Tíminn - 27.05.1988, Page 5
Föstudagur 27. maí 1988
Tíminn 5
Unnið að rannsókn á þætti legionnaires í nokkrum dauðsföllum lasburða fólks:
Hermannaveiki orðið vart
á íslenskum sjúkrahúsum
Á undanförnu einu og hálfu ári hafa veriö staðfest 8 tilfelli af
hermannaveiki (legionnaires) á fjórum spítölum hér á landi.
Nú er unnið að rannsókn á því hvort þó nokkur nýleg dauðsföll á
einni af sjúkrastofnun höfuðborgarsvæðisins megi rekja til her-
mannaveiki.
Guðjón Magnússon, aðstoðarlandlæknir, sagði í samtali við
Tímann að menn teldu ekki útilokað að þarna væru tengsl á milli.
Hann sagði það Ijóst að ekki væri um að ræða algenga bakteríu á
íslenskum sjúkrastofnunum. „Þetta lýsir sér ekki eins og víða
erlendis þar sem hermannaveikibakterían hefur borist í gegn um
loftræstikerfí og heilbrigt fólk þannig veikst af hermannaveikinni,“
sagði Guðjón.
Aðstoðarlandlæknir sagði að mál
þetta væri nú á mjög viðkvæmu stigi
þarsem verið væri að rannsaka
það á umræddri sjúkrastofnun.
Hann sagði sýni hafa verið tekin, en
niðurstöður úr greiningu þeirra
lægju enn ekki endanlega fyrir. „Það
er ekki talið að um hermannaveiki
sé að ræða í öllum þessum tilfellum,
en rannsóknin beinist að því hvort
hún hafi hugsanlega átt þátt í ein-
hverjum þessara dauðsfalla," sagði
Guðjón.
Hann sagði að til umræðu hafi
komið í upphafi rannsóknarinnar að
loka umræddum spítala, en það sé
ekki lengur inni í myndinni, vegna
þeirra upplýsinga sem þó þegar liggi
fyrir.
Hermannaveiki er tiltölulega ný-
uppgötvaður sjúkdómur sem í sinni
alvarlegustu mynd lýsir sér í heiftar-
legri lungnabólgu sem getur leitt til
dauða. Sjúkdómurinn var fyrst
greindur í Fíladelfíu í Bandaríkjun-
um árið 1976. Á ráðstefnu sem
fyrrverandi hermenn sátu á hóteli
við Bond Street, veiktust tæplega
200 manns af þessari veiki og dregur
hún nafn sitt af þessum atburði. í
ljós kom að bakterían dreifðist í
gegnum loftræstikerfi í anddyri
hótelsins. Síðan hefur verið staðfest
að veikin hafði blossað upp áður á
nokkrum stöðum án þess að menn
gerðu sér grein fyrir því að um
hermannaveiki var að ræða.
f grein í Læknanemanum fyrir
u.þ.b. fimm árum um hermanna-
veikina eftir þá Sigurð B. Þorsteins-
son og Ólaf Steingrímsson lækna,
kemur fram að sjúklingar með skert-
ar varnir eru margfalt líklegri til að
sýkjast en heilbrigðir einstaklingar.
í þeirri grein kemur einnig fram að
veikin er greind með blóðvatnsprufu
og þegar greinin var skrifuð var ekki
vitað um tilfelli veikinnar hér á
landi. Lokaorð höfunda eru þau að
„sjúkdómurinn greinist hér aldrei
nema menn viti af honum og geri
þær rannsóknir, sem nauðsynlegar
eru til að útiloka hann.“ Ekki tókst
að ná tali af greinarhöfundum í gær.
Smitunarleið hermannaveikinnar
er óljós en talið er að auk loftræsti-
kerfa geti hún borist með vatnslögn-
um og bendir flest til að svo sé í
þessum tilfellum hér á landi.
Loks má geta þess að á Lyflækna-
þingi íslands sem haldið verður á
ísafirði í byrjun næsta mánaðar mun
hermannaveiki á íslandi m.a. verða
til umræðu. BG/ABÓ/óþh.
íbúar Árborgarsvæðisins svokallaða, Eyrarbakka, Stokkseyrar,
Þorlákshafnar og nágrannasveitarfélaganna, bíða opnunardags
nýrrar brúar yfir Ölfusárósa með eftirvæntingu. Ekki er Ijóst á
þessari stundu hvenær sá dagur muni koma, en miðað er við að 1.
ágúst nk. verði öllum framkvæmdum lokið við sjálfa brúarsmíðina
svo og 8 km veg frá brúnni að Þorlákshafnarvegi. Þá er einungis
eftir lagning varanlegs slitlags á þennan vegarkafla. Ölfusárbrúin
verður fullfrágengin um 370 m löng og breidd akbrautar er um 6,5 m.
Að vonum eru sveitarstjórnar-
menn á Árborgarsvæðinu nú þegar
famir að spá í hvaða áhrif tilkoma
brúarinnar hefur á þróun þess, m.a.
hvort möguleiki sé á auknu samstarfi
byggðarlaganna. í því skyni er
áformaður fundur sveitarstjórnar-
manna á þessu svæði í næstu viku.
