Tíminn - 23.12.1989, Síða 8

Tíminn - 23.12.1989, Síða 8
8 Tíminn Laugardagur 23. desember 1989 Guðrún Helgadóttir forseti sameinaðs þings í spjalli um launalánamálið, fjölskyldulíf þingmanna, starfið á Alþingi og fleira: Kímnigáfan hjálpar Guðrún Helgadóttir, forseti sameinaðs þings og þing- maður Reykvíkinga, var hálf þreytuleg þegar blaðamann Tímans bar að garði. Það hafði verið erfitt að finna tíma til þess að taka helgarviðtalið, en á endanum settumst við niður í matartíma þingmanna á fimmtudagskvöld. Undanfarnar vikur hefur verið mikið að gera á Alþingi, þras og þóf manna á milli og þingmál seint á ferðinni, að ógleymdu stríði Guðrúnar við sjálfstæðismenn sem stóð yfir í sólarhring. Guðrún býður upp á kaffi og ég spyr hvort að hún og aðrir þingmenn séu ekki orðin þreytt eftir vökunætur desembermánaðar? „Ég neita því ekki, aö við erum öll að verða svolítið slæpt,“ segir Guðrún hugsandi og bætir því við að það hafi alltaf verið annir á Alþingi fyrir jólahlé, en þetta sé ef til vill með stríðara móti. „Ástæðan fyrir því er meðal annars sú að ríkisstjórnin var seint á ferð með mál sín, enda um umfangsmiklar kerfis- breytingar að ræða. Að öðru leyti hafa þingmál gengið all vel. Eins og allir vita kom upp ágreiningur um breytingar á verkskiptingarlögum ríkis og sveitar- félaga. Það var nokkur akkilesarhæll um tíma, en það mál leystist farsællega og ég sé ekki annað en að við ljúkum þessu á tilsettum tíma.“ - Margir halda að þingmenn séu einungis að vinna þegar þeir sitja í stólunum sínum inn í þingsölunum, en segðu mér í hverju er starf þingmanns fólgið? „Starf þingmanns er satt best að segja æði flókið. Vinna þingmanna fer að mestu leyti fram í nefndum þingsins. Þær koma saman á morgnana og ali- flestir þingmenn eru bundnir við þau störf og önnur frá klukkan átta, níu á morgnana og þar til fundir í þinginu hefjast klukkan tvö eftir hádegi. Tvisv- ar í viku eru síðan þingflokksfundir, sem geta staðið í marga klukkutíma. Oft þurfa menn síðan að fara á hina og þessa fundi á kvöldin og landsbyggðar- þingmenn eru sífellt á ferðinni út í kjördæmin. Auk þess eru kröfurgerðar til þingmanna um að sækja alls kyns fundi og ráðstefnur um helgar. Ég er þeirrar skoðunar að við ættum að taka upp þann sið sem tíðkaður er í ná- grannalöndum okkar, að hlífa þing- mönnum við fundum á laugardögum og sunnudögum.“ Börnin eru viðkvæmari fyrir umtali - Fylgir því ekki nokkur röskun á einkalífi fólks ef það velur sér það hlutskipti að gerast þingmenn, er ekki til dæmis eitthvað um það að fólk hringi heim til þín utan vinnutíma? „Jú, jú, ef maður er heima hjá sér kvöldstund er síminn oft ansi drjúgur,“ segir Guðrún og hlær við. „Auðvitað er starf þingmannsins töluverð áreynsla á fjölskyldulífið, það fer ekki á milli mála. Ég er ansi hrædd um að fólk geri sér ekki grein fyrir því álagi sem hvílir á þingmönnum og ráðherrum þjóðarinnar. Þegar mest er að gera koma þeir ekki mikið heim til sín. Þetta reynir vissulega á fjölskyld- una, á eiginkonur, eiginmenn og börn. Við það bætist svo að við erum einu þegnar þjóðfélagsins sem vinna með fjölmiðlana yfir sér alla daga. Án þess að ég sé að kvarta yfir þeim er það náttúrlega viðbótarálag. Við venjumst þessu með tímanum og gleymum ykkur, en það má ekki mikið út af bera til þess að stórar fyrirsagnir birtist í blöðunum daginn eftir. Ég neita því ekki að fyrir hefur komið að gengið hefur fram af börnun- um mínum. Það er nú kannski það sem mér finnst erfiðast, vegna þess að sjálf er ég löngu komin með skráp utan á mig og nokkuð ónæm fyrir þessu. En krakkarnir mínir eru viðkvæmari fyrir umtali, sérstaklega ef það er verra taginu." Hef aldrei verið annað en kona - Nú varðst þú fyrst kvenna til að gegna