Tíminn - 22.11.1987, Side 3
Sunnudagur 22. nóvember 1987
Tíminn 3
Með þessum línum veitist innsýn
um dálitla rifu í efni nýrrar skáldsögu
eftir Jón Dan, sem nefnist „1919 -
árið eftir spönsku veikina." Við
fundum höfundinn að máli nú á
dögunum og tókum hann tali um
söguna og rithöfundarferil hans.
EINS OG í RAUN-
VERULEIKANUM
„Þetta er kannske ævisöguleg saga
í aðra röndina," segir Jón Dan,“ -
þ.e. að segja að því leyti að atburð-
unum er lýst eins og þeir gerast í
raunveruleikanum og persónurnar
eru ekki ýktar, eins og í skáldsögu.
Þarna er heldur ekki að finna neinar
heimspekilegar vangaveltur eða
miklar sálfræðilegar útleggingar -
þegar sálfræði kemur við sögu læt ég
hana heldur koma fram í atburðum
og gjörðum sögufólksins. Og þó er
þetta fyrst og fremst skáldsaga.
Jú, ég neita því ekki að söguhetjan
er kona sem ég kynntist sem barn og
fyrirmyndin að yngsta drengnum á
heimilinu er ég. Auðvitað man ég
ekki sjálfur eftir árinu 1919, því ég
var þá aðeins fjögurra ára. Þess
vegna hef ég orðið að styðjast við
frásagnir heimildarmanna og auk
konunnar, söguhetjunnar, sem er
aðal heimildarmaðurinn, varð mér
drýgstur frændi minn, sem var fjór-
tán ára um þetta leyti. Nú, og einnig
bræður mínir, en þeir voru aðeins
ári og tveimur árum eldri en ég, svo
það var nú takmarkað sem þeir gátu
sagt mér.
Ég var lengi búinn að hugsa mér
að leggja til atlögu við þetta efni, en
það var loks fyrir tveimur árum að
ég hófst handa. Ég hafði alltaf vikist
undan, þar til ég fékk þá hugmynd
að gera efninu skil í skáldsöguformi.
Úr því var leiðin bein og greið, þótt
hún kostaði mig talsvert átak. Ég
varð oft að beita mig hörðu -
vaknaði snemma á morgnana og
settist við tölvuna og þrælaði í mig
kaffi, til þess að hressa mig, þótt ég
þoli ekki kaffi. Eftir að ég lauk við
bókina hef ég loks getað látið af
þessari kaffidrykkju.
SPÁNSKA VEIKIN
Já, spánska veikin hafði mikil
áhrif í þjóðlífinu - enda lögðust í
Reykjavík tíu þúsund manns af
fjórtán þúsund íbúum. Árið 1919
voru eftirköst veikinnar enn að ríða
mönnum að fullu, því fólk sem lagst
hafði í pestinni var næmt fyrir öllum
mögulegum kvillum á eftir. Sjálfum
pestardögunum hefur Gunnar
Gunnarsson lýst í ágætri sögu sinni
„Sælir eru einfaldir“.
Spánska veikin hafði líka gagnger
áhrif á örlög mín eins og ráða má af
bókinni, að því gefnu að ég sé
fyrirmynd að yngsta stráknum í
sögunni. Sagan er því ekki tómur
skáldskapur, eins og þú sérð. Má ég
orða það sem svo að söguefnið sé
raunverulegt, en meðferðin skáld-
söguleg.
Já, það er rétt. Þetta er tíunda
skáldsaga mín. Það má kannske
segja að það sé sæmilegt áframhaid,
því ég byrjaði seint að senda frá mér
bækur - var orðinn fertugur. En
svona var það nú þá - maður var svo
upptekinn við að vinna fyrir daglegu
brauði að það vannst aldrei tími til
að safna í ljóðabók eða ljúka við
skáldsögu. Nú er hins vegar að sjá
sem menn geti fundið sér tíma til
þessa miklu yngri og það þótt þeir
séu kvæntir og komnir með fjöl-
skyldu.
