Tíminn - 29.04.1989, Síða 7

Tíminn - 29.04.1989, Síða 7
Laugardagur 29. apríl 1989 Tíminn 7 Guðmundur J. Guðmundsson segir frá margbreytilegum hátíðisdögum verkalýðshreyfingarinnar: Minnst er maídaga Við mæltum okkur mót seint að kvöldi. Guðmundur hafði átt erfiðan dag, staðið í fundahöldum í fyrsta maí nefnd um morguninn, verið í jarðarför um miðjan daginn, farið þaðan aftur á fund í 1. maí nefnd og þaðan á samningafund í karphúsið. Guðmundur var þreyttur en hann og Elín kona hans tóku elskulega á móti mér. Ég spurði Guðmund hvað honum kæmi fyrst í hug þegar fyrsti maí væri nefndur: „Vorið og fyrsti maí koma saman í huga mér,“ sagði Guðmundur. „Dag- urinn kveikir í manni á vissan hátt enda hefur hugsjón hans líkast til náð snemma til mín. Það má lesa ýmislegt út úr fyrsta maí og mér finnst ég örvast og fá hvatningu - verð baráttuglaðari. Dagurinn hefur hins vegar verið að þynnast út, því miður, og þátttaka í undirbúningi, kröfugöngu og hátíða- höldum hefur minnkað mjög frá því að ég hóf að taka þátt í undirbúningi dagsins. Þá er eins og áhersla á gömul baráttumál hafi slaknað; hvers vegna er til dæmis ekki lengur minnst á kröfu sem höfð var uppi þegar fyrst var haldið upp á daginn árið 1923? Ég vildi gjarnan að hún yrði tekin upp aftur, en hún var: „Óhæfa menn úr embættum.“ Það var minn gamli skóla- stjóri úr barnaskóla Hallgrímur Jóns- son sem hélt ræðuna þennan dag og með þessari kröfu var beinlínis verið að ákæra valdamikla embættismenn sem sátu yfir hlut stritandi fólks. í þann tíð var ekkert BSRB og menn stundu undan þessum miklu hrokafullu embættismönnum og undiraldan hjá fólkinu braust út í fámennri göngu, enda ekki á færi nema kjarkmanna að taka þátt í henni. Það var síðan þessi hógværi barna- kennari, alþýðuflokksmaður - jafnað- armaður í góðri merkingu, sem löngum aðvaraði mig um að fara með meiri gát að hlutunum, hann hélt þessa fyrstu fyrsta maí ræðu. Hann hafði uppi kröfuna um óhæfa menn úr embættum. Þetta líður mér aldrei úr minni og ég skynja alltaf glöggt dýpt þessarar ræðu hvert sinn sem ég les hana. Ég kynntist fyrsta maí sem barn og þá kölluðu börn þetta skrúðgöngu. Mér var þá snarlega kennt að sú nafngift jaðraði við guðlast, þetta var kröfuganga. Á árunum fyrir stríð minnist ég þess hve göngurnar og hátíðahöldin voru þróttmikil. Þá minnist ég ömurleika kreppuáranna, angistarinnar, skortsins, fátæktarinnar og mannlegrar niðurlægingar. Þrátt fyrir þetta var verkalýðshreyf- ingin klofin pólitískt og verulegur hluti vinnudeilna voru innbyrðis deilur verkafólks, annars vegar innan Al- þýðusambandsins og hins vegar utan þess. Maður furðar sig á að verkafólk skyldi ekki hafa borið gæfu til að sameinast gegn atvinnuleysinu, en það var auðvitað vegna þess hve mikil orka fór í að berjast innbyrðis. Allt þetta speglaðist í 1. maí hátíða- höldunum, ætli það hafi ekki verið um 1936 eða sjö þegar ég var um tíu ára aldur, að ungir jafnaðarmenn gengu í bláum skyrtum með rauð bindi - mikil fylking. Þá komu nasistar í brúnum skyrtum að mig minnir með stór haka- krossmerki á handleggnum. Þeirra markmið var að kljúfa fyrsta maí gönguna - ryðjast í gegn um hana þvera. Þá varð slagur og þetta fannst manni alveg dýrðlegt - að sjá tvo nasista rotaða í rennusteininum og tvo menn í bláum skyrtum sem blóðið