embætti forseta sameinaðs þings. Hvernig hefur þér líkað það starf, heldur þú til dæmis að það hefði verið öðruvísi að sinna því ef þú værir karlmaður? „Nú veit ég ekki. Ég hef náttúrlega aldrei verið annað en kona og veit ekki hvernig er að vera karlmaður! En mér þykir þetta starf afskaplega skemmti- legt. Nú er ég ekki eini forseti þingsins, heldur eru einnig forsetar í efri og neðri deild. Við höfum átt hið ágætasta samstarf, sem er alveg ómetanlegt. Okkur hefur lánast að framkvæma verulegar breytingar í þinginu. Við réðumst í að gera róttækar skipulags- breytingar á rekstri þingsins og ég held að þær hafi verið mjög af hinu góða. Öll vinna í fastanefndum Alþingis hef- ur til dæmis gjörbreyst með tilkomu endurskipulagningar og ráðningu nýrra starfsmanna sem ráða vel við sín verk. Við erum svolítið að taka til á svæðinu þarna í kringum okkur og innan örfárra daga verður flutt í burtu eitt af húsum þingsins. Síðar verður annað fært í burtu og þá ætlum við að laga til á svæðinu í kringum Alþingi, sem hefur hingað til verið til lítils sóma. Það hefur verið falast eftir því við Reykjavíkurborg að hún taki þátt í þessu með okkur, því borgin nýtur góðs af bílastæðum sem eru á lóðum Alþingis. Einnig hafa verið gerðar miklar endurbætur í Þórshamri, en margt er enn ógert. Ríkisendurskoðun og embætti um- boðsmanns Alþingis heyra undir þingið, og auk þess er forseti sameinaðs þings einn af handhöfum forsetavalds. Svo að þetta eru töluverð umsvif, en skemmtileg.“ „Hef aldrei verið kölluð Gunna“ „Þú spurðir hvort það væri öðruvísi að vera kona í þessu embætti? Já ég held að það sé raunin. Að minnsta kosti heyrði ég forvera minn aldrei kallaðan gælunöfnum í blaðagreinum, eins og sjá má í Dagblaðinu s.l. fimmtu- dag, þar sem er heil grein um „Gunnu“. Það kann vel að vera að Þorvaldur Garðar Kristjánsson hafi ekkert gælu- nafn, ég hef að vísu aldrei verið kölluð Gunna, en það er önnur saga. Ég hef hins vegar aldrei fundið fyrir því að þingmenn umgengjust mig og mín verk öðru vísi en á jafnréttisgrundvelli. Það væri fáránlegt að halda öðru fram. Hins vegar hygg ég að í augum margra, verði allt sem kona í svona stöðu gerir meira ögrandi. Það kippti sér engin upp við þó að þekktir stjórnmálamenn af karl- kyni létu ýmislegt flakka. En það er öðru vísi þegar kona tekur djarfar ákvarðanir og þannig er kannski dálítið öðru vísi að vera kona í svona starfi." - Já, það hefur gustað svolítið í kringum þig öðru hvoru. „Ég á nú dálítið erfitt með að skilja það,“ segir Guðrún og það er ekki laust við að nokkurrar gremju gæti í rödd- inni. „Sannleikurinn er nú sá að ég hef átt prýðilegt samstarf við þingið allt og þinghaldið hefur gengið með ágætum. Einkum kom það mér á óvart hvað allt gekk vel í fyrra, þegar ríkisstjórnin hafði varla þingmeirihluta til þess að koma málum í gegn um Alþingi, en það gekk ágætlega samt. Auðvitað er það vcrkefni forseta að vera verkstjóri í þinginu. Sjá til þess að lýðræðinu sé framfylgt, að ríkisstjórnin fái afgreiðslu á sínum málum og stjórn- arandstaðan fái að beita því afli sem hún hefur. Allt hefur þetta gengið stórslysalaust. Að sjálfsögðu hefur hvesst á stundum, en á endanum hafa alltaf verið fundnar farsælar Iausnir á ágreiningsmálum milli deiluaðiia. Guðrún segir að í byrjun hafi hún verið um margt dálítið óheppin í sínu starfi sem forseti sameinaðs Alþingis. Hún hafi til dæmis ekki verið búin að sitja nema mánuð í því embætti þegar upp komu afar óþægileg og leiðinleg mál. Mál sem ollu uppnámi í fjölmiðl- um. Þessu hafi hún og aðrir forsetar þingsins verið gjörsamlega óviðbúnir að lenda í. - Áttu þar við mál Magnúsar Tor- oddsen?, spyr ég. „Já til dærnis," svarar hún. „Ýmislegt fleira kom líka til, þannig