Magnús Karel Hannesson, oddviti
á Eyrarbakka, segir aukna eftirspurn
hafa verið eftir húsnæði á Eyrar-
bakka að undanförnu, hvort sem
það tengist tilkomu nýju Ölfusár-
brúarinnar eða ekki. „Það má
kannski frekar tengja aukna eftir-
spurn eftir húsnæði þekktri húsnæð-
isþörf á landsbyggðinni. Hér seljast
hús án þess að þau séu auglýst og fá
færri en vilja. Hitt er svo annað mál
að við gerum okkur vonir um að
brúin hafi þau áhrif að eftirspurn
eftir lóðum til nýbygginga aukist
hér,“ segir Magnús Karel.
Tilkoma brúarinnar mun að sögn
Magnúsar Karels skipta sköpum fyr-
ir bæði Stokkseyri og Eyrarbakka
með öflun hráefnis, en til þessa
hefur þurft að flytja mest allt hráefni
fiskvinnslufyrirtækja á þessum stöð-
um um langa leið frá Þorlákshöfn
upp Ölfus og í gegn um Selfoss.
Hvað brúin kann síðan að þýða
fyrir aðra atvinnuuppbyggingu á
þessum stöðum er óskrifað blað. Þó
má ætla að ferðamenn muni í vax-
andi mæli breyta út af venjubundn-
um Þingvallarúnt og aka þess í stað
„Árborgarrúntinn", yfir Ölfusár-
brúna og í gegnum Eyrarbakka og
Stokkseyri. Magnús Karel segir að
ekki sé að marki farið að huga að
uppbyggingu ferðamannaþjónustu á
Eyrarbakka. Hann upplýsti þó að
ákveðnar hreyfingar væru í þeim
efnum, án þess að greina frekar frá
þeim að svo stöddu.
Magnús segir það ljóst að með
tilkomu Ölfusárbrúarinnar myndist
hringur: Þorlákshöfn-Hveragerði-
Selfoss-Stokkseyri-Eyrarbakki.
„Þetta gefur möguleika á meiri
hreyfanleika vinnuafls milli þessara
þéttbýlisstaða en áður,“ segir
Magnús. Hann segir þetta vera mjög
mikilvægt fyrir Eyrbekkinga og
Stokkseyringa vegna atvinnudeyfðar
þar á haustmánuðum. „Á þessum
sama tíma hefur verið mjög mikið
að gera í Þorlákshöfn og skortur á
vinnuafli. Því má segja að þarna
opnist sá möguleiki að flytja fólk á
milli þegar þess gerist þörf. Þetta er
eitt þeirra atriða sem þarf að huga
vel að,“ segir Magnús Karel Hannes-
son.
Samkvæmt upplýsingum Árna
Kristjánssonar, tæknifræðings hjá
S.H.-verktökum, sem steypir upp
nýju brúna yfir Ölfusárósa, er gert
ráð fyrir að þeirra verkþætti verði
lokið í síðasta lagi um miðjan júlí.
Þá verður eftir lítilsháttar vegagerð
sitt hvoru megin brúar, þ.e. að ýta
að landstöplum brúarinnar. Auk
þessa sjá S.H.-verktakar um grjót-
vörn við brúna. Að sögn Árna er
skiladagur verksins í heild þann 1.
ágúst í sumar.
Þessa dagana er undirverktaki
S.H.-verktaka, Sveinbjórn Runólfs-
son, að hefja byggingu vegar frá
Ölfusárbrúnni að Þorlákshafnar-
vegi. Sá vegur er um 8 km langur.
Sveinbjörn tjáði Tímanum í gær
að hann gerði fastlega ráð fyrir því
að áætlanir stæðust og vegurinn yrði
tilbúinn á tilsettum tíma, þ.e. 1.
ágúst nk. Þá verður reyndar eftir
lagning slitlags á þennan 8 km vegar-
spotta. óþh
Slysavamafélag íslands:
Landsþing sett í dag
22. landsþing Slysavarnafélags
tslands verður sett í Súlnasal Hót-
els Sögu klukkan 3 síðdegis í dag
að aflokinni guðsþjónustu í Nes-
kirkju, en þingið stendur fram til
sunnudagsins 29. maí. Verður
þetta fjölmennasta þing í sögu
félagsins til þessa og verður 60 ára
afmælis félagsins sérstaklega
minnst, en það var stofnað 1928.
Fulltrúar slysavarnadeilda,
björgunarsveita og unglingadeilda
allsstaðar að af landinu munu sitja
þingið og verður fjallað um þá
fjölmörgu og viðamiklu mála-
flokka sem snerta félagsstarfið,
bæði hvað varðar slysavarna- og
öryggismál og jafnframt störf og
búnað félagsins.
Fjöldi erlendra gesta frá níu
þjóðum mun sitja ráðstefnuna í
tilefni af afmæli félagsins. Þetta
eru samstarfsaðilar SVFÍ er sinna
fyrst og fremst slysavarna- og
björgunarstörfum á sjó, en SVFI
hefur verið aðili að þessum al-
þjóðasamtökum allt frá árinu 1932.
Á þinginu verða tilkynnt úrslit í
ritgerða og teiknisamkeppni sem
fram fór meðal barna í öllum
grunnskólum landsins. Einnig
verður yfirgripsmikil sýning á ým-
iskonar björgunarbúnaði sem
sveitir félagsins hafa til umráða,
bæði hvað varðar leitir og björgun
á sjó og á landi og gefst almenningi
tækifæri á að skoða þessi tæki, en
þau verða til sýnis við hlið Hótels
Sögu á svæðinu við Suðurgötu og
verða björgunarsveitarmenn á
svæðinu til að leiðbeina og útskýra
fyrir gestum hinn margvíslega
tækjakost. -ABÓ