VILDI HAFA
BYRJAÐ FYRR
Vildi ég hafa byrjað yngri að gefa
út? Já, óneitanlega vildi ég það, því
ég held að menn þroskist á því að fá
prentað eftir sig, að fá það gagnrýnt
sem maður skrifar og svo framvegis.
Því held ég að margir þessara ungu
manna núna séu þroskaðri en ég var
á þeirra aldri. Það er vegna þess að
þeir hafa gefið sér meiri tíma til
ritstarfa og hafa náin samskipti sín í
milli. Slíkt þroskar menn. Kannske
þroskaðist ég tiltölulega seint. Já, ég
reyni að fylgjast með því sem er að
gerast eins og ég get og líst vel á
(Tímamynd Brein).
JV 3fP Atburöunum
w w erlýsteinsog
þeir gerast í
raunveruleikanum og
persónurnar eru ekki
ýktar eins og í
skáldsögu.
margt sem yngri mennirnir skrifa.
Ég les líka það sem verið er að skrifa
um bækur og bókmenntir, en verð
að viðurkenna að ég skil alls ekki
alla þá góðu menn sem um þau efni
fjalla. Kannske er það bara af því að
ég hef ekki vitsmuni til þess!
En ég hafði þó sífellt verið að
skrifa - alveg frá unglingsaldri og
lagði þetta aldrei á hilluna. Jú, það
er rétt, ég var starfsmaður ríkisins í
marga áratugi og margir hafa spurt
mig þess hvernig þeim hafi komið
saman, skáldinu og embættis-
manninum. Því er þar til að svara að
ég skipti mér alveg í tvo menn.
Þegar ég gekk út af skrifstofunni á
kvöldin var ég ekki lengur embættis-
maður og þegar ég gekk inn á
skrifstofuna á morgnana var ég ekki
lengur rithöfundur. í vinnunni þýddi
aldrei að ræða við mig um skáldskap.
SKÁLDAKLÍKA
Ég var þó í dálítilli „klíku“ skálda
og listamanna sem ungur maður.
Við hittumst mikið Hannes Sigfús-
son, Jón Óskar, Elías Mar, Ólafur
Jóhann Sigurðsson, Jón úr Vör,
Jóhannes Stefánsson og Kristján Da-
víðsson. Fimm okkar stofnuðu
klúbb sem kallaði sig „Fimmund."
Þetta var tónlistarklúbbur - menn
hittust af og til og spiluðu klassískar
hljómplötur, sem félagarnir kpmu
með. Þetta voru góðir tímar sem
maður minnist með ánægju og þess-
um hópi okkar hefur Jón Óskar sagt
frá í bók sinni „Hernámsáraskáld."
En svo tók lífsbaráttan við og
„Fimmund" leystist upp um það
leyti sem ég kvæntist.
Nú hef ég hins vegar meira tóm til
ritstarfa, eftir að ég hætti að mestu
að vinna fasta vinnu fyrir fjórum
árum. Jú, jú, það er sitthvað í
smíðum og þar að auki hef ég ráðist
í að stofna bókaútgáfu, bókaútgáf-
una Keili, sem gefur út þessa skáld-
sögu - „Árið 1919.“ Það hefur
kostað heilmikla vinnu og snúninga,
en ég vona að þetta gangi. Almenna
bókafélagið bauð mér að sjá um
dreifingu og því tók ég fegins hendi,
því slíkt er eiginlega of mikið átak
fyrir útgáfu með aðeins eina bók.
t|3ostrom
Sæti á góöu verði í
bíla - báta - vinnu- og
dráttarvélar
Bostrom sætin eru heimsfræg fyrir þægindi,
og ekki síður fræg fyrir þann eiginleika að
geta eytt allt að 70% af titringi, sem veldur
ökumönnum oft á tíðum miklum óþægindum.
Ath.: Sýningarsæti á staðnum.
Leitið upplýsinga.
VÉIAR&
ÞJÓNUSTAHF
Járnhálsi 2 Sími 673225110 Rvk.
Pósthólf 10180.