefir og umlukin
slímhimnu sem maður verður að halda í lagi með vökva, helst vatni. Það væri meira
vit í því að kalla raddböndin blöðkur.“
Hver eru helstu mistökin sem fólk gerir?
„Það er til dæmis að vera alltaf að ræskja sig. Fólk heldur oft að það sé að hreinsa
með því en er raunar að erta raddböndin. Þau verja sig með því að búa til meira slím
sem maður þarf þá að losa sig við. Einnig talar fólk oft á vitlausum stað í röddinni
sinni, annað hvort of hátt eða of lágt, þá er ég að tala um tónhæð. Þetta er sérstaklega
algengt hjá konum, sem eru að reyna að tala eins og karlmenn. Ef fólk er í vandræð-
um með röddina og þreytist fljótt er það bein afleiðing þess að
nota hana vitlaust.“
Er fólk feimið við röddina sína?
„Fólk er haldið miklum fordómum gagnvart eigin rödd, má
segja, því við viljum gjarnan að hún hljómi allt öðruvísi. Það að
sættast við röddina sína er ákveðinn áfangi og að laga hana út frá
því hvernig hún er í raun og veru í stað þess að vilja breyta henni.
Röddin endurspeglar ástand fólks og spennist og kreppist, ef
þannig ber undir. Ef líkamlegar tilfinningar eru einhvers staðar
eru þær örugglega við raddböndin. Barkakýlið, sem geymir radd-
böndin, er meðal annars sett saman úr ary-brjóski og það er til-
finningatengt. Þegar við erum glöð og hlæjum víkkar hluti af
brjóskunum, þegar við ræskjum okkur eða erum heft herpast þau. Áreiti og spenna
fer þarna inn og læsir þeim og þá kemur klemma í röddina. Oft missir fólk röddina ef
það verður fyrir miklu áfalli. Þá frjósa þessi brjósk, þótt raddböndin sjálf séu í lagi.
Þegar við vinnum með rödd erum við mjög mikið að reyna að losa um þetta, hvort
sem er í tali eða söng, og reyna að opna. Ég hef stúderað raddfræði dálítið og meðal
annars séð myndir þar sem myndavél í rafeindasmásjá er sett niður um kokið. Rödd-
in er skoðuð í öllu mögulegu ástandi, þegar maður grætur, hlær, syngur, ræskir sig og
þess háttar. Það hefur nýst mér mikið, til dæmis við það að ganga enn lengra í radd-
kennslunni. Við sjáum ekki röddina og því þarf maður að ímynda sér mjög margt.
Óöryggi og hræðsla geta því myndast en fer þegar maður veit nákvæmlega hvernig
röddin er að virka líffræðilega og læknisfræðilega. Þetta hefur gerbreytt mínu innsæi
og hvernig ég beiti mér. Ég söng hlutverk í Sweeney Todd í fyrra, sem hefði verið mér
lífsins ómögulegt ef ég hefði ekki lagt stund á raddfræði, raddbeitingin í söngnum var
mjög óvenjuleg og langt fyrir utan hefðbundinn óperusöng.“
HÖFUM FORDÓMA
GAGNVART
EIGIN RÖDD
Ingveldur Ýr Jónsdóttir kennir fólki að beita rödd-
inni rétt og segir hverja þjóð hafa sinn eigin hljóm
L
jó
sm
yn
d:
G
ol
li
Ingveldur Ýr Jónsdóttir segir
raddtýpur jafnmargar og persónur.
Er til ljót rödd?
„Ljót rödd kemur til af misbeitingu, svo ég myndi ekki segja að hún sé til í raun og
veru. Ef fólki finnst röddin sín ljót finnst því líklega eitthvað fleira ljótt við sig líka. Ef
rödd fer í taugarnar á fólki er líklega um að ræða rödd sem er klemmd í hálsinum. Þá
eru brjóskin sem ég er að tala um eitthvað heft. Ótjáðar tilfinningar sitja í röddinni
líka. Þetta er hægt að laga og margt sem hægt er að vekja fólk til umhugsunar um.
Það eru til margar raddtýpur eins og persónur og röddin er mikill hluti af persónu-
leikanum. Ef maður hefur ekki stjórn á röddinni eða er að reyna halda einhverju uppi
sem maður er ekki, kemur röddin oftast upp um mann. Maður þarf að vera mjög
góður leikari til þess að geta breitt yfir líðan sína. Fólk talar af vana og hann er mun
stærri en maður gerir sér grein fyrir. Það sem hefur áhrif á röddina er í fyrsta lagi
þjóðin, Íslendingar tala til að mynda allt öðruvísi en Bandaríkja-
menn og þeir allt öðruvísi en Bretar, svo dæmi séu tekin. Það má
segja að til sé þjóðarbeiting. Það sem við erum vön að heyra er
það sem okkur líkar best.“
Hvernig er íslensk rödd?
„Hún drífur ekki ýkja langt í eðli sínu, og þá erum við að tala
um óþjálfaða rödd, ekki leikara eða söngvara. Hún er pínulítið
mild og dálítið tilbaka, oft frekar geðþekk. Bandaríkjamenn eru
til dæmis með mjög framstæða rödd og raddir þeirra berast mjög
langt. Þar með eiga þeir auðveldara með að syngja hærri tóna en
við. Ef við tökum sem dæmi venjulegan kirkjukór á Íslandi eru
tónhæðir sem hann syngur verulega lægri en hjá venjulegum ama-
törkirkjukór í Bandaríkjunum. Það ræðst af því sem við erum vön að heyra og hvern-
ig við erum vön að beita röddinni. Beiting raddarinnar virkjar tiltekinn vöðva við
raddböndin sem við hér á Íslandi virðumst hrædd við, okkur er til dæmis illa við að
hljóma nefmælt. Áhrifavaldarnir á röddina eru sem sagt landið, eins og fyrr segir, og
svo erfðirnar, það er hvernig hljómuðu foreldrar þínir. Það er mjög algengt að mægð-
ur, feðgar, systur og bræður hljómi líkt. Eyrað nemur raddirnar sem hljóma í kringum
mann í barnæsku og vöðvarnir mótast eftir því. Í þriðja lagi er spurningin sú hvernig
líður mér í dag? Líðanin hefur mikið að segja um það, hvernig maður venur sig á að
beita röddinni. Það sem gerist í hálsinum á mér, hefur mikil áhrif á þann sem hlustar.
Af hverju fer rödd í taugarnar á manni? Það er af því að eitthvað er að gerast í háls-
inum á viðkomandi sem truflar. Mín líðan hefur áhrif á það hvernig ég hljóma sem
aftur hefur áhrif á þann sem hlustar. Söngvari eða fyrirlesari sem er stressaður hefur
áhrif á ákveðna starfsemi í hálsinum á þeim sem hlustar, það er ákveðin telepatía
þarna á milli,“ segir Ingveldur Ýr að lokum. | helga@mbl.is
Röddin
endurspeglar
ástand fólks
og spennist og
kreppist, ef
þannig ber undir.