lagaði úr. Reyndar er skrítið að ekki skyldu hafa orðið meiri átök á þessum árum því aldrei var um bein fjöldaátök, heldur tusk milli ungra hraustra stráka að ræða. Ég minnist líka funda kommúnista - ungherjarnir klæddust ljósbrúnum skyrtum og höfðu bindi - rautt. Á einum sérfundi þeirra var kynntur ung- ur ræðumaður, fulltrúi ungherja, kannski þrem árum eldri en ég, fjórtán ára eða svo. Ég man að ég starði á þennan unga mann þegar hann flutti afburða snjallt ávarp sitt. Þessi málsnjalli og andríki unglingur var Björn Th. Björnsson svo þjóðkunn snilld hans í meðferð tungunnar er ekki bara skólabókarlærð heldur líka inn- gróin í hann. Ræðan var afburða vel flutt og við strákarnir hlustuðum högg- dofa. Eg minnist alltaf þessa atburðar þegar ég sé eða heyri Björn. Hann var annars dálítið ankannaleg- ur þessi hermennskuandi sem hingað barst um það leyti sem Hitler er að ná völdum í Þýskalandi. Hann átti svo einkennilega illa við hér og mér fannst alltaf einkennisbúnir strákar að reyna að ganga í takt hálf brj óstumkennanlegir. - Hver telurðu merkust baráttumál og ávinning launamanna frá því þú hófst að taka þátt í verkalýðsbarátt- unni? „Það eru almenn mannréttindi, al- mannatryggingar, orlof, atvinnuleysis- bætur sem mér er efst í huga, svo og lög og samningar um vinnu- og hvíldar- tíma. Allir þessir hlutir hafa verið bomir upp sem krafa fyrsta maí, oft í nokkur ár. Síðan þyngdist róðurinn og áherslan uns krafan náði að lokum fram að ganga. Þannig má rekja rétt- indabaráttuna gegn um fyrsta maí og á þennan hátt hefur dagurinn verið mikill aflgjafi.“ - Guðmundur minnist ýmissa ræðumanna dagsins og hver þeirra er honum minnisstæðastur? „Stefán Ögmundsson, sem nú er nýlátinn. Hann undirbjó sig minnst viku og átti til að hafa samband við aðra ræðumenn. Ég minnist þess að hann hringdi eitt sinn tveim dögum fyrir fyrsta maí og sagðist vera búinn að semja ræðuna en, - „ég er að fá músíkina í hana,“ sagði Stefán. Þetta var ekki sagt út í loftið. Hann flutti ákaflega vel sínar ræður og ég hlakka til að heyra systurson Stefáns, Ögmund Jónasson, sem talar núna fyrsta maí. Stefán talaði ekki oft, en hann hafði óvenju góða íslensku á valdi sínu, var vel lesinn í bókmenntum og það var hljómfall í flutningi hans, og það voru stef í ræðunum og áherslurnar voru sterkar. Þá man ég ákaflega áhrifamikla ræðu Björns Jónssonar þáverandi forseta ASÍ árið 1977. Hann talaði að mestu blaðalaust og boðaði eftirvinnubann sem hvergi hafði verið samþykkt í verkalýðshreyfingunni. Og það gekk eftir. Svo mikill eldur var fólginn í orðum Björns. - En hvaða hátíðisdagur er minnis- stæðastur? „Ég held það sé 1. maí 1955. Þá var samið eftir sex vikna verkfall 29. apríl. Reyndar hafði Reykjavík rambað á barmi borgarastyrjaldar þótt það hafi ekki farið hátt. Þennan dag var mikil sigurgleði í mönnum og ekki farin úr þeim verkfallsharkan. Þátttakan í há- tíðahöldunum var gríðarleg, fólkið flæddi yfir göturnar. Ég var að vísu hálf sljór eftir sex vikna átök en þó örvaðist maður af stemmningunni.