að ég þurfti að taka ákvarðanir sem ekki voru auðveldar. En þrátt fyrir allt, hafa björtu hliðarnar á þessu verið miklu fleiri en þær dökku og mér hefur fundist þetta afskaplega skemmtilegt ár, sem ég hef gengt þessu embætti." „Ég tók þetta verulega nærri mér“ - Það er góður og gegn siður að gera grín að stjórnmálamönnum og öðru umtöluðu fólki. ’89 - mennirnir á Stöðinni spauga með ykkur og Sigmund teiknar í Moggann myndir af ykkur, þar sem Steingrímur á t.d. að vera að krefjast þess af fjármálaráðherra að virðisaukaskattur sé ekki á veiðileyf- um, Jón Baldvin vilji hann ekki á brennivínið og þú ekki á kjóla frá Dior. Hvað finnst þér um þetta? „Sem betur fer hef ég kímigáfuna í lagi og ég hef aðeins eitt um þá Spaugstofumenn að segja. Mér finnst þeir alveg bráð skemmtilegir. Hins vegar er tilefni grínsins ekki alltaf jafn skemmtilegt. Ég held að ég hafi sjaldan tekið fjölmiðlafár reglulega nærri mér, fyrr en að þetta fáránlega lánamál kom upp. Ég held að ég sé nú einu sinni þannig gerð, að ég sé ekki óvönduð í peningamálum, enda væri ég ríkari ef ég væri það. Umfjöllunin um launalán mitt frá Alþingi var satt að segja svo ósæmileg og svo óréttlát og ósanngjörn sem frekast mátti vera. Og ég skal alveg viðurkenna að þetta tók ég veru- lega nærri mér. Það má áreiðanlega finna ýmsa ágalla á mér, en að ég hafi gert mér gott af almanna fé það er ósatt. Ætlar að bjóða þeim að skoða sinn fataskáp Mér þótti þetta afar leiðinlegt. Aftur á móti get ég ekkert láð Spaugstofunni þó þeir hafi haft gaman af þessu og þeir hafa meðhöndlað málið miklu skemmtilegar. Ég er alveg staðráðin í því að einn góðan veðurdag ætla ég að bjóða þeim hingað heim til að koma og skoða minn fataskáp,“ segir Guðrún og hlær við. Hún verður aftur alvarleg á svip. „Ég held að fólk geri sér það ekki ljóst hvað það er í raun alvarlegur hlutur að þjóðin virði ekki þingmenn sína. í fyrsta lagi getur hún þá sjálfri sér um kennt ef við erum ómöguleg, því að það er hún sjálf sem kaus okkur. í öðru lagi ætti fólk að gera sér grein fyrir því hvers konar forréttindi það eru með einni þjóð að eiga sér þjóðþing. Menn hafa verið tilbúnir til að Iáta lífið til þess að öðlast sitt eigið þing. Það má svo vera okkur sjálfum að kenna í þinginu að hafa ekki kynnt fólki betur hvernig það vinnur. Ég hef orðið vör við að menn reka upp stór augu þegar ég segi þeim það að á Alþingi vinni á annað hundrað manns fyrir utan þingmenn. Fólk heldur að þarna séu bara einhverjir kallar og kerlingar að jagast í tvo tíma á dag. Við höfum rætt það, forsetar þingsins að kynna þjóð- inni, skólafólki kannski sérstaklega, starfsemi Alþingis á einhvern hátt.“ Þingið eins og stór f jölskylda - Af því að nú eru að koma jól, er við hæfi að spyrja þig að því hvort jólastemmningin nái ekki að smeygja sér inn fyrir þykka veggi Alþingishúss- ins, eins og hún gerir víðast annars staðar í þjóðfélaginu? „Jú, jú, þegar öllu er á botninn hvolft, og þrátt fyrir þrætur og deilur, er þingið að mörgu leyti eins og stór fjölskylda. Við eigum jú margt sameig- inlegt, til dæmis það að vera á milli tannanna á fólki. Við lifum í heldur grimmum veruleika og okkur má ekki verða mikið á til þess að það sé ekki blásið upp í öldugangi þjóðfélagsins. Auðvitað ríkir á Alþingi, eins og öllum öðrum vinnustöðum, einhvers konar hollusta manna á milli. Ég held að við segjum það alla vega af heilum hug, þegar við kveðjumst fyrir jól, að við vonum að við sjáumst heil á húfi á nýju ári. Við vinnum þarna saman dag út og dag inn og þó að við rífumst um lífsviðhorf og pólitískar skoðanir, held ég að þrátt fyrir allt þyki okkur dálítið vænt hverju um annað. Árni Gunnarsson.

x

Tíminn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.