“ - Nú kemur Elín inn og þau rifja upp fyrstu fyrsta maígöngur sínar saman. Élín kom úr borgarafjölskyldu í Reykjavík og hún segir að talsvert uppnám hefði orðið þar þegar fréttist að hún hefði sést í kröfugöngu í slagtogi við einhvern kommastrák. Og það þurfti vissa hörku til að taka þátt í fyrsta maí göngu þá. Fjöldi manns stóð á gangstéttum þar sem gangan fór um og hæddist að göngumönnum, henti í þá ýmsu lauslegu og „hrækti á mann,“ skýtur Elín inn í. - Það hafa því stundum fylgt því óþægindi að taka þátt í hátíðahöldum launamanna, en er eitthvert óþægilegt atvik öðrum fremur minnisstætt Guð- mundi? „Það er þá helst,“ segir Guðmundur kankvís, „þegar ég talaði á Hornafirði fyrsta maí. Þegar ég kem í salinn er hann troðfullur af börnum sem fagna mér ákaflega. Það var ekki fyrr en ég er kominn vel af stað í ræðunni sem ég hafði lagt mig verulega fram um að semja, að blessuð bömin átta sig á að ég var ekki Ómar Ragnarsson. Annars em mér hátíðahöld á Húsa- vík og í Neskaupstað mjög minnisstæð því þeir vom sjálfum sér nógir með skemmtikrafta. Þarna var tónlistarfólk, bæði böm og fullorðnir, einleikarar, söngvarar, kórar og homaflokkar sem fluttu tónlist og skáld og söngvarar fluttu kveðskap - heilu gamanbragina - og skemmtunin var sannarlega ósvik- in. Það er annars ótrúlegt hvað tónlistar- skólamir hafa haft að segja út um allt land. Alls staðar um landið er orðið til fólk sem getur spilað hvað sem er; vörubílstjórar, grásleppukarlar, fisk- vinnslufólk. Það er ótrúlegt hvað það hefur mikið að segja þegar fólk getur skemmt sér sjálft á menningarlegan hátt. Á hinn bóginn minnist ég aðkeyptra rándýrra skemmtikrafta með ótrúlega lágkúm- lega neðanþindarbrandara. Ég minnist þess að undir „skemmtiatriði" hjá ein- um slíkum sást einn maður brosa og haft var á orði að það hefði verið tuttugu þúsund króna bros. Þá minnist ég þess er við Elín vomm gestir á fyrsta maí hátíðahöldum í Moskvu. Ég sagði áðan að mér var fljótt kennt að fyrsta maí göngur voru ekki skrúðgöngur, heldur kröfugöngur. Þarna á Rauða torginu voru þetta skrúðgöngur. Fyrst komu fimm hundr- uð frammistöðustúlkur, síðan sex- hundruð stálverkamenn og svo fram- vegis, og svo framvegis, allir í einkenn- isbúningum og gengu í takt. Ég tek fram að ég er ekki að gera lítið úr Rússum, sem eru hið elskulegasta og besta fólk, með því að segja þér frá þessu. Jú, jæja; þarna stóð karlinn hann Brésnef og átti þá stutt eftir ólifað. Honum til sitt hvorrar handar stóðu menn sem sáu til þess að hann stóð teinréttur - alveg stjarfur. Þeir urðu síðan að snúa honum eins og spýtukalli þegar hann átti að horfa til hliðar eða snúa sér við. Mér fannst þetta afskaplega ógeðfellt sjónarspil og ekki réttur fyrsti maí og var hálf ólundarlegur. Hins vegar var Elín svo afskaplega hrifin af þessu. Það var þarna einhvers konar „jólaglögg“ með rúsínum handa fólki að hita sér á í kalsanum. Allt í einu fer Elín að verða svo afskaplega kát og segir að sér hitni svo yndislega af þessari glögg. Það kom bara í ljós að hún var að drekka eitthvað sem var á við fjörutíu prósent vodka. Það var því ekkert undarlegt að hún væri kát, orðin deler- andi full manneskjan, hafandi aldrei á ævi sinni látið áfengi inn fyrir sínar varir, hvorki fyrr né síðar,“ segir Guð- mundur glottaralegur og lítur á Elínu. „Þetta var meira sjónarspilið. Mennirnir að forfæra kallinn hann Brésnef og snúa honum. Þetta var makalaus maídagur," sagði Guðmund- ur J. Guðmundsson að lokum. -Stefán Ásgrímsson.

x